Filmubútur

Föðurafi minn var áhugaljósmyndari, þegar hann dó 1976, skildi hann eftir sig dálaglegt safn slidesmynda. Myndirnar og sýningarvélin hans lentu hjá pabba. Um daginn þurfti ég bráðnauðsynlega á slidessýningarvél að halda. Ég mundi að vélin hans afa væri einhverstaðar undir súð á mínu æskuheimili.

Vélina fann ég og setti í gang. Viftan og peran bæði heil, en vélin er svo öldruð að peran er á stærð við venjulega snúna kertaperu og reimar í vélinni eru úr leðri. Nema þegar ég kem þangað sem ég ætla að nota vélina uppgötva ég að geislinn er ekki nógu skarpur, eiginlega alveg hræðilega daufur. Ég ákveð með det samme að skrúfa allt draslið í sundur og þrífa.

Hvað haldið þið að ég hafi fundið inn í vélinni?

Nema stráheilann filmubút, af Surtseyjargosi. Búturinn er vel varðveittur, en mig vantar hinsvegar enn um sinn betri vél. Nú þarf ég bara að skanna bútinn og skella hér inn. Þarf held ég einn dag með tölvunni í myndvinnslu svona almennt. 


Áhyggjur mínar af 1. gr. frumvarps til laga um leikskóla og mögulegum afleiðingum hennar

Ég er um margt ánægð með nýtt frumvarp menntamálaráðherra til laga um leikskóla. Ég er sérstaklega ánægð með að taka á út úr lögunum ákvæðið um að leikskólinn eigi að efla kristilegt siðgæði og þess í stað standi að leikskólinn eigi "að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra". 

Ég hef hinsvegar áhyggjur af og er andsnúin ákvæði  1. greinar frumvarpsins um fljótandi skil á milli skólastiga. Áhyggjur mínar varða ýmsa jaðarhópa og afleiðingar sem ákvæðið getur haft fyrir þá. Þá á ég við hópa sem standa af ýmsum ástæðum höllum fæti í samfélaginu. En ég hef líka áhyggjur af áhrifum á fyrirkomulag leikskólastarfsins og stýrandi áhrifum þess. Sérstaklega þegar að ákvæðinu verður beitt í báðar áttir. Þ.e.s. að grunnskólinn neitar að taka við börnum sem hann telur ekki tilbúinn til að hefja nám og börn sem teljast "bráðger" fara ári fyrr úr leikskólanum. Þau teljast tilbúin til grunnskólagöngu. Þetta viðhorf til þess að "vera tilbúin" er öllum ljóst sem lesa greinagerð og skýrgreinar með frumvarpinu sem og svörum menntamálaráðherra af mögulegum afleiðingum nýrra laga.  Í greinargerðinni segir: "Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að félagsþroski og námsframvinda barna ráði því hvenær þau ljúka leikskólanámi og hefji nám í grunnskóla. Þessi breyting er liður í því að gera skólakerfið sveigjanlegra með tilliti til þarfa hvers og eins nemanda þannig að þau geti farið hraðar eða hægar í gegnum skólakerfið." (undirstikun mín)

Á sérstökum vef um frumvörpin fær menntamálaráðherra spurningu hvort að frumvarpið hindri að bör geti hafið grunnskólanám fyrr eða síðar. Hún svarar: 

Nei, en við ákvörðun um slíkt er afar mikilvægt að vanda vel til verka og horfa bæði til félagsþroska og námsframvindu barna. Að slíkri ákvörðunartöku verða að koma starfsfólk leikskóla og grunnskóla, foreldrar og þeir fagaðilar sem þurfa þykir.

 

Með þessu er í raun verið að segja að öll börn séu ekki tilbúin til grunnskólagöngu og ef grunnskólinn eða aðrir meti það svo að barn sé enn þroskalega statt á leikskólastigi (hvað sem það svo merkir) sé hægt að neita barni um skólavist. Mér finnst þetta ganga gegn þeirri hugmyndafræði sem Íslendingar hafa hingað til státað sig af um skóla fyrir alla og þeir samþykktu með Salamanca yfirlýsingunni í júní 1994. Þar segir

Við lýsum yfir þeirri sannfæringu okkar að;

  • menntun sé frumréttur hvers barns og skylt sé að gefa því kost á að ná og viðhalda viðunandi stigi menntun;
  • börn séu mismunandi og hafi sérstök áhugamál, hæfileika og námsþarfir;
  • í skipulagi menntakerfis og tilhögun náms beri að taka mið af miklum mun á einstaklingum og þörfum þeirra;
  • einstaklingar með sérþarfir á sviði menntunar skuli hafa aðgang að almennum skólum og þar beri að mæta þörfum þeirra með kennsluaðferðum í þeim anda að mið sé tekið af barninu;
  • almennir skólar séu virkasta aflið til að sigrast á hugarfari mismununar, móta umhverfi sem tekur fötluðum opnum örmum, móta þjóðfélag án aðgreiningar og koma á menntun öllum til handa; enn fremur megni þeir að veita þorra barna góða menntun og stuðli að skilvirkni menntakerfisins í heild og bæti, þegar til lengdar lætur, nýtingu fjármuna.

 

Mér finnst eins og á vissan hátt sé verið að fría grunnskólann undan þeirri skyldu sinni að vera tilbúinn fyrir öll börn. Því samkvæmt t.d. Salamanca er það skólinn sem á að vera tilbúinn til að mæta barninu en ekki barnið að mæta skólanum. Auðvitað fer fram undirbúningur undir grunnskólann í leikskóla, en fyrst og fremst á leikskólinn að undirbúa börn undir lifið, og grunnskólinn er sannarlega stór þáttur í lífi flestra barna.

Ég verð að viðurkenna að ég er með létt óbragð í munninum yfir þessari grein og vona að henni eða túlkun hennar verði breytt í meðförum þingsins. Ég vona sannarlega að samfylkingarfólk á Alþingi sé vakandi fyrir því að verja samfélag félagslegs réttlætis og jöfnunar. Samfélags jöfnuðar til menntunar. Hvert skólastig á auðvitað að mæta hverju barni eins og það er statt, það eru mannréttindi barna. Ég veit ekki hvað foreldrum, börnum eða grunnskólanum fyndist um áhrif seinkunnar þegar á unglingsárin er komið. Þegar í bekkjum yrðu að jafnaði 3- 4 árgangar börn á aldrinum 12 -15 ára saman í bekk. Við vitum að þetta er kannski ekki mikið mál á leikskólaaldri en getur orðið stórmál þegar fram í sækir.  

 

 


Vísindasmiðja fyrir börn og fullorðna í Ráðhúsinu í Reykjavík 8 og 9 febrúar

 

 

 
og svona byggðu stelpurnar
 
   
      Föstudaginn 8. febrúar frá kl. 13.00 - 16.00 og laugardaginn 9. febrúar kl. 11.00 - 14.00 í Ráðhúsi Reykjavíkur 
 

Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og Leikskólabraut Háskólans á Akureyristanda sameiginlega fyrir vísindasmiðju um byggingar, ljós og skugga fyrir börn og fullorðna í Ráðhúsi Reykjavíkur.  

Ætlunin er að byggja úr fjölbreyttum endurnýtanlegum efnivið. Efnivið sem er bæði gagnsær og ógangsær. Sérstakur gaumur verður gefinn hvernig hægt er að nota ljós og skugga til að auðga byggingarleik. Þetta er smiðja þar sem einu takmarkanir byggingameistarans eru hans eigið ímyndunarafl. 

                                                 

Allir velkomnir.

Vísindasmiðjan er ætluð börnum á öllum aldri.

Tengiliðir:  Guðrún Alda Harðardóttir, leikskólaráðgjafi hjá Rvk  og dósent við HA S: 8471230, netfang: gudrun@unak.is

 

Kristín Dýrfjörð, lektor við Háskólann á Akureyri, S:  8974246, netfang: dyr@unak.is

 Afmæli Gunnhildar Evu

Skólaþróunardagur SARE

Starfsfólk 13 leikskóla mætti snemma á laugardagsmorgun í leikskólann Stekkjarás í Hafnarfirði til að verja deginum í að ræða um starfið sitt. Það mætti til að kynna fyrir hvert öðru hvað það er að gera, hvernig það gangi og hvert það stefni, það mætti til að tala saman og til að læra saman.


 

Aðspurð sagði einn fyrirlesarinn mér að hún væru búin að vera alla vikuna að undirbúa erindið og það hefðu verið afar lærdómsríkt. Hún hefði notað tækifærið og farið yfir starfið, mátað það sem þær eru að gera við fræðin. Þetta hafi styrkt hennar áherslur og gert hana öruggari í því sem hún er að gera. Ég held að sama megi segja um fleiri.


 

Einn leikskólakennari sagði við mig með gleði í röddinni, Kristín mér finnst eins og ég sé kominn 20 ár aftur í tímann. Hún sagði „veistu að í dag fer maður ekki svo á ráðstefnu að það sé ekki fyrirtæki út í bæ sem heldur um allt, er á stórum hótelum í flottum sölum“. Á Stekkjarási skiptum við fólki upp í hópa, inn á deildir, sumir fengu fín sæti aðrir sátu á verri stólum. En öllum virtist sama, því fólk var upptekið af innihaldinu. Ég held að minning viðmælanda míns hafi tengst grasrótarstarfinu og þeirri grósku sem átti sér stað í leikskólastarfinu fyrir 20 árum, þegar þróunarsjóður leikskóla var nýstofnaður, þegar við vorum að stofna félagið okkar. Þegar framhaldsnámið var að fara af stað. Þegar hver einasti fagfundur var svo vel sóttur að færri komust að en vildu.


 

Á heimleiðinni sagði Guðrún Alda við mig, þetta hefði nú geta misskilist þetta með afturhvarfið, ef einhver ungur leikskólakennari eða starfsmaður hefði verið að hlusta. En af því að við vorum báðar virkar í félagstörfum fyrir 20 árum vissum við hvað viðkomandi var að fara.  


 

Andinn á Stekkjarási á laugardaginn minnti okkur fleiri á þennan skemmtilega tíma og ég er viss um að við eigum eftir að upplifa marga svona daga í framtíðinni.

Næstu daga mun ég reyna að finna tíma til að skella inn myndum, ég vona að það verði fyrr en seinna.

Þeir sem hinsvegar vilja skoða glærur Sigríðar Jónsdóttur, leikskólastjóra á Funaborg um það að svara börnum með jái í 99% tilfella, geta smellt á slóðina hér að neðan.

http://funaborg.is/images/stories/Skjol/HagnytarUpplysingar/a_segja__jai_99__tilfella.pdf


Svei umsögn borgarinnar um menntunarfrumvarp kennara - afturhaldssemi og fordómar

Vonbrigði, vonbrigði, vonbrigði. Mér finnst umsögn borgarinnar bera vott um skort á framsýni í leikskólamálum. Hvernig dettur fólkinu í hug að það þurfi og eigi að gera aðrar menntunarkröfur til leikskólakennara en t.d grunnskólakennara? Þessi umsögn ber vott um að hræðslu og hræðsluáróður. Mér finnst hún byggja á virðingarleysi fyrir leikskólanum og því starfi sem er þar. 

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að takmarkið náist 1.2. og þrír heldur að það geti tekið lengri tíma, það er gert ráð fyrir að þeir sem útskrifist með 1 gráðu (B.ed próf) hafi starfsréttindi í leikskólanum sem séu þó víkjandi þegar meistari sækir um. Leyfi ég mér jafnframt að benda á eftirfarandi heimild í 23 gr. frumvarpsins;

"Einstaklingar sem hafa lokið bakkalárprófi á sviði uppeldis- og kennslufræða, og aðrir þeir sem hafa sambærilega menntun sem nýtist til starfa í leikskólum, skulu njóta forgangs umfram aðra við ráðningu í störf í leikskólum samkvæmt þessari grein."

Mönnunarvandi leikskólanna - margþættur

Miðað við mannfjöldaspár má reikna með að fjölgun barna í landinu standi í stað eða jafnvel að þeim fari fækkandi á næstu áratugum. Miðað við þá uppbyggingu sem þegar hefur átt sér stað í leikskólum má ætla að ekki þurfi að byggja leikskóla jafn mikið og hratt og gert hefur verið undanfarin 10 ár. En á það skal líka bent að undanfarin 10 ár hefur menntun og inntaka í leikskólakennaranám ekki fylgt fjölgun leikskólarýma. Það er m.a. hluti af mönnunarvandanum fyrir utan starfsaðstæður í leikskólum sem eru mannskemmandi bæði fyrir börn og starfsfólk. Þá á ég við fáránleg mörk um fermetra sem leiða til marháttaðra vandamála. Rískasta (og stundum nískasta) þjóðfélag í heimi hefur stappað börnum inn í leikskóla eins og síld var stappað í tunnur hér áður fyrr.  Allt af því að hún sér eftir þeim peningum sem fer í að byggja hús utan um börnin.

Í fyrsta sinn er löglegt að ráð ófaglært fólk - bætt réttarstaða 

Mér finnst borgin líka gleyma því að nú er gert ráð fyrir í fyrsta sinn að það sé löglegt að ráða aðra en leikskólakennara til starfa með börnum.  Hluti af samkomulaginu um lögverndun og meistaragráðuna er að nú er gert ráð fyrir að 2/3 hluti starfsmanna sé leikskólakennarar og 1/3 ófaglærður. Veit ég að stéttarfélög þessa hópa fagna ákvæðinu - enda lengi beðið um það. Varðandi lögverndun þá skiptir hún máli. t.d. er ekki hægt að bjóða upp á kennsluréttindanám til starfa í leikskólum eins og gert er grunnskólum vegna skorts á ákvæði um leyfisbréf og kennsluréttindi. Í landinu starfa fleiri hundruð manns sem gætu nýtt sér slíka námsleið en hún er þeim lokuð núna. Þessi hópur horfir til lögverndunarlaganna.  

Það er rétt hjá borginni að menntunarskortur leikskólakennara hefur ekki staðið starfinu þar fyrir þrifum, það hafa þeir hinvegar sjálfir gert með pínlegum fjárhagsáætlunum.

af vef ruv

"Borgarráð gagnrýnir kennarafrumvarp

Borgarráð Reykjavíkur gerir alvarlegar athugasemdir við ríkisstjórnarfrumvarp til laga um ráðningu kennara og hafnar þeirri meginbreytingu, sem boðuð er með frumvarpinu, að meistaragráðu sé krafist til að geta kennt við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Borgarráð segir í umsögn sinni að frumvarpinu sé ætlað að leysa af hólmi lög frá 1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Veigamikil breyting felist í því að frumvarpið taki einnig til leikskólastigsins og boði að starfsheiti og starfsréttindi leikskólakennara og leikskólastjóra því verði lögvernduð.

Í frumvarpinu eru ítarleg ákvæði um fyrirkomulag ráðninga, auglýsingaskyldu, mat á umsóknum, ráðningarsamninga og uppsagnarfresti. Borgarráð leggst eindregið gegn því að með þessum hætti sé í lögum kveðið á um atriði sem fyrst og fremst eigi heima í kjarasamningum. Slík ítarleg lagasetning stangist meðal annars á við þá meginreglu í sveitastjórnarlögum, þar sem segir að um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga fari eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og/eða ákvæðum ráðningarsamninga. Í frumvarpinu séu ákvæði sem kveða á um að leyfisbréf til þess að nota starfsheitin leikskólakennari, grunnskólakennari og framhaldsskólakennari séu skilyrði fyrir ráðningu.
Sambærileg lagaákvæði þekkist hvorki um aðrar starfsstéttir hjá sveitarfélögum né í öðrum lögum sem kveða á um lögverndun eða löggildingu tiltekinna starfsheita og/eða starfsréttinda. Sú löggjöf sem frumvarpinu sé ætlað að leysa af hólmi hafi verið sett til þess að tryggja að kennarar héldu öllum réttindum sínum við það að grunnskólinn var færður frá ríki til sveitarfélaga. Þau rök eigi ekki við nú og þannig ekkert sem kalli á að um þessa starfsstétt gildi annað en aðrar starfsstéttir sem vinna hjá sveitarfélögum. Hafi það ekki valdið erfiðleikum að slík ákvæði hafi ekki gilt um leikskólakennara.
Í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við, segir í umsögn borgarráðs, er hvergi gerð krafa um meistararéttindi vegna kennslu og uppeldis barna frá 0-5 ára aldurs. Akkilesarhællinn í starfi leikskóla Reykjavíkurborgar er ekki menntunarskortur leikskólakennara heldur skortur á menntuðum kennurum. Þá segir að fullt tilefni sé til að hafa þungar áhyggjur af því hvaða áhrif lenging kennaranáms muni hafa fyrir mönnun starfa í leikskólum og grunnskólum. Hætt sé við að einsleit krafa um meistaragráðu til að starfa á leikskólum muni frekar fæla frá hæft starfsfólk leikskóla sem áhuga hefur á að tryggja starfsöryggi sitt og bæta við sig styttra námi í því skyni."


löglegt en siðlaust

Ég er ein þeirra fjölmörgu Reykvíkinga sem horfði á beina útsendingu frá ráðhúsinu. Ég varð vitni að því þegar mótmælin fóru úr böndunum. Frá upphafi átti e.t.v. ekki að kalla uppákomuna mótmæli heldur opinbera vandlætingu. Því þó flestum okkar hafi þótt illa farið með lýðræðislegan rétt borgarfulltrúa þegar Villi lagðist á Ólaf og af því er virðist með lygar í farateskinu, þá var þetta ekki ólöglegur gjörningur. Eins og annar fyrrum samherji minn úr pólitík sagði, „löglegt en siðlaust“.  Vilhjálmur situr upp með þann kaleik að verða dæmdur af sögunni sem siðlaus pólitíkus.


Ég skil vel unga fólkið sem var misboðið en það réttlætir ekki dónaskap sem því miður örfáir sýndu. Ég var ekkert ofurkát að heyra rök þeirra sem voru í forsvari. En ég get skilið þau. Hinsvegar leiðist mér að heyra hvernig víða er fjallað er um mótmælin. Aðferðafræðin er vel þekkt og um leið og ég sá hvað var að gerast á pöllunum, vissi ég að því miður höfðu þessir örfáu fært upp í hendurnar á sjálfstæðimönnum vopn hneykslunar og sjálfsréttlætingar. Þetta er nefnilega sama aðferðarfræðin og við notum þegar við ræðum um unglingana okkar, það eru örfáir sem haga sér e.t.v. illa en samfélagið talar um agalausan skríl sem verði að koma böndum á. Ég vona að unga fólkið sem tók þátt í mótmælunum hristi af sér þessa umræðu og læri af henni. Afleiðingin verið sú að fjöldi fólks eigi eftir að sitja oft á pöllum næstu tvö árin og sýna vandlætingu sína. Setja upp þöglan fyrirlitningarsvip gagnvart siðlausum pólitíkusum.


Mér leið illa að horfa á Ólaf í pontu, ég fann verulega til með manninum. Og ég ætla engum svo illt eða slíkt siðleysi að hafa haft það sem markmið að brjóta manninn niður. Væntanlega og vonandi þarf meira til, upp á það hefur hann líka skilað inn vottorði.


En fari svo að Ólafur haldi ekki heilsu, þá á ég þá von að nýi minnihlutinn leyfi Sjálfstæðisflokknum að stjórna til loka kjörtímabilsins. Ég skal viðurkenna að ég er með hroll vegna hinna nýju valdhafa en mér finnst hvorki, borgarbúum eða stofnunum þess bjóðandi upp á þriðju stjórnina á kjörtímabilinu. Minnihlutinn á að greiða atkvæði með málefnum og annars sitja hjá. Á að sýna hvað hann er stór. Það á að láta sjálfstæðimenn standa frammi fyrir kjósendum og svara fyrir verk sín í næstu kosningum. Ég hef enga trú á að hið fræga gullfiskaminni nái tökum á kjósendum. Ég held að núverandi meirihluti hafi undirritað pólitíska aftöku sína.


Ingibjörg Kristleifsdóttir - nýr varaformaður í Félagi leikskólakennara

Er með tvær hamingjuóskir á dagskránni. Í Félagi leikskólakennara gerðist það í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir endurreisn þess sem stéttarfélags fyrir 20 árum að það komu fram tvö framboð til varaformanns. Tvær mætar konur vildu leggja á sig það hlutverk í þágu allra hinna að gæta hagsmuna þeirra og barnanna okkar. Úrslit voru afgerandi en samtímis þannig að báðar geta verið stoltar af. Ingibjörg Kristleifsdóttir sem var kjörin varaformaður hlaut rúm 54% atkvæða og Marta Dögg Sigurðardóttir fékk tæplega 44%, atkvæða. Ég óska þeim báðum hjartanlega til hamingju. 

Svo horfði ég á sjónvarp frá Alþingi í dag, þar var menntamálaráðherra að svara fyrirspurn um Háskólann á Akureyri. Sagði meðal annars að ein stærsta útstöð HA væri hennar eigin heimbær, Hafnarfjörður. En þar er skólinn í samstarfi við öfluga fjarkennslumiðstöð.

 

Meðal þeirra sem stigu í stól er ung varaþingkona Vinstri grænna úr Norðausturkjördæminu, Dýrleif Skjóldal nemi við leikskólabraut HA. En meðal þess sem hún nefndi var þær gríðarlegu breytingar sem hafa orðið á Akureyri í leikskólamálum eftir tilkomu leikskólabrautarinnar þar. Fáir geta státað af jafn mikilli mönnun fagfólks á leikskólum eins og Akureyrarbær, meðaltalið er um 70% á meðan landsmeðaltalið er nærri 40%. Þetta má rekja beint til HA. Ég vil nota tækifærið og þakka varaþingkonunni ungu að beina kastljósinu að gleðilegum fréttum af leikskólum. Til hamingju með að nota það tækifæri sem þér gefst til að koma málefnum barna á framfæri.  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband