Að borga TÁKNRÆNT hærri laun

Í kvöld heyrði ég á Stöð 2 Margréti Pálu útskýra hvers vegna henni vegni betur að fá fólk til starfa á nýja leikskólann á vellinum en leikskólum borgarinnar að manna sitt. Margréti var ekki orða vant venju fremur. Það hafði ekkert með launin að gera enda borgar hún af eigin sögn aðeins táknrænt hærri laun en hið opinbera. Þetta er sama konan sem kom í Silfur Egils í vor og ræddi um vinnukonur kerfisins, og að lausn kvenna frá því hlutskipti væri að einkavæðast, en nú kemur í ljós að þær áttu þess í stað að gerast vinnukonur Margrétar Pálu. Sennilega er betra hlutskipti að vinna af hugsjón hjá fyrirtækjum Margrétar Pálu en hinu opinbera.

 

En reyndar segir Margrét að aðalmálið við hvað henni gengur betur að manna sína skóla sé að hún hafi svo skýra stefnu, aðrir séu að hræra öllu uppeldsstarfi í graut, hún grípur líka til þeirrar klisju sem löngum hefur verið innan leikskólans um ríki í ríkinu. Að hver deild sé svo mikið ríki að þar sé hver leikskólakennari of sjálfráður og að það sé á kostnað samvinnunnar. Mætti álykta að á hennar leikskólum sé aftur litið til gömlu ráðstjórnarríkjanna, þar er einn foringi sem hefur rétt fyrir sér og leggur línurnar, það sé hinna að fylgja. Undir slíkt viðhorf tók leikskólaliðinn sem talað var við, en hann fagnaði því að þurfa ekki að hugsa í vinnunni, þurfa ekki að beita uppeldisfræðilegri þekkingu. Í Hjallaskólum er nefnilega allt svo vel inn rammað og skipulagt. Svo skýr skilaboð til barna og starfsfólks sagði hann ítrekað.

 

 

Ég tek undir að það skipti máli að í leikskólum ríki skýr sýn, en sú sýn verður að mínu mati að byggjast á bæði mannkærleik og uppeldisfræðilegri heimspeki, ég get ómögulega tekið undir þau orð Margrétar að hvaða sýn sem er sé góð svo framarlega sem hún er til staðar. Ég er heldur ekki þeirrar trúar að allir leikskólar séu góðir, ég tek undir að sumir geta jafnvel verið slæmir.  

 

Eitt merki fagmennsku og gæða í starfi er að fólk sé sjálfrátt, að það hafi mótandi áhrif á uppeldsstarfið, að það taki þátt í virkri umræðu um uppeldisfræði, um nám barna. Að í leikskólanum ríki lýðræði. Því miður get ég ekki séð slík merki í því sem ég hef lesið mér til um hjallastefnuna.  Og ég hef lesið bæði handbókina og flest sem stendur á vefnum af mikilli athygli. Margir nemar sem ég hef leiðbeint eru mjög hrifnir af stefnunni og valið að fjalla um hana í ritgerðum. Hefur það kallað á upplýsingaöflun af minni hálfu. Vissulega les ég þar skýr skilaboð – en því miður líka viðhorf sem ég get ekki fellt mig við. Viðhorf eins og að börn séu valdaræningjar, að það þurfi að temja börn, að listaverk barna séu áreiti og tímasóun og fleira og fleira.

 

 

Að lokum vil ég benda fréttamönnum Stöðvar 2 á að Suðurnesin eru allt annað starfssvæði en Reykjavíkurborg. Að þar gilda e.t.v. önnur lögmál en í höfuðborginni. Kannski að það hafi haft áhrif við þessa tilteknu ráðningar.

+  

Hér er listi yfir fyrri blogg mín um svipuð mál:

Leikskólinn sumargjöf barna

Leikskólinn fátækragildra

Kjarklaus fórnalömb

Kynjauppeldi

 

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Hæ Kristín, er búinn að krosstengja þína færslu við mína. Bestu úr gróðrarskúrinni fyrir norðan

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 10.8.2007 kl. 08:28

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk fyrir það, var að lesa þína færslu og tel alveg ástæða til að hafa áhyggjur af þróuninni. Reyndar er skólinn á vellinum þriðji hjallaskólinn í Reykjanesbæ, því fyrr í sumar gerði bærinn samning um einn og svo var fyrir annar sjálfstætt starfandi með samning við Hjallastefnuna ehf. Nú eru 3 af 9 leikskólum bæjarins því Hjallaskólar - fer að verða spurningum hvort annað val en hjallaval sé óæskilegt að mati þeirra sem þar eru við stjórnvölinn.

skólarnir eru:

Gimli -

Akur

Völlur

Kristín Dýrfjörð, 10.8.2007 kl. 11:25

3 identicon

Sæl Kristín, bara í stuði!

Ég er að mörgu leiti sammála þér, ertu til í að koma vestur og vera með fyrirlestur á starfsdegi hjá leikskólum á Snæfellsnesi? Við ætlum að vera með sameiginlegan starfsdag þriðjudag 2. október.

Sendu mér póst, ef þú hefur möguleika á þessu.

Bestu kveðjur, Sigrún

p.s. þetta er ekkert grín!

Sigrún Þórsteinsdóttir (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 16:38

4 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Sæl Kristín og takk fyrir síðast - mikið var gaman hjá okkur .

Ég lít af og til hingað inn til þín og langaði að þessu sinni til að leggja orð í belg. Ég held nefnilega að biðlistinn eftir störfum í hinum nýja skóla  Hjallastefnunnar hafi að þessu sinni lítið með laun eða skýra sýn að gera. Þú getur séð vangaveltur mínar um þetta hér

Kær kveðja,

Ingibjörg Margrét , 13.8.2007 kl. 20:13

5 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sömuleiðis takk fyrir, er búin að lesa hjá þér og ætla að kommneta þar - 

En já held að þetta hafi meira með atvinnusvæðið að gera. Held meira að segja að á mörgum  öðrum stöðum á Suðurnesjum sé svipað ástatt. Fólk bankar upp á og vill fá að starfa í skólunum.

Kristín Dýrfjörð, 14.8.2007 kl. 00:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband