Sturlubarnið veltir sér

Við fylgjumst auðvitað spennt með öllu vörðum á þroskaleið Sturlubarnsins. Núna hefur hann unnið það stórkostlega afrek að fara af baki yfir á maga. Hann veltir sér á hliðina, beygir höndina í 90 gráður undir sig og og veltir alla leið. Einbeitingin og hugsunin er alveg skýr. En svo kann litla stýrið ekki enn að fara til baka, hann er því fastur á maganum og líkar það ekki vel. Við bíðum auðvitað eftir næsta þroskastökki. Undanfari veltunnar var að hann var farinn að taka dót og svo skipta sjálfur á milli handa. Gera sér grein fyrir að hægt er að nota hendur til mismunandi verka samtímis.

 


Átökin um elstu börnin

Ég var með erindi á ráðstefnu um helgina, erindið mitt fjallaði m.a. um hugmyndafræðileg átök sem hafa verið um elstu börn leikskólans nú og fyrir 40 árum. Þeirri umræðu tengist umræða um áhrif atferlismótunarsinna og ný-atferlismótunarsinna á leikskólastarfið. Sem meðal annars svar við þeirri kröfu, aðallega viðskiptalífsins, að færa menntun 5 ára barnanna inn í gunnskólann.

Ég velti líka fyrir mér hvernig leikskólastarf sé líklegt til að styðja við lýðræði, mín niðurstaða er að atferlisskólarnir séu ekki þar í hópi. Ég skoðaði hugmyndafræði leikskólanna út frá kenningum félagsfræðingsins Basil Bernstein. En hann hefur m.a. fjallað um áhrif nýfrjálshyggjunnar á skólastarf. 

Ég hlustaði líka sjálf á marga áhugaverða fyrirlesara og fékk innsýn í það sem aðrir eru að gera. Það er víða mjög öflugt starf í gangi og margar rannsóknir sem vert er að fylgjast með. Þeir sem vilja skoða ágrip erinda er bent á www.fum.is  


Nýtt meistaranám í Kennaraháskólanum

Umhyggjusamur leikskólakennari Meistaranám sem margir hafa beðið eftir. Þar sem áherslan verður á heimspeki. Ég veit að margir leikskólakennarar hafa beðið eftir slíku framhaldsnámi. Námi sem nýtist þeim sem vilja vera á gólfinu, en líka stjórnendum.  Minni á kynningu í KHÍ í dag. 

 

Meistaranám í heimspeki menntunar meistaranámi í heimspeki menntunar miðar að því að svara kalli aðal­námskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla um menntun til ábyrgrar, gagnrýninnar þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi og að mennta fólk til frumkvæðis í lýðræðis­legu skólastarfi, í heimspeki menntunar og heimspekilegri samræðuaðferð í kennslu.   

 

Markmið námsins er að nemendur öðlist þekkingu á lýðræði sem kenn­ingu og hugsjón, áhrifum þess og möguleikum í skólastarfi og hlut þess í þróun mannlegra samfélaga og í samskiptum einstaklinga og þjóða. Nemendur öðlist skilning á grunnforsendum lýðræðis í samfélagsgerð, hugsunarhætti einstaklinga og samskiptaháttum og færni til að leiða skólastarf inn á brautir ábyrgrar, gagnrýninnar og lýðræðislegrar þátt­töku allra sem að því koma. Nemendur öðlist einnig þekkingu á öðrum grundvallar­viðfangsefnum í heimspeki og hugmyndasögu menntunar. Meistaranám í heimspeki menntunar er fullt tveggja ára nám, þ.e. 120 ECTS (60 einingar) nám sem skiptist á fjórar annir. Nemendur geta tekið námið á lengri tíma auk þess sem hluta námsins er hægt að taka í fjarnámi.

 


Sennilega besta leiðin

Sjálfstæðisfólks vegna verður að viðurkennast að þetta er sennilega það eina skynsamlega í stöðunni. Blóðug átök sem hefðu annars fylgt foringjauppgjöri er forðað.  Fólk fær tíma til að ná áttum og stilla upp trúverðugri stöðu fyrir kjósendur. Það hefði verið grátbroslegt skuespil fyrir okkur hin að horfa upp á slagsmálin.


mbl.is Vilhjálmur ætlar að sitja áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjörnukíkir í dag - við þar

Í dag klukkan tvö verður þátturinn Stjörnukíkir á dagskrá á rás 1. Meðal þeirra sem rætt verður við í dag er ég og Michelle leikskólakennari á Stekkjarási í Hafnarfirði. Efni þáttarins verður skapandi starf í leikskólum. Ég vona sannarlega að mér hafi tekist að segja eitthvað af viti. Hvet sem flesta til að hlusta.   
  
Á ríkisútvarpinu er nú búið að setja nokkra þætti inn í hlaðvarp, þar er hægt að hlusta á ýmsa gamla þætti. M.a. allan Stjörnukíkir frá upphafi. Ég hvet sem flesta til að gera það, það er tíma vel varið. Sjálfri finnst mér þægilegt að vinna með rás 1 á.
Annars var viðtal við mig í síðustu viku í tilefni vísindasmiðju á vetrarhátíð í Samfélaginu í nærmynd hér má hlusta á það í nokkra daga í viðbót.
  
AF VEF ruv.is
Þetta er í vinnunni minni ... þar er ég flugmaður og einkaspæjari og ég ræð öllu.

Við bregðum okkur í töfraherbergið í leikskólanum í Stekkjarásií Hafnarfirði en þar er að finna alls kyns efnivið, sælgætisbréf, trjágreinar, gostappa og efnisbúta svo eitthvað sé nefnt en efniviðurinn ratar inn í sköpunarverk barnanna í leikskólanum sem búa til bíla og flugvélar, tölvuskjái og vinnustaði, stelpur og stráka úr könglum, kökudunkum, pappakössum og bómullarhnoðrum. Ímyndunaraflinu eru engin takmörk sett og hlutirnir í töfraherberginu geta tekið á sig ótrúlegustu myndir. Töfraherbergið byggir á efnisveitunni Remida sem finna má í norður-ítölsku borginni Reggio Emilia en þar komu leikskólayfirvöld á samstarfi við fyrirtæki og verksmiðjur sem láta af hendi rakna afgangsbirgðir og úreltar vörur af ýmsu tagi sem nýtast leikskólum í borginni í skapandi starfi. Umhverfisvernd og endurnýting er þannig innbyggð í starf Remidu. Rætt verður við Michelle Soniu Horn, deildarstjóra listasmiðju Stekkjaráss um starfið á leikskólanum.

Einnig verður rætt við Kristín Dýrfjörð, leikskólakennara og lektor við leikskóladeild Háskólans á Akureyri sem segir frá ítölsku skólastefnunni Reggio Emiliasem hefur sett mark sitt á fjölmarga leikskóla hérlendis á undanförnum árum og áratugum. Stefnan hefur vakið heimsathygli, en árið 1991 valdi tímaritið Newsweek Reggio Emilia skólana á meðal tíu bestu skóla í heimi.

Hilmar Örn Hilmarsson tónskáld tekur að sér að rifja upp sögur af eftirminnilegum kennara. Tónlistin í þættinum er eftir John Cage (brot úr A Book of Music fyrir tvo undirbúna flygla í flutningi Joshua Pierce og kafli úr Svítu fyrir dótapíanó, einnig í flutningi JP) og Benna Hemm Hemm (Riotmand af plötunni Ein í leyni).


Það liggur eitthvað stórkostlegt í loftinu

Þrátt fyrir aðför sjálfstæðimanna í Reykjavík að leikskólanum finnst mér þessa daga eins og ég sé að upplifa eitthvað merkilegt. Eitthvað sem er alveg einstakt. Tilfinning sem ég fann sterkt fyrir þegar við leikskólakennarar tókum risaslaginn. Þegar við forðum því að leikskólinn skilgreindist sem félagslegt úrræði en var staðfestur sem skóli þar sem menntun færi fram. Það var árið 1991. Ég ásamt mörgum félögum mínum vörðum mörgum stundum á þingpöllum. Við ræddum við alla sem við þekktum og voru tengdir í pólitík, við leikskólakennarar tókum höndum saman, hvar í flokki sem við stóðum og stóðum saman sem ein manneskja. Við skipulögðum fundaferðir um landið til að stappa stálinu í fólk, til að efla liðsandann, ferðirnar fengu það fræga heiti Amma Dreki. Við fengum foreldra í lið með okkur, við fengum samfélagið í lið með okkur.

 

Í dag varð ég spurð hvort nýr amma Dreki væri í uppsiglingu. Það er nefnilega svipuð stemming í loftinu. Kannski er þetta eitthvað sem gerist þegar við upplifum að við þurfum að verjast með kjafti og klóm. Það vita allir sem þekkja mig að ég er stéttafélagssinni sem stóð eitt sinn í framvarðarsveit leikskólakennara. En það skal enginn misskilja svo að vörn mín snúist um að verja hagsmuni leikskólakennara. Í siðareglum leikskólakennara (þeim sem giltu alla vega þegar ég var þar félagi og ég vona að ég hafi tileinkað mér) var ein fyrsta skylda okkar, skyldan gagnvart hagsmunum barna. Undan þeirri skyldu get ég ekki hlaupist og ef einhverstaðar eru eftir mig marðar pólitískar tær, verður bara svo að vera. Það batnar. En eyðilegging eins og nú er boðuð á leikskólakerfinu, hún batnar ekki á viku. Enn um sinn boða ég því tátroðslu.

 

Hvað er það sem gleður mig svona? Það sem gleður mig er að mér finnst vera vakning gangvart skapandi starfi, skapandi efnivið, skapandi hugsun. Vakning gagnvart gagnrýninni hugsun, gagnvart forvitni og rannsóknum barna. Gagnvart því að lifa í núinu og vera til staðar í núinu. Gagnvart því að setja alla hugsun á haus og hugsa upp á nýtt, frá nýrri sýn, úr nýrri vídd. Þessa daga er ég að hitta fólk út um allt þjóðfélagið sem spyr, hvernig er hægt að efla skapandi starf og hugsun? Margir leita til mín til að fá upplýsingar um starfið í Reggio Emilia. Eru forvitnir um þá tilraun sem er þar í gangi og hefur verið s.l. 50 ár. Í Reggio er fólk stundum spurt, hvaða rannsóknir getið þið sýnt okkur um að starfið virki. Þau svara gjarnan, samfélagið okkar er okkar besti vitnisburður.

 

Sturlubarnið í ungbarnasundi

Það var stórkostleg upplifun að skreppa í Mýrina í Garðabæ og fá að fylgjast með Sturlubarninu í ungbarnasundi. Hann skríkti og hló. Var mjög athugull og passaði að líta reglulega í áttina til ömmu og afa, svona eins og til að tékka á hvort við værum ekki örugglega að fylgjast með. Birna kennari leiddi tímann með styrkri stjórn. Greip eitt og eitt ungabarn og lét það kafa. Fylgdist árvökul með stoltum foreldrum gera slíkt hið sama.

Mér fannst líka gaman að heyra öll leikskólalögin sem hún notaði með. Hvert lag átti sína hreyfingu í vatninu. Og svo klöppuðu foreldrarnir og hrósuðu ungunum sínum. Ég er auðvitað svo leikskólaskilyrt að ég ætlaði alltaf að fara að syngja með. Ég var með myndarvélina og Lilló með myndbandsvélina. Hann náði alveg stórgóðum myndum af tímanum. Litla fjölskyldan kom svo í heimsókn á sunnudaginn og fékk að sjá afraksturinn. Fyndnast var að sjá brosið sem færðist yfir andlit Sturlubarnsins þegar að hann heyrði rödd foreldrana óma úr sjónvarpinu hvort sem var í söng eða hrósi.

borða putta  standa

áhugsamurgul önd


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband