8.7.2008 | 19:48
Sitthvað að dedúa og kláraði pallinn
Ég hef varla komið inn fyrir dyr undafarna daga. Verið í garðinum að dedúa. Nú er hesthúspallurinn tilbúinn til notkunar og við öll í húsinu held ég bara nokkuð ánægð með árangurinn. Ég skrapp í IKEA og keypti tréflísarnar eftir að hafa rætt við Líney á næstu hæð. Í gær kom sonurinn með úrsnara, tilkynnti mér að áður en ég skrúfaði yrði ég að bora með honum í hverja einustu flís þar sem skrúfan ætti að vera og ég boraði í hverja einustu flís. Síðan var að koma fyrir spýtum undir og festa allt saman. Ég var svo heppinn að Davíð leit sem snöggvast upp úr doktorsritgerðinni sinni og við hjálpuðumst að við að festa flísarnar niður, settum smá munstur í miðjuna meira að segja.
hesthúspallurinn - nýsmíðaði
Lilló og Palli að njóta sumarblíðu á hesthúspallinum í morgun (8. júlí)
og svona líta herlegheitin út í dagsbirtu
Annars hefur verið frekar gestkvæmt hér, gömul vinkona og sambýliskona okkar, hún Sigga Vala er á landinu og kom til okkar með börnin sín fjögur í heimsókn. Þetta er hin myndarlegasti hópur sem hún á. Dæturnar þrjár búa og starfa hér á landi, alla vega um sinn, en yngstur er 9 ára drengur. Hann undi sér hér í garðinum við kubba og dót sem við létum útbúa fyrir vísindasmiðjuna í Ráðhúsinu vetur. Það var gaman að hitta þau öll og það verður að segjast eins og er gamall vinskapur lifir lengi og á endanum er það að hittast eins og við höfum síðast hitts í gær.
Nú erum við pössunarpíur fyrir brúðhjón helgarinnar sem smelltu sér í sund. Lilló búinn að spila á gítar ljúfar ballöður fyrir piltinn unga svo á hann sótti svefn, hann sefur nú undurfallega við hlið mér í stól.
Áróra á loftinu skrapp með pabba sínum í Nauthólsvík, þegar hún kom heim varð hún fyrir svolitlum vonbrigðum með að Sturla væri farinn. Er Sturla ekki heima?, spurði hún. Hann hefur verið svo mikið hér undafarið (í pössun á daginn) að henni finnst hann bara eiga sitt annað heimili hér.
Ómi og Kung Fu Panda
Vinir og fjölskylda | Breytt 9.7.2008 kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.7.2008 | 12:54
Hjónavígsla af fornum sið
5.7.2008 | 13:10
Brúðkaup í dag
Í dag ætlar vinafólk okkar að gifta sig að heiðnum sið. Lilló er búinn að vera upptekinn við ræðuskrif og gítaræfingar, ég hef hinsvegar aðallega verið að hugsa um lausnir varðandi hesthúspallinn í garðinum. Ég komst að niðurstöðu sem flestir í húsinu er nokkuð sáttir við og byrjaði að vinna í henni í gær. Þvingaði Lilló með mér í Húsasmiðjuna í timburkaup í morgun. Ákvað að riðfríar skrúfur og möl geti beðið morgundagsins. Það er nefnilega opið í Húsasmiðjunni á morgun bara ekki timbursöludeildinni. Stefni að því að pallurinn verði nothæfur til íveru seinnipartinn á morgun. Svo framalega sem við verðum ekki framlág eftir brúðkaup.
Ég hlustaði á hádegisfréttir og tek undir með þeim sem þar töluðu til varnar keníska flóttamanninum. Mér finnst íslensk stjórnvöld til skammar í þessu máli. Stundum er ég að hugsa um hvernig við túlkum samninga, suma viljum við túlka sem þrengst, en aðra lítum við á sem viðmið. Þá eiga allar sérreglur heimsins að gilda um okkur. Rökin eru í báðum tilfellum, af því bara. Af því bara að ...
En ætli það sé ekki best að fara að búa sig til veislu, vígslan verður undir berum himni eftir u.þ.b. tvær stundir.
Síðustu daga hefur Sturlubarnið verið hjá okkur á daginn og það haft áhrif á dagskrá heimilisins. Við fórum með hann í gær í fyrsta sinn í leikskóla, ekki hans eigin heldur frænku hans, hennar Diljá. Hún er á Njálsborg og þar var haldin sumarhátíð. Diljá var fyrst svolítið hissa á að hitta okkur en jafnaði sig á því og varð eftir það hin glaðasta. Hinni pabbi hennar Diljá stóð við grillið allan tímann og handlék pylsur og brauð af mikilli list. Svo var búið að fá lánaðan hoppkastala og einn afi (reikna ég með) spilaði á harmonikku og einn pabbi mætti með lítið trommusett og nokkur ásláttar hljóðfæri. Úr varð mikið djamm í leikskólagarðinum. Sturlubarnið fékk að skríða aðeins á jörðinni, í grjótinu og ljósbláu buxurnar hans urðu vel skítugar. Ég sagði við Eddu leikskólastjóra að hann þyrfti að æfa sig í þessu og foreldrarnir að æfa sig í að taka ámóti honum skítugum. Ég hef nefnilega aldrei skilið þegar fólk reiknar með að börn komi heim af leikskólanum í jafnreinum fötum og þau fóru eða stress starfsfólksins að halda fötum barnanna hreinum. Leikskólar eru í eðli sínu staðir til að skíta sig út. Þar eru atkvæðamikill börn sem eru að kanna tilveruna. Hluti af því er að verða skítugur og vita að það er í lagi. Svo er á flestum heimilum ágætis þvottavélar, fyrir utan að flest börn eiga orðið svo mikið af fötum að þau komast varla yfir að fara í þau öll.
Við þurftum að drífa okkur heim en stoppuðum samt við í Vörðunni og keyptum eitt stykki hókus pókus stól. það var svo gestaþraut gærkvöldsins að setja hann saman. Ástæða þess að við þurftum að drífa okkur var að klukkan hálf sjö átti ég von á ljósmyndara frá mogganum. Hann kom til að taka myndir af mér ELDA. Á morgun birtist sem sagt í mogganum uppskrift af súpu frá mér. Frekar fyndið. En ástæða þess að ég var beðin um uppskriftina var að súpan í fimmtugs afmælinu hennar Systu. Hún spurðist út. Ég kom heim rétt fyrir fimm og skellti mér í súpugerðina. Krakkarnir gáfu mér mandólín hníf frá Kokku í jólagjöf sem ég hélt að ég myndi lítið nota. Nú er ég komin upp á lagið með að skera grænmetið í honum, allt voða flott og hver einasta gullrótarsneið jafnskorin. Ljósmyndarinn mætti svo á tilsettum tíma, þá var súpan tilbúin og líka brauðið sem ég skellti í með. Allt ljósmyndað í bak og fyrir. Aðalvandamálið við súpugerðina var að ég þurfti að skrifa allt niður jafnóðum og ég eldaði, ég á nefnilega ekki uppskrift og hún er í raun alltaf síbreytileg, ákveð að skella oggu af þessu og oggu af hinu. Íris kvað upp um að súpan væri hin besta og vona ég að ef einhver leggur í að elda hana, reynist það rétt.
Í dag eigum við svo von á næturgestum en Palli og Liv ætla að gifta sig að heiðnum sið á laugardag. Til brúðkaupsins koma gestir víða að úr heiminum meðal annars frá Noregi, heimalandi brúðarinnar. Við vorum beðin um að hýsa einhverja þeirra í nokkra daga. Lilló er þessa daga að æfa söng og gítarspil með Dedda frænda sínum en þeir ætla víst að spila í veislunni.
Jæja er annars að velta fyrir mér fréttum að REI og hvað sé í þeim pakka, meðferð okkar á flóttafólki, og ég hef eins og aðrir áhyggjur af atvinnuástandi og fjármálum heimilanna og viðbrögðum stjórnvalda. ég vona að okkur beri samt gæfu til að nýta þetta sem tækifæri til að endurforgangsraða í lífinu. Að við leyfum okkur að setja fjölskylduna og börnin ofar en nú er gert. Setja tíma okkar með börnunum ofarlega ef ekki efst.
ps. Við sem erum yfirleitt alltaf með myndavél á okkur vorum það ekki í gær, því miður engar myndir til hjá mér enn af þessum fyrsta degi Sturlubarnsins í leikskóla.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.7.2008 | 22:07
Með köttinn í göngutúr
Skrifstofan mín er á neðri hæð hússins, en þar sé ég ekki út sem mér finnst alveg ferlegt. Vegna þessa vinn ég alltaf á efri hæðinni, sit við borðstofuborðið og á í fjarsambandi við mannlífið í götunni. Mér er þetta fjarsamband alveg nauðsynlegt, nógu getur verið einmanalegt að vinna ein heima alla daga.
Í götunni minni er nokkur umferð, ekki bíla heldur gangandi fólks. Fólkið í hverfinu, túristar, fólk úr úthverfum, fólk sem einu sinni átti heima í götunni. (Það kemur alltaf annaslagið fyrir að hér bankar upp á fólk sem átti einu sinni heima hér, átti afa og ömmu hér, fólk sem vil fá að kíkja niður í garð eða bara skoða hvort húsið er eins og það mundi). Á ferðinni í götunni minni er fólk sem fer með börnin í gönguferðir og sumir hundana sína.
Ég held hinsvegar að einn nágranni minn slái ýmsu við. Hann er vanafastur og gengur sama hringinn um svipað leyti á hverju kvöldi. Það sem gerir þessar gönguferðir hans sérstakar er að hann er úti að ganga með köttinn sinn. Kötturinn þarf stundum að stoppa og skreppa inn í garða og þegar nágrannann fer að lengja eftir kisa, hringlar hann lyklunum sínum og kisi kemur skoppandi. Ég er búin að sjá og fylgjast með þessum nágranna mínum á öllum árstímum, alltaf á sama tíma, alltaf sama hringinn. Rétt í þann mund sem ég settist við tölvuna áðan gekk hann hjá og ég heyrði hringlið í lyklunum.
Það má vera að ég sjái ekki fjöll, en ég hef mannlíf. Fyrir mörgum árum átti ég samræðu við son minn um mögulega búsetu. Hann sagðist ekki geta hugsað sér að flytja í hverfi sem svæfi. Þar sem ekki væri umferð gangandi fólks. Hann er alinn upp í miðbænum, fólkið er hans fjöll.
1.7.2008 | 01:37
Sturlubarnið verður örugglega KRingur
Þessa vikuna er Sturlubarnið hjá afa og ömmu á daginn. Þar sem hann er farinn að standa upp og ganga með öllu sem hann getur, tókum við á það ráð að útbúa eina hillu með dótinu hans. Hillu sem er í hans hæð og hann þarf að hafa aðeins fyrir að nálgast. Þar röðum við dollum, glösum, boltum, hinum sívinsæla og ástsæla Hómer og öðru því sem við teljum að gleðji lítinn mann. Sturlubarnið er orðinn nokkuð fær í að ferðast um þessar slóðir. Skríður þangað, reisir sig við og finnur sitt dót. Í dag uppgötvaði hann hinsvegar að það er hilla fyrir ofan hilluna hans og þar er enn meira spennandi dót. Þessi merka uppgötvun varð til þess að við sáum hvað klifureðlið kemur snemma fram. Sturlubarnið bar sig að eins og pró. Reyndi að beita sömu þekkingu og hann notar til að komast um lárétt plan, skriðtæknina, en nú í lóðréttu plani. Hann hafði reyndar ekki árangur af erfiðinu, en einhvernvegin grunar ömmu að þetta hafi bara verið fyrsta tilraun, þeim eigi eftir að fjölga með auknu verkviti og öruggari hreyfingum. Sturlubarnið er nefnilega afar varkár þegar hann er á tveimur fótum. Amma er búin að sjá út að hann beitir ákveðinni tækni til að færa sig á milli sumra staða. Hann sleppir ekki haldi af fyrri staðnum fyrr en hann hefur örugga handfestu þar sem hann ætlar sér. Hann á það hinsvegar til að sleppa sér ef hann er með eitthvað áhugavert í höndunum, eitthvað sem krefst beggja handa. En þau augnablik eru enn sem komið er víkjandi.
Annars er Sturlubarnið búinn að uppgötva að henda hlutum, ekki bara úr barnastólnum eða kerrunni heldur líka þar sem hann situr á gólfinu. Afi segir henda og Sturlubarnið hendir. Nú þarf að kenna honum að grípa. Hitt sem hann er upptekinn af þessa daga er að skríða upp að hlutum og setjast þar með bakið upp við. Hann pressar sig upp við veggi og skápa. Situr og horfir á okkur athugulum augum.
Í dag fékk Sturlubarnið að fara með ömmu á fund, við löbbuðum inn í Laugardal í þessu líka fína veðri. Þegar á fundinn kom var hann pínu feiminn. Hann hafði nefnilega aldrei hitt þessar konur fyrr og þá var nú gott að halla sér að öxlinni á ömmu. Ömmu finnst það hið besta mál að Sturlubarnið bregðist svona við fólki sem hann er að hitta í fyrsta sinn. Með því sýnir hann meðvitaða varkárni og auðvitað er þetta líka merki um ákveðinn þroska. En eftir smá stund var hann búinn að jafna sig og þá voru þessar konur bara nokkuð áhugaverðar, máttu meira að segja gefa honum barnamat. Annars var hann ljúfur sem lamb allan fundinn og við komust yfir að ræða allt sem ætlunin var að ræða.
Sturlubarnið er félagsvera hann er sérstaklega áhugasamur um önnur börn, reynir hvað hann getur að ná í þau. Það er óskaplega gaman að sjá hvað viðbrögð hans við börnum eru allt öðruvísi en viðbrögð hans við fullorðnum. Aha þarna er vænlegur leikfélagi gæti hann verið að hugsa. Um daginn þegar við afi vorum með hann á kaffihúsi og hann átti að sofa reif hann sig alltaf upp. Á endanum gáfumst við upp (við erum dáldið léleg í að vera hörð við hann) og leyfðum honum að sitja í vagninum. Á næsta borði sátu Spánverjar og töluðu hátt. Hann sat lengi eins og bergnuminn og horfði á munninn á þeim.
Nýjasti leikur minn með Sturlubarninu er að fara með Fagur fiskur í sjó og strjúka á mér lófann á meðan, Sturlubarnið horfir á og í þann mund sem ég segi "fetta, bretta, nú skal högg á hendi detta" skellir hann hendi inn í lófann á mér og hlær svo þegar ég læt skella. Og svo segi ég aftur, detta og við endurtökum endinn þrisvar. Og svo aftur þrisvar, eins og í ævintýrunum, allt þrítekið.
Svona að lokum þá náði afi í KR peysuna sem pabbi Sturlubarnsins fékk þegar hann var tveggja og klæddi hann í hana. (Hann var held ég að vonast eftir að KR ynni leikinn í kvöld sem þeir og gerðu en sennilega verður leikurinn lengur í minnum manna fyrir annað). Peysan er hinsvegar vel við vöxt. Til uppl´syingar læt ég fylgja með mynd af ungum KR-ing (nema að hann verði FH-ingur).
ps. Ég hef verið spurð svolítið um hversvegna ég kalli Sturlu, Sturlubarn. Á því er afar einföld skýring, þegar hann var nýbúinn að fá nafnið sitt (sem við glöddumst óendalega yfir) fannst mér samt skrýtið að skrifa Sturla um annan en son minn sem lést fyrir nokkrum árum. Mér fannst það einhvernveginn allt annað að segja Sturla en skrifa það. Enn um stundir verður Sturlubarnið - Sturlubarn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 02:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2008 | 19:13
Lögverndun starfsheitis leikskólakennara
Ég hef undafarna daga verið að velt fyrir mér ýmsum áhrifum nýrra laga um lögverndun starfsheitisins leikskólakennari. Meðal þess sem kemur fram í lögunum er að gert er ráð fyrir að allar lausar stöður leikskólakennara séu auglýstar reglulega. Hingað til hefur starfsheiti leikskólakennara og áður fóstra ekki verið lögverndað. Verndin lá í lögum um leikskóla þar sem kveðið var á um að allir sem störfuðu með börnum í leikskólum ættu að vera leikskólakennarar. Þar var ekki sérstaklega gert ráð fyrir öðrum starfsstéttum og því þurftu ekki að vera til starfslýsingar fyrir aðra en leikskólakennara. Allir sem unnu með börnum á deildum unnu sjálfkrafa samkvæmt starfslýsingum leikskólakennara. Samkvæmt nýju lögunum er gert ráð fyrir að 2/3 þeirra sem starfi með börnum séu leikskólakennarar en þar er íka gert ráð fyrir að í þriðjungi staða sé ekki nauðsynlegt að hafa leikskólakennaramenntun. Með þeirri ákvörðun er verið að koma til móts við ríkjandi ástand og gera þeim sem hafa verið í þessum störfum kleift að semja um aukin réttindi.
Nú má velta fyrir sér hverjir verði í þeim stöðum sem eru ekki sérstaklega eyrnamerktar leikskólakennurum. Verða það "leikskólaliðar" og fá þá þeir þá sérstaka starfslýsingu? eins og framkoma hér að framan hefur hingað til allt starfsfólk leikskóla unnið samkvæmt starfslýsingu leikskólakennara, það er ljóst að það á eftir að breytast. Ljóst er að það verður að vinna að gerð alla vega tvennskonar starfslýsinga, þ.e. leikskólakennara og ófaglærðra.
Annað sem ég velti fyrir mér er ef að ekki fást leikskólakennarar í allar þær stöður sem þeim eru ætlaðar (2/3 hluta), vinna þeir sem eru í sannarlegum stöðum leikskólakennara samkvæmt verklýsingu leikskólakennara eða aðstoðarfólks? Og ef þeir vinna samkvæmt starfslýsingum leikskólakennara, eiga þeir þá að vera á öðrum launum en aðrir ófaglærðir og eiga t.d. rétt á að vera í sama stéttarfélagi og leikskólakennarar? Hvernig er það t.d. með leiðbeinendur í grunnskólum eru þeir í stéttarfélagi grunnskólakennara eða í verkalýsðfélögum í sínu bæjarfélagi? Og hvernig er það með annað aðstoðarfólki í grunnskólanum eins og stuðningsfulltrúa? eru þeir í KÍ eða viðkomandi BSRB verkalýsðfélagi eða ASÍ verkalýðsfélagi? Ég reikna með að alla vega stéttarfélag leikskólakennara hafi verið farið að huga að þessu nýja landslagi fyrir löngu og farið að ræða við sína félagsmenn þó svo að ég hafi ekki frétt það (enda ekki í KÍ).
Hvort er betra fyrir starfsmann sem hefur lengi unnið sem leiðbeinandi að vera í stöðu sem á að auglýsa reglulega eða vera í "aðstoðarstöðunni"? hvorum megin eru a) betri laun b) meira starfsöryggi?
Ég er með þessum pistli að hugsa upphátt, en þetta er sjálfsagt veruleiki sem er til umræðu í mörgum leikskólum í dag. Og eins og ég sagði hér að ofan kannski eru öll svörin þegar fyrir hendi.