Berdreymni

Er til eitthvað sem nefnist berdreymni? Stundum velti ég því fyrir mér, ég er nefnilega ein þeirra sem er stundum óþægilega berdreymin. Kannski er þessi berdreymni það eitt að ég hef í gegn um tíðina lært að túlka slæma fyrirboða. Ástæðan fyrir að ég nefni slæma fyrirboða er að ég er miklu líklegri til að muna þá slæmu en þá góðu þegar ég vakna.

Einu sinni velti ég því upp með heimspekingi hvort að raunveruleg berdreymni gæti verið til. Hann taldi svo ekki vera, en ég af því miður allt of mikilli reynslu taldi svo vera. Hins vegar veit ég ekki hvort að það að vera berdreymin er það eitt að vera betur læs á suma þætti í umhverfinu en aðrir. Ég held því ekki fram að berdreymni sé yfirnáttúruleg. Ég held frekar að ég t.d. skynji alvarleika veikinda fólks ómeðvitað og þegar svefninn sækir á mig vinni ég úr þessum vísbendingum. Að ég í draumi hafi komið mér upp einhverskonar afruglunarstöð fyrir skynjanir mínar.

Þó svo að mér hafi ekki alltaf liðið vel með drauma mína, þeir jafnvel leitt til þess að ég hef orðið stressuð gagnvart því að sofna. Þá hafa þeir samt á sinn hátt gert mér kleift að takast á við erfiðustu stundir lífs míns. Undirbúið mig undir andlega ágjöf. Ef til vill er berdreymni þegar upp er staðið einn af varnarháttum sálarinnar.

Að lokum eitt minna uppáhaldsljóða eftir Stein Steinar, sem ég hef nú reyndar frekar tengt skýjaborgum. (er e.t.v. lýsandi fyrir ástandið hjá ákveðnum flokki í borginni þessa stundina)

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.
Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg
af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið
á bak við veruleikans köldu ró.

Þinn draumur býr þeim mikla mætti yfir 
að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér. 
Hann vex á milli þín og þess, sem lifir, 
og þó er engum ljóst, hvað milli ber. 

Gegn þinni líkamsorku og andans mætti 
og öndvert þinni skoðun, reynslu og trú, 
í dimmri þögn, með dularfullum hætti 
rís draumsins bákn og jafnframt minnkar þú. 

Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum 
í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.
Hann lykur um þig löngum armi sínum, 
og loksins ert þú sjálfur draumur hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Berdreymi er til, kann ekki skýringar á því. Kann margar frásögur af því bæði frá sjálfri mér og öðrum sem enginn getur útskýrt með hefðbundnum hætti.

Hef að vísu trú á því að mennirnir geti átt í orðlausum samskiptum. S.s. hægt sé að nema hugsanir annarra, sérstaklega ef þeir eru nánir.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 19.2.2008 kl. 14:53

2 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

stundum dreymir mig berar konur

Brjánn Guðjónsson, 19.2.2008 kl. 15:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband