Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Móta fréttamenn eftir eigin höfði?????

Steingrímur sagðist hafa tekið við hópi fréttamanna sem hann vildi móta eftir sínu höfði og að það hafi verið ákveðið að gera breytingu á hópnum.

 

Þarf meira - fréttastjórinn talar hér um fréttamenn eins og leir (vona að það sé hægt að treysta fagmennsku moggans og þeir hafi haft rétt eftir manninum). Ég trúi því ekki að fólk með fagvitund vilji láta tala um sig á þennan hátt. Þóra Kristín hefur í mínum huga verið tákn fagmennsku, man fyrst eftir henni á prentmiðlunum fyrir langa löngu. Því miður fyrir nýja fréttastjórann er sjálfstæð hugsun og vinnubrögð eitt einkenna fagfólks líka á meðal fjölmiðlafólks. 


mbl.is Steingrímur: Ekki pólitísk ástæða fyrir uppsögn Þóru Kristínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikskólalýðræði og fermetrar

Síðustu vikur hef ég verið meira og minna á Akureyri, þar hef ég tekið þátt í málþingi um lýðræði í skólum, og svo norrænni vinarbæjarráðstefnu um leikskólamál. Á báðum fékk ég að koma skoðunum mínum framfæri. Á annarri um lýðræði og á hinni um hvernig m.a. leikskólabyggingar og skipulag getur stutt við lýðræði.

   

Fermetrar á barn í leikskólum voru mikið hitamál á meðal hinna íslensku leikskólakennarar. Enda þarf ekki mikla hugsun til að gera sér grein fyrir að á þeim þarf að taka. Það getur vel verið að á þeim tíma sem fermetrunum á barn í leikskóla var fækkað hafi það verið illnauðsynlegt til að koma á móts við þörf samfélagsins um að vistun fyrir sem flest börn. En nú er komið að endurskoðun. Við VERÐUM að breyta. Ef mið er tekið af því hversu langan dag flest íslensk börn eru í leikskólum, þá verða foreldrar og samfélagið að fara að gera kröfu á meira rými. Ég tel það af ýmsum ástæðum vera stórmál. 


 

Ímyndið ykkur að venjulega heimilisstofu sem er um 35 fermetrar – samkvæmt fermerarútreikningum þá mega vera í þessari stofu 12 börn allan daginn. Það er eins og að vera með barnaafmæli í stofunni hjá sér alla daga og hér er ekki gert ráð fyrir starfsfólkinu en væntanlega tekur það líka rými. Flestir leikskólar eru þannig byggðir að sameiginleg vinnurými barna eru tekin af þessum 3 fermetrum sem ætlaðir eru í leikrými, þannig má ætla að fjöldi barna í heimastofum sem eru jafnvel í kring um 40 – 45 fermetrar sé 20 – 24 börn stóran hluta dagsins. Kannski er ekkert skrýtið að fermetrar hvíli þungt á fólki við slíkar aðstæður. Þetta er umhverfi sem bíður upp á árekstrar og ýmis hljóðtengd vandamál.

Á ráðstefnunni tókst okkur að komast út úr þessari umræðu, fram komu hugmyndir fólks um framtíðarleikskólann. Flestir voru á því að miklu skipti að leikskólinn endurspeglaði hlýju en væri samt ekki heimilislegur. Þar á að vera fagurfræðilega fallegt umhverfi, sem styður við vinnubrögð í anda verkstæðisvinnu. Umhverfi sem styður við bæði samhjálp og sjálfstæði. Þar á að vera virkt lýðræði sem byggist á því að við eigum öll að gæta okkar minnstu systur og bróður.    


Sultugerð

Nú er sá tími ársins sem ég stunda sultugerð af miklum móð, er þegar búin að sulta úr rabbabara, bláberjum, ylliberjum, rifsi og sólberjum. Og svo alla vega blöndur af ofangreindu. Nú vantar bara krækiberin og þá er ég held ég nokkuð vel sett fyrir öll vöffluboð vetrarins og gott betur. Á reyndar eftir að tína mér vetrarforða af fjallagrösum, en hef þegar tínt villisveppi til brúks. Ég verð að viðurkenna að ég á erfitt með að gera upp á milli árstíða, um hver er uppáhalds, þær færa svo mismunandi hlutverk og gjörðir með sér. Verst þykir mér að á þessum árstíma bíða mín svo mörg önnur verkefni og ég get því ekki gefið mig að fullu í sultugerðartilraunir, svona eins og ég sjálf kysi. Við meiri skoðun er það kannski bara hið besta mál.

Hvernig líst ykkur annars á blönduna:

Vínrabbabari

bláber,

sólber

hrásykur og vanillapasta?

Mæli svo með rifsi og ylliberjum saman. Kemur sérlega skemmtilega rammt bragð með því súrsæta.


Til hamingju allar hetjur dagsins

.

 
á spretti

Vöknuðum við það í morgun að fyrstu maraþonhlaupararnir voru ræstir, síðan hefur verið stanslaus gleði miðbænum. Lilló fór niður eftir rétt fyrir klukkan 10 þegar ræsa átti 10 kílómetra hlauparana.  Ekki verður sagt að hann hafi verið eins sportlegur og þeir margir, enginn spandex galli, bara lummulegur gamall bolur og buxur. En hann kláraði. Og meira að segja á þeim tíma sem hann hafði reiknað með. Sagðist hafa gert þetta af skynsemi fremur en kappi. Ég beið við Lækjargötuna og mundaði myndarvélin, var nú mest hrædd um að lenda í því sama aftur og síðast, missa af honum. En guli bolurinn bjargaði því. Sá hann og náði mynd.  Lilló ákvað að hlaupa til styrktar einhverfum, enda þekkjum við þá fötlun vel, bróðursonur hans, hann Spencer er nefnilega mikið einhverfur.

 

 

Til hamingju allir sigurvegarar, bæði formlegri og óformlegir. Ég dáist af ykkur öllum.  

lillo mark


mbl.is Brautarmet í hálfmaraþoni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

10 kílómetra hlauparinn sem móðgaðist við frúnna

Sennilega eru það tvö ár síðan Lilló ákvað að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu síðast. Ég var nú dáldið áhyggjufull, hann hafði ekkert verið að hlaupa eða æfa sig fyrir það. Fékk bara svona hugdettu og skráði sig. Ég eins og góðri konu sæmir rölti niður í bæ svona hálftíma eftir ræsingu ætlaði að taka á móti mínum manni. Nema ég sé hann aldrei. Eftir um klukkutíma komu flestir í mark en ekkert bólaði á Lilló, svo leið tíminn og klukkutími og 20 mínútur, ég farin að hugsa, voða er hann lengi að þessu, klukkutími og 30 mínútur ég farin að hafa áhyggjur, hjólastólar, lasburða fólk og gamalmenni voru komin í mark, fólk með barnavagna var komið í mark en ekkert bólaði á Lilló og liðið vel á annan tímann. Ég farin að hafa alvarlegar áhyggjur um að eitthvað hefði komið fyrir í hlaupinu, hann hnigið niður eða bara eitthvað, ætlað að fara heim sækja bílinn, keyra meðfram hlaupabrautinni. Heyra í höfuðstöðvum hlaupsins hvort einhver hefði verið fluttur á spítala. Búin að búa mér til allavega áhyggjur í kollinum. Þá heyri ég galað yfir Lækjargötuna, Kristín hvar ertu búin að vera? Þarna stóð Lilló segir mér að hann sé búin að fara heim í sturtu, fá sér sígarettu og kaffibolla. Skyldi ekkert hvar ég var. Hann varð eiginlega móðgaður að ég stæði þarna enn. Að ég tryði því að hann væri uppundir tvo tíma með hlaupið. Núna ætlar hann að endurtaka leikinn með sama undirbúning og síðast.


Hvað vantar marga í dag??

Stundum er ég spurð að því hvort ég sakni þess ekki að starfa í leikskólanum. Ég skal fúslega viðurkenna að ég sakna þess oft. Ég sakna samskipta við börn, foreldra og starfsfólk. Sérstaklega sakna ég barnanna. En svo þegar ég fer að vera illa haldin af þessum söknuði þarf ég ekki annað en að minna mig á síðustu árin mín sem leikskólastjóri. Þegar ég vaknaði fyrir allar aldir og fyrsta hugsun var, hvað skyldi vanta marga starfsmenn í dag. Og þegar síðasta  hugsun mín áður en ég festi svefn var, hvað verða margir á morgun. Þegar ég rifja upp þennan þátt starfsins, læknast ég 1. 2 og 3.   

Samt veit ég ekkert starf skemmtilegra, og kannski er ég að vinna það starf sem kemst næst því, við að mennta verðandi leikskólakennara.

 


mbl.is Eiga laun leikskólakennara að vera hærri?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ææææi

og ég sem var að blogga um fyrri fréttina  - vona samt að þetta þýði alvöru launahækkun til ALLRA leikskólakennara hjá borginni.
mbl.is Ekki um að ræða tímabundna launahækkun allra leikskólakennara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært að nýta svigrúm til hækkana

Frábært að nýta það svigrúm sem samningar veita en bíða ekki eftir næstu samningum – það viðkvæði heyrist gjarnan hjá pólitíksum – hendur okkar eru bundnar – samningar eru ekki lausir. Vona að þetta verði meira en tímabundin ráðstöfun. Líka að þetta sé meira en táknrænn gjörningur hjá borginni.

Vona líka að þetta verði til þess að annað háskólamenntað starfsfólk fjölmenni inn á leikskólanna.

Til hamingju leikskólakennarar.


mbl.is Samþykkt í leikskólaráði að greiða leikskólakennurum tímabundin viðbótarlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að borga TÁKNRÆNT hærri laun

Í kvöld heyrði ég á Stöð 2 Margréti Pálu útskýra hvers vegna henni vegni betur að fá fólk til starfa á nýja leikskólann á vellinum en leikskólum borgarinnar að manna sitt. Margréti var ekki orða vant venju fremur. Það hafði ekkert með launin að gera enda borgar hún af eigin sögn aðeins táknrænt hærri laun en hið opinbera. Þetta er sama konan sem kom í Silfur Egils í vor og ræddi um vinnukonur kerfisins, og að lausn kvenna frá því hlutskipti væri að einkavæðast, en nú kemur í ljós að þær áttu þess í stað að gerast vinnukonur Margrétar Pálu. Sennilega er betra hlutskipti að vinna af hugsjón hjá fyrirtækjum Margrétar Pálu en hinu opinbera.

 

En reyndar segir Margrét að aðalmálið við hvað henni gengur betur að manna sína skóla sé að hún hafi svo skýra stefnu, aðrir séu að hræra öllu uppeldsstarfi í graut, hún grípur líka til þeirrar klisju sem löngum hefur verið innan leikskólans um ríki í ríkinu. Að hver deild sé svo mikið ríki að þar sé hver leikskólakennari of sjálfráður og að það sé á kostnað samvinnunnar. Mætti álykta að á hennar leikskólum sé aftur litið til gömlu ráðstjórnarríkjanna, þar er einn foringi sem hefur rétt fyrir sér og leggur línurnar, það sé hinna að fylgja. Undir slíkt viðhorf tók leikskólaliðinn sem talað var við, en hann fagnaði því að þurfa ekki að hugsa í vinnunni, þurfa ekki að beita uppeldisfræðilegri þekkingu. Í Hjallaskólum er nefnilega allt svo vel inn rammað og skipulagt. Svo skýr skilaboð til barna og starfsfólks sagði hann ítrekað.

 

 

Ég tek undir að það skipti máli að í leikskólum ríki skýr sýn, en sú sýn verður að mínu mati að byggjast á bæði mannkærleik og uppeldisfræðilegri heimspeki, ég get ómögulega tekið undir þau orð Margrétar að hvaða sýn sem er sé góð svo framarlega sem hún er til staðar. Ég er heldur ekki þeirrar trúar að allir leikskólar séu góðir, ég tek undir að sumir geta jafnvel verið slæmir.  

 

Eitt merki fagmennsku og gæða í starfi er að fólk sé sjálfrátt, að það hafi mótandi áhrif á uppeldsstarfið, að það taki þátt í virkri umræðu um uppeldisfræði, um nám barna. Að í leikskólanum ríki lýðræði. Því miður get ég ekki séð slík merki í því sem ég hef lesið mér til um hjallastefnuna.  Og ég hef lesið bæði handbókina og flest sem stendur á vefnum af mikilli athygli. Margir nemar sem ég hef leiðbeint eru mjög hrifnir af stefnunni og valið að fjalla um hana í ritgerðum. Hefur það kallað á upplýsingaöflun af minni hálfu. Vissulega les ég þar skýr skilaboð – en því miður líka viðhorf sem ég get ekki fellt mig við. Viðhorf eins og að börn séu valdaræningjar, að það þurfi að temja börn, að listaverk barna séu áreiti og tímasóun og fleira og fleira.

 

 

Að lokum vil ég benda fréttamönnum Stöðvar 2 á að Suðurnesin eru allt annað starfssvæði en Reykjavíkurborg. Að þar gilda e.t.v. önnur lögmál en í höfuðborginni. Kannski að það hafi haft áhrif við þessa tilteknu ráðningar.

+  

Hér er listi yfir fyrri blogg mín um svipuð mál:

Leikskólinn sumargjöf barna

Leikskólinn fátækragildra

Kjarklaus fórnalömb

Kynjauppeldi

 

 

Appelsínugul kona

Ég mæli með... í alvöru, ég mæli með að fólk horfi á Út og suður í endursýningu, í kvöld fjallaði þátturinn um m.a. Önnu Richardsdóttirr hreyfilistakonu á Akureyri og samkennara minn við Háskólann á Akureyri. Það er hreint út sagt magnað að upplifa hreingjörninga hennar. Rétt fyrir aldamótin síðustu stóð leikskólabrautin fyrir alþjólegri ráðstefnu um leikskólamál á Akureyri, Anna var opnunaratriðið okkar, hún var frábær, þreif allt hátt og lágt, sveiflaði sér til þess í rjáfrum og ögraði verulega mörgum. Alveg eins og hún hefur til allra hamingju ögrað nemunum okkar í gegn um árin. Hefur ýtt þeim fram á fremsta hlunn og svo aðeins lengra. Takk Anna, fyrir að vera þú.  

anna að þrífa


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband