Katla og börnin

 

Vík Mýrdal
Af heimasíðu Mýrdalshrepps

Á fallegum vordögum eins og í dag, gnæfir eldstöð ein yfir byggð, eldstöð kennd við Kötlu. Á fallegu bæjarstæðinu kúrir byggðin út við sjó. Fólkið sem á heima þar veit að Katla getur hvenær sem er bylt sér úr djúpum næstum 100 ára dvala. Núna sefur hún værum Þyrnirósarsvefni. Fólkið sem stjórnar hefur meira að segja sett myndavél á Kötluna, veit að það þarf stöðugt að vera á vakt. Hún getur nefnilega verið soddan ólíkindatól.

 

En fólkið í fallega bænum veit líka að það þarf að vera undirbúið – þess vegna var svo flott að sjá að björgunarsveitin Víkverji og foreldrafélag leikskólans Suður-Vík ætla að leiða saman hesta sína og vera með opið hús hjá björgunarsveitinni á Sumardaginn fyrsta. Degi barnanna. Þannig kynnast börnin nefnilega þessu húsi og því fólki sem kannski einn dag birtist á tröppunum heima og leyfir þeim að taka einn bangsa með. Daginn sem Katla rumskar eða jafnvel vaknar – hún Katla þarf nefnilega engan kóngson, hún bara vaknar sjálf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg lesning - en Katla getur náttúrulega orðið allt annað en skemmtileg þegar hún loksins vaknar. Gott framtak hjá nágrönnum hennar að undirbúa börnin með akkúrat þessum hætti.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 20:03

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Já finnst þér ekki, mér fannst þetta meira en virðingarvert - flott fólk sem gerir sér grein fyrir að það að undirbúa börnin skiptir miklu. Þetta kalla ég almannaforvarnir - sem byggja samt ekki á að hræða. 

Kristín Dýrfjörð, 19.4.2007 kl. 20:20

3 identicon

Já þetta var góður dagur get ég sagt ykkur sem toppar það frábæra samstarf sem myndast hefur á milli leikskólans og björgunarsveitarinnar. Skemmtileg umfjöllum hjá ykkur og gaman að þið skulið fylgjast svona vel með. Kær kveðja úr návígi Kötlu Hjördís Rut 

Hjördís Rut Jónsdóttir (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 20:44

4 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Vona svo sannarlega að þið setjið myndir frá hátíðinni inn á vefinn ykkar -

Kristín Dýrfjörð, 19.4.2007 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband