Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Katla og börnin

 

Vík Mýrdal
Af heimasíðu Mýrdalshrepps

Á fallegum vordögum eins og í dag, gnæfir eldstöð ein yfir byggð, eldstöð kennd við Kötlu. Á fallegu bæjarstæðinu kúrir byggðin út við sjó. Fólkið sem á heima þar veit að Katla getur hvenær sem er bylt sér úr djúpum næstum 100 ára dvala. Núna sefur hún værum Þyrnirósarsvefni. Fólkið sem stjórnar hefur meira að segja sett myndavél á Kötluna, veit að það þarf stöðugt að vera á vakt. Hún getur nefnilega verið soddan ólíkindatól.

 

En fólkið í fallega bænum veit líka að það þarf að vera undirbúið – þess vegna var svo flott að sjá að björgunarsveitin Víkverji og foreldrafélag leikskólans Suður-Vík ætla að leiða saman hesta sína og vera með opið hús hjá björgunarsveitinni á Sumardaginn fyrsta. Degi barnanna. Þannig kynnast börnin nefnilega þessu húsi og því fólki sem kannski einn dag birtist á tröppunum heima og leyfir þeim að taka einn bangsa með. Daginn sem Katla rumskar eða jafnvel vaknar – hún Katla þarf nefnilega engan kóngson, hún bara vaknar sjálf.


Einu sinni var leikskólinn sumargjöf til íslenskra barna

Sumargjöfsumarjöf

Sumardagurinn fyrsti er sérstakur dagur hjá þeim sem hafa málefni barna að áhugamáli eða jafnvel lífsstarfi. Það var á Sumardaginn fyrsta árið 1924 sem íslenskar konur stofnuðu Sumargjöf. Félagið sem byggði og rak fyrstu leikskólana.

 

Í stofnskrá Sumargjafar segir m.a:

 

"Að tilgangur félagsins sé að stuðla að andlegri og líkamlegri heilbrigði og þroska barna í Reykjavík og vernda þau fyrir óhollum áhrifum." Jafnframt er ætlunin að hrinda af stað rannsóknum um hag barna, stuðla að því að rita um uppeldismál í blöð og tímarit. En líka að reka ýmsar stofnanir sem tengjast hag barna s.s. vinnustofur, dagheimili heilsugæslu og fleira. Margt af því sem þarna má lesa á sama erindi til nútímans - sumt hefur ekki breyst nóg.

 

 Gamla Grænaborg og  fyrirmynd hans

Þessum markmiðum Sumargjafar var ötullega sinnt og fyrsta dagheimilið var opnað í núverandi húsnæði Kennarasamtakanna (gamla kennaraskólanum) sumarið 1924. Auk þess var farið að stað með garðyrkjunámskeið fyrir börn (forveri skólagarðanna sem við þekkjum mörg úr eigin æsku), smíðavellir voru opnaðir og barnaleikvellir settir á stofn. Árið 1931 opnaði svo fyrsti sérhannaði leikskóli Íslands, Grænaborg. en það má telja menningarsögulegt slys þegar hún var rifin til að rýma til fyrir umferðamannvirki. Grænaborg var byggð eftir sérstakri hugmyndafræði sem byggði á starfi McMillansystra í London. En þær teljast til frumkvöðla leikskólauppeldis, þær systur voru virkar í hreyfingum sósíalista og rann til rifja þær aðstæður sem börnum var boðið upp á. Þær systur voru sannir aðgerðarsinnar og settu á stofn leikskóla í London sem byggðu á  uppeldishugmyndum þeirra.    

 

McMillan

McMillan Wilkipedia

Leikskólahugmyndafræðingar

 

 Skólastarf og þjóðfélag

David Hamilton ritar að skólastarf geti aldrei verið ósnortið af því sem gerist á víðari sviðum þjóðfélagsins. Hann spyr hvort skólar eigi að vera bergmál samfélagsins þar sem varðveisla menningararfsins fer fram eða hvort þeir eigi eða ætli að vera framsæknir og verða verkfæri til þjóðfélagslegra breytinga? Hefð og saga leikskólans er hið síðara, flestir leikskólar voru stofnaðir til þess að breyta þjóðfélaginu – til þess að hafa áhrif.

 

Kannski er það þess vegna sem allflestir leikskólakennarar sjá ekkert að því að leikskólar séu reknir utan við hin opinberu kerfi. Þannig er nú einu sinni sagan og hefðin – líka hérlendis. Það var ekki fyrr en á 6 áratugnum sem opinberir aðilar tóku við rekstri leikskóla að einhverju marki fram að þeim tíma voru það kven- og verkalýðsfélög sem byggðu og ráku leikskóla auk Sumargjafar. Saga leikskólanna er ekki saga opinbers reksturs.

 

Leikskólahefðin utan hinnar opinberu hefðar

Okkar hefð, er hefð þess sem þorir að vera öðruvísi – sem þorir að fara áður ótroðnar slóðir. En þar með er ekki sagt að allar slóðir mælist jafn vel fyrir. Í eldra bloggi skilgreindi ég skóla í það sem ég kalla lífstefnuskóla í anda leikskólahefðarinnar og það sem ég kalla hagnaðardrifna skóla. Auðvitað geta og eru margir hagnaðardrifnir skólar byggðir á ákveðinni hugmyndafræði – held til dæmis að það eigi við um fjölda einkarekinna Motesorri skóla um allan heim, líka á Norðurlöndunum. Ég held ekki að það séu illmenni sem reka og eiga leikskóla. Ég held að það sé fólk sem hefur áhuga á uppeldismálum en sér heldur ekkert rangt við að hagnast á þessu áhugamáli sínu. En ég held líka að þeir sem eitthvað vit hafa á bisness gera sér auðvitað grein fyrir að skóli sem er rekinn eftir stefnu er betri söluvara. Ég sem foreldri er líklegri til að vilja senda barnið mitt í skóla sem byggir á tiltekinni hugmyndafræði. Vel að merkja eftir því sem ég best veit og kannanir sýna eru flestir foreldrar leikskólabarna á Íslandi - hvort sem leikskólar eru reknir af hinu opinbera eða öðrum afar ánægðir með leikskóla barna sinna.

 

Ef aftur er hugað að orðum Hamilton þá eru skólar aldrei ósnortnir af því sem gerist á víðum sviðum þjóðfélagsins og í okkar samfélagi hefur verið mikil drift í átt til peningahyggju. Hún birtist líka í skólaumhverfinu.

 

Leikskólar hafa frelsi til að móta starf sitt og hugmyndafræði

Leikskólar hérlendis hafa löngum verið bæði líkir og ólíkir, meira líkir samt– ég held því t.d. blákalt fram að um og yfir 80% skólastarfs og hugmyndafræði leikskóla sé sameignleg – hvort sem skólar eru reknir af sveitarfélögum – einkahlutafélögum – eða sameignarfélögum. Ég held að innra-starfið byggi á sameignlegum leikskólagrunni og hugmyndafræði sem hefur verið að mótast s.l. 200 ár  Ég held því líka fram og hef fyrir mér mína eigin reynslu sem leikskólastjóri hjá Reykjavíkurborg í 10 ár að frelsi til að þróa starfið innan hins opinbera kerfis sé mjög mikið. Að Aðalnámskrá leikskóla hafi lítt bundið uppeldislega nýbreytni og þá sem vilja fara aðrar leiðir – ekki gleyma að sú aðferð sem þykir hvað róttækust hérlendis, hjallastefnan, var þróuð innan opinberakerfisins og fjölda leikskóla sem sveitarfélög eiga og reka eru reknir eftir þeirri aðferðafræði. Leikskólar hafa nefnilega hingað til næstum getað verið eins sjálfstæðir og þeim sýnist í hugmyndafræðilegri vinnu sinni. 

 

 

100_2785 Frá heimsókn í leikskóla töfrateppana í Helsinki  

 

Gæði byggjast á mannauð

Kjartan Valgarðsson hefur áhyggjur af því hvað mér er umhugað um starfsfólk leikskóla og held að honum finnist það vera á kostnað þeirra sem ÞJÓNUSTUNNAR njóta þ.e. barna og foreldra – (á reyndar svolítið erfitt með að kalla uppeldi og menntun þjónustu en það er mitt vandamál). Ég held reyndar að þetta sé smá misskilningur hjá honum. Þessir hagsmunir fara nefnilega saman – og verða að fara saman. Gæði ÞJÓNUSTUNNAR byggja nefnilega á þeim mannauði sem til staðar er. Held að það skipti engu máli hvort leikskólar eru einka eða opinberir, ef ekki fæst hæft starfsfólk er það slæmt fyrir alla – verst samt fyrir börnin.

 

Og þar sem dagurinn í dag er sérstakur hátíðisdagur barna óska ég öllum börnum og þeim sem varðveita barnið í sér og bera hagsmuni þeirra fyrir brjósti til hamingju með daginn.

      

vetrardar
Sólin sest á veturinn


Blómlegt mannlíf í Ölfusi

Hlustaði á Barböru Guðnadóttur, menningarfulltrúa Ölfus lýsa blómlegu menningarlífi þar, ræddi meðal annars um tónleika, þjóðahátíð og um opnun sýningar um bernsku Þorlákshafnar á Sumardaginn fyrsta. Þar má víst sjá börn á bryggju og svona – var hugsað til eigin æsku með færi á bryggjunni á Eskifirði og stundum soðningu handa ömmu eða marhnút handa mömmu á Króknum. Held að nútíma foreldrar vildu fæstir vita af börnum sínum við þær aðstæður sem við mörg ólumst upp við. Um okkur fer hrollur.

 En annars var Barbara skelleg að vanda og ræddi af skynsemi um málefni innfytjenda.

Til hamingju

Brynhildur á sannarlega þennan heiður skilið - hjartanlegar hamingjuóskir til hennar - nú komast okkar fornu sögur vonandi á nýtt flug á Norðurlöndunum. Glæsilegt.
mbl.is Brynhildur Þórarinsdóttir hlýtur Norrænu barnabókaverðlaunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

að kunna að biðjast afsökunar

Sá er maður að meiru sem kann að biðjast afsökunar - oftast er betra að gera það fyrr en seinna. Fólk sem hefur það að atvinnu að leggja öðrum siðferðilegar lífsreglur þarf að kunna það öðrum fremur. Ég skil bara ekki afhverju prestarnir sendu þessa yfirlýsingu ekki frá sér strax, þá hefði málið verið dautt og úr sögunni gagnvart flestum. Hvað svo sem manni finnst annars um afstöðu þeirra. 

Fyrri skrif um sama mál.


mbl.is Prestar Digraneskirkju útskýra afstöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikskólinn sem iðnaður - fátækragildra kvenna

Í Bandaríkjunum er “leikskólaiðnaðurinn” **(Child Day Care Services) í 24 sæti yfir þær greinar sem eru í sem hröðustum vexti, meðalárslaun starfsfólks eru rétt um 20 þúsunda dollarar (um 114 þúsund á mánuði á meðan að þeir sem eru í 24 sæti yfir hæstu launin eru fjöldaframleiðsla á hugbúnaði* með næstum 5föld laun leikskólafólksins).

 

Það eru konur sem reka flesta þessa skóla – margar og stórar leikskólakeðjur eru til. Flestar reknar í hagnaðarskyni fyrir eigendur en ekki allar – sumar eru sjálfseignarfélög. Það er ekkert rangt að græða peninga, það er ekkert rangt að eiga peninga, en mér finnst rangt að menntun barna sé fjárþúfa. Þess vegna er ég svo glöð að á landsfundi Samfylkingarinnar var samþykkt að skerpa á starfsgrundvelli einkaskóla á leik- grunn og framhaldsskólastigi og leggjast gegn því að hérlendis verði skólar reknir í hagnaðarskini fyrir eigendur sína. Hér er ekki verið að leggjast gegn því að skólar standi vel – en ef hagnaður er, á að nota hann til að styrkja skólastarfið, hann á ekki að renna í vasa hlutafjáreigenda. Það er verið að ræða um það sem enskir kalla non profit skóla – en ekki fátækragildrurnar sem bandaríska leikskólakerfið er fyrir allflest starfsfólk sitt.

 

Fyrir nokkrum árum bjuggum við hjónin í Bandaríkjunum, meira að segja í fylki sem telst vera frekar félagslega sinnað. Þar sem frá upphafi stóð til að búseta okkar yrði ekki löng leitaði eiginmaðurinn sér að vinnu sem hann taldi sig hafa ánægju af og ekki væri mál að fá. Vitið hvað? Eins og á Íslandi er erfitt að manna leikskóla og hann fór að starfa við Montesorris-leikskólakeðju. Launin stóðu ekki undir leigunni okkar, ef leikskólinn lokaði missti hann laun, frídagar voru engir, ef hann varð veikur, varð hann í fyrsta lagi sjálfur að finna einhvern innan kerfisins til að leysa sig af, í öðru lagi missti hann laun. Seinna skal ég lýsa leikskólanum – starfið var um margt gott en aðstæður hörmulegar. (Ég fékk nefnilega að vera það sem kallað er faglegur sjálfboðaliði í leikskólanum stundum).

 

Í dag eru laun starfsfólks leikskóla á Íslandi ekki há, verst þó hjá þeim sem minnsta menntun hafa. En er lausnin fyrir það fólk, einkaskólarnir sem Geir Haarde boðið í sjónvarpinu í kvöld? Ég held ekki. Það getur verið að þeir skili eigendum sínum og jafnvel millistjórnendum betri launum en þeir eru ekki lausn á kynbundnum launamun – þvert á móti þeir eru líklegri til að styðja við hann. Og þegar upp er staðið er betra að vera þjónka einkaframtaksins en vinnukona kerfisins?      

 

**Leikskólaiðnaður er skilgreindur sem félagsleg aðstoð við fjölskyldur sérstaklega miðaður við börn á leikskólaaldri og eftirskólatilboð fyrir yngsta stig grunnskólans  

* This U.S. industry comprises establishments primarily engaged in mass reproducing computer software. These establishments do not generally develop any software, they mass reproduce data and programs on magnetic media, such as diskettes, tapes, or cartridges. Establishments in this industry mass reproduce products, such as CD-ROMs and game cartridges.


Heimaskólar?

Er Sjálfstæðiflokkurinn að leggja til að heimaskólun verði tekin upp í miklu mæli á Íslandi - eða hver er hugmyndin?
mbl.is Miklar umræður um skólamál á landsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingibjörg - Mona og Helle, kraftmiklar konur

Ég hlustaði á þrjár flugmælskar konur í gær, Ingibjörgu formann Samfylkingarinnar, Helle formann danskra jafnaðarmanna og Monu formann sænska krataflokksins. Ingibjörg stóð sig vel og setti fram hugmyndir um framtíðarsýn. Mér fannst hún koma sterk út úr setningunni og fagna því. Við vitum öll að 30 dagar er langur tími í pólitík, nú þarf að gefa í og þá er allt mögulegt.

 

En umfjöllunar efni mitt átti nú eiginlega að vera hrifning mín á ræðum þeirra Helle Thoring-Scmidt og Monu Shalin. Þær eru báðar gríðarlega sterkar ræðukonur. Helle og Mona skýrðu hvers vegna sósíaldemókratar þurfa að vera við völd sem víðast og þær ræddu hver vegna þær eru jafnaðarmenn. Ræddu um; sameiginlega ábyrgð t.d. á þessum hnetti sem við byggjum, um að konur eigi ekki að þurfa að velja, milli hvort þær ætli sér starfsframa eða fjölskyldur, umhverfismál, um hvernig hægri menn geti slegið sig til riddara með því að taka upp orðræðu vinstri manna en hvernig hjartað fylgir ekki með. Ég er líka sammála sýn Monu á skatta, að við greiðum eftir getu, en fáum til baka eftir þörfum. er það ekki þegar upp er staðið kjarninn, að við hugsum hvert um annað. Mona endaði á að segja stutta sögu af Einstein.

 

Einstein átti að leggja próf fyrir hóp nema og lét ritarann sinn fá prófið, „en Einstein“ segir ritarinn „þetta er sama prófið og þú lagðir fyrir í síðustu viku“. „Það gerir ekkert“ segir Einstein, „svörin hafa breyst“.     

 

Mona taldi það hlutskipti jafnarðmanna að spyrja sömu spurninga og formæður hennar um framtíð manns og heims, um velferðarkerfið, um jafnrétti, það sem hefði breyst væru svörin. Við þurfum að finna og setja fram ný svör – ekki endilega nýjar spurningar.


fjölbreytileiki og fjölmenning

Waldorfdúkkan Anna

 Anna Waldorfsdúkka

 

Leikskólar þurfa að huga að því að efniviður þeirra sé auðvitað fyrst og fremst fjölbreyttur en jafnframt þurfa leikskólar að fara að huga að því að hann sé fjölmenningarlegur. Ég er ein þeirra sem lengst af hef hrifist af opnum og skapandi efnivið, vill sem dæmi hafa mikið og margar tegundir af kubbum, og ýmsu fylgiefni til sköpunar. Hjá mér er varla til hugtakið drasl – flest getur gengið í endurnýjaðan lífdaga. Dótakassarnir mínir er frekar óhefðbundnir, þar má finna rafmagnssnúrur, ýmsa litla mótora, jó, jó og skopparakringlur sem framleið rafmagn, segla sem bróðir minn heldur til haga þegar verið er að rífa í sundur gamla hátalara og stálkúlur úr gömlum vélum, steina úr ferðum foreldra minna um landið, ljósaborðið sem pabbi smíðaði fyrir mig úr gömlum flúorsent-lampa, tuskur og tölur og margt fleira. Í framtíðinni vil ég sjá leikskólastarf þróast yfir í mismunandi smiðjuvinnu. En til þess þarf fleiri fermetra en við höfum hingað til tímt fyrir yngstu samborgarana.   

 

Verð lík að segja að ég á ótrúlega þolinmóðan ektamann, á ferðum okkar dreg ég hann í verslanir til þess eins að skoða ný leikföng í vísindakassann minn. Hann fer með mér á barnasöfn, þar sem ég þarf að prufa allt og gera allt, ég er sko búin að standa inn í sápukúlu, slá trommur, láta kúlur spinnast og renna, tengja rafmang og fleira og fleira. Hvar sem ég sé verslun sem er líkleg til að selja óhefðbundið efni til nota í leikskólastarfi þar stoppa ég. En ég hef líka trú á því sem hver leikskóli getur gert án mikils tilkostnaðar.

 skopparakringla sem framleiðir rafmang og kveikir á ljósadíóðum Skopparakringla sem framleiðir rafmagn 

 

Eitt af því sem er í uppáhaldi hjá mér eru litlar Waldorfsdúkkur, að mestu fer ég nú eftir þeirri hugmyndafræði sem að baki býr um náttúruleg efni – en ekki alveg. Í áranna rás hef ég sjálfsagt saumað dúkkur í tugatali. Núna hef ég einsett mér að á næstum vikum ætla ég að búa til eins og eina leikskóladeild af dúkkum, en það sem á að einkenna þær er fjölbreytileiki. Þær eiga að vera í mörgum húðlitum, þær eiga að vera með fjölbreytilega hárliti, þær eiga að vera stelpur og strákar, mömmur og pabbar. Kannski líka afar og ömmur,. Ég tel að leikskólar eigi að fagna og viðurkenna fjölbreytileika og fjölmenningu, ekki seinna, heldur núna. Með því á ég við að ég vil ekki hugunarhátt sem byggir á að: "Af því að á deildinni minni er ekki svart barn eða fatlað barn þá þarf ég ekki að hugsa um að mæta því eða að umhverfið endurspegli þarfir þess eða bakgrunn. Ég tek bara á því þegar á reynir, ef á reynir."

 

Brúðan sem fylgir hér með á mynd er fyrsta dúkkan hún heitir Anna, eins og fyrsta bloggvinkona mín **). Með tíð og tíma fær líka hver brúða sína sögu, sín persónueinkenni. Önnu saumaði ég eitt kvöldið þegar ég ákvað að horfa á fótbolta með eiginmanninum. Þar sem áhugi minn á fótbolta er reyndar frekar takmarkaður en áhugi minn á samveru mikill fór þetta ágætlega sama.

 

Í möppunni sem er hér við hliðina og er merkt efniviður fyrir leikskólastarf ætla ég smám saman að taka myndir af sumum þessara hluta.

 

Annars legg ég til að þið sem lesið þetta blogg hjálðið mér að semja sögu Önnu.


Eru klerkar að missa sig?

 

kirkjan í klettinum

 Mynd inn úr kirkjunni í klettinum í Helsinki

 

Ég er að hugsa um að segja mig úr þjóðkirkjunni, færa skráningu mína í fríkirkjuna. Hvílík hræsni af hálfu þjóðkirkjupresta að beita börnum í deilu sinni við fríkirkjuklerk. Þetta er fólk sem á að ræða við foreldra við skilnað – sem eiga að hjálpa fólki að halda börnum utan við deilur sínar - þetta iðka þeir. Hverslags eiginlega eru svona prestar innrættir? Lærðu þeir aldrei neina siðfræði í guðfræðideildinni?

 

Ég legg til að öll systkin mín í Kópavogi sem flest hafa nýtt þjónustu kirkjunnar þar til að skíra og ferma, geri slíkt hið sama. Íhugi úrsögn. Ég hef hingað til haldið mig innan þjóðkirkjunnar – en ef þetta eru skilaboð kirkjunnar til barna – þá er nóg komið.

 

ps. Var að hlusta á fréttir á stöð 2 um Digranesklerk sem neitaði að ferma Fríkirkjubarn sem vildi fermast með skólafélögum. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband