Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007
11.4.2007 | 15:07
ég þoli ekki hávaða
Ég þoli ekki hávað ég verð þreytt í hávaða, ég missi einbeitingu og ég verð pirruð. En á meðan ég starfaði sem leikskólakennari var hávaði gjarnan hlutskipti mitt. Þess vegna hefur það líka verið áhugamál mitt lengi að skoða hvað hægt er að gera innan leikskólanna til að draga úr þeim hávaða sem þar er.
Hljóð endurkastast frá sléttum flötum svipað og ljós endurkastast frá spegli. Það fer eftir því horni sem hljóðið lendir á fletinum hvernig endurkastið verður. Við vitum að það er ýmislegt sem stöðvar endurkastið og í mörgum leikskólum hefur verið unnið markvisst að því að bæta hljóðumhverfið. Við höfum sett dúka á matarborðin, við höfum sett fílttappa undir stóla, við höfum hengt myndir og teppi upp þannig að virki sem hljóðmanir. Við höfum sett stórar mottur á gólf. En svo var kannski málað yfir hljóðeinangrandi plöturnar í loftinu. Auvitað eiga sérfræðingar í hljóði að taka þátt í hönnun leikskóla.
Annars held ég því fram, án allra rannsókna að hluti af vandamálum leikskóla, sé of mörg börn. það sé ástæða tíðra mannaskipta, ástæða hluta einbeitingaskorts og allsslags vandamála í bæði barna og starfsmannahópnum. Ekki misskilja ég á ekki við of mörg börn á starfsmann, ég á ekki við of stóra hópa, ég á við að við erum að setja allt of marga einstaklinga inn í sama rými. Við erum með allt of fáa fermetra fyrir hvert barn í leikskólunum okkar inn á deildum.
Hugsið ykkur að vera í stöðugu kokteilpartý alla daga og þá getið þið ímyndað ykkur hvernig ástandið er oft í leikskólum. Í morgun las ég grein í blaðinu (þessu nafnlausa), þar sem rætt var um börnin sem framtíðina. Í mínum huga er þau ekki fyrst og fremst framtíðin þau eru nútíðin, þess vegna þurfum við að gera eitthvað strax .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2007 | 17:41
Funaborg og skólastarf í anda Reggio Emilia
Rannsókn við ljósaborðið
Fékk boð frá leikskólanum Funaborg um opið hús næsta fimmtudag. Leikskólinn Funaborg er í Grafarvogi, rekinn af Reykjavíkurborg. Hann var opnaður 1994, einn af kosningarskólum þess árs. Fyrir þá sem ekki muna þá er þetta árið sem Reykjavíkurlistinn komst til valda. Funaborg var byggð á þeim tíma þegar það var enn í tísku að byggja smátt en þetta er tveggja deilda leikskóli. Í dag er varla tekin skófla fyrir minna en 6 deilda skóla. Jafnvel í litlum bæjarfélögum. Ég sé það reyndar sem kost, bæði vegna þess að ég hef trú á stórum skólum og svo hitt að þegar fram líða stundir á börnum eftir að fækka á Íslandi og þá verða fleiri fermetrar til fyrir næstu kynslóðir leikskólabarna. Á Funaborg hefur verið nokkur áhugi á starfi í anda Reggio Emilia og starfsfólkið verið að tileinka sér ýmis verkfæri ættuð frá Reggio. Í borginni Reggio Emilia í Romagna héraði á Ítalíu hefur í nokkra áratugi verið að þróast leikskólastarf sem leikskólafólk víða í heiminum lítur til. Þar er litið á börn sem getumikil og hæfileikarík. Þar er litið á möguleika barna en ekki einblínt á vanmátt og getuleysi. Margir leikskólar á Íslandi hafa verið að feta sömu leið og skólarnir í Reggio. Vel að merkja er lögð áhersla á það í Reggio að þar sé lögð til aðferðafræði, jafnvel heimspeki en hvert land og hver skóli verði að þróa sig. Þróa starfið út frá því umhverfi sem hann er í. Malaguzzi einn hugmyndafræðingur starfsins í Reggio lét einhvertíma þau orð falla (eða svona nokkur veginn) að ef það ætti að efla gæði leikskólastarfsins þyrfti að tryggja að kennarar gætu þróað sig. Reggio skólarnir vinna flestir eftir því sem kalla má fljótandi námskrá. Þar sem unnið er út frá hugmyndum barna og starfsfólks. Það verður gaman að sjá hvernig Funaborg þróar sitt starf.
Þeir sem vilja vita meira um Reggio
http://zerosei.comune.re.it/inter/index.htm
og þeir sem vilja vita meira um Funaborg
http://gamli.leikskolar.is/leikskolar/default.asp?cat_id=56
Umhverfistefna í Reggio byggir m.a. á því að leikskólarnir eru í samstarfi við foreldra og samfélagið í heild. Bæjarfélagið hefur t.d. sett á stofn móttökustöð sem nefnist Re-media, þangað koma litlu verksmiðjurnar sem eru meðal annars einkenni héraðsins með allt mögulegt sem er afgangs í framleiðslunni og leikskólarnir geta nálgast efnivið til að vinna með.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.4.2007 | 02:22
LEIKUR - SKÖPUN - VÍSINDI
Hjá mér er 16. mars s.l. merkisdagur, því þá settu nemar af leikskólabraut við Háskólann á Akureyri í samvinnu við börn af leikskólanum Pálmholti upp vísindasmiðju. Þvílík gleði og undrun sem ég upplifði. Kjallarinn í gamla Iðnskólanum á Akureyri breyttist í ævintýraheim, þar var veröldin rannsökuð og mæld á nýjan hátt þar var sköpun allsráðandi. Tilhugsunin um þennan dag á eftir að kalla fram bros lengi - lengi
Á þessari slóð má finna myndir og umfjöllun um vísindasmiðjuna fyrir áhugasama
http://www.unak.is/?m=news&f=viewItem&id=36
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2007 | 01:53
Ég er kjarklaust fórnarlamb
Kom heim um helgina og leit á Silfur Eglis á netinu. Sá þar Margréti Pálu kollega minn úr stétt leikskólakennara. Ég er ein þeirra kvenna sem samkvæmt hennar skilgreiningu er valdsvipt vinnukona kerfisins sem hef ekki haft neitt um kaup mín, kjör eða starfsaðstæður að segja. Sem hef væntanlega varla heyrt minnst á hugtakið vinnustaðalýðræði eða jafnvel kjarasamningagerð. Bara rekist eins og rótlaust þangið innan kerfisins, þar sem leynd hönd karla hefur stýrt för minni. Eina von mín til bjargar frá opinberri niðurlægingu minni og hörmung virðist vera að ganga EHF á hönd fara að starfa í kerfi utan hins opinbera. Þar bíða mín gull og grænir skógar og síðast en ekki síst völd, ég get sjálf valið hvar ég festi mínar rætur.
En á hver á að greiða mér þessi góðu laun í EHF kerfinu væna?, að sjálfsögðu samneyslan. Margrét virðist hallast að því að menntun sé réttur barna og en það sé hins opinbera að greiða uppsett verð, helst til þeirra sem hafa EHF vætt. Miðað við þá dýrð sem hún lýsir í hinu nýja kerfi tekst henni annað hvort að fara betur með þær krónur sem sveitarfélögin greiða með hverju barni eða fá meira til sín en sveitarfélögin eru til í að borga inn í hið opinbera kerfi. Miðað við hennar eigin yfirlýsingar hallast ég að því fyrra hún sé bara svona glúrin peningakona hafi fundið leið til að láta grautinn endast. Af því að hún vill veg kvenna sem mestan væri gott fyrir almenning að fá að vita hvað felst í þeim kjörum sem hún bíður. Margrét hafði líka á orði að við konurnar sem vinnum hjá hinu opinbera séum valdalausar, áhrifalausar og nefndi hún sem dæmi að við tækjum ekki þátt í að hanna það húsnæði sem við störfum í eða réðum kjörum og værum undirseldar miðstýrðum námskrám. Í framhaldi af því velti ég fyrir mér hvernig þátttaka hennar starfsfólks er í því t.d. að ákveða hvernig fyrirkomulag deilda er, hvernig dagskipulagið er sett fram, skipulag námskrár? Auðvitað er það augljóst í ljósi orða hennar má ekki ætla að Margrét stundi það sem hún prédikar? Hennar skólar hljóta að vera fyrirmynd vinnustaðalýðræðis og valdeflingar sem hún veifar af miklum móð. Þar leyfist ekkert valdarán.
Ég hef löngum skipt afstöðu minni til einkarekinna skóla í tvennt, í það sem ég kalla lífstefnuskóla og það sem kalla mætti skóla sem eru reknir fyrst og fremst til ágóða fyrir eigendur. Tilverurétt fyrri skólanna hef ég ávalt viðurkennt og stutt en hina tel ég ekki eigi rétt á sér í menntakerfinu. Alveg eins og mér finnst ósiðlegt að auglýsa í barnatíma þá finnst mér ósiðlegt að reka menntastofnanir til ágóða fyrir eigendur sína. Sennilega hefði ég einhvertíma fellt Hjallaskólana undir fyrri flokkinn en ég geri það ekki lengur. Í mínum huga er þeir grímulaust reknir til hagsmuna fyrir eigendur sína svipað og stórar leikskólakeðjur eru í Bandaríkjunum. Þeir eru viðskiptahugmynd, meira að segja í útrás. Ég ætla ekki að steypa mér í sama far og Margrét sem virðist álíta að flestar konur hafi ekki frjálst val, þori ekki að hafa það, ég tel þær hafa val - líka um að starfa hjá Margréti eða senda börnin sín í skóla hennar og gera það sjálfsagt glaðar. Það er þeirra upplýsta val sem mér ber að virða, alveg eins og það er mitt upplýsta val að starfa innan opinbera kerfisins og finnast það eiga fullan rétt á sér. En jafnframt tel ég mig hafa rétt til að berjast fyrir bættri stöðu innan kerfisins, meira að segja fyrir betra opinberu kerfi, mín trú á lausn felst ekki í allsherjar EHF væðingu. Að lokum frábið ég mér að konur sem aðhyllast nýfrjálshyggju stimpli mig sem valdlaust fórnarlamb í eigin lífi.
ps. Varð fyrir dálitlum vonbrigðum með flokksystur mína í þessum umræðum -
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.4.2007 kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)