7.3.2008 | 21:16
Ömmuleikur
5.3.2008 | 22:54
Börn sem ögra
Ég var að lesa ótrúlega skemmtilega grein. Þar er fjallað um áhrif þess hvaða afstöðu leikskólakennarar taka til barna almennt til þess hvernig þeir líta á og vinna með hegðun sem þeim finnst óæskileg og/eða ögrandi. Dæmi um slíka hegðun er; öskra, bíta, lemja, sparka, ljótur munnsöfnuður, skilja börn eftir útundan og fleira. Afstöðu leikskólakennara er skipt í fernt (sjá hér að neðan). Í greininni er því lýst hvernig með því að endurskoða afstöðu sína til barna leikskólakennarar breyta starfsaðferðum og áhrifum þess á "hegðun" barna.
- Barnið er eign hins fullorðna, hinn fullorðni tekur allar ákvarðanir fyrir barnið, enda hefur barnið ekki til þess þroska. Þegar þetta er afstaða hins fullorðna þá er litið á barn sem ögrar sem ófært um að stjórna hegðun sinni og það er hlutverk hins fullorðna að taka ábyrgð á hegðun barnsins. Þær leiðir geta m.a. byggst á atferlismótun eða lyfjagjöf.
- Barnið er hlutgert, það er litið á börn sem saklaus og varnarlaus, það er hinna fullorðnu að bera ábyrgð og vernda barnið fyrir sjálfum sér og öðrum. Leikskólakennarar sem hafa þessa afstöðu, kenna barninu viðeigandi hegðun, að vera þægt barn, oft byggða á þekkingu á þroskastigum sálarfræðinnar. Ef kennarinn ræður þrátt fyrir það ekki við hegðunina, kallar hann á sérfræðing, t.d. sérkennsluráðgjafa eða sálfræðing.
- Barnið er þátttakandi í ákvörðunum um eigið líf. Rætt er við barnið um ögrandi hegðun og afleiðingar hennar, en leikskólakennarinn hefur lokaorðið um hvernig brugðist er við, hann tekur ákvörðunina. Dæmi, leikskólakennari getur sagt börnunum hvaða hegðun sé óæskileg, svo sem að; lemja, skilja útundan, sparka... og hann gefur þeim verkfæri til að þau geti brugðist við, ef þú ert laminn, láttu kennara vita, ef þú ert reið notaðu þá orð. Börn þurfa hjálp hinna fullorðnu til að skilja og bregðast við hegðun sinni, þau hafa ekki forsendur til að skilja hana sjálf.
- Barnið er gerandi (social actor) í eigin lífi sem tekur þátt í að skapa og hafa skoðanir á umheiminum og hefur rétt til þátttöku í ákvörðunum sem varða það. Leikskólakennari sem hefur þessa afstöðu til barna telur að þau hafi fram að færa gildar skoðanir um starfið og námskrá leikskólans. Kennarinn íhugar gagnrýnið með börnunum og ræðir t.d. ögrandi hegðun við þau. Börnin hafa fram að færa ýmislegt sem getur t.d. varpað ljósi á hegðun og þau geta breytt henni.
Að lokum þá hvet ég sem flesta leikskólakennara að lesa greinina.
MacNaughton, G., Hughes, P., & Smith, K. (2007). RETHINKING APPROACHES TO WORKING WITH CHILDREN WHO CHALLENGE: ACTION LEARNING FOR EMANCIPATORY PRACTICE. International Journal of Early Childhood, 39(1), 39.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.3.2008 | 12:13
Duldar óskir og þrár
Lítil ómerkt frétt í Morgunblaðinu vakti athygli mína í morgun. Þar er verið að fjalla um vonbrigði OECD yfir að Ísland hafi ekki komið betur út úr PISA rannsóknum og ef eitthvað farið dalandi. Þetta er sérstök vonbrigði OECD í ljósi þess hvað þjóðin leggur til menntamála á hvern einstakling. Nokkur gagnrýni varð á sínum tíma á uppbyggingu Aðalnámskrár grunnskóla (þessari sem Björn setti 1999), hún var talin hefta kennara, draga úr sjálfsforræði þeirra og þróun í starfi. Ég heyrði því fleygt á sínum tíma að margir teldu hana ræna kennara starfi sínu, stuðla að kulnun og draga úr faglegum áhuga. Samkvæmt fréttinni bendir OECD á að beina þurfi sjónum að kennurum, kannski að ein leið sé að veita þeim aftur forræði yfir eigin starfi? En engar slíkar pælingar eru í frétt Morgunblaðsins, þar er hins vegar spyrnt saman umfjöllun um PISA og því að í heilbrigðiskerfinu sé launsnarorð OCED fyrir Ísland, einkavæðing.
Lesa fleiri en ég út úr þessu duldar óskir og þrár?Ég skrapp í foreldrahús í dag, þar bar helst til frétta að hagamýsnar í garðinum eru að verða matarlausar. Í snjónum sjást agnarsmá spor eftir litlar mýs sem hætta sér úr holum í matarleit. Pabbi og bræðrasynir mínir eru því í önnum þessa daga að bera í þær fræ. Síðan er fylgst með hvernig þær bera sig að, hamstra og hlaupa með fenginn í holu. Öllum köttum sem hugsanlega ætla að nýta sér tækifærið til að ná í litlar mýs eða smáfugla er samviskusamlega bægt á brott.
Frændur mínir voru víst svolítið hissa fyrst yfir að það eru ekki bara smáfuglarnir heldur líka mýsnar sem þarf að fæða, en nú finnst þeim það held ég bara spennandi. Ég man fyrir nokkrum árum þegar ein hagamúsin slapp inn. Pabbi hafði heilmikið fyrir því að veiða hana í gildru og svo var farið langt niður í Fossvog til að sleppa henni lausri. Mamma hristir bara hausinn.
1.3.2008 | 00:56
Af hverju eigum við að treysta fólki sem treystir ekki hvert öðru?
Hverju ætli fólk vantreysti? Spreð í gæluverkefni? Illa ígrunduðum ákvörðunum? Blóðugum innbyrðis skylmingum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins?
Það gefst ekki vel í pólitík þegar kjósendum finnst verið sé að að hafa þá að háði og spotti. Fundurinn í Valhöll þar sem flótti barst í liðið og enginn treysti sér til að styðja við bakið á oddvitanum gaf borgarbúum flokkslínuna. Af hverju ættu borgarbúar að treysta borgarstjórnarmeirihluta sem treystir ekki eigin fólki?
![]() |
Aðeins 9% treysta borgarstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.2.2008 | 21:25
Dýrkeypt hallarbylting
Miðað við útkomuna á landsvísu í þessari skoðunarkönnun er nokkuð ljóst að á landsvísu er fólk að refsa Sjálfstæðisflokknum fyrir stjórnleysið og sundrungina í borginni. Nokkur furða? Hallarbyltingin í janúar ætlar að verða flokknum dýrkeypt. Auðvitað gleðst ég yfir að mitt fólk standi vel. Vona bar að það enn hærri tölur komi upp úr kjörkössunum næst.
Kannski að foringjar flokksins verði ekki eins glaðir með sitt fólk opinberlega næst þegar það hagar sér eins og frekjur. Eins og hallarbyltingin blasir við mér og fleirum, var þetta fyrst og fremst ákvörðun sem byggist á einkahagsmunum örfárra borgarfulltrúa og frekju í völd. Það sem viðkomandi voru kjörnir til; að gæta hagsmuna borgarbúa, virðist hafa verið sett í annað sætið.
![]() |
Dregur úr fylgi við ríkisstjórnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.3.2008 kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.2.2008 | 16:31
Er "óvart" verið að búa til bakdyraleið að samræmdu leikskólastarfi?
Eins og fram hefur komið hef ég fagnað framkomnu frumvarpi menntamálaráðherra um leikskólann. En þrátt fyrir svona almennt jákvæða afstöðu til þess eru nokkur atriði sem ég hef velt vöngum yfir og haft af nokkrar áhyggjur. Áhyggjur um ýmsar afleiðingar til lengri tíma litið.
Út í hinum stóra heimi hafa undanfarin ár verið að takast á tvö gagnstæð sjónarmið í leikskólafræðum. Annarsvegar þar sem nefnt hefur verið þroskamiðað byggt á hugmyndafræði um m.a. þroska barna og uppglötunarnám og gildi skapandi starfs og leiks. Segja má að undir þetta sjónarmið sé sterklega tekið í fyrirliggjandi frumvarpi. Hitt sjónarmiðið sem hefur verið ríkjandi í Bretlandi, Bandaríkjunum, Hollandi, Frakkalandi og Belgíu byggir á fræðslu og kennslumiðaðri starfsemi. Starf í leikskólum sem líkjast hugmyndum flestra um núverandi grunnskóla.
Í greinargerð með frumvarpinu er þessari leið hafnað. Hins vegar velti ég fyrir mér hugsuninni á bak við að aldurs- og þroskatengja næstu aðalnámskrá eins og boðað er í frumvarpinu. Sú sem nú er í gildi hefur verið afar víð og innan hennar hafa flestar leikskólastefnur getað staðsett sig. Þegar ég svo tengi umræðuna um aldurs og þroskaviðmiðin við 16. grein frumvarpsins um þær upplýsingar sem eiga að fara á milli skólastiga verð ég vör um mig. Eins og greinin er orðuð nú eiga leikskólar að senda allar upplýsingar sem þeir telja að gangi geti komið á milli skólastiganna, án samþykkis foreldra. Taka verður fram að Persónuvernd ríkisins hefur þegar gert athugasemd við orðalagið. Hinsvegar er boðuð reglugerð með frumvarpinu og þar á sjálfsagt að kveða nánar á um hvaða upplýsingarnar eiga að fara á milli.
Ef ég tengi umræðuna við fljótandi skólaskil, og við umræðuna um fimm ára bekki hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík, þá setur að mér hroll og ég verð uggandi. Uggandi yfir því að þarna sé verið að búa til bakdyraleið að skóla- og fræðslumiðuðum leikskólum, verið sé að boða einhverskonar formlegt mat á börnum. Mat sem kemur til með að vera meira stýrandi um innra starf en t.d. aðalnámskrá. Líka stýrandi um hvaða börn teljast TILBÚIN fyrir næsta skolastig og hvaða börn þurfa frekari LEIÐRÉTTINGU við á leikskólastiginu. Að með því beinist starfið í átt að því að aðlaga starfið samræmda prófinu sem leggja á fyrir barnið. Við höfum sporin að varast. Reyndar get ég ekki skilið þá grunnhugmynd að barnið eigi að vera tilbúið fyrir skólann en skólinn ekki tilbúinn fyrir barnið. Enda hugmynd sem er fjarri flestum leikskólakennurum.
Á vegum hinna ýmsu alþjóðastofnana sem hafa málefni og menntun barna á sinni könnu er sífellt verið að vinna að stefnumótun. Hana ber alla að sama brunni, að hinni norður- og mið-evrópsku hefð, áherslu á þroska, skapandi starf og nám í gegn um leik.Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)