To be or not to be - frú eða herra borgarstjóri

“Ég gaf kost á mér sem leiðtogi sjálfstæðismanna í borginni í síðasta prófkjöri, það hefur ekki breyst”. Eitthvað á þessa leið mælti Gísli Marteinn í Kastljósinu í kvöld, svona til að minna okkur á að hann gerði tilkall til leiðtogahlutverksins, lagði sig í hættu og uppskar töluvert fylgi, Villi fékk bara aðeins meira. Sterka stöðu Hönnu Birnu má sennilega að hluta skýra með tilvísun til þess að bæði stuðningsmenn Vilhjálms og Gísla Marteins studdu hana í annað sætið. Enda hvorugur viljað sjá hinn í því sæti. Það er því ekkert skrítið að Gísla Marteini sjálfum gulldreng flokksins og krútti gamla fólksins sárni. Hann þorði að taka áhættu, hætta sér úti í storminn á meðan Hanna Birna valdi að sigla lygnan sjó. Með tilliti til þessa er heldur ekkert einkennilegt að hann nú geri tilkall, það hljóta þó að hafa runnið á hann tvær grímur í sjónvarpinu um daginn þegar Agnes, Staksteinaskrifari lýsti yfir stuðningi við Hönnu Birnu. Ég verð reyndar að viðurkenna að mér finnst hún frekar óspennandi pólitíkus. Leitt að segja það en svona er það nú.

ps. Svo segja þau öll, við erum að gefa Villa ráðrúm til að hugsa og svo styðjum við þá ákvörðun sem hann tekur. Af hverju segja þau ekki Villi á allan okkar stuðning hver svo sem ákvörðun hans verður. Mér finnst eins og í hinu liggi við styðjum hann til að hætta, en ekki til annarra verka.


Í minningu Búddu

Í fjölskyldunni hans Lilló eiga allir gælnöfn, að því komst ég fljótlega, pabbinn Lúllú, bræðurnir Onni og Diddó, systirin hefðbundið Rúna og mamma þeirra Búdda. Einhvernvegin dettur manni helst í hug hnellin kerling, en svo var nú aldeilis ekki. Búdda var bæði frekar hávaxin og alla tíð svo grönn að módel samtímans væru næsta feit við hliðina á henni. Hún var líka smekkmanneskja bæði í klæðnaði og í hönnun á heimili sínu. Glæsikona sem hafði sterka tilfinningu fyrir samsetningu lita og hluta. Þegar ég kom fyrst í Brúnalandið var heimilið eins fryst í tíma. Fallegt sixtís heimili. Hornsófinn og gólfteppin blá, með appelsínugula rýjateppinu ofan á. Gylltar gardínur, frístandandi hillur og borðstofu húsgögn úr tekki. Heimilið bar með sér smekk húsfreyjunnar. Hún sagði mér eitt sinn að Guðmundur (ég gat aldrei kallað tengdapabba Lúllú) hafi fengið henni peninga til að kaupa ljós í allt Brúnalandið, hún hafi farið og keypt kristallsljósakrónu yfir borðstofuborðið fyrir alla upphæðina. Og Lúllú gapað þegar hún kom heim. Seinna þegar hún var flutt í litlu íbúðina sína í Ljósheimunum endurskapaði hún heimilið í Brúnalandinu en núna í nýmóðins stíl. Þar er tungusófinn blár og gardínur gylltar.

 

Búdda lifði stundum hratt en hún lifði því lífi sem hún kaus sér, ekki alltaf hefðbundið en sönn sjálfri sér og sínu. Húmoristi fram í fingurgómanna, stundum einkahúmor hennar og Jöru, eins og þegar við komum eitthvert sinnið í Skinnalónið og þær sátu út á palli og ræddu saman með sitthvorn háhæla skóinn undir eyra. Á árum áður hvessti stundum á milli okkar, ég var ung og kunni ekki alltaf að umgangast fólk sem ekki fór sömu leiðir og ég. Samt naut ég þess nú nokkuð að vera tengd Jöru vinkonu hennar og sambýliskonu fjölskylduböndum. Ég held reyndar að það hafi átt sinn þátt í að hún tók mig í sátt. Með árunum þroskuðumst við báðar og seinni ár áttum við í góðum samskiptum. Þá sagði hún mér stundum sögur af lífi sínu í Ameríku, af presthjónunum blindu sem gáfu hana og Guðmund saman. Sérstaklega var henni minnistætt þegar prestfrúin þreifaði á andliti hennar og sagði svo, „þú ert falleg“. Það var Búddu mikið áfall fyrir 10 árum þegar Jara dó, áfall sem ég held að hún hafi aldrei jafnað sig fullkomlega á. Börn og barnabörn Jöru héldu ávallt tryggð við hana og fyrir það var bæði hún og við þakklát. Búdda var með afbrigðum gjafmild og stór í gjöfum sínum. Ég er henni þakklátust fyrir þá gjöf sem hún gaf okkur Lilló fyrir sjö árum þegar Sturla dó, hún gaf okkur að nota leiði sem hún átti frátekið hjá Guðmundi og Jóni pabba sínum. Ég veit að hún hafði ekki ætlað sér að láta brenna sig, en eftir  andlát Sturlu ákvað hún að það myndi hún gera og hvíla við hlið þeirra. Síðasta fjölskylduboðið sem hún tók þátt í var nafnaveisla Sturlu Þórs, sonarsonar okkar, þegar hún heyrði nafnið hans klökknaði hún eins og við. Litríku, óhefðbundnu lífi er nú lokið, að leiðarlokum vil ég þakka fyrir samvistir og votta börnum hennar og systur samúð mína.  

(Minningargrein mín í mogganum í dag)


Frábærir foreldrar - frábær börn

 

      

Það var einu orði sagt frábært að fylgjast með samvinnu og leik barna og foreldra í Ráðhúsinu í Reykjavík í dag. Gleði og samvinna voru þau orð sem helst komu upp í hugann. Fullt af myndum hér.

   

  null null


Skemmtilegur en annasamur dagur - upprennandi skapandi vísindamenn

100_6211

 Vísindasmiðjan í Ráðhúsin tókst afbragðsvel í dag. Nýi borgarstjórinn hann Ólafur kom og stoppaði töluverðan tíma ásamt aðstoðarkonu sinni Ólöfu Guðnýju. Þau spurðu mikið um hugmyndina og hugmyndafræðina á bak við smiðjuna. Samstarfskona mín sagðist meta pólitíkusa eftir því hvernig þeir bregðast við m.a. svona atburðum, ástæða þess að hún minntist á þetta er að ungliðadeild bæði úr Sjálfstæðiflokknum og Samfylkingunni voru í húsinu en stungu ekki inn nefjum. 

Átta leikskólar lögðu á sig ferð út í veðrið með börnin og mættu. Sögðu mér að strætó stoppaði fyrir utan Ráðhúsið og þetta væri ekkert mál. Hjá sumum var þetta sárabætur fyrir dagskrá sem hafði verið blásin af um morguninn. Aðrir splæstu í rútu.  Ég spurði börnin hvort þau vissu hvað húsið héti sem við værum í, jú þau vissu það alveg, "Ráðhúsið í Reykjavík".

Við höfðum töluverðar áhyggjur af að vera með nóg af efni í 400 fermetra sal. Aðallega vegna hjálpar garðyrkjunnar í Reykjavík vorum við með mikið meira en nóg. Þau höfðu útbúið fyrir okkur trékubba af mikilli alúð. Við fengum töluverðar fyrirspurnir um kubbana og ætlum reyndar að lána leikskólum okkar kubba. Við þurfum hinsvegar að fá þá aftur til að nota í vor í smiðju.

Við vorum líka með einar sex stöðvar með ljósaborðum sem vöktu mikla lukku. Ein stöðin átti að vera hvítt á hvítt. Þ.e.a.s. alla vega hvítur og glær efniviður. Þegar ein lítil stúlka kom að stöðinni sagði hún, "prinsessuborð".

Tveir drengir svona 8 og 9 ára dunduðu sér í næstum þrjá tíma við að smíða kúlurennu braut. Ég lánaði þeim nokkur vasaljós, skömmu seinna sagði annar þeirra við mig. "Þessi leikskólabörn eru alltaf að stela af okkur". Guðrún Alda var með auka vasaljós og ætlaði að láta þann yngri hafa það vegna þess að sá eldri var með hin. Eldri drengurinn segir, "réttu mér það". Guðrún svarar "já en þú ert með". Sá yngri leit á hana í forundran og sagði "við erum saman". Flottir strákar.

Börnin voru mjög upptekin við að skoða hvernig ýmsir hlutir hleyptu í gegn um sig ljósi. Þau settu mismunandi litað plexígler fyrir ljósið, stundum voru börnin mjög kerfisbundin í þessu. Voru búin að sækja sér stafla, prufuðu fyrst hvern lit fyrir sig, svo fleiri liti saman, settu spegla fyrir ljósið og masonítplötur. Upprennandi verklegir vísindamenn. 

Aðrir þróuðu trommusett, og byggingar risu. Hér við hliðina má sjá albúm með myndum frá vísindasmiðjunni í dag. Við hlökkum til morgundagsins og vonum að þá komi krakkar á öllum aldri til að byggja og rannsaka.

100_6177  100_6181

 100_6192 100_6240

 100_6251 100_6225

 


Vísindasmiðja í anda Reggio Emilia

Í haust ákváðu Háskólinn á Akureyri og Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíðaað efna til samstarfs á Vetrarhátíð og setja upp vísindasmiðju í Ráðhúsinu í Reykjavík. Vísindamiðjan er sett upp í anda leikskólastarfs sem hefur þróast i borginni Reggio Emilia á Ítalíu. Augu heimsins hafa beinst að leikskólunum í Reggio í áratugi. Skólastarfið þar hefur verið valið á meðal þess athyglisverðasta í heiminum af bæði alþjóðlegum fjölmiðlum og stofnunum. 

Í Ráðhúsinu á föstudag og laugardag gefst fólki kostur á að fá að leika sér og rannsaka efnivið í anda Reggio Emilia.  Boðið verður upp á  mismunandi stöðvar með mismunandi efnivið. Áherslan verður á byggingar, ljós og skugga. Við höfum safnað í samstarfi við fjölda fyrirtækja og einstaklinga margvíslegum efnivið sem aðrir gætu jafnvel álitið rusl. En er okkar gull. Ég hvet áhugasama á öllum aldri að mæta með opinn huga og taka þátt í leik og starfi. Gefa sér færi á að kynnast og nota eigin sköpunarkraft, að vera óhræddir við að leyfa hugmyndarfluginu að komast í hæstu hæðir.

Á Íslandi eru starfrækt samtök áhugafólks um skólastarf í anda Reggio Emilia. Nýlega stóðu þau fyrir símenntunar og skólaþróunardegi á leikskólanum Stekkjarási í Hafnarfirði. Þangað komu um 150 starfsmenn leikskóla og deildu reynslu sinni saman. Um þann dag má lesa hér neðar.


Óskaleikskólinn

Fyrir nokkrum árum bað ég leikskólakennaranema að setja niður á blað hvernig þeir teldu að börn vildu hafa leikskólann, hvað ætti að einkenna starfið þar. Hugmyndina fékk ég frá  höfundi bókarinnar Palli var einn í heiminum. Jens Sigsgaard spurði börn hvað þau vildu gera ef þau mættu allt. Í tilefni þess að á morgun 6. febrúar er Dagur leikskólans ákvað ég að deila hugmyndum nemanna með lesendum. En svona telja þeir að óskaleikskóli barnanna sé.

  Að börn vilja vera í leikskóla þar sem er
  • Gleði
  • Öryggi
  • Góð samskipti  milli allra
  • Skemmtilegt starfsfólk (ekki fýlu)
  • Lifandi starfsfólk
  • Engar vinnustundir sem fullorðnir ákveða allt og stjórna

  • Ekki hópastarf oftar en 2x í viku (og hafa það oftar í formi vettvangsferða)
  • Góður salur
  • Listasmiðja
  • Byggingar megi standa (þegar maður er búinn að byggja og byggja þá er svo sárt að þurfa alltaf að rífa niður)
  • Tónlist
  • Stöðugleiki í starfsmannahaldi (ég þekki fólkið sem heilsar mér í dag og á morgun, það sé ekki alltaf að skipta)

  • Hlýlegt glaðlegt starfsfólk
  • Reglur skýrar
  • Fjölbreytileika
  • Skóli þar sem manni líður vel að koma inn
  • Vel sé tekið á móti okkur
  • Lýðræðislegur
  • Þar sem mömmu og pabba líður líka vel
  • Þar sem stöðugleiki á meðal starfsfólks
  • Þar sem ég læri eitthvað nýtt og get verið með vinum mínum
  • Frjáls leikur í fyrirrúmi

  • Upplifa njóta augnabliksins
  • Langan tíma í frjálsum leik
  • Starfsfólk sem er jákvætt og virðir okkur
  • Hlýtt hjartalag, knúsar okkur þegar við á
  • Flæði – megum fara á milli
  • Líka að vera út í náttúrunni, njóta þessa að vera til (klifra í trjám og klettum, detta í þúfum og moka sandi í fjöru)
 (og eins og sjá má voru hóparnir 5).  

Ég er ánægð með menntamálaráðherra

Ég er ein þeirra sem fagna fram komnu frumvarpi menntmálaráðherra um kennaramenntunina. Og ég fagna því sérstaklega að aldrei hafi komið annað til greina en að fara eins með menntun kennara allra skólastiganna. Ég tel að ef menntun leikskólakennara verður skilin eftir á B.ed stiginu verði það rothögg fyrir starf leikskólanna. Sem rök gegn því að menntun leikskólakennara eigi að fylgja annarri kennaramenntun er bent á manneklu í leikskólum. Fyrst má benda á að mannekla hefur ekkert með menntunina að gera. Hún er auk þess staðbundið vandmál á höfuðborgarsvæðinu. Ef það gerist hinsvegar að menntun leikskólakennara verður skilin eftir, fer öll orka stéttarinnar næstu ár í að berjast fyrir þeirri leiðréttingu, því geti ég lofað.  Leikskólakennarar munu ekki sætta sig við að verða skildir eftir sem "annars flokks" kennarastétt. Sumt það sem er ritað hefur verið á ýmsum bloggsíðum bendir til þess að það sé afar stutt í þau viðhorf að leikskólinn sé fyrst og fremst gæsla þar sem mestu skiptir að "góðar" "konur" sinni börnunum.    

Ég vil nota tækifærið og benda á að hluti af samkomulaginu um meistararéttindin er að fallið er frá því ákvæði sem nú er í lögum að allt starfsfólk hafi leikskólakennaramenntun. Samkvæmt núgildandi lögum eiga 100% þeirra sem starfa með börnum í leikskólum að vera leikskólakennarar, nú er hlutfallið fært niður í 2/3 eða um 66%. Hafa félög þeirra sem eru ófaglærðir í leikskólum löngum barist fyrir þessu. M.a. til að bæta réttarstöðu síns fólks. Hvað sem mér finnst um málið persónulega get ekki annað en glaðst með því fólki sem fær þessa réttarbót. Ég held að áhrifin af ákvæðinu verði að störf inn í leikskólanum veðri betur og öðruvísi skilgreind en nú er- hvert verður hlutverk leikskólakennarar og hvert hlutverk ófaglærðra. Ég er ekki viss um að ég sé endilega sammála þessari þróun en spái að svona verði hún.

Ég vona sannarlega að samflokksfólk mitt á þingi styðji við frumvarpið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband