Sturlubarnið verður örugglega KRingur

amma trönur og róla

Þessa vikuna er Sturlubarnið hjá afa og ömmu á daginn. Þar sem hann er farinn að standa upp og ganga með öllu sem hann getur, tókum við á það ráð að útbúa eina hillu með dótinu hans. Hillu sem er í hans hæð og hann þarf að hafa aðeins fyrir að nálgast. Þar röðum við dollum, glösum, boltum, hinum sívinsæla og ástsæla Hómer og öðru því sem við teljum að gleðji lítinn mann. Sturlubarnið er orðinn nokkuð fær í að ferðast um þessar slóðir. Skríður þangað, reisir sig við og finnur sitt dót. Í dag uppgötvaði hann hinsvegar að það er hilla fyrir ofan hilluna hans og þar er enn meira spennandi dót. Þessi merka uppgötvun varð til þess að við sáum hvað klifureðlið kemur snemma fram. Sturlubarnið bar sig að eins og pró. Reyndi að beita sömu þekkingu og hann notar til að komast um lárétt plan, skriðtæknina, en nú í lóðréttu plani. Hann hafði reyndar ekki árangur af erfiðinu, en einhvernvegin grunar ömmu að þetta hafi bara verið fyrsta tilraun, þeim eigi eftir að fjölga með auknu verkviti og öruggari hreyfingum. Sturlubarnið er nefnilega afar varkár þegar hann er á tveimur fótum. Amma er búin að sjá út að hann beitir ákveðinni tækni til að færa sig á milli sumra staða. Hann sleppir ekki haldi af fyrri staðnum fyrr en hann hefur örugga handfestu þar sem hann ætlar sér. Hann á það hinsvegar til að sleppa sér ef hann er með eitthvað áhugavert í höndunum, eitthvað sem krefst beggja handa. En þau augnablik eru enn sem komið er víkjandi.

Annars er Sturlubarnið búinn að uppgötva að henda hlutum, ekki bara úr barnastólnum eða kerrunni heldur líka þar sem hann situr á gólfinu. Afi segir henda og Sturlubarnið hendir. Nú þarf að kenna honum að grípa. Hitt sem hann er upptekinn af þessa daga er að skríða upp að hlutum og setjast þar með bakið upp við. Hann pressar sig upp við veggi og skápa. Situr og horfir á okkur athugulum augum. 

 með bolta

Í dag fékk Sturlubarnið að fara með ömmu á fund, við löbbuðum inn í Laugardal í þessu líka fína veðri. Þegar á fundinn kom var hann pínu feiminn. Hann hafði nefnilega aldrei hitt þessar konur fyrr og þá var nú gott að halla sér að öxlinni á ömmu. Ömmu finnst það hið besta mál að Sturlubarnið bregðist svona við fólki sem hann er að hitta í fyrsta sinn. Með því sýnir hann meðvitaða varkárni og auðvitað er þetta líka merki um ákveðinn þroska. En eftir smá stund var hann búinn að jafna sig og þá voru þessar konur bara nokkuð áhugaverðar, máttu meira að segja gefa honum barnamat.  Annars var hann ljúfur sem lamb allan fundinn og við komust yfir að ræða allt sem ætlunin var að ræða.

róla og afi

Sturlubarnið er félagsvera hann er sérstaklega áhugasamur um önnur börn, reynir hvað hann getur að ná í þau. Það er óskaplega gaman að sjá hvað viðbrögð hans við börnum eru allt öðruvísi en viðbrögð hans við fullorðnum. Aha þarna er vænlegur leikfélagi gæti hann verið að hugsa.  Um daginn þegar við afi vorum með hann á kaffihúsi og hann átti að sofa reif hann sig alltaf upp. Á endanum gáfumst við upp (við erum dáldið léleg í að vera hörð við hann) og leyfðum honum að sitja í vagninum. Á næsta borði sátu Spánverjar og töluðu hátt. Hann sat lengi eins og bergnuminn og horfði á munninn á þeim.

róla

róla 3

Nýjasti leikur minn með Sturlubarninu er að fara með Fagur fiskur í sjó og strjúka á mér lófann á meðan, Sturlubarnið horfir á og í þann mund sem ég segi "fetta, bretta, nú skal högg á hendi detta" skellir hann hendi inn í lófann á mér og hlær svo þegar ég læt skella. Og svo segi ég aftur, detta og við endurtökum endinn þrisvar. Og svo aftur þrisvar, eins og í ævintýrunum, allt þrítekið.

Svona að lokum þá náði afi í KR peysuna sem pabbi Sturlubarnsins fékk þegar hann var tveggja og klæddi hann í hana. (Hann var held ég að vonast eftir að KR ynni leikinn í kvöld sem þeir og gerðu en sennilega verður leikurinn lengur í minnum manna fyrir annað). Peysan er hinsvegar vel við vöxt.  Til uppl´syingar læt ég fylgja með mynd af ungum KR-ing (nema að hann verði FH-ingur). 

KRingar

 ps. Ég hef verið spurð svolítið um hversvegna ég kalli Sturlu, Sturlubarn. Á því er afar einföld skýring, þegar hann var nýbúinn að fá nafnið sitt (sem við glöddumst óendalega yfir) fannst mér samt skrýtið að skrifa Sturla um annan en son minn sem lést fyrir nokkrum árum. Mér fannst það einhvernveginn allt annað að segja Sturla en skrifa það. Enn um stundir verður Sturlubarnið - Sturlubarn.      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband