Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007
6.8.2007 | 02:23
Stéttin – hið forna hesthús betri borgara – möguleg sjálfbærni
Nú hillir undir lok fornminja-uppgraftrar hér í Miðstræti, upphaflega planið var að búa til smá stétt í suðvesturhorni garðsins. Stétt þar sem hægt væri að hafa lítið borð og tvo stóla. Þetta er nefnilega bletturinn sem sólin skín fyrst á í garðinum okkar. Hingað til hefur aðallega verið þarna órækt, sem gekk undir því vafasama nafni matjurtargarður. Þrátt fyrir að vera á sólríkum stað þreifst fátt í matjurtargarðinum, grænmetið ósköp væskilslegt og enn engin sólber komin á runna sem ég setti þar niður fyrir tveimur sumrum. Með lymskulegum aðferðum fór ég að ræða við Lilló og Snorra einn sameigenda um hversu gott væri nú á sólríkum morgnum að sitja þarna með kaffibolla og blöðin, jafnvel gætu þeir sem eru fyrir óhreint loft dregið það að sér þarna, óáreittir. Drengirnir smituðust fljótt af þessum sólaráhuga mínum og við ákváðum að helluleggja litla 7-8 fermetra stétt þarna. Þeim var tíðrætt um að eina vandamálið væri að þjappa jarðveginum nógu vel undir hellurnar, annars yrði þetta aldrei til friðs. (Ekki það að aðrar stéttir í garðinum séu til mikillar prýði, hvað þetta varðar, en hvað um það). Ég vatt mér í að fá gróðurkassa fyrir matjurtirnar og svo var hafist handa. Nema þegar Lilló er rétt byrjaður að grafa (vopnaður flugnabana) kemur hann niður á hlaðinn steinveg svona eins og 20 sentímetrum undir jarðveginum. Hann heldur áfram og finnur að innan steinveggsins er steypt botnplata. Við sem sagt erum búin að finna gamla hesthúsið og hlöðuna sem þarna var reist á öndverðri 20. öld. Og sögum samkvæmt eitt fyrsta steinhlaðna hesthús Reykjavíkur. Guð sé lof, nú er loksins komin skýring á væskilslegu grænmeti.
Misvirtar tillögur vina
Eftir samráðsfund á pallinum ákváðum við að halda uppgreftri áfram og láta stéttina falla innan hinna hlöðnu veggja, og leysa hæðarmun á einhvern skynsaman hátt. Ýmsir gestir hafa líka komið og látið ljós sitt skína. Ein vinkona vildi að ég málaði botninn og steinana bláa, fyllti af vatni og fengi mér svo sefgresi og vatnaliljur. Annar lagði til heitan pott, með loki sem hægt væri að umbreyta í sólpall með borði fyrir tvo. Heyrði að það freistaði sumra. Við fengum tillögu um að endurreisa húsið og leigja út aðstöðu fyrir póníhesta í Miðbænum. Var bent á að með því værum við að styðja við sjálfbæra þróun og jafnvel kolefnisjöfnun. Gætum nefnilega nýtt hestinn til að sækja aðföng á heimilið og beitt honum á blettinn og nýtt úrgang til að styrkja trjáræktina. Einhver hafði þó áhyggjur af metangasframleiðslu svona stórra dýra. Við aftur á móti erum að hugsa um að láta okkur duga litla sæta stétt.
Fornminjar aldarinnar fundnar
En við uppgröftinn hefur Lilló rekist á ýmislegt forvitnilegt, hann fann lítinn matsboks jeppa sem Trausti segist hafa tínt fyrir rúmum 20 árum, ryðgaðan meitil og hallamál, hanka af súputarínu, en ég ætla að láta fylgja með myndir af hinum ýmsu fornleifum fyrir áhugasama.
Þessi framkvæmdagleði í húsinu er ekki alveg bundin við nýju stéttina því Snorri ákvað að taka til hendinni og múra upp tröppurnar frá götunni og niður í garð. Gengur það verk líka afar vel. Á morgun ætla ég út í garð og taka myndir af öllum herligheitunum og birta hér.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.8.2007 | 01:44
Starrinn er kominn, boðar ...?
Þeir eru mánuði of snemma á ferð, starrarnir sem vanalega koma og hreinsa berin af trjánum í garðinum. Venjulega koma þeir í september en komu í gær. Það er eins og að vera staddur inn í myndinni um fuglana eftir meistara Hitchcock, himininn verður svartur og tístið ærandi. Þeir raða þeir sér á efstu greinar hæstu trjánna. Senda einn eða tvo í könnunarflug í ylliberjatrén. Könnuðurinn gefur merki um að öllu sé óhætt og öll hjörðin fylgir á eftir. Ég ákveð að klappa tvisvar ákveðið, allur skarinn tekur sig upp og myndar fagurt svart fuglaský á himninum. Svífur yfir okkur og lætur sig hverfa upp í himingeiminn
Ég er að velta því fyrir mér hversvegna þeir komi svona snemma, er það vegna þess að berin eru rauð eða er það skortur á æti annarstaðar? Í Þingholtunum er nefnilega töluvert af rándýrum af kattarkyni. Eitt þeirra er meira að segja í miklu uppáhaldi á þessu heimili, læðan Snati. En vegna kattanna halda fuglar sig yfirleitt fjarri görðum okkar. Eini fuglasöngurinn sem allajafnan heyrist hér er gargið í álftunum á tjörninni, verð að segja að ég skil ekki alveg þetta með fagran svanasöng á heiði. Venjulega hættir starrann sér ekki í trén okkar fyrr en hungrið sverfur að í september eða október. En núna eru þeir komnir.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.8.2007 | 03:35
Kona á hvítum náttkjól
Síðastliðna nótt var ég kominn í náttkjól á leið í rúmið eftir góðan dag á Snæfellsnesi, þegar mér verður litið út um gluggann og sé að vesturhimininn er að verða fjólublár. Fjólublár eins og snjóský á vetri. Þar sem ég á það til að vera hvatvís kona, velti ég andartak fyrir mér að hlaupa út á náttkjólnum, skósíðum, hvítum með púffermum. En ákvað að hlífa veröldinni. Hoppað þess í stað í buxur og bol og skella flíshúfu á kollinn, rauk út með bíllyklana í annarri og myndavélina í hinni. Þar sem ég brunaði niður á Skúlagötu brá fyrir í ljósageislum bílsins einstaka kattaglyrnum. Ég var eins og Palla sem var einn í heiminum. Alein með alheiminum. Þegar ég steig út úr bílnum mætti mér vænn gustur sem lofaði regni. Ég hallaði mér upp í vindinn og fann hvernig hann bar mig. Tók mig í fangið. Ég mundaði myndavélina, ein með vindinum, vitandi af einstaka ketti á ferð. Kom heim endurnærð.
Varði svo deginum með gömlum vinnufélögum og góðum vinkonum, elduðum heimagert pasta, bökuðum brauð og höfðum insalata tricolore með smá viðbót úr matjurtargarðinum með. Einhverjar dreyptu svo á smá rauðvíni, mikið hlegið, mikið gaman.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 03:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.8.2007 | 03:12
ævintýri í gönguferð - eða hversu ótrúlegar tilviljanir geta verið
Um hádegisbilið í dag segir Lilló við mig, Kristín þú hefur val um tvennt, að halda áfram að vinna í garðinum eða skreppa með á Snæfellsnes. En þar eru víst nokkur góð vötn sem hægt er að renna í. Mér fannst valið ekkert sérstaklega erfitt og valdi Snæfellsnesið enda fer garðurinn ekkert. Við keyrðum sem leið liggur upp að Baulárvallavatni. Þar útbjó Lilló stöngina og dreif sig út í vatnið á vaðstígvélum. Ég aftur ákvað að líta aðeins til berja, blóma og fjallagrasa. Soldið fann ég af aðalbláberjum en ekki sá ég krækiber eða fjallagrös.
Ég reika með meðfram vesturenda vatnsins, sá þar dálaglegan foss sem ég vildi skoða nánar. Þegar ég hafði gengið nokkra stund sé ég fólk koma á móti mér. Er það þá ekki sjálfur forseti Alþingis og frú á gönguför um vatnaleiðina. Við tókum upp spjall um berjasprettu og höldum svo hvort sína leið. Þau til norðurs og ég til suðurs. Innra með mér hló ég og hugsaði hvað örlögin geta stundum verið glettin. Að hitta einmitt ráðherra samgöngumála þegar flugslysið var. Ráðherra sem okkur fannst því miður ekki standa sig í því máli. Og það í upphafi sjálfrar verslunarmannahelgarinnar. Hinnar árlegu áminningar minnar um hvernig lífið getur leikið okkur.
Ætla svo að lokum að segja frá því að í vor hitti ég gamla skólasystur, mikla sjálfstæðiskonu af Snæfellsnesinu og hún sagði mér að viðkomandi hefði verið mjög góður ráðherra fyrir nesið. Eins og ég reyndar reyndi líka í dag á góðum vegum og fáum einbreiðum brúm.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.8.2007 | 12:49
Gerist líka hér
Margir Norðmenn eru í rauninni Svíar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.8.2007 | 20:38
Loksins sýna Eyjamenn manndóm og losa sig við Árna sem kynni
Loksins sýndu Eyjamenn þann manndóm að losa sig við Árna Johnsen sem kynni á þjóðhátíð og bera við zero tolerance gagnvart ofbeldi. Gott hjá þeim. Skal alveg viðurkenna að ég hef enn ekki fyrirgefið þjóðhátíðarnefnd að hafa látið Árna minnast þeirra sem létust eftir flugslysið í Skerjafirði þann 7. ágúst 2000, árið eftir. Finnst þeir reyndar enn skulda mér afsökunarbeiðni. Fannst það fyrir neðan allar hellur að Árni þáverandi flugráðsmaður, Árni sem hafði í útvarpsviðtali látið falla miður falleg orð um ýmsa aðstandendur ætti að minnast þeirra sem létust og votta þeim virðingu. En loksins kom að því að Eyjamenn sýndu að þeir hafa til að bera sjálfsvirðingu og veittu Árna reisupassann.
Við erum að renna inn í þá helgi sem ég kvíði allt árið. Ég bið alla að fara varlega. Ég vona að allir skili sér heilir heim. Fórnarkostnaður okkar er þegar orðin of mikill.