Vöfflujárn sem hagar sér eins og hrukkuhrædd manneskja

Það rignir og rignir regnhlífarnar á og ég brosi. Ég var farin að finna innilega til með gróðrinum. Horfði á sölnað gras með sorg í hjarta. Nú skil ég Ameríkanana sem teppaleggja garðana hjá sér á þurrkasvæðum. Vatnið of dýrmætt til þess eins að vökva gras manninum til yndisauka en samtímis þráin eftir að hafa annað en eyðimörk fyrir augum.

Þó svo ég gleðjist yfir rigningunni vona ég að hún verði ekki jafn fyrirferðarmikill og hún var í haust. Að það rigni sem eftir er sumars.

Nú sit ég föst við tölvuna við lestur og skrift. Hef verið að lesa margar skemmtilegar og áhugaverðar greinar um félagsfræði menntunar. Er að reyna að koma sjálfri mér af stað. Sýnist það bara ganga nokkuð. Kannski að ég geti þakkað rigningunni.

Hrukkuhrætt vöfflujárn 

Annars er það af mér að frétta að áðan ætlaði ég að gerast myndarleg og baka vöfflur. Hrærði upp deigið og alles. En vöfflujárnið mitt er komið til ára sinna og krefst mikillar athygli, það er eins og hrukkuhrædd manneskja sem alltaf er að maka framan í sig kremum. Járnið vill nefnilega láta smyrja sig á milli þess sem það steikir fyrir mig vöfflur. Ég læt náttúrlega undan þessum dyntum nema áðan var ég eitthvað utan við mig, taldi mig hafa hellt smá olíu í krukku til að pensla járnið með. Svo byrja ég að pensla. Olían hrekkur öll í litlar kúlur á járninu og ég hugsa, auðvitað ég var nefnilega að þvo pensilinn, hann hafði verið í krukku með balsamik-olíu, Þetta eru áhrif vatnsins. Svo hugsa ég ekkert meira set deig í járnið og finn þá svona sérkennilega lykt. Ég dýfi puttanum í olíuna og bragða. Ég hafði hellt UPPÞVOTTALEGI í krukkuna og ég held að sápubragðið sé enn einhverstaðar á bak við, svona eins og þegar ég gerði tilraun til að taka inn lýsi sem barn.

Eins og fólk sem ekki má þvo með sápu í framan af því að það verður svo þurrt, alveg eins hagaði járnið mitt sér á eftir. Festist allt í því jafnvel þrátt fyrir smurningu með afbragðsólívuolíu. Á endanum fékk ég samt fínustu vöfflur og át með blá og sólberjasultunni frá í fyrra, hún smakkast ennþá vel. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergljót Hreinsdóttir

Ha ha ha....tandurhreinar vöfflur hjá þér...

Var reyndar líka að baka vöfflur...eru einhver tengsl milli vöfflubaksturs og rigningar????

Bergljót Hreinsdóttir, 12.7.2008 kl. 16:14

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

ja og góðra bóka

Kristín Dýrfjörð, 12.7.2008 kl. 17:27

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er frekar löt að baka vöfflur, samt á ég gott vöfflujárn sem ekki þarf að smyrja.  En ég á tvær pönnukökupönnur sem ég nota oftar til þess að baka pönnukökur, mínum börnum finnast pönnukökur betri en vöfflur.    Það er ekki gott að vera viðutan við heimisstörfin, ég hef ekki notað sápu til smurningar á neinu ennþá.  Þetta var skemmtileg færsla hjá þér

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 13.7.2008 kl. 02:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband