Það er hægt að læra af mistökum annarra

Í nóvember sl. heimsótti ég hollensk leikskólasamtök. Ástæða heimsóknarinnar var opnun sýningar  um hollenskt leikskólastarf í anda ítalskrar leikskólahugmyndafræði sem kennd er við borgina Reggio Emila. Hluti af dagskránni fólst í að Hollendingarnir sögðu okkur (fulltrúum nokkurra landa) frá aðstæðum þar. Textinn hér að neðan er úr minnisblaði sem ég skrifaði fyrir sjálfa mig eftir heimsóknina.

100_5825

 

Gestgjafarnir gáfu okkur smánasaþef inn í hið hollenska kerfi, sem er bæði gamaldags og flókið. Þeir sögðu okkur að Hollendingar séu enn að býta úr nálinni með breytingar sem þeir gerðu á skólakerfinu um 1990 þegar þeir tóku 4 og 5 ára börnin inn í opinbera skólakerfið – af leikskólunum. Þetta hafi leitt til bæði afturhaldsemi og lítillar þróunar í mörg ár á eftir. Má eiginlega segja að afleiðingarnar hafi verið hræðilegar fyrir konur þar sem þeim var með þessari ákvörðun ýtt út af vinnumarkaði. En líka fyrir börnin sem allt í einu hættu að vera í barnmiðuðu umhverfi leikskólans og var ýtt inn í formlegt umhverfi grunnskólans, með þeim kröfum sem því fylgdu. Það sem verra var grunnskólinn og kennarar það voru ekki menntaðir né á annan hátt undirbúnir undir að taka við börnunum. Þetta hafi leitt til þess að starfið varð meira fræðslumiðað en uppgötunarmiðað.

 

  100_5861    100_5858

 

Þetta hafi líka verið sérlega slæm þróun í ljósi þess að framan af öldinni stóðu Hollendingar meðal fremstu þjóða í menntun yngstu barnanna. Þangað flúði María Montesorri undan fasistum á Ítalíu og þar þróaði hún hugmyndir sínar. Þar átti frískóla-hreyfingin (Freinet)sterkar rætur sem og sterk Fröbelsk hefð. En með breytingunni var leikskólakerfinu fleygt aftur í tímann. Kom fram í máli gestgjafanna að það sé jafnvel svo í dag að það fylgi því ákveðin skömm að hafa börnin sín í leikskóla. Afleiðingin er að flestar mæður reyna að stytta vinnudaginn svo börnin þurfi ekki að vera lengi á “þessum stöðum”. Skiptir þá ekki máli hver gæðin eru. Það fylgir því ákveðið stimpill að láta börnin frá sér.

Sögðu gestgjafar okkar að þetta viðhorf hafi líka speglast í orðinu sem notað var fyrir leikskóla framan af “opfangen” – að taka upp á arma sér eða grípa börnin. Það sem er hins vegar jákvætt og við Íslendingar mættum taka til fyrirmyndar er að fjölskyldugildi eru afar sterk í Hollandi og börnin eru bæði afar mikils metin og stór hluti af sjálfsmynd fjölskyldunnar. Þetta sé meðal annars vegna sögu Hollendinga en þeir fullyrða að kjarnafjölskyldan sé “næstum” því fundinn upp af þeim. Það kom til vegna þess meðal annars að þeir eru mikil verslunarþjóð og “þurftu” því ekki að eiga eins mörg börn til að hjálpa til við vinnu og þurfti í sveitum. Þess vegna hafi líka síðustu 3-400 árin verið lögð mikil áhersla á félagstengsl innan fjölskyldan, áhersla á að börn ættu auðvelt með samskipti. Það voru þau gildi sem máli skiptu til að styrkja þjóðina sem verslunarþjóð.

Vegna þessa hafi líka verið litið svo á síðari tímum að góður leikskóli sé skóli sem líkist heimilum sem mest, þar sem starfsfólkið tekur að sér að ganga börnun í móðurstað á meðan að þær neyðast til að vera frá þeim. Kannski eilítið eins og var á Íslandi fram undir alla vega 1980. Fæstir líti svo á að menntun eigi sér stað í leikskólanum, hann sé fyrst og fremst geymslu og gæslustaður. Hann er neyðarbrauð. (Þetta minnti mig reyndar á fræga bók sem kom út á Ísalandi um 1980, Dagheimili, geymsla eða uppeldisstaður.)

                            

Árið 2003 setti hægri stjórnin í Hollandi lög sem tóku fyrir afskipti hins opinbera að kerfinu undir 4 ára eins og fyrr segir, nú er ný mið-vinstri stjórn og er hún með lög í undirbúningi sem eiga fella fyrri lög úr gildi, enda sjái flestir að þau gangi ekki upp. Stendur til að leyfa skóla fyrir börn á aldrinum 0-7 ára. Sporen (samtökin sem ég heimsótti) opna slíkan skóla 1. janúar 2009, hann er nú í byggingu.

Nú er það svo að menntun  4- 6 ára barna er hluti af hinu opinbera skólakerfi en menntun og þjónusta við yngstu börnin á hinum frjálsa markaði. Jafnvel svo mikið að ekkert er borgað með skólunum og markaðurinn er algjörlega látinn ráða. Fáar reglur eru, en þær snerta aðallega rými, mönnun og öryggiskröfur. Mjög litlar menntakröfur eru gerðar til þeirra sem vinna með yngstu börnin. Af hálfu stjórnvalda hefur fyrst og fremst verið litið á skólana sem geymslu og þjónustu.

Hér er slóð þar sem ég fjalla aðeins um Fröbel og íslenska leikskólann.

100_5921  100_5911 

100_5908


Berdreymni

Er til eitthvað sem nefnist berdreymni? Stundum velti ég því fyrir mér, ég er nefnilega ein þeirra sem er stundum óþægilega berdreymin. Kannski er þessi berdreymni það eitt að ég hef í gegn um tíðina lært að túlka slæma fyrirboða. Ástæðan fyrir að ég nefni slæma fyrirboða er að ég er miklu líklegri til að muna þá slæmu en þá góðu þegar ég vakna.

Einu sinni velti ég því upp með heimspekingi hvort að raunveruleg berdreymni gæti verið til. Hann taldi svo ekki vera, en ég af því miður allt of mikilli reynslu taldi svo vera. Hins vegar veit ég ekki hvort að það að vera berdreymin er það eitt að vera betur læs á suma þætti í umhverfinu en aðrir. Ég held því ekki fram að berdreymni sé yfirnáttúruleg. Ég held frekar að ég t.d. skynji alvarleika veikinda fólks ómeðvitað og þegar svefninn sækir á mig vinni ég úr þessum vísbendingum. Að ég í draumi hafi komið mér upp einhverskonar afruglunarstöð fyrir skynjanir mínar.

Þó svo að mér hafi ekki alltaf liðið vel með drauma mína, þeir jafnvel leitt til þess að ég hef orðið stressuð gagnvart því að sofna. Þá hafa þeir samt á sinn hátt gert mér kleift að takast á við erfiðustu stundir lífs míns. Undirbúið mig undir andlega ágjöf. Ef til vill er berdreymni þegar upp er staðið einn af varnarháttum sálarinnar.

Að lokum eitt minna uppáhaldsljóða eftir Stein Steinar, sem ég hef nú reyndar frekar tengt skýjaborgum. (er e.t.v. lýsandi fyrir ástandið hjá ákveðnum flokki í borginni þessa stundina)

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.
Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg
af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið
á bak við veruleikans köldu ró.

Þinn draumur býr þeim mikla mætti yfir 
að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér. 
Hann vex á milli þín og þess, sem lifir, 
og þó er engum ljóst, hvað milli ber. 

Gegn þinni líkamsorku og andans mætti 
og öndvert þinni skoðun, reynslu og trú, 
í dimmri þögn, með dularfullum hætti 
rís draumsins bákn og jafnframt minnkar þú. 

Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum 
í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.
Hann lykur um þig löngum armi sínum, 
og loksins ert þú sjálfur draumur hans.


Aðför að leikskólanum a la Viðskiptaráð

Eftir kosningar s.l. vor lagði Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík ofuráherslu á að aðskilja leikskólasvið frá menntasviði, taldi hann að einungis þannig nyti leikskólinn sérstöðu sinnar og aukin færi gæfust til að styrkja innviði hans og starf. Því var haldið fram að leikskólinn hefði ekki notið athygli og hann staðnað í tíð Reykjavíkurlistans. En nú eru hin raunverulegu markmið aðskilnaðarins að koma fram. Þau virðast vera ótrúlega samhljóma hugmyndum Viðskiptaráðs sem m.a. komu fram í skýrslu þeirra frá því 2006  og ýmsum eldri hugmyndum sem tengdust styttingu náms til stúdentsprófs. Það virðist sem að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík setji hugmyndir viðskiptalífsins ofar hugmyndum t.d. bæði fræða- og kennarasamfélagsins í skólamálum. Er þetta í raun í samræmi við það sem gerist á hinum stóru veiðilendum stórfyrirtækjanna, kaupa og búta niður þangað til að ekkert er eftir að upprunalega fyrirtækinu. 

  

Áhrif Viðskiptaráðs eru víðtæk, s.l. haust sáum við hvernig átti að leysa vandamál leikskólans með einkavæðingu – gera mannekluvandann að vandamáli annarra, nýta tækifærið og láta draum Viðskiptaráðs rætast. Láta fyrirtæki eins og banka sjá um leikskóla fyrir sitt starfsfólk, koma upp leikskólakeðjum, svona eins og hamborgarakeðjum. Reyndar er í skýrslu Viðskiptaráðs meira og minna talað um daggæslumál en ekki leikskóla, hér eru nokkur dæmi úr skýrslunni og þau viðhorf sem speglast í henni til leikskólans, foreldra og hlutverk samfélagsins.

 

Samt er það svo að ákaflega lítið hefur miðað í átt að skilvirkari og þjónustumiðaðari leikskóla. ... Það er lítið því til fyrirstöðu að einkaaðilar hefji rekstur á sviði daggæslu. ... Vandinn sem við er að etja á daggæslusviðinu er því einkum fjárhagslegur. Í vissum tilvikum  má rekja hann til aukinna krafna á hendur rekstraraðilum og þrengri heimilda hvað stærð rekstrareininga snertir.”

 

Viðskiptaráð telur að rekstareiningar í daggæslu sé alltof litlar og megi vel stækka án þess að gæði þjónustu minnki. Ella verði rekstur leikskóla varla fýsilegur út frá hagkvæmnissjónarmiði. Þá telur Viðskiptaráð Íslands æskilegt að foreldrar taki almennt ríkari þátt í fjármögnun dagvistunar með beinum hætti frekar en að styðjast við það millifærslukerfi sem nú er við lýði.

 

Nú sjáum við næsta stig aðfarar að leikskólanum sem Þorbjörg Helga leiðir fyrir hönd frjálshyggjuaflanna í Sjálfstæðisflokknum. Sjálf hef ég af sögulegum ástæðum aldrei lagst gegn öðrum rekstrarformum leikskólans. Ég get tekið undir hugmyndir um þjónustusamninga svo framarlega sem réttindi bæði barna og starfsfólk sé tryggður. En ég hef ávallt talið og sú skoðun mín hefur ekki breyst að leikskólinn sé og eigi að vera samfélagslegt verkefni á samfélagslega ábyrgð. Kannski við endum með kerfi eins og Hollendingar sem enn sögðu mér þegar ég var þar í haust, enn vera að borga fyrir eigin aðför af leikskólakerfinu.


Pólitísk "skemmdarverk" Þorbjargar Helgu

Skemmdarverk, er það hugtak sem upp í hugann kom þegar ég las fundargerð leikskólaráðs Reykjavíkur. Ég vonaði sannarlega að nýr meirihluti stigi í fyrstu, allavega, varlega til jarðar. En hvað er það sem truflar mig svona? Jú það er samþykkt síðasta fundar um að byrja á að færa 5 ára börnin inn í grunnskólann næsta haust. Sem þróunarverkefni í hverju hverfi um sig til að byrja með en ...   

Fyrir tæpum 40 árum var eins farið að með það sem þá nefndist forskóli, eða 6 ára bekkir. Í upphafi voru leik- og grunnskólakennarar jafnhæfir til starfsins en smá saman viku leikskólakennarar og þegar 6 ára bekkurinn var gerður skólaskyldur duttu þeir út. Áherslan sem átti að vera á leikinn, vék fyrir stafakennslu. Fyrir þá sem það ekki vita langar mig líka að benda á að þó svo að formleg innlögn stafa fari e.t.v. ekki fram í leikskólum fer þar fram gríðarlega mikið lestrarnám. Þar er boðið upp á bæði markviss og meðvituð námstækifæri. Nú á eins að fara með 5 ára börnin og allt er þetta gert í nafni samkeppni sem og hræðslu. Vegna þess misskilnings að við séum að fara illa með tíma barna þegar áherslan er á skapandi starf og leik. Þess misskilnings að forritun, ítroðsla og blindur agi leiði til aukinnar samkeppnishæfni þjóðfélagsins og betri vinnudýra fyrir fyrirtækin. En til að agi verði til gagns verður hann að beinast að áhuga barnsins, sköpun þess. Ef við ætlum að tryggja samfélag velfarnaðar og réttlætis verðum við að byggja menntun barna okkar á sköpun, gagnrýninni hugsun og lýðræði. Ef ætlun okkar er betra samfélag þá verðum við að beina aganum að verkunum, að áhuganum.

Ég vil líka benda á að það eru örfá ár frá því að hin Norðurlöndin tóku það skref að gera 6 ára bekkinn skólaskyldan, þá eftir margra ára þróunarstarf sem hagsmunaaðilar tóku þátt í (raunar hafa Finnar sem gjarnan koma best út úr könnunum ekki enn gert það að fullu). Það módel sem virðist vera horft til hér er frá Bandaríkjunum og Bretlandi og jafnvel Frakklandi. Þessi lönd eru heldur ekki sérstaklega ofarlega á lista OCED þegar horft er til fyrirmyndstarfsemi í leikskólum. Um daginn hlustaði ég á Barak Obama þar sem hann lagði áherslu á að styrkja leikskólastigið, leggja áherslu á skapandi starf og að skólar hætti að kenna fyrir prófin. Þegar ég er erlendis (t.d. í Bretlandi) verð ég líka iðulega vör við að horft er til Norðurlanda þegar verið er að skoða yngsta skólastigið.    

Því miður hugnast mér ekki fyrstu skref Þorbjargar Helgu og félaga í nýju leikskólaráði og ég veit að ég er ekki ein um þá skoðun. Sennilega er leikskólakennarastéttin að miklum hluta mótfallin þessum hugmyndum. Ég hefði talið gott fyrir fólk sem er pólitískt með allt niður um sig að fara sér hægt. En kannski eru þau svo hrædd um að núverandi valdatími þeirra verði svo stuttur að allt sé á sig leggjandi til tryggja framgang hugmynda frjálshyggjunnar og grafa í leiðinni undan samfélagssinnuðu skólakerfi. Að á endanum sé það tilgangurinn sem helgar meðalið.

 


Stóri háskóladagurinn

Skrapp í Ráðhúsið, þar var fullt út úr dyrum. Ungt og áhugasamt fólk mætt til að fá upplýsingar um mögulegt nám. Ungt og áhugasamt fólk að gefa upplýsingar um námið sitt. Hver skóli með myndbönd og bæklinga. Allir kappsamir. 

Lægsti samnefnari ASÍ

Úr umsögnum og greinargerðum er hægt að lesa ýmis viðhorf. Bæði jákvæð og neikvæð. Mér brá í brún þegar ég las umsögn ASÍ við leikskólafrumvarpið. Þau viðhorf sem þar skína í gegn eru að; leikskólinn sé fyrst og fremst þjónusta við atvinnulífið – skólaárið og starfið eigi fyrst og fremst að miða að þörfum atvinnulífsins, til starfans þurfi "aðeins" gott fólk – með góð viðhorf,  menntun utan námskeiða og símenntunar sé aukaatriði.  

   

Lægsti samnefnari

ASÍ – leggur áherslu á að taka eigi tillit til lægsta samnefnara – þ.e. Reykjavíkurborgar – þegar horft er til hlutfalls fagfólks (42% í borginni) og ófaglærðra í leikskólum. Ég vil benda á að á Akureyri eru leikskólakennara um 75% starfsmanna. Svo virðist að starfsfólk ASÍ hafi gleymt því að landið er stærra en Reykjavík. Mannekluvandmál sem þeir fullyrða um eru aðallega og mest á höfuðborgarsvæðinu.  Ég vona sannarlega að viðhorfið um lægsta samnefnara sé ekki ráðandi þegar kemur að réttindum sem skipta ASÍ (og fleiri) máli. Þetta sé ekki þeirra grundvallaafstaða í málum eins og fyrirhugaðri þjónustutilskipun Evrópusambandsins. Ég treysti á samstöðu verkalýðsfélaganna gegn hugmyndum eins og að lægsti mögulegi samnefnari sé fullgildur samnefnari.

   

Ég tek hins vegar undir með ASÍ um mikilvægi og gildi símenntunar fyrir alla.


Valhöll sló Spaugstofunni við í handritagerð

Spaugstofan hefði ekki getað skipulagt atburðinn í Valhöll betur. Handritið var eins og skrifað af spaugara af guðs náð. Reyndar held ég að Síminn ætti að hugleiða að semja við Valhallarfólk um höfundarrétt fyrir næstu stóru auglýsingu.

Sjáið þetta fyrir ykkur, ljósvakafólki fyrst hleypt inn. Ljósmyndarar ryðjast inn og smella af í gríð og elg eru svo reknir öfugir út. Skellt á nefið á prentmiðlafólki og það ekki einu sinni með útvarp eða sjónvarp til að sjá og heyra það sem fer fram fyrir innan dyrnar. Örvæntingafullir blaðamenn hringjandi á ritstjórnir og símum haldið að hátölurum sjónvarpanna svo þeir heyri það sem fer fram undir málverkinu af Bjarna Ben. 

Starfsmaður Símans birtist á staðnum og heldur að þeim þriðju kynslóðinni þar sem hægt er að horfa á sjónvarpið og segir, "sjáið, við erum hér" Feginssvipur færist yfir andlit blaðamannanna. 

Já, Spaugstofan hefði ekki getað skipulagt þetta betur.   


mbl.is „Óánægja blaðamanna skiljanleg"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband