19.7.2008 | 22:28
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn
Hvað er betra á góðum degi en að verja honum með fjölskyldunni. Það er nokkuð langt síðan ég fór síðast í fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Í dag fórum við þangað. Garðurinn er staður margra tækifæra. Tækifæra til þess að prófa nýja hluti, tækifæra til að vera saman með fjölskyldunni, tækifæra fyrir börn að hitta önnur börn, nálgast þau og tala við þau.
Allt þetta fékk Sturlubarnið að prófa í dag. Hann sá og snerti dýr sem hann vissi ekki einu sinni að væru til, hann fékk að skríða um og rannsaka umhverfið, hann fékk að fara í hringekju og í litlu lestina. Með honum var frækna hans hún Diljá og líka Guðmundur Páll vinur minn. En myndir segja meira en mög orð og læt ég nokkrar fylgja með.
Eitt samt. Það væri í lagi að hafa tækin í betra lagi, litlu bílarnir voru rafmagnslausir, allar gröfur rafmagnslausar og allt of fári bátar á vatninu. Sá allavega tvo liggja óvirka á bakkanum. Svo fékk ég tækifæri til að líta í vísindatjaldið, þar er margt skemmtilegt og vel útfært.
og hér má sjá Sturlubarnið alveg búinn á því eftir langan og skemmtilegan dag með mömmu, pabba, Svavari afa, Pöllu ömmu, Hinna frænda, Hörpu og uppáhaldsfrænkunni henni Diljá, og svo auðvitað Guðmundi Páli og ömmu Kristínu. Lilló afi var að vinna og missti af öllu saman.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.7.2008 | 22:48
Eins og svarthol í skammdeginu
Litir og birta hafa mikil áhrif á líðan margra, þ.á.m. mína. Litur sem er í lagi á björtum sumardögum verður eins og svarthol í umhverfinu í myrkri, rigningu og skammdegi. Mér finnst t.d. húsið á Lækjartorgi sem merkt er gestastofa allt í lagi núna, en ég held að að verði skelfilegt í haust og vetur. Stundum held ég að fólk gleymi að skammdegið er langt á Íslandi. ég vona að Blönduósingar hafi ráð á að lýsa kirkjuna upp í hvert sinn sem ljósmagn fer niður fyrir ákveðið stig svona til að draughræddar manneskjur þori framhjá henni.
![]() |
Kirkjan dökknar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.7.2008 | 02:43
Hrollvekjandi mynd af hegðunarskólum
Áðan svissaði ég yfir á DR 2 og lenti á mynd um hegðunarmótunarskóla (WWASP) í Bandaríkjunum fyrir unglinga 12 -18 ára. Eigandi þeirra er mormóni sem segist byggja starf sitt á á Skinner og Guði. Eigandinn hefur rakað saman milljónum. Skólarnir (ef kalla á svona stofnanir skóla) eru um öll Bandaríkin og nokkrum öðrum stöðum þar sem lög um börn eru e.t.v. ekki sterk s.s Jamica og Costa Rica.
Á vefnum er að finna fjöldann allan vefsíða fólks sem hefur verið í þessum skólum og telur þá vera kúlt. Þar eru sjálfshjálparsíður og aðvaranir til foreldra. Merki sem foreldrar eiga að taka alvarlega s.s. ef barnið þeirra má ekki tala við það einslega, eða læknishjálp er ekki á staðnum eða að... listinn er langur. Aðrir þakka guði fyrir að hafa fundið þessa skóla, þeir hafi bjargað fjölskyldum þeirra.
Málaferli hafa verið í gangi gegn skólunum. Vegna, ofbeldisbrota af ýmsu tagi, meðal þeirra líkamlegar refsingar og kynferðislegt ofbeldi. Einn fyrrum starfsmaður lét þau orð falla að þegar hún hafi heyrt lýsingar frá Abu Grail fangelsinu, hafi það minnt hana á vinnustað sinn. Um hana hafi farið hrollur. Önnur sagði við töluðum aldrei um þetta, þá hefðum við misst vinnuna. best að þegja og þá er eins og ekkert hafi gerst. Heimildarmyndin fylgdi eftir málaferlum móður sem átti að neyða til þagnar um það sem hún upplifði í skóla sem hún sendi drengina sína í, í góðri trú. Vel að merkja hún vann, það er ekki hægt að banna foreldrum og börnum að ræða um reynslu sína opinberlega. Ekki einu sinni þó því sé borið við að aðferðafræðin sé viðskiptaleyndarmál.
Aðaleigandi skólanna var einn aðal fjáröflunarmaður repúblikanaflokksins í Utah, aflaði 2,7 milljón dollara í kosningarsjóði þeirra. Í fyrra varða hann að segja af sér sem einn aðalstjórnandi fjáröflunarhóps Romney "langar til að verða" forsetaframbjóðanda. Uppi voru getgátur um að Romney yrði að skila öllu fénu, gæti ekki haft svona lík í lestinni sinni.
Eftir að hafa horft á heimildamyndina sem að hluta var tekin með földum vélum inn í skólanum og lesið mér til á vefnum setur að mér hrollur. Minnti mig á heimildarmynd um ofurkristnu skólana sem sýnda var í sjónvarpi hér í fyrra.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.7.2008 | 23:19
Ljósmyndaáhugi Sturlubarnsins
Ég var víst búin að gleyma því að ég var ráðin sem sérstakur upplýsingafulltrúi Sturlubarnsins, foreldrarnir gerðu það að mér óspurðri. Tilkynntu mér að vegna eigin leti hefðu þau afráðið að mér bæri mér að sjá um að halda uppi fréttum af honum fyrir ættingja um víða veröld. Langa færslan hér á efir er til að ég verði ekki rekin fyrir að standa mig ekki í stykkinu.
Í dag kom Sturlubarnið í smá heimsókn, átti að sofa allan tímann en reif sig upp eftir tæpan klukkutíma. Vissi sem var að hann fengi fulla þjónustu. Við vorum reyndar með hann í göngutúr svo að pilturinn fékk að setjast upp í vagninum. Hann horfði á fólkið og hló. Nú er hann nýbúinn að fatta að bretta upp á efri vörina og fitja aðeins upp á nefið þegar hann brosir og okkur finnst það svo fyndið að við hlæjum.
Sturlubarnið er nú ekki enn farinn að sleppa sér, fer í varlega könnunarleiðangra meðfram öllum húsgögnum og veggjum ef því er að skipta. Hann er líka búinn að uppgötva að sumstaðar hanga myndir sem hann hefur áhuga á neðarlega á veggjum. Hann er mjög upptekinn af ljósmynd af okkur systkinum frá því að við vorum smábörn. Hann sýnir henni sömu viðbrögð og þegar hann kemur auga á hund, kött eða þegar hann sér börn, hann kætist allur og fer að iða. Líka þegar hann sé börn á mynd. Þegar hann nær myndinni af okkur reynir hann sitt besta til að koma henni á gólfið. Annars klappar henni bara svolítið harkalega.
Í dag fór ég og náði í lítinn dráttarvélarvagn úr tré. Hann er síðan strákarnir voru litlir. Vagninn er með bandi og þó að Sturlubarnið vilji ómögulega sýna hvað hann er stór, tók hann svona hálfa mínútu að fatta að kippa í bandið og þá kom vagninn, aftur og aftur, höndin meira að segja sett aftur fyrir öxl til að ná betra togi og sveiflu. Ég held að þetta með að sýna hvað hann er stór, honum finnist það frekar heimskulegt. Miðað við hvað hann hefur gott verkvit að mati ömmunnar ætti hann að ná þessu. En ég held að hann sjái bara ekki tilgang. Mamma hans ætlar samt ekki að gefast upp, ætlar að kenna honum þetta. Keppnismanneskjan í henni kemur fílefld fram. Hann á að ná þessu, en hann kann að gefa fimm, náði því eins og skot.
Nú fetar hann sig meðfram öllu líka borðum sem eru í hans hæð. Ef hann sér glitta í bók reynir hann sitt besta til að ná í hana. Í dag reyndi hann að ná í bók af sófaborðinu í sjónvarpsherberginu, sinnti engu mun áhugaverðari leikfangi sem hann átti þar. Afi skildi ekkert af hverju hann reyndi ekki að ná í dótið, ég sagði að það væri af því að hann vissi innihald bókarinnar, hún fjallar um rannsókn á yngstu börnum leikskólans. Er einmitt byggð upp á lýsingum á því sem börn eru að gera og túlkun á því. Höfundurinn er að nota nýstárlega aðferð til að gefa börnunum rödd. Annars getur Sturlubarnið núna fært hluti á milli handa þegar hann stendur, ef hann þarf að ná á þeim betra taki og ef hann þarf að setjast. Hann getur nefnilega alveg staðið óstuddur. Í dag þurfti hann að leysa það að setjast niður með bókina. Til þess varð hann fyrst að koma henni á milli handa, styðja sig við borðið, fara niður á hnén og þaðan í sitjandi stellingu. Auðvitað kláraði hann þetta, verkvit segi ég. Vona samt að hann láti bókahilluna vera, enn um sinn. Nóg að tæta þar.
Ég verð að viðurkenna að mér finnst gott að sjá hvað hann er varkár í að taka fyrstu skrefin. Hann er reyndar farinn að leggja í könnunarleiðangra hér hjá okkur. Skreppur fram þó enginn sé þar. Búinn að uppgötva hurðina inn á kló. Meira að segja farinn að sýna stigagatinu áhuga. Held reyndar að það tengist því að oft þegar hann kemur er afi niðri og Sturlubarnið á vona á að sjá hann koma upp tröppurnar. Þegar hann kemur inn kemur hann alltaf brosandi í fangið á mér en lítur svo fljótlega í kringum sig. Lítur þá gjarnan í áttina að stiganum, niður.
Við keyptum hókus pókus stól um daginn, nú situr hann þar stundum og fær cerios hringi, það er svolítið síðan hann náði valdi á pinsettugripi á annarri hendi nú hefur hann náð því á báðum. (Pinsetta - að grípa með þumalfingri og vísifingri) og getur raðað ceriosinu, já eða brauðinu upp í sig. Hann er matargat hið mesta og ég held að uppáhaldsmaturinn hans sé bíójógúrt með mangóbragði. Alla vega þegar hann er hér. Jæja, ætli þetta fari ekki að verða nóg af ömmumonti í bili og starf upplýsingafulltrúans hlýtur að vera öruggt enn um sinn.
Vinir og fjölskylda | Breytt 16.7.2008 kl. 02:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.7.2008 | 13:11
Framtíðarspá Naisbitt frá 1984 (Megatrends)
Við erum að drukkna í bókum. Ég er í skýjaveðrinu að reyna að koma skikki á fagbókasafn mitt sem hefur verið á fjórum stöðum í íbúðinni og á skrifstofunni minni fyrir norðan. Ekki nóg með það heldur er ég óforbetranlegur pappírssafnari og á ýmsa pappíra sem ég hef sankað að mér í yfir 30 ár. Núna er ég að gera tilraun til að sameina fagbækur á aðallega einn stað í íbúðinni. Til þess að þetta sé unnt erum við að færa fram og til baka allar aðrar bækur, til dæmis barnabókina Berjabít og Megatrends, framtíðarspá John Naisbitt frá 1984 sem var við hlið bók Philip Roth, The breast. Þegar ég var barn og átti að taka til, byrjaði ég alltaf í bókahillunni og stoppaði þar, systur minni til mikilla leiðinda (við áttum saman herbergi). Sé að ég er ekki alveg laus við þennan ósóma enn. Renndi mér í gegn um Naisbitt og ákvað að leyfa þeim sem nenna að lesa færslun "njóta" stikkorða úr bók hans.
En Naisbitt skilgreindi í bókinni 10 helstu meginviðfangsefni 21. aldar, hann taldi að breyting yrði frá:
Iðnvæddum samfélögum til þekkingarsamfélaga - hann segir í upphafi kaflans vera hissa á hvað margir bandaríkjamenn hafni því að samfélagið sé að breytast yfir í þekkingarsamfélag, sérstaklega þegar að hans mati það sé ekki lengur spurning um hvort og hvenær, í raun hafi þessi breyting þegar verið raunveruleiki 1982. Í vor skrifaði einn neminn minn í framhaldsnámi ritgerð um þekkingarstjórnun í leikskóla. Þekkingarstjórnun er þegar rótgróin stefna í stjórnun.
Þvingaðri tækni til hátækni/persónulegri tækni- Með iðnbyltingunni jókst þörf fólks fyrir samskipti. Naisbitt tekur sem dæmi að þegar iðnbyltinginni náði hámarki sínu í Bandaríkjunum hafi aldrei fleira verkafólk verið í stéttarfélögum. Það þurfti á því að halda að auka félagleg samskipti sín vegna þess m.a. að vinnan varð síflett vélrænni. Hann bendir á að samfara tilkonu sjónvarps hafi líka orðið til alla vega hópmeðferðaáætlanir. Með aukinni hátækni eykst þörf mannsins til að skapa sé samskiptavettvang þar sem hann getur átt í persónulegum samskiptum. Hann telur líka að við hvert nýtt skref sem við tökum til hátækni - tökum við annað skref til að auka samskipti á milli okkar en það sé ekki alltaf víst að við höldum í við tæknina. Naisbitt telur að maðurinn verði að reyna að finna jafnvægi á milli tækninnar og mannhelginnar.
Ps. hann hefur reyndar áhyggjur af því að i öllum æðibunuganginum við að mennta hátæknifólkið, gleymum við að mennta fólk til að byggja og sjá um kerfin.
Landshagkerfum - til alþjóðavæðingar- Hér fer Naisbitt yfir völlinn hann spáir því að Bandaríkjamenn eigi eftir að dragast enn meira aftur úr. Staða þeirra sem fjárhagslegt ofurveldi sé ekki bara að hrynja heldur í raun að hluta hrunið. Þjóðir eins og Singapore, Suður Kórea, Brasilía og Kína sæki á. Hann bendir á að markaðurinn eigin eftir að breytast - tekur sem dæmi af samsetningu bíla, þar sem einstakir hlutar þeirra séu eru framleiddir á mörgum stöðum og settir saman á enn öðrum stöðum. Ein helsta undirstaða virkni alþjóðahagkerfisins telur hann vera gervitungl og hraða þess sem upplýsingar geta ferðast um heiminn.
Skammtímahugsun - til langtímahugsunnar- Hér gagnrýnir Naisbitt þá áráttu bandarískra viðskiptajöfra að gera helst skammtímaáætlanir, allt til að láta næsta ársfjórðung líka betur út á pappírum (svona eins og Enron). Hann telur reyndar að þarna sé að glitta í breytingu alla vega sumir Bandaríkjamenn séu að átta sig á mikilvægi þess að gera langtímaáætlanir. Naisbitt er sérlega umhugað um áhrif skammtíma áætlana á umhverfið. Þegar fólk hugsi sífellt í stutttíma áætlunum sé það ekki að horfa á vistkerfi mannsins, það verði að breytast. Naisbitt segir versnandi lífskjör almennings megi að hluta rekja til slæmra stjórnenda í Bandaríkjunum. Hann segir að þeir reyni að þvo hendur sínar, en raunin sé að vegna þess hversu þeir eru uppteknir af skammtímagróða og magnmælanlegum breytum standi þjóðin frammi fyrir verri lífsskilyrðum.
Hann gerir svo nokkra úttekt á því sem nefnt hefur verið Law of the Situation og er kennt við Mary Parker Follett og gengur úr á að fyrirtæki geri sér grein fyrir, fyrir hvað þau standa. Sem dæmi þá sannfærði hún gluggatjaldafyrirtæki árið 1904 um að það væri fyrirtæki sem sérhæfði sig í að stjórna birtu, við það margfölduðust möguleikar þess. Naisbitt tekur hinsvegar sem dæmi af fyrirtæki sem ekki gerði sér grein fyrir þessu, bandarísku járnbrautirnar, þær hafi talið sig ódauðlegar og ekki haft vit á að skilgreina sig í ljósi breyttra samgöngu og vöruflutningahátta.
Miðstýringu til valddreifingar- Hér kemur heill kafli um gæði þess sem ég kýs að nefna nýfrjálshyggja. Þar sem ég var að klára í gær að skrifa heila ritgerð um efnið er ég ekki í skapi til að blogga um sama efni akkúrat núna. Ja nema til að segja að hann bendir á að til að ein forsenda valddreifingar séu sterk svæðabundin stjórnvöld og raunveruleg þátttaka þeirra sem búa á hverju stað. Og að orkuvandamál, verði til þess að knýja fólk til breytinga. Knýja fólk til breyttra lífshátta. (sem við sáum í gær í frétt um samdrátt í kortaviðskiptum í fyrsta sinn í fleiri ár hérlendis). (Og þetta með glókal lókal, hugmyndafræðina, sem meðal annars slow living movement er byggt á).
Naisbitt bendir á að það sé í raun í andstöðu við hugmyndafræði lýðræðis að hafa sterka leiðtoga, slíkt sé ef eitthvað er frekar merki um slæma stöðu þess, einu skiptin sem Bandaríkin hafi haft þörf fyrir sterka leiðtoga hafi verið þegar þjóðin kaus Lincoln og Roswelt annars hafi forsetar eftir á verið Æi hvað heitir ann aftur...
Stofnanahjálp til sjálfshjálpar- við berum sjálf ábyrgð á okkur og lífsháttum okkar, megrun, hlaup, líkamsræktarmyndbönd, við hættum að treyst á yfirvöld með allt, svo sem eins og skóla, einkaskólar verða algengari, heimaskólun, nágrannagæsla, samfélagsáætlanir, safnaðastarf. Fólk treystir meira á sjálfgreiningar varðandi sjúkdóma. Fleiri bækur um holla lífshætti og um mataræði sjást í hillum bókabúða er hluti af því sem Naisbitt telur til.
Fulltrúalýðræði til þáttökulýðræðis - minni þátttaka í kosningum, í starfi stjórnmálaflokka, meiri þátttaka í grasrótarsamtökum. Þeir sem verða fyrir áhrifum af tilteknum ákvörðunum verða að koma að ákvörðunarferlinu, hvort sem okkur líkar betur eða verr segir Naisbitt þá hefur hugmyndafræði þátttökulýðræðis seytlað inn í grunn gildismat okkar. Hann bendir á að þátttökulýðræði hafi gjörbreytt ásýnd sveitarstjórnamál í Bandaríkjunum þar sem kosið er um alla vega tillögur sem snerta fólk í byggðarlögum beinni kosningu. Upp úr 1970 vað sprengja í slíkum kosningum og hafa þær ekkert minnkað. En hann bendir á að áhrifin hafi náð lengra en til sveitarstjórnarmál, og á þá við til fyrirtækja. Hann spáir reyndar í kjölfarið dauða tveggja flokka kerfisins í Bandaríkjunum vegna þess að sífellt færri finna sér samastað innan þeirra (Sennilega tekur það lengri tíma en aldarfjórðung að ganga frá jafnrótrónu kerfi alla vega er það enn til staðar).
Síðan fjallar Naisbitt nokkuð ítarlega um áhrif þessara hugmyndafræði á fyrirtækin og stjórnun þeirra. hvernig starfsfólk fer að seilast til meiri áhrifa á vinnustöðum. Það eru fjórir þættir sem hann sér sem verða til þess að lýðræði á vinnustöðum eigi eftir að aukast, þeir eru; neytandinn og áhrif hans, þörfin eftir utanaðkomandi fólki í stjórnir fyrirtækja, meiri virkni hlutafjáreigenda (eins og Vilhjálms Bjarnasonar hérlendis) og sterkari lög um réttindin starfsfólks.
Síðan rekur Naisbitt hvernig byltingar verða frá grasrótinni og upp en ekki öfugt. Þar sé aflið. En líka vegna þess að tíðarandinn sé réttur, þegar fer saman persónuleg og pólitísks gildi þá er tími breytinga. Hann lokar kaflanum á að segja að nýi leiðtoginn sé sá gerir hluti mögulega ekki sá sem gefur fyrirskipanir.
Píramídastjórnun til tengslaneta.- Bandaríkjamaður setti fram kenningu Y ( kenning McGregor um mannauðstjórnun) en í Bandaríkjunum vakti hún mesta athygli í bókum og tímaritum á meðan að Japanir nýttu sér hana og fluttu aftur inn til Bandaríkjanna í formi vara sem kepptu við og sköruðu fram úr framleiðslu Bandaríkjamanna. Tengslanet gera möguleg samskipti á milli fólks þvert á á hópa, nokkuð sem píramídastjórnun getur ekki. Þess vegar eru tengslanet árangursrík samskiptatæki, styrkur þeirra flest í fljótlegri miðlun upplýsinga. Tengslanet verða til þegar fólk leitast við að breyta samfélögum, á sjötta áratugnum má rekja hreyfingar eins og friðar-, kvenfrelsis-og umhverfishreyfingar til tengslaneta. Á vinnustöðum verða áhrifin breytt stjórnunarmunstur, píramídinn lætur undan og fólk fer að hafa fleiri en einn yfirmann sem dæmi; gæðaráð og nefndir hafa eftirlit með framleiðslunni, skrifstofur víkja fyrir opnum vinnurýmum, fyrirtæki munu leita til utanaðkomandi til stjórnunar, klæðnaður verður óformlegri, fólk verður hvatt til umræðu og skoðanaskipta, allir eru hvattir til að leggja sitt að mörkum og koma með nýjar áskoranir. Síðan tekur Naisbitt dæmið af tveimur fyrirtækjum, Intel og HP. (Bæði til í dag og annað meira að segja í fréttum áðan).
Norðri til suðurs - hér ræðir Naisbitt aðallega um aukin áhrif suðurríkjanna (ekki biblíubeltis eingöngu) á efnahagslíf í Bandaríkjunum.
Annað hvort/ eða - hér ræðir hann um breytt gildismat, fólk þurfi ekki að vera annað hvort eða. Það geti hver og einn verið margt. Eitt útilokar ekki lengur annað. Hann ræðir mikið um breytta samsetningu fjölskyldna og m.a. áhrif þess á vinnumarkaðinn.
Í skilgreiningum Naisbitt á meginstraumum 21. aldar sá hann ekki fyrir svonefnt "wild card" eða jóker sem 11. september 2001 er. Hann sá ekki fyrir skiptingu heimsins á milli trúarhópa og hann hafnar því að forseti Bandaríkjanna hafi raunveruleg áhrif. Eftir að hafa lesið hrollvekjandi lýsingar á gulum ljósum Bush forseta og eftir að hafa búið í Bandaríkjunum veturinn sem innrásin var gerð í Írak veit ég ekki hversu rétt hann hefur fyrir sér. Margt annað sem fram kemur í bókinni stenst hinsvegar ágætlega tímans tönn, nú þarf ég auðvitað að verða mér úti um nýrri útgáfur og sjá hvernig heimsmynd hans hefur breyst. (og bæta þar með við enn einni tilgangslausri bókinni).
Ætli sé ekki best að snúa sér að skúringum...
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2008 | 15:41
Vöfflujárn sem hagar sér eins og hrukkuhrædd manneskja
Það rignir og rignir regnhlífarnar á og ég brosi. Ég var farin að finna innilega til með gróðrinum. Horfði á sölnað gras með sorg í hjarta. Nú skil ég Ameríkanana sem teppaleggja garðana hjá sér á þurrkasvæðum. Vatnið of dýrmætt til þess eins að vökva gras manninum til yndisauka en samtímis þráin eftir að hafa annað en eyðimörk fyrir augum.
Þó svo ég gleðjist yfir rigningunni vona ég að hún verði ekki jafn fyrirferðarmikill og hún var í haust. Að það rigni sem eftir er sumars.
Nú sit ég föst við tölvuna við lestur og skrift. Hef verið að lesa margar skemmtilegar og áhugaverðar greinar um félagsfræði menntunar. Er að reyna að koma sjálfri mér af stað. Sýnist það bara ganga nokkuð. Kannski að ég geti þakkað rigningunni.
Hrukkuhrætt vöfflujárn
Annars er það af mér að frétta að áðan ætlaði ég að gerast myndarleg og baka vöfflur. Hrærði upp deigið og alles. En vöfflujárnið mitt er komið til ára sinna og krefst mikillar athygli, það er eins og hrukkuhrædd manneskja sem alltaf er að maka framan í sig kremum. Járnið vill nefnilega láta smyrja sig á milli þess sem það steikir fyrir mig vöfflur. Ég læt náttúrlega undan þessum dyntum nema áðan var ég eitthvað utan við mig, taldi mig hafa hellt smá olíu í krukku til að pensla járnið með. Svo byrja ég að pensla. Olían hrekkur öll í litlar kúlur á járninu og ég hugsa, auðvitað ég var nefnilega að þvo pensilinn, hann hafði verið í krukku með balsamik-olíu, Þetta eru áhrif vatnsins. Svo hugsa ég ekkert meira set deig í járnið og finn þá svona sérkennilega lykt. Ég dýfi puttanum í olíuna og bragða. Ég hafði hellt UPPÞVOTTALEGI í krukkuna og ég held að sápubragðið sé enn einhverstaðar á bak við, svona eins og þegar ég gerði tilraun til að taka inn lýsi sem barn.
Eins og fólk sem ekki má þvo með sápu í framan af því að það verður svo þurrt, alveg eins hagaði járnið mitt sér á eftir. Festist allt í því jafnvel þrátt fyrir smurningu með afbragðsólívuolíu. Á endanum fékk ég samt fínustu vöfflur og át með blá og sólberjasultunni frá í fyrra, hún smakkast ennþá vel.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.7.2008 | 01:17
Undur og stórmerki
Í nokkra mánuði er Lilló búinn að reyna að fá ýmsa pípara til að líta á ókláraða baðherbergið í kjallaranum. "Já, já" segja þeir allir, "kem og lít á þetta fljótlega". Og svo ekki söguna meir. Í dag sit ég í sakleysi mínu úti á palli (fólk er svo einstaklega vinsamlegt að trufla mig töluvert frá skrifum og ég gríp hverja heimsókn fegins hendi). þarna sit ég þegar síminn minn (hann hringir afar frekjulegri hringingu, svona svo mér finnst ég hafa gert eitthvað af mér hringingu), byrjar að hringja. Ég svara náttúrulega í grænum hvelli og er það þá ekki pípari sem ætlar að líta við í fyrramálið. Skoða verkið. Ef ég væri með lýs, dyttu þær allar dauðar úr hausnum á mér að undrun einni saman. Svo fór ég að hugsa að nú sé kannski tími fyrir okkur smáfuglana með litlu verkin. Nú förum við að komast á verkefnalista iðnaðarmanna.
Annars er húsið okkar þannig að við klárum það sennilega alveg aldrei, alla vega ekki áður en elliheimilisdvölin tekur við. Núna sýnist okkur t.d. rennurnar sem við létum skipta út fyrir 15 árum vera að gefa sig. Þannig er þetta eilífur hringur, svona eins og hjá fólkinu sem starfar við að mála Golden Gate brúna alla ævi.
Já og Lilló skrapp í vatnaveiði og veiddi ekkert, ég fór ekki með er búin að sitja heima við og gera tilraun til að vera fræðileg í skrifum.
Grillaði svo mat handa syninum sem leit við með piltinn unga, Matseðill á grilli:
Maríneruð kjúklingabringa, (sem ég borða alls ekki)
kartöflusneiðar maríneraðar í olíu, balsamik-ediki og grófu salti stráð yfir fyrir grillun,
grillaðar paprikur, skinnið grillað alveg svart, þær lagðar í lög af olíu, balsamik og sítrónu (eftir grillun, svarta húðin pilluð af),
Heimagert grill-flatbrauð (án gers en með oggu kumíni)
og taziki gert úr hrærðu KEA skyri, ólívuolíu, oggu salti, miklum hvítlauk og heilli agúrku.
Eiginmaðurinn fékk svo afganginn þegar hann kom seint um síðir úr veiðiferðinni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)