Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
16.2.2009 | 01:34
Gerðuberg og vetrarhátíð
Við stöndum í þakkarskuld við Gerðuberg fyrir aðkomnu þeirra að vetrarhátíð. Í Gerðubergi voru börn og barnamenning í fyrirrúmi. Laugardagurinn var tileinkaður börnum. Atriði þar sem börn, mömmur, pabbar, afar og ömmur tóku sameiginlega þátt. Þegar ég kom þangað iðaði húsið af lífi en samtímis ró. Glöð börn og glaðir fullorðnir. Gerðuberg gerir sér vel grein fyrir nauðsyn þess að skapa dagskrá þar sem börn geta verið þátttakendur, þar sem áherslan er á menningu með börnum en ekki afþreyingu eða menningu fyrir börn. Í Gerðubergi gerir fólk sér líka grein fyrir að til þess að börn læri að njót menningar þurfa þau að komast í tæri við hana. Ég hitti t.d. fólk á laugardag sem sjálft sótti Gerðuberg sem börn og vildi að þeirra börn upplifðu það sama.
Ég þekki marga sem eiga sér draum um barnamenningarhús, sem opið væri fyrir börn og fullorðan saman. Staður til að koma og gera. Vera skapandi og til að skynja. Hús sem byggir á hugmyndinni um barnamenningu bæði fyrir börn og með börnum. Þeir sem komu í Gerðuberg á laugardag skilja hvað verið er að ræða um.
Sýningin á myndskreytingu barnabóka er afar áhugaverð og ég hvet sem flesta til að skoða hana.
Lifandi kviksjá
Arna Valsdóttir var með lifandi kviksjá í Gerðubergi. Þegar ég kom var stöðugur straumur barna og fullorðinna til að prufa og þora, láta reyna á hug og líkama. Í salnum var mikill ró yfir öllu og öllum en samtímis ótrúlega fallegir hlutir að gerast.
Ég hitti líka Elfu Lilju Gísladóttur tónlistarkonu sem sýndi mér nýja bók um börn og tónlist sem hún gefur út. Ég ætla að skrifa sér blogg um hana í vikunni.
10.2.2009 | 18:36
Skjálfandi grísir og áræðnir kettlingar
"það ert sko þú, ... Þú ert sko stórkostlegur, það geislar af þér eins og af sjálfri sólinni." Svara grísirnir skjálfandi.
Ég hef verið að velta fyrir mér hvort það hvaða barnabækur eru lesnar í leikskólum og hvort innihald þeirra sé ekki forvitnilegt rannsóknarefni. Að greina innihald t.d. með tilliti til birtingarmynd kynjanna og kímni. Hvort tveggja afar mikilvægir þættir.
Barnabækur fylgja leikskólum. Á flestum þeirra er til nokkuð gott safn barnabóka sem síðan er bætt upp með heimsóknum á bókasöfn. Þar sem ég var leikskólastjóri var veglegt barnabókasafn til. Við lögðum metnað í að kaupa inn og viðhalda þeim bókum sem við áttum. Allar bækur voru plastaðar og ef þær fóru að lýjast voru þær teknar til hliðar og gert við. Sumar þreyttar perlur voru bara skoðaðar og lesnar með starfsfólki. Lágu annars ekki frammi. Bækur voru hluti af umhverfinu.
ÞemaÁ mínum leikskóla var á þessum tíma unnið eftir þemum sem ákveðin voru tvisvar til þrisvar sinnum á ári. Í kjölfarið fékk ákveðinn hópur það verkefni að fara yfir og taka saman bækur sem hentuðu þemanu, finna vísur og ljóð sem við ætluðum að leggja áherslu á í tengslum við þemað. Þetta voru vinnubrögð sem allir voru ánægðir með. Bækurnar voru teknar til hliðar, ljóð, þulur og söngvar sett saman möppu. Við útbjuggum ákveðið kerfi til að syngja eftir. Við teiknuðum myndir á karton og lagatextarnir voru skrifaðir aftan á. Settum sem markmið að á þessum og þessum tíma ætti börnin að kunna x marga texta, þulur og ljóð.
SamverustundirÍ leikskólanum voru samverustundir daglega, yfirleitt tvisvar á dag þar sem bækur voru lesnar, þulur sagðar, sungið og dagleg mál rædd. Í leikskólanum var líka yfirleitt hlustað á sögur af geisladiskum eða af bandi í hvíldarstund barnanna eða lesnar framhaldssögur. Sögur Ole Lund Kirkegaard , Guðrúnar Helgadóttur og Astrid Lindgren voru á þessum tíma vinsælar. Sögur í hvíldartímum voru sjaldnast vandamál en annað átti við um samverustundir, þær áttu til að verða handahófskenndar.
Ástæðan var að við starfsfólkið rúlluð á milli þessara stunda og þá gat það komið fyrir að margir voru að lesa sömu bækurnar. Og þó að börnum þyki oft gaman að hlusta á endurtekningu þá getur of mikil endurtekning verið þreytandi. Við ræddum málin og komumst að því við yrðum að koma okkur upp kerfi. Kerfið okkar var mjög einfalt, á þeim stað sem samverustundin fór fram var klippispjald, með áföstum blýanti og eyðublaði sem við útbjuggum. Á eyðublaðið skráði hver þær bækur sem hann var að lesa og hver las og dagsetningu. Með þessu móti var þess krafist af öllu starfsfólki að það undirbyggi sína samverustund, að fram færi meðvitað val um það sem lesa ætti. Að happa og glappa aðferðin væri ekki í fyrirrúmi. Auðvitað gilti áfram að börnin komu með bækur að heiman eða að óskabækur væru lesnar.
Forvitnilegt að skoða beturUndafarnar vikur hef ég verið að velta fyrir mér barnabókum, sérstaklega úr frá kynbundnu innihaldi þeirra og kímni. Ég velti fyrir mér hvaða bækur er verið að lesa í leikskólum landsins og hvernig staðið er að vali á bókum, bæði þeim sem lesnar eru hverju sinni og þeim keyptar eru inn í leikskólann. Ég hef verið að skoða margar bækur sem eru nú vinsælar á meðal leikskólabarna. Sérstakleg hef ég velt fyrir mér þeirri mynd sem dregin er upp af kynjunum. Hver er birtingarmynd kvenna og karla, drengja og stúlkna í þessum bókum? Hverjir eru t.d. gerendur í bókunum og í hverju er gjörningar þeirra fólgnir?
Sígild Snúður og Snælda. Snælda áræðin og úrræðagóð. Snælda sem er samkvæmt fræðum dagsins í dag er, "genderbender".
Vonda stjúpsystirin akfeit úðar í sig sælgæti á ballinu á meðan hin fíngerða Öskubuska dansar við prinsinn.
Stelpan á lopapeysi og gallabuxum sem fer með pabba og finnur lundapysju.
Hinn stórskemmtlegi, sjálflægi, úlfur sem hræðir alla til samþykkis.
Menntun og skóli | Breytt 8.4.2012 kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2009 | 02:12
Svartur himinn
Í áranna rás hef ég verið upptekin af því hvernig við upplifum náttúruna í borginni. Þegar ég var að læra að verða fóstra gerðum við verkefni sem byggðist á því að setja fram hugmyndir um draumaleikskólann. Flestir höfðu hann í útjaðri byggðar, þar sem stutt var í náttúruna. En raunin er að fæstir leikskólar eru þannig staðsettir.
Með tíð og tíma hafa mínar hugmyndir um náttúrupplifun breyst, nú er ég upptekin af því að upplifa náttúruna þar sem ég er stödd hverju sinni. Heiman frá mér sé ég niður á tjörn. Ég sé fuglana leika á tjörninni, ég sé starrabreiður í trjánum í ljósaskiptum, sé himininn verða eitt augnablik svartan. Ég fylgist með leik hrafnanna, svifi þeirra og setum á ljósastaurum. Ég horfi á liti himinsins, stundum bláan, gráan, fjólubláan, bleikan, gulan, svartan og allt þar á milli. Ég horfi á jörðina mjúka, hlýja, hvíta, gráa, harða, blauta. Fylgist með úrkomunni. Sé gróðurinn spretta fram og dafna, sé hann breyta um lit og lögun. Ég upplifi árstíðir og vindinn. Ég er nefnilega fyrir löngu búin að átta mig á því að náttúran er ekki eitthvað utan við allt, hún er hluti af öllu.
Upplifun okkar Sturlu
En núna hef ég líka eignast félaga til að upplifa þetta allt með. Við förum í gönguferðir og leitum af kisum, hundum, fuglum og sérstaklega krummum. Í dag fórum við í eina svona ferð, ég og Sturla. Fyrst gengum við hægt út götuna og heilsuðum þeim kisum sem á vegi okkar urðu. Við sáum smáfugla í trjánum, krumma taka sig upp við höfnina og svífa yfir okkur. Á tjörninni gáfum við gráðugum gæsum, einstaka álft og feimnum öndum brauð. Við heyrðum kurr dúfnanna og garg í álftum sem allt yfirgnæfðu. Við skoðuðum myndirnar á tjarnarbakkanum af fuglunum og fylgdumst með mannfólkinu. Á leiðinni heim stoppuðum við runna og Sturla nuddaði nefinu upp við hann og datt svo inn í hann. Í ljósaskiptunum í dag þegar starrinn fór að safnast saman til að ferðast í náttstað, fylltust allir trjátoppar og sjónvarpsgreiður í götunni, svo þegar þeir tóku sig upp, allir sem einn, sagði Sturla vááááá og klappaði saman lófunum.
Við Sturla þurfum ekki að fara upp í Heiðmörk, í Elliðaárdal eða annað til að upplifa náttúruna, við þurfum rétt að stíga út og þarna bíður hún eftir okkur í öllu sínu veldi. Bíður eftir að við tókum eftir henni, virðum og elskum. Að við kennum litlu börnunum okkar það sama.
ps. Sturla er að byrja að tala og fyrstu orðin fyrir utan mamma, pabbi og afi eru gisa, úa og ummmi. Og vísnabókin með dýramyndum og vísum er hans uppáhaldsbók.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2009 | 01:23
Bréf Davíðs
Vil benda á bloggfærslu þar sem farið er yfir bréfaskriftir Davíðs úr ráðherrastól. Í færslunni er endurbirt 10 ára gömul fréttaskýringargrein úr Degi eftir Friðrik Þór Guðmundsson. Þar er að finna nokkur merkileg bréf sem Davíð sendi í sinni ráherratíð. Ég býst ekki við að Björn hafi fellt sig við þau bréf, enda varla í anda góðar stjórnsýslu. Það kom mér reyndar á óvart að mogginn rauf fréttatengsl við færsluna hans Friðriks. Ákvörðun sem ég skil ekki alveg.
En það má Davíð eiga að hann á góða vini sem styðja við bakið á honum. Held samt að það væri líka gott ef hann ætti góða vini sem tækju á sig þau óþægindi að gera honum grein fyrir stöðu sinni eins og hún snýr að stærstum hluta þjóðarinnar.
Viðbót
Búið er að tengja færsluna aftur við fréttina og er það vel. Ég heyrði líka að bréf Davíðs til Sverris þá Landsbankastjóra var lesið upp í fréttatíma RUV áðan.
Björn: Réttmæt ábending Davíðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.2.2009 | 01:57
Maðurinn sem veitti ríkisstjórninni náðarhöggið
Sturla Böðvarsson hefur ákveðið að láta af störfum á Alþingi. Honum hugnaðist ekki að vera ofurliði borinn í kosningu, sérstaklega vegna þess að hann vann störf sín svo vel. En auðvitað er undirliggjandi það viðhorf að sjálfstæðismenn eigi stól forseta. Hann hefur verið "feitt brauð" handa stjórnmálamönnum sem allir vissu að væru búnir með sitt pólitíska líf.
Kannski stóð Sturla sig vel sem forseti um það má sjálfsagt deila en hann gerði það ekki undir því álagi sem var í þinginu eftir jólafríið. Þá sýndi hann mikla vanhæfni í að lesa í aðstæður.
Vissulega bar Sturla ekki einn ábyrgð á klúðrinu í þinginu daginn sem það hóf störf eftir jólafrí, (frí sem var ansi langt í ljósi ástandsins), en hann bar á því mesta ábyrgð, hann var jú forseti þingsins. Það var þessi fína málaskrá hans sem fyllti mælinn og gerði það að verkum að þúsundir venjulegra borgara streymdu niður á Austurvöll með búsáhöldin, gjörsamlega misboðið. Dómgreindarskorturinn í alþingishúsinu var algjör, vanmáttur ríkisstjórnarinnar og ráðleysi opinberuðust þjóðinni sem aldrei fyrr. Á sinn hátt má segja að Sturla hafi veitt ríkisstjórninni náðarhöggið. Ég er viss um að margir landsmenn telja sig standa í þakkarskuld við hann vegna þess.
Persónulega tel ég að Sturla hefðu átt að hætta afskipti af pólitík, axla ráðherraábyrgð, eftir hvert klúðrið á fætur öðru við rannsókn á flugslysinu í Skerjafirði, aðdraganda þess og eftirmálum. Þar sem sambærileg vandamál og við stöndum frammi fyrir í dag við rannsókn á bankamálinu komu kannski berlegast í ljós. Vanhæfni sem m.a. orsakast af smæð samfélagins, af miklum og sterkum vina- og ættartengslum.
ES. Paranoja sjálfstæðismanna gagnvart Ólafi Ragnari er orðin sambærileg paranoju Jóns Ásgeirs gagnvart Davíð, bæði jafn vandræðalegt að verða vitni að.
Sturla og Herdís hætta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
6.2.2009 | 16:32
Dagur leikskólans - hún hefur verulega þörf fyrir leikskóla.
Þar sem konan þarf greinilega verulega á leikskóla að halda í framtíðinni, þá er ekki úr vegi að vekja athygli á grein eftir formann og varaformann Félags leikskólakennarasem finna má á vef Kennarasambands Íslands. Þar sem fjallað er um gangsemi og gæði leikskólans. Annars má bæta við að ég las áðan eftirfarandi á fésbókinni (klukkan 17.40)
Ingibjörg Kristleifsdóttirwrote
at 8:26pm on February 3rd, 2009Við Björg sendum grein í Mbl en þeir vildu hana ekki af því að hún var tileinkuð ákv. degi. Fæ hjálp á morgun til að setja hana hér inn.
Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta sérkennilegt mat, velti fyrir mér hvort sama gilti ef dagurinn væri helgaður öðru en börnum. Það segir mér enginn að allri umfjöllun hafi verið sleppt um Dag íslenskrar tungu sem dæmi. Mogginn hefði í það minnst mátt fjalla um leikskólann og leikskólabörn í tilefni dagsins, jafnvel þrátt fyrir að hafna aðsendri grein. Í því felst þjónusta við lesendur og málefnið.
Af vef Kennarasambandsins
Dagurinn í dag er merkilegur góðan dag!
Dagur leikskólans 6. febrúar er nú haldinn í annað sinn. Félag leikskólakennara, í samvinnu við menntamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélag og Heimili og skóla kom deginum á laggirnar í fyrra undir yfirskriftinni Við bjóðum góðan dag alla daga. Markmiðið með deginum er að vekja jákvæða umræðu og athygli á því fjölbreytta starfi sem unnið er í leikskólum. Hver og einn skóli og sveitarfélag hefur algjörlega frjálsar hendur um hvað er gert til að vekja athygli á skólastarfinu og deginum.
Gaman
Gott leikskólastarf einkennist m.a. af því að skipulagning og innihald taki mið af því að börnunum þyki gaman, þau njóti sín og hafi alltaf ögrandi og skemmtileg viðfangsefni að fást við. Leikskólakennarar og annað starfsfólk leikskóla er svo heppið, ef svo má að orði komast, að aðalnámskrá leikskóla er mjög víður rammi sem leyfir fjölbreytt skipulag og möguleika á margvíslegum leiðum til að ná markmiðum í skólanámskrá. Það er ekki síst það sem gerir leikskólastarf aðlaðandi og eftirsóknarvert.
Gagnlegt
Það er þekkt að vellíðan er ein af forsendunum fyrir því að nám eigi sér stað. Til að öðlast merkingarbæra þekkingu og þroska þarf manni að líða vel. Í leikskóla fer fram mikill lærdómur. Það er óumdeilt að leikskólanám er afar gagnlegt í nútímasamfélagi því það byggir markvisst undir það sem á eftir kemur og stuðlar ennfremur að jafnrétti meðal barnanna. Leikskólinn hefur þróast, bæði hvað varðar innihald námsins og aðra þjónustu. Hann mætir þörfum barna vel og kröfum foreldra, vinnumarkaðar og samfélags um leið. Skólafólk þarf að hafa þetta allt í huga og þróa áfram í góðri samvinnu við foreldra og rekstraraðila.
Glæsilegt
Leikskólar á Íslandi vekja athygli kennara í öðrum löndum. Það er eftir því tekið hversu vandaðir skólarnir eru og hversu faglegt og fjölbreytt starfið er. Ekki síst vekur eftirtekt, ef ekki öfund, hversu löggjafinn hefur verið framsýnn og markað leikskólanum lagalegan sess til jafns við önnur skólastig. Það er ástæða til að vekja athygli á þessu við hvert tækifæri sem gefst, ekki síst til að viðhalda þeirri góðu ímynd sem hefur skapast. Í þessu skiptir viðhorf leikskólakennara mestu máli. Að tala um starfið, fagið og starfsvettvanginn af virðingu og alúð er besta og ódýrasta kynning sem völ er á. Höldum því áfram hvernig sem árar í samfélaginu.
Björg Bjarnadóttir formaður og Ingibjörg Kristleifsdóttir varaformaður Félags leikskólakennara
Langaði í eitt barn enn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.2.2009 | 01:42
"Plís" Katrín Jakobsdóttir viltu skoða þetta
Tiltektir, eru ordrur dagsins. Í mörg ár hef ég og fleiri leikskólakennarar velt fyrir okkur hvers vegna það ráðuneyti sem fer með málefni leikskólans hefur ekki starfandi sérfræðing á því svið, leikskólakennara. En það fer að nálgast áratuginn síðan að síðasti og lengst af eini leikskólakennarinn lét af störfum þar. Ég veit að Félag leikskólakennara hefur margoft í gegn um árin, í ráðherratíð núverandi og fyrrverandi ráðherra spurst fyrir um það sama. Það hlýtur að teljast slæm stjórnsýsla að í fagráðuneyti sé ekki ein einasta manneskja sem hefur yfirgripsmikla þekkingu á málefninu.
Á annars glæsilegu Menntaþingi síðasta menntamálaráherra í september s.l. sagði fulltrúi leikskólans frá því að henni hefði verið boðið að tala deginum áður. Á auglýstri dagskrár var ekki að finna fulltrúa leikskólans og það var ekki fyrr en leikskólakennarar gerðu athugasemd að þessu var kippt í liðin. Dæmigert klúður vegna þess að ekki er leikskólamanneskja í ráðuneytinu. Það þætti sjálfsagt merkilegt ef ekki starfaði einn einasti sérfræðingur á sviði lögfræði í dómsmálaráðuneytinu.
Ég velti líka fyrir mér hversu margir starfsmenn ráðuneyta eru í óauglýstum stöðum sem byrjuðu kannski með tímabundnum ráðningum. Mér þætti vert að nýr menntamálaráðherra (sem aðrir ráðherrar) létu kanna hversu oft hefur verið farið á svig við lög um að auglýsa störf opinberra starfsmanna og þeir ráðnir í verkefnastjóra og tímabundnar sérfræðingsstöður sem hafa svo ekkert verið sérlega tímabundnar. Slíkt fyrirkomulag byggir undir tortryggni og ber með sér spillingu. Ég er ekki að halda því fram að allt það fólk sem hefur verið ráðið á slíkum forsendum sé óhæft. En það hefur yfir sér dökkt ský sem þarf að sópa frá. Það er hluti af siðbót hins nýja Íslands.
Í dag er Dagur leikskólans og margir leikskólar gera sér og öðrum dagamun í tilefni þess. En dagurinn er líka afmælisdagur stéttarfélags leikskólakennara sem var fyrst stofnað þennan dag 1950. Þegar leikskólakennarar gerðu í fyrsta sinn kröfur um kjarasamning árið 1950 mættu þær nokkuð sérstökum viðhorfum hjá viðsemjendum sínum
"Það væri makalaus ósvífni af þessari nýju stétt að gera kröfur um kaup og kjör ... Við fengum að heyra það að það góða fólk sem barist hafði fyrir stofnun Uppeldisskóla Sumargjafar hefði aldrei trúað því að námsmeyjar ættu eftir að haga sér svona ósvífið. Í blómstruðum kjólum." (Davíð Ólafsson 2000: 24)
Stundum finnst mér eins og við séum enn að berjast við sambærileg viðhorf. Það eru aðrir sem eiga að hafa faglegt vit fyrir okkur, störfum okkar og starfsaðstæðum. Í afmælisgjöf til leikskólakennara og sem gjöf til barna þessa lands, viltu, plís, skoða þessi mál Katrín.
Úr bloggfærslu minni í september
"Umkvörtunarefni mitt við ráðuneyti menntamála
Annars er það mitt helsta umkvörtunarefni við ráðuneyti menntamála sem hefur faglegt eftirlit með starfi leikskóla og ber á því ábyrgð að þar hefur ekki starfað leikskólakennari síðan Svandís Skúladóttir fór á eftirlaun á síðustu öld. Mér finnst það alveg ótrúleg móðgun við leikskólakennara að þar hafa menn ekki talið þörf á að nýta sér þekkingu þeirra að staðaldri. Það er ekki nóg að kalla til fólk í starfshópa inn á milli. Ég veit að stéttarfélag leikskólakennara hefur í gegn um tíðin gert við þetta athugasemdir en fyrir tómum eyrum. Kannski var undirbúningur ráðuneytisins fyrir málstofuna um leikskólann lýsandi dæmi um viðhorf ráðuneytisins gagnvart leikskólanum eða einmitt afleiðing þess að þar starfar enginn leikskólakennari. "
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 02:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.2.2009 | 12:43
Fyrirsjáanlegt
Það skipti í raun ekki máli hvort Baldur vissi eða vissi ekki um stöðu bankans þegar hann seldi. Það að hann hafi átt í bankanum fyrir fleiri milljónir og að hann seldi á krítískum tímapunkti er nóg til að varpa rýrð á orðspor hans. Það að fáir hafi vitað um eignarhluta hans getur bent til þess að hann hafi sjálfur gert sér grein fyrir að hann var á gráu svæði. Sennilega kom tilfærsla í starfi Baldri sjálfum minnst á óvart.
Ég taldi fyrir löngu að hann yrði látinn fjúka við stjórnarskipti, væri óþægilegt "lík" í lestinni sem enginn vildi hafa með. Það er eitt að vera í sérverkefnum og annað að vera ráðuneytisstjóri. Ég óska Baldri velfarnaðar í nýju starfi.
Baldur í leyfi? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.2.2009 | 18:38
Hver verður arfur búsáhaldabyltingarinnar?
Kaflinn sem ég las í gær í anarkíræðunum er eftir Emmu Goodman frá 1924 og fjallar um hvers vegna byltingin í Rússlandi misheppnaðist. Aðalniðurstaða Emmu var meginbreyting stjórnarfarsins hefði fólgist í að að skipta um toppa, einu alræðisvaldi hafi í raun verið skipt úr fyrir annað. Að áfram hefði verið hugmyndafræði um stjórn og rétt ríkisins til þess að móta og stýra hegðun þegnanna. Ríkið stjórnaði fólkinu sem fyrr og nýjar elítur búnar til. Til að byltingar geti gengið upp þarf að eiga sér stað bylting hugarfarsins, bylting grunngilda og hugmynda um mannréttindi til handa öllum. Það þurfi m.ö.o. að umbylta gildismati og vinnubrögðum. Einungis þá er bylting með öllum sínum fórnarkostnaði réttlætanleg að mati Emmu.
Nú má velta fyrir sér hver verður arfleið búsáhaldabyltingarinnar? Verður það skipti á ráðandi öflum, nýtt fólk að kjötkötlunum, en áfram kjötkatlar. Eða verður það eitthvað meira. Tekst okkur að endurskilgreina og endurskapa grunngildi samfélagsins. Verður til dæmis meira virði að vinna með fólki, sinna börnum og gamalmennum en peningum? Hvernig ætlum við að skilgreina lýðræði, rétt þeirra sem hafa meirihluta til að stjórna í skjóli þess. Eða skyldur þeirra sem í meirihluta eru til að hlusta og taka tillit til allra. Líka þeirra sem eru á jaðrinum? Felur vald fyrst og fremst í sér rétt eða er það skilgreint út frá skyldum.
Mér finnst athyglisvert að greining Emmu Goodman er rituð rétt eftir byltinguna og hún er merkilega nákvæm. Hún er holl lesning.
Hér má lesa sjálfsævisögu Emmu Goodman
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.2.2009 kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.2.2009 | 02:37
Af pólitískri hugmyndafræði unglingsáranna
Á mínum ungdómsárum las ég eins og ungu fólki er líkt töluvert um pólitík, það var anarkisminn sem átti hug minn og heillaði mig meira en aðrar stefnur. Ég svalg í mig frásagnir af Parísarkommúnum og þátttöku anarkista í borgarastyrjöldinni á Spáni. Það sem heillaði mig var hugmyndin um þátttöku og samræðu. Hugmynd um að elítur væru samfélaginu hættulegar. Ég velti heilmikið fyrir mér hvernig samfélagsleg stjórn gæti átt sér stað í anarkísku samfélagi. Margt af því sem anarkistar hafa haldið á lofti er í dag hluti af hugmyndum okkar um samfélagið, umræða sem tengist þátttökulýðræði, um áhrif borgarana á eigið líf, vinnustaðarlýðræði, meira að segja má telja að vinnubrögð sem lögð eru til í tengslum staðardagskrá 21 byggi á arfleið anarkismans. Anarkisminn sem ég las (eða eins og ég las hann) var nefnilega andsvar við forræðishyggju kapítalismans og kommúnismans. Hann var nær hinum sósíalísku syndíkalistum sem trúðu á mátt stéttarfélaga til áhrifa í samfélaginu. Stéttarfélaga þar sem fólk sameinaðist um tiltekin gildi og vinnubrögð. Kannski var það líka þess vegna að þegar ég hóf afskipti af stjórnmálum, valdi ég að gera það innan míns stéttarfélags. Síðan eru liðin mörg ár og ég verð að viðurkenna að ég komst að því að innan stéttarfélaga var elítuhugmyndafræðin og valdabaráttan grasserandi. Þar tíðkuðust "sellufundir" í ýmsum formum. Það var þar sem ég sá að ég gat alveg eins verið í pólitískum flokki, baktjaldafræðin byggðu á sömu lögmálum og ef ég vildi breyta samfélaginu yrði ég að gera það innan frá. Svo fór ég í prófkjör og líka í framboð. Meira að segja tvisvar, ekki ofarlega á lista. Sat í nokkrum nefndum. Skal viðurkenna að ég varð samt frekar móðguð þegar mér var boðið varamannasæti á eftir ungling (að mér fannst) í þá stjórnarnefnd þar sem ég þekkti allra best til. Sá að ég átti ekki framtíð í pólitík, við áttum ekki samleið ég og pólitíkin. Síðan hef ég ekki komið nálægt henni á sama hátt. Nú básúna ég skoðanir mínar aðallega úr sófanum heima.
Ástæða þess að ég er að rifja þetta upp er að ég fann hina sígildu bók The anarchist reader í ritstjórnGeorge Woodcock, við tiltekt í bókaskápnum. Er að hugsa um að glugga betur í hana á næstunni, sérstaklega kaflann um menntun í anarkísku samfélagi, sem ber það skemmtilega heiti The evil of national education, því næst er það kaflinn um education through desire báðir eftir William Goodwin eiginmann Mary Wollstonecraft sem ritaði frægt rit um réttindi og menntun kvenna á átjándu öld.
Það er augljóslega ákveðin þverstæða fólgin í því að trúa á skóla og skólakerfi, en trúa ekki á valdakerfi. Menntun er álitin einn horsteinn samfélagsins og á þess ábyrgð, Wollenstonecraft hélt því t.d. fram að illa menntaðar konur yrðu lítillátar mæður. Einhvernvegin urðu anarkistarnir að leysa þetta dilemma. Skólinn er af mörgum álitinn einn hornsteinn lýðræðisins en samtímis með gerræðislegri stofnunum samfélagsins. Þessi þverstæða var Dewey hugleikinn, hann taldi að skólinn þyrfti að byggja á hugmyndafræði samfélagsins og vera samtímis ákveðið samfélag. En nú er sem sagt tími upprifjunar og endursköpunar. Nú er ég að skoða í mína kistu og spá í hvað ég ætla að endurskapa. Rifja upp kynni af hugsuðum sem ég hef ekki lesið í 30 ár en hafa örugglega haft mótandi áhrif á sjálfsmynd mína.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)