Með köttinn í göngutúr

Skrifstofan mín er á neðri hæð hússins, en þar sé ég ekki út sem mér finnst alveg ferlegt. Vegna þessa vinn ég alltaf á efri hæðinni, sit við borðstofuborðið og á í fjarsambandi við mannlífið í götunni. Mér er þetta fjarsamband alveg nauðsynlegt, nógu getur verið einmanalegt að vinna ein heima alla daga. 

Í götunni minni er nokkur umferð, ekki bíla heldur gangandi fólks. Fólkið í hverfinu, túristar, fólk úr úthverfum, fólk sem einu sinni átti heima í götunni. (Það kemur alltaf annaslagið fyrir að hér bankar upp á fólk sem átti einu sinni heima hér, átti afa og ömmu hér, fólk sem vil fá að kíkja niður í garð eða bara skoða hvort húsið er eins og það mundi). Á ferðinni í götunni minni er fólk sem fer með börnin í gönguferðir og sumir hundana sína.

Ég held hinsvegar að einn nágranni minn slái ýmsu við. Hann er vanafastur og gengur sama hringinn um svipað leyti á hverju kvöldi. Það sem gerir þessar gönguferðir hans sérstakar er að hann er úti að ganga með köttinn sinn. Kötturinn þarf stundum að stoppa og skreppa inn í garða og þegar nágrannann fer að lengja eftir kisa, hringlar hann lyklunum sínum og kisi kemur skoppandi. Ég er búin að sjá og fylgjast með þessum nágranna mínum á öllum árstímum, alltaf á sama tíma, alltaf sama hringinn. Rétt í þann mund sem ég settist við tölvuna áðan gekk hann hjá og ég heyrði hringlið í lyklunum.

Það má vera að ég sjái ekki fjöll, en ég hef mannlíf. Fyrir mörgum árum átti ég samræðu við son minn um mögulega búsetu. Hann sagðist ekki geta hugsað sér að flytja í hverfi sem svæfi. Þar sem ekki væri umferð gangandi fólks. Hann er alinn upp í miðbænum, fólkið er hans fjöll.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband