Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
15.7.2008 | 13:11
Framtíðarspá Naisbitt frá 1984 (Megatrends)
Við erum að drukkna í bókum. Ég er í skýjaveðrinu að reyna að koma skikki á fagbókasafn mitt sem hefur verið á fjórum stöðum í íbúðinni og á skrifstofunni minni fyrir norðan. Ekki nóg með það heldur er ég óforbetranlegur pappírssafnari og á ýmsa pappíra sem ég hef sankað að mér í yfir 30 ár. Núna er ég að gera tilraun til að sameina fagbækur á aðallega einn stað í íbúðinni. Til þess að þetta sé unnt erum við að færa fram og til baka allar aðrar bækur, til dæmis barnabókina Berjabít og Megatrends, framtíðarspá John Naisbitt frá 1984 sem var við hlið bók Philip Roth, The breast. Þegar ég var barn og átti að taka til, byrjaði ég alltaf í bókahillunni og stoppaði þar, systur minni til mikilla leiðinda (við áttum saman herbergi). Sé að ég er ekki alveg laus við þennan ósóma enn. Renndi mér í gegn um Naisbitt og ákvað að leyfa þeim sem nenna að lesa færslun "njóta" stikkorða úr bók hans.
En Naisbitt skilgreindi í bókinni 10 helstu meginviðfangsefni 21. aldar, hann taldi að breyting yrði frá:
Iðnvæddum samfélögum til þekkingarsamfélaga - hann segir í upphafi kaflans vera hissa á hvað margir bandaríkjamenn hafni því að samfélagið sé að breytast yfir í þekkingarsamfélag, sérstaklega þegar að hans mati það sé ekki lengur spurning um hvort og hvenær, í raun hafi þessi breyting þegar verið raunveruleiki 1982. Í vor skrifaði einn neminn minn í framhaldsnámi ritgerð um þekkingarstjórnun í leikskóla. Þekkingarstjórnun er þegar rótgróin stefna í stjórnun.
Þvingaðri tækni til hátækni/persónulegri tækni- Með iðnbyltingunni jókst þörf fólks fyrir samskipti. Naisbitt tekur sem dæmi að þegar iðnbyltinginni náði hámarki sínu í Bandaríkjunum hafi aldrei fleira verkafólk verið í stéttarfélögum. Það þurfti á því að halda að auka félagleg samskipti sín vegna þess m.a. að vinnan varð síflett vélrænni. Hann bendir á að samfara tilkonu sjónvarps hafi líka orðið til alla vega hópmeðferðaáætlanir. Með aukinni hátækni eykst þörf mannsins til að skapa sé samskiptavettvang þar sem hann getur átt í persónulegum samskiptum. Hann telur líka að við hvert nýtt skref sem við tökum til hátækni - tökum við annað skref til að auka samskipti á milli okkar en það sé ekki alltaf víst að við höldum í við tæknina. Naisbitt telur að maðurinn verði að reyna að finna jafnvægi á milli tækninnar og mannhelginnar.
Ps. hann hefur reyndar áhyggjur af því að i öllum æðibunuganginum við að mennta hátæknifólkið, gleymum við að mennta fólk til að byggja og sjá um kerfin.
Landshagkerfum - til alþjóðavæðingar- Hér fer Naisbitt yfir völlinn hann spáir því að Bandaríkjamenn eigi eftir að dragast enn meira aftur úr. Staða þeirra sem fjárhagslegt ofurveldi sé ekki bara að hrynja heldur í raun að hluta hrunið. Þjóðir eins og Singapore, Suður Kórea, Brasilía og Kína sæki á. Hann bendir á að markaðurinn eigin eftir að breytast - tekur sem dæmi af samsetningu bíla, þar sem einstakir hlutar þeirra séu eru framleiddir á mörgum stöðum og settir saman á enn öðrum stöðum. Ein helsta undirstaða virkni alþjóðahagkerfisins telur hann vera gervitungl og hraða þess sem upplýsingar geta ferðast um heiminn.
Skammtímahugsun - til langtímahugsunnar- Hér gagnrýnir Naisbitt þá áráttu bandarískra viðskiptajöfra að gera helst skammtímaáætlanir, allt til að láta næsta ársfjórðung líka betur út á pappírum (svona eins og Enron). Hann telur reyndar að þarna sé að glitta í breytingu alla vega sumir Bandaríkjamenn séu að átta sig á mikilvægi þess að gera langtímaáætlanir. Naisbitt er sérlega umhugað um áhrif skammtíma áætlana á umhverfið. Þegar fólk hugsi sífellt í stutttíma áætlunum sé það ekki að horfa á vistkerfi mannsins, það verði að breytast. Naisbitt segir versnandi lífskjör almennings megi að hluta rekja til slæmra stjórnenda í Bandaríkjunum. Hann segir að þeir reyni að þvo hendur sínar, en raunin sé að vegna þess hversu þeir eru uppteknir af skammtímagróða og magnmælanlegum breytum standi þjóðin frammi fyrir verri lífsskilyrðum.
Hann gerir svo nokkra úttekt á því sem nefnt hefur verið Law of the Situation og er kennt við Mary Parker Follett og gengur úr á að fyrirtæki geri sér grein fyrir, fyrir hvað þau standa. Sem dæmi þá sannfærði hún gluggatjaldafyrirtæki árið 1904 um að það væri fyrirtæki sem sérhæfði sig í að stjórna birtu, við það margfölduðust möguleikar þess. Naisbitt tekur hinsvegar sem dæmi af fyrirtæki sem ekki gerði sér grein fyrir þessu, bandarísku járnbrautirnar, þær hafi talið sig ódauðlegar og ekki haft vit á að skilgreina sig í ljósi breyttra samgöngu og vöruflutningahátta.
Miðstýringu til valddreifingar- Hér kemur heill kafli um gæði þess sem ég kýs að nefna nýfrjálshyggja. Þar sem ég var að klára í gær að skrifa heila ritgerð um efnið er ég ekki í skapi til að blogga um sama efni akkúrat núna. Ja nema til að segja að hann bendir á að til að ein forsenda valddreifingar séu sterk svæðabundin stjórnvöld og raunveruleg þátttaka þeirra sem búa á hverju stað. Og að orkuvandamál, verði til þess að knýja fólk til breytinga. Knýja fólk til breyttra lífshátta. (sem við sáum í gær í frétt um samdrátt í kortaviðskiptum í fyrsta sinn í fleiri ár hérlendis). (Og þetta með glókal lókal, hugmyndafræðina, sem meðal annars slow living movement er byggt á).
Naisbitt bendir á að það sé í raun í andstöðu við hugmyndafræði lýðræðis að hafa sterka leiðtoga, slíkt sé ef eitthvað er frekar merki um slæma stöðu þess, einu skiptin sem Bandaríkin hafi haft þörf fyrir sterka leiðtoga hafi verið þegar þjóðin kaus Lincoln og Roswelt annars hafi forsetar eftir á verið Æi hvað heitir ann aftur...
Stofnanahjálp til sjálfshjálpar- við berum sjálf ábyrgð á okkur og lífsháttum okkar, megrun, hlaup, líkamsræktarmyndbönd, við hættum að treyst á yfirvöld með allt, svo sem eins og skóla, einkaskólar verða algengari, heimaskólun, nágrannagæsla, samfélagsáætlanir, safnaðastarf. Fólk treystir meira á sjálfgreiningar varðandi sjúkdóma. Fleiri bækur um holla lífshætti og um mataræði sjást í hillum bókabúða er hluti af því sem Naisbitt telur til.
Fulltrúalýðræði til þáttökulýðræðis - minni þátttaka í kosningum, í starfi stjórnmálaflokka, meiri þátttaka í grasrótarsamtökum. Þeir sem verða fyrir áhrifum af tilteknum ákvörðunum verða að koma að ákvörðunarferlinu, hvort sem okkur líkar betur eða verr segir Naisbitt þá hefur hugmyndafræði þátttökulýðræðis seytlað inn í grunn gildismat okkar. Hann bendir á að þátttökulýðræði hafi gjörbreytt ásýnd sveitarstjórnamál í Bandaríkjunum þar sem kosið er um alla vega tillögur sem snerta fólk í byggðarlögum beinni kosningu. Upp úr 1970 vað sprengja í slíkum kosningum og hafa þær ekkert minnkað. En hann bendir á að áhrifin hafi náð lengra en til sveitarstjórnarmál, og á þá við til fyrirtækja. Hann spáir reyndar í kjölfarið dauða tveggja flokka kerfisins í Bandaríkjunum vegna þess að sífellt færri finna sér samastað innan þeirra (Sennilega tekur það lengri tíma en aldarfjórðung að ganga frá jafnrótrónu kerfi alla vega er það enn til staðar).
Síðan fjallar Naisbitt nokkuð ítarlega um áhrif þessara hugmyndafræði á fyrirtækin og stjórnun þeirra. hvernig starfsfólk fer að seilast til meiri áhrifa á vinnustöðum. Það eru fjórir þættir sem hann sér sem verða til þess að lýðræði á vinnustöðum eigi eftir að aukast, þeir eru; neytandinn og áhrif hans, þörfin eftir utanaðkomandi fólki í stjórnir fyrirtækja, meiri virkni hlutafjáreigenda (eins og Vilhjálms Bjarnasonar hérlendis) og sterkari lög um réttindin starfsfólks.
Síðan rekur Naisbitt hvernig byltingar verða frá grasrótinni og upp en ekki öfugt. Þar sé aflið. En líka vegna þess að tíðarandinn sé réttur, þegar fer saman persónuleg og pólitísks gildi þá er tími breytinga. Hann lokar kaflanum á að segja að nýi leiðtoginn sé sá gerir hluti mögulega ekki sá sem gefur fyrirskipanir.
Píramídastjórnun til tengslaneta.- Bandaríkjamaður setti fram kenningu Y ( kenning McGregor um mannauðstjórnun) en í Bandaríkjunum vakti hún mesta athygli í bókum og tímaritum á meðan að Japanir nýttu sér hana og fluttu aftur inn til Bandaríkjanna í formi vara sem kepptu við og sköruðu fram úr framleiðslu Bandaríkjamanna. Tengslanet gera möguleg samskipti á milli fólks þvert á á hópa, nokkuð sem píramídastjórnun getur ekki. Þess vegar eru tengslanet árangursrík samskiptatæki, styrkur þeirra flest í fljótlegri miðlun upplýsinga. Tengslanet verða til þegar fólk leitast við að breyta samfélögum, á sjötta áratugnum má rekja hreyfingar eins og friðar-, kvenfrelsis-og umhverfishreyfingar til tengslaneta. Á vinnustöðum verða áhrifin breytt stjórnunarmunstur, píramídinn lætur undan og fólk fer að hafa fleiri en einn yfirmann sem dæmi; gæðaráð og nefndir hafa eftirlit með framleiðslunni, skrifstofur víkja fyrir opnum vinnurýmum, fyrirtæki munu leita til utanaðkomandi til stjórnunar, klæðnaður verður óformlegri, fólk verður hvatt til umræðu og skoðanaskipta, allir eru hvattir til að leggja sitt að mörkum og koma með nýjar áskoranir. Síðan tekur Naisbitt dæmið af tveimur fyrirtækjum, Intel og HP. (Bæði til í dag og annað meira að segja í fréttum áðan).
Norðri til suðurs - hér ræðir Naisbitt aðallega um aukin áhrif suðurríkjanna (ekki biblíubeltis eingöngu) á efnahagslíf í Bandaríkjunum.
Annað hvort/ eða - hér ræðir hann um breytt gildismat, fólk þurfi ekki að vera annað hvort eða. Það geti hver og einn verið margt. Eitt útilokar ekki lengur annað. Hann ræðir mikið um breytta samsetningu fjölskyldna og m.a. áhrif þess á vinnumarkaðinn.
Í skilgreiningum Naisbitt á meginstraumum 21. aldar sá hann ekki fyrir svonefnt "wild card" eða jóker sem 11. september 2001 er. Hann sá ekki fyrir skiptingu heimsins á milli trúarhópa og hann hafnar því að forseti Bandaríkjanna hafi raunveruleg áhrif. Eftir að hafa lesið hrollvekjandi lýsingar á gulum ljósum Bush forseta og eftir að hafa búið í Bandaríkjunum veturinn sem innrásin var gerð í Írak veit ég ekki hversu rétt hann hefur fyrir sér. Margt annað sem fram kemur í bókinni stenst hinsvegar ágætlega tímans tönn, nú þarf ég auðvitað að verða mér úti um nýrri útgáfur og sjá hvernig heimsmynd hans hefur breyst. (og bæta þar með við enn einni tilgangslausri bókinni).
Ætli sé ekki best að snúa sér að skúringum...
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2008 | 15:41
Vöfflujárn sem hagar sér eins og hrukkuhrædd manneskja
Það rignir og rignir regnhlífarnar á og ég brosi. Ég var farin að finna innilega til með gróðrinum. Horfði á sölnað gras með sorg í hjarta. Nú skil ég Ameríkanana sem teppaleggja garðana hjá sér á þurrkasvæðum. Vatnið of dýrmætt til þess eins að vökva gras manninum til yndisauka en samtímis þráin eftir að hafa annað en eyðimörk fyrir augum.
Þó svo ég gleðjist yfir rigningunni vona ég að hún verði ekki jafn fyrirferðarmikill og hún var í haust. Að það rigni sem eftir er sumars.
Nú sit ég föst við tölvuna við lestur og skrift. Hef verið að lesa margar skemmtilegar og áhugaverðar greinar um félagsfræði menntunar. Er að reyna að koma sjálfri mér af stað. Sýnist það bara ganga nokkuð. Kannski að ég geti þakkað rigningunni.
Hrukkuhrætt vöfflujárn
Annars er það af mér að frétta að áðan ætlaði ég að gerast myndarleg og baka vöfflur. Hrærði upp deigið og alles. En vöfflujárnið mitt er komið til ára sinna og krefst mikillar athygli, það er eins og hrukkuhrædd manneskja sem alltaf er að maka framan í sig kremum. Járnið vill nefnilega láta smyrja sig á milli þess sem það steikir fyrir mig vöfflur. Ég læt náttúrlega undan þessum dyntum nema áðan var ég eitthvað utan við mig, taldi mig hafa hellt smá olíu í krukku til að pensla járnið með. Svo byrja ég að pensla. Olían hrekkur öll í litlar kúlur á járninu og ég hugsa, auðvitað ég var nefnilega að þvo pensilinn, hann hafði verið í krukku með balsamik-olíu, Þetta eru áhrif vatnsins. Svo hugsa ég ekkert meira set deig í járnið og finn þá svona sérkennilega lykt. Ég dýfi puttanum í olíuna og bragða. Ég hafði hellt UPPÞVOTTALEGI í krukkuna og ég held að sápubragðið sé enn einhverstaðar á bak við, svona eins og þegar ég gerði tilraun til að taka inn lýsi sem barn.
Eins og fólk sem ekki má þvo með sápu í framan af því að það verður svo þurrt, alveg eins hagaði járnið mitt sér á eftir. Festist allt í því jafnvel þrátt fyrir smurningu með afbragðsólívuolíu. Á endanum fékk ég samt fínustu vöfflur og át með blá og sólberjasultunni frá í fyrra, hún smakkast ennþá vel.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.7.2008 | 01:17
Undur og stórmerki
Í nokkra mánuði er Lilló búinn að reyna að fá ýmsa pípara til að líta á ókláraða baðherbergið í kjallaranum. "Já, já" segja þeir allir, "kem og lít á þetta fljótlega". Og svo ekki söguna meir. Í dag sit ég í sakleysi mínu úti á palli (fólk er svo einstaklega vinsamlegt að trufla mig töluvert frá skrifum og ég gríp hverja heimsókn fegins hendi). þarna sit ég þegar síminn minn (hann hringir afar frekjulegri hringingu, svona svo mér finnst ég hafa gert eitthvað af mér hringingu), byrjar að hringja. Ég svara náttúrulega í grænum hvelli og er það þá ekki pípari sem ætlar að líta við í fyrramálið. Skoða verkið. Ef ég væri með lýs, dyttu þær allar dauðar úr hausnum á mér að undrun einni saman. Svo fór ég að hugsa að nú sé kannski tími fyrir okkur smáfuglana með litlu verkin. Nú förum við að komast á verkefnalista iðnaðarmanna.
Annars er húsið okkar þannig að við klárum það sennilega alveg aldrei, alla vega ekki áður en elliheimilisdvölin tekur við. Núna sýnist okkur t.d. rennurnar sem við létum skipta út fyrir 15 árum vera að gefa sig. Þannig er þetta eilífur hringur, svona eins og hjá fólkinu sem starfar við að mála Golden Gate brúna alla ævi.
Já og Lilló skrapp í vatnaveiði og veiddi ekkert, ég fór ekki með er búin að sitja heima við og gera tilraun til að vera fræðileg í skrifum.
Grillaði svo mat handa syninum sem leit við með piltinn unga, Matseðill á grilli:
Maríneruð kjúklingabringa, (sem ég borða alls ekki)
kartöflusneiðar maríneraðar í olíu, balsamik-ediki og grófu salti stráð yfir fyrir grillun,
grillaðar paprikur, skinnið grillað alveg svart, þær lagðar í lög af olíu, balsamik og sítrónu (eftir grillun, svarta húðin pilluð af),
Heimagert grill-flatbrauð (án gers en með oggu kumíni)
og taziki gert úr hrærðu KEA skyri, ólívuolíu, oggu salti, miklum hvítlauk og heilli agúrku.
Eiginmaðurinn fékk svo afganginn þegar hann kom seint um síðir úr veiðiferðinni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.7.2008 | 19:48
Sitthvað að dedúa og kláraði pallinn
Ég hef varla komið inn fyrir dyr undafarna daga. Verið í garðinum að dedúa. Nú er hesthúspallurinn tilbúinn til notkunar og við öll í húsinu held ég bara nokkuð ánægð með árangurinn. Ég skrapp í IKEA og keypti tréflísarnar eftir að hafa rætt við Líney á næstu hæð. Í gær kom sonurinn með úrsnara, tilkynnti mér að áður en ég skrúfaði yrði ég að bora með honum í hverja einustu flís þar sem skrúfan ætti að vera og ég boraði í hverja einustu flís. Síðan var að koma fyrir spýtum undir og festa allt saman. Ég var svo heppinn að Davíð leit sem snöggvast upp úr doktorsritgerðinni sinni og við hjálpuðumst að við að festa flísarnar niður, settum smá munstur í miðjuna meira að segja.
hesthúspallurinn - nýsmíðaði
Lilló og Palli að njóta sumarblíðu á hesthúspallinum í morgun (8. júlí)
og svona líta herlegheitin út í dagsbirtu
Annars hefur verið frekar gestkvæmt hér, gömul vinkona og sambýliskona okkar, hún Sigga Vala er á landinu og kom til okkar með börnin sín fjögur í heimsókn. Þetta er hin myndarlegasti hópur sem hún á. Dæturnar þrjár búa og starfa hér á landi, alla vega um sinn, en yngstur er 9 ára drengur. Hann undi sér hér í garðinum við kubba og dót sem við létum útbúa fyrir vísindasmiðjuna í Ráðhúsinu vetur. Það var gaman að hitta þau öll og það verður að segjast eins og er gamall vinskapur lifir lengi og á endanum er það að hittast eins og við höfum síðast hitts í gær.
Nú erum við pössunarpíur fyrir brúðhjón helgarinnar sem smelltu sér í sund. Lilló búinn að spila á gítar ljúfar ballöður fyrir piltinn unga svo á hann sótti svefn, hann sefur nú undurfallega við hlið mér í stól.
Áróra á loftinu skrapp með pabba sínum í Nauthólsvík, þegar hún kom heim varð hún fyrir svolitlum vonbrigðum með að Sturla væri farinn. Er Sturla ekki heima?, spurði hún. Hann hefur verið svo mikið hér undafarið (í pössun á daginn) að henni finnst hann bara eiga sitt annað heimili hér.
Ómi og Kung Fu Panda
Vinir og fjölskylda | Breytt 9.7.2008 kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.7.2008 | 12:54
Hjónavígsla af fornum sið
5.7.2008 | 13:10
Brúðkaup í dag
Í dag ætlar vinafólk okkar að gifta sig að heiðnum sið. Lilló er búinn að vera upptekinn við ræðuskrif og gítaræfingar, ég hef hinsvegar aðallega verið að hugsa um lausnir varðandi hesthúspallinn í garðinum. Ég komst að niðurstöðu sem flestir í húsinu er nokkuð sáttir við og byrjaði að vinna í henni í gær. Þvingaði Lilló með mér í Húsasmiðjuna í timburkaup í morgun. Ákvað að riðfríar skrúfur og möl geti beðið morgundagsins. Það er nefnilega opið í Húsasmiðjunni á morgun bara ekki timbursöludeildinni. Stefni að því að pallurinn verði nothæfur til íveru seinnipartinn á morgun. Svo framalega sem við verðum ekki framlág eftir brúðkaup.
Ég hlustaði á hádegisfréttir og tek undir með þeim sem þar töluðu til varnar keníska flóttamanninum. Mér finnst íslensk stjórnvöld til skammar í þessu máli. Stundum er ég að hugsa um hvernig við túlkum samninga, suma viljum við túlka sem þrengst, en aðra lítum við á sem viðmið. Þá eiga allar sérreglur heimsins að gilda um okkur. Rökin eru í báðum tilfellum, af því bara. Af því bara að ...
En ætli það sé ekki best að fara að búa sig til veislu, vígslan verður undir berum himni eftir u.þ.b. tvær stundir.
Síðustu daga hefur Sturlubarnið verið hjá okkur á daginn og það haft áhrif á dagskrá heimilisins. Við fórum með hann í gær í fyrsta sinn í leikskóla, ekki hans eigin heldur frænku hans, hennar Diljá. Hún er á Njálsborg og þar var haldin sumarhátíð. Diljá var fyrst svolítið hissa á að hitta okkur en jafnaði sig á því og varð eftir það hin glaðasta. Hinni pabbi hennar Diljá stóð við grillið allan tímann og handlék pylsur og brauð af mikilli list. Svo var búið að fá lánaðan hoppkastala og einn afi (reikna ég með) spilaði á harmonikku og einn pabbi mætti með lítið trommusett og nokkur ásláttar hljóðfæri. Úr varð mikið djamm í leikskólagarðinum. Sturlubarnið fékk að skríða aðeins á jörðinni, í grjótinu og ljósbláu buxurnar hans urðu vel skítugar. Ég sagði við Eddu leikskólastjóra að hann þyrfti að æfa sig í þessu og foreldrarnir að æfa sig í að taka ámóti honum skítugum. Ég hef nefnilega aldrei skilið þegar fólk reiknar með að börn komi heim af leikskólanum í jafnreinum fötum og þau fóru eða stress starfsfólksins að halda fötum barnanna hreinum. Leikskólar eru í eðli sínu staðir til að skíta sig út. Þar eru atkvæðamikill börn sem eru að kanna tilveruna. Hluti af því er að verða skítugur og vita að það er í lagi. Svo er á flestum heimilum ágætis þvottavélar, fyrir utan að flest börn eiga orðið svo mikið af fötum að þau komast varla yfir að fara í þau öll.
Við þurftum að drífa okkur heim en stoppuðum samt við í Vörðunni og keyptum eitt stykki hókus pókus stól. það var svo gestaþraut gærkvöldsins að setja hann saman. Ástæða þess að við þurftum að drífa okkur var að klukkan hálf sjö átti ég von á ljósmyndara frá mogganum. Hann kom til að taka myndir af mér ELDA. Á morgun birtist sem sagt í mogganum uppskrift af súpu frá mér. Frekar fyndið. En ástæða þess að ég var beðin um uppskriftina var að súpan í fimmtugs afmælinu hennar Systu. Hún spurðist út. Ég kom heim rétt fyrir fimm og skellti mér í súpugerðina. Krakkarnir gáfu mér mandólín hníf frá Kokku í jólagjöf sem ég hélt að ég myndi lítið nota. Nú er ég komin upp á lagið með að skera grænmetið í honum, allt voða flott og hver einasta gullrótarsneið jafnskorin. Ljósmyndarinn mætti svo á tilsettum tíma, þá var súpan tilbúin og líka brauðið sem ég skellti í með. Allt ljósmyndað í bak og fyrir. Aðalvandamálið við súpugerðina var að ég þurfti að skrifa allt niður jafnóðum og ég eldaði, ég á nefnilega ekki uppskrift og hún er í raun alltaf síbreytileg, ákveð að skella oggu af þessu og oggu af hinu. Íris kvað upp um að súpan væri hin besta og vona ég að ef einhver leggur í að elda hana, reynist það rétt.
Í dag eigum við svo von á næturgestum en Palli og Liv ætla að gifta sig að heiðnum sið á laugardag. Til brúðkaupsins koma gestir víða að úr heiminum meðal annars frá Noregi, heimalandi brúðarinnar. Við vorum beðin um að hýsa einhverja þeirra í nokkra daga. Lilló er þessa daga að æfa söng og gítarspil með Dedda frænda sínum en þeir ætla víst að spila í veislunni.
Jæja er annars að velta fyrir mér fréttum að REI og hvað sé í þeim pakka, meðferð okkar á flóttafólki, og ég hef eins og aðrir áhyggjur af atvinnuástandi og fjármálum heimilanna og viðbrögðum stjórnvalda. ég vona að okkur beri samt gæfu til að nýta þetta sem tækifæri til að endurforgangsraða í lífinu. Að við leyfum okkur að setja fjölskylduna og börnin ofar en nú er gert. Setja tíma okkar með börnunum ofarlega ef ekki efst.
ps. Við sem erum yfirleitt alltaf með myndavél á okkur vorum það ekki í gær, því miður engar myndir til hjá mér enn af þessum fyrsta degi Sturlubarnsins í leikskóla.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.7.2008 | 22:07
Með köttinn í göngutúr
Skrifstofan mín er á neðri hæð hússins, en þar sé ég ekki út sem mér finnst alveg ferlegt. Vegna þessa vinn ég alltaf á efri hæðinni, sit við borðstofuborðið og á í fjarsambandi við mannlífið í götunni. Mér er þetta fjarsamband alveg nauðsynlegt, nógu getur verið einmanalegt að vinna ein heima alla daga.
Í götunni minni er nokkur umferð, ekki bíla heldur gangandi fólks. Fólkið í hverfinu, túristar, fólk úr úthverfum, fólk sem einu sinni átti heima í götunni. (Það kemur alltaf annaslagið fyrir að hér bankar upp á fólk sem átti einu sinni heima hér, átti afa og ömmu hér, fólk sem vil fá að kíkja niður í garð eða bara skoða hvort húsið er eins og það mundi). Á ferðinni í götunni minni er fólk sem fer með börnin í gönguferðir og sumir hundana sína.
Ég held hinsvegar að einn nágranni minn slái ýmsu við. Hann er vanafastur og gengur sama hringinn um svipað leyti á hverju kvöldi. Það sem gerir þessar gönguferðir hans sérstakar er að hann er úti að ganga með köttinn sinn. Kötturinn þarf stundum að stoppa og skreppa inn í garða og þegar nágrannann fer að lengja eftir kisa, hringlar hann lyklunum sínum og kisi kemur skoppandi. Ég er búin að sjá og fylgjast með þessum nágranna mínum á öllum árstímum, alltaf á sama tíma, alltaf sama hringinn. Rétt í þann mund sem ég settist við tölvuna áðan gekk hann hjá og ég heyrði hringlið í lyklunum.
Það má vera að ég sjái ekki fjöll, en ég hef mannlíf. Fyrir mörgum árum átti ég samræðu við son minn um mögulega búsetu. Hann sagðist ekki geta hugsað sér að flytja í hverfi sem svæfi. Þar sem ekki væri umferð gangandi fólks. Hann er alinn upp í miðbænum, fólkið er hans fjöll.
1.7.2008 | 01:37
Sturlubarnið verður örugglega KRingur
Þessa vikuna er Sturlubarnið hjá afa og ömmu á daginn. Þar sem hann er farinn að standa upp og ganga með öllu sem hann getur, tókum við á það ráð að útbúa eina hillu með dótinu hans. Hillu sem er í hans hæð og hann þarf að hafa aðeins fyrir að nálgast. Þar röðum við dollum, glösum, boltum, hinum sívinsæla og ástsæla Hómer og öðru því sem við teljum að gleðji lítinn mann. Sturlubarnið er orðinn nokkuð fær í að ferðast um þessar slóðir. Skríður þangað, reisir sig við og finnur sitt dót. Í dag uppgötvaði hann hinsvegar að það er hilla fyrir ofan hilluna hans og þar er enn meira spennandi dót. Þessi merka uppgötvun varð til þess að við sáum hvað klifureðlið kemur snemma fram. Sturlubarnið bar sig að eins og pró. Reyndi að beita sömu þekkingu og hann notar til að komast um lárétt plan, skriðtæknina, en nú í lóðréttu plani. Hann hafði reyndar ekki árangur af erfiðinu, en einhvernvegin grunar ömmu að þetta hafi bara verið fyrsta tilraun, þeim eigi eftir að fjölga með auknu verkviti og öruggari hreyfingum. Sturlubarnið er nefnilega afar varkár þegar hann er á tveimur fótum. Amma er búin að sjá út að hann beitir ákveðinni tækni til að færa sig á milli sumra staða. Hann sleppir ekki haldi af fyrri staðnum fyrr en hann hefur örugga handfestu þar sem hann ætlar sér. Hann á það hinsvegar til að sleppa sér ef hann er með eitthvað áhugavert í höndunum, eitthvað sem krefst beggja handa. En þau augnablik eru enn sem komið er víkjandi.
Annars er Sturlubarnið búinn að uppgötva að henda hlutum, ekki bara úr barnastólnum eða kerrunni heldur líka þar sem hann situr á gólfinu. Afi segir henda og Sturlubarnið hendir. Nú þarf að kenna honum að grípa. Hitt sem hann er upptekinn af þessa daga er að skríða upp að hlutum og setjast þar með bakið upp við. Hann pressar sig upp við veggi og skápa. Situr og horfir á okkur athugulum augum.
Í dag fékk Sturlubarnið að fara með ömmu á fund, við löbbuðum inn í Laugardal í þessu líka fína veðri. Þegar á fundinn kom var hann pínu feiminn. Hann hafði nefnilega aldrei hitt þessar konur fyrr og þá var nú gott að halla sér að öxlinni á ömmu. Ömmu finnst það hið besta mál að Sturlubarnið bregðist svona við fólki sem hann er að hitta í fyrsta sinn. Með því sýnir hann meðvitaða varkárni og auðvitað er þetta líka merki um ákveðinn þroska. En eftir smá stund var hann búinn að jafna sig og þá voru þessar konur bara nokkuð áhugaverðar, máttu meira að segja gefa honum barnamat. Annars var hann ljúfur sem lamb allan fundinn og við komust yfir að ræða allt sem ætlunin var að ræða.
Sturlubarnið er félagsvera hann er sérstaklega áhugasamur um önnur börn, reynir hvað hann getur að ná í þau. Það er óskaplega gaman að sjá hvað viðbrögð hans við börnum eru allt öðruvísi en viðbrögð hans við fullorðnum. Aha þarna er vænlegur leikfélagi gæti hann verið að hugsa. Um daginn þegar við afi vorum með hann á kaffihúsi og hann átti að sofa reif hann sig alltaf upp. Á endanum gáfumst við upp (við erum dáldið léleg í að vera hörð við hann) og leyfðum honum að sitja í vagninum. Á næsta borði sátu Spánverjar og töluðu hátt. Hann sat lengi eins og bergnuminn og horfði á munninn á þeim.
Nýjasti leikur minn með Sturlubarninu er að fara með Fagur fiskur í sjó og strjúka á mér lófann á meðan, Sturlubarnið horfir á og í þann mund sem ég segi "fetta, bretta, nú skal högg á hendi detta" skellir hann hendi inn í lófann á mér og hlær svo þegar ég læt skella. Og svo segi ég aftur, detta og við endurtökum endinn þrisvar. Og svo aftur þrisvar, eins og í ævintýrunum, allt þrítekið.
Svona að lokum þá náði afi í KR peysuna sem pabbi Sturlubarnsins fékk þegar hann var tveggja og klæddi hann í hana. (Hann var held ég að vonast eftir að KR ynni leikinn í kvöld sem þeir og gerðu en sennilega verður leikurinn lengur í minnum manna fyrir annað). Peysan er hinsvegar vel við vöxt. Til uppl´syingar læt ég fylgja með mynd af ungum KR-ing (nema að hann verði FH-ingur).
ps. Ég hef verið spurð svolítið um hversvegna ég kalli Sturlu, Sturlubarn. Á því er afar einföld skýring, þegar hann var nýbúinn að fá nafnið sitt (sem við glöddumst óendalega yfir) fannst mér samt skrýtið að skrifa Sturla um annan en son minn sem lést fyrir nokkrum árum. Mér fannst það einhvernveginn allt annað að segja Sturla en skrifa það. Enn um stundir verður Sturlubarnið - Sturlubarn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 02:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)