2.5.2008 | 20:52
Listahátíð í Reykjavík - Vísindamiðja
Leikur, listir, náttúruvísindi - góð blanda. Það fannst okkur (mér, Guðrúnu Öldu og Örnu Valsdóttur) kennurum við leikskólabrautina á Akureyri þegar við fyrir átta árum funduðum á Öngulstöðum í Eyjafirði um nýja námskrá fyrir bæði kennaradeildina og leikskólabrautina.
Eitt af því sem okkur langaði að prófa og þróa, var að tengja saman listir, náttúruvísindi og leik. Arna sem á þessum tíma kenndi listir við brautina hafði áður unnið á leikskóla. Þar komst hún að því að margt er sameiginlegt í rannsóknum barna og tilraunum og nálgun listamanna. Hún sá ótal snertifleti leikskólastarfs og lista. Bæði hugmyndafræði og leiðir. Við sem höfðum unnið með skapandi starf - skapandi hugsun í leikskólum eins lengi og við höfðum unnið í leikskólum, höfum auðvitað aldrei skilið hvernig allir sjá ekki þessi tengsl. Tengsl sem okkur finnst svo augljós.
Við kennaradeildina starfar líka prófessor í eðlisfræði, Axel Björnsson og við vildum hann í lið með okkur. Ég held að ég móðgi Axel ekkert þó ég segi að í upphafi var hann tregur í taumi. En eftir miklar samræður sá hann gildi þess sem við vildum gera. Á endanum varð hann einn okkar helsti stuðningsaðili. Meðal þess sem við skoðum bæði með augum "vísindanna" og "listanna" eru fyrirbæri eins og stærðir, litir, lögun, hljóð, kraftar, rafmagn og fleira og fleira.
Í upphafi kenndum við hver í sínu lagi og nemarnir settu saman verkefni þar sem sviðin snertust. Mitt hlutverk var að halda leikskólafókus og rannsóknaraðferðum leikskólans á lofti.
Með árunum hefur samstarfið þróast og undanfarin ár hafa fjögura ára börn af leikskólanum Iðavelli á Akureyri komið upp í háskóla í eðlisfræðistofuna. Nemarnir hafa þá verið búnir að undirbúa ýmsar tilraunir sem þeir hafa áður gert með Axel og framkvæma þær með börnunum.
Enn lengra gengum við þegar nemarnir skipulögðu opið hús fyrir ákveðna leikskóla á Akureyri þar sem börn og starfsfólk fengu tækifæri til að takast á við fjölbreyttar tilraunir. Í vetur fórum við þá leið að verkefnin og hluti af kennslunni fóru alfarið fram á Iðavelli. Bæði á yngri og eldri deildum.
Frá upphafi höfum við lagt áherslu á að nemarnir geri uppeldisfræðilega skráningu á ferlinu, haldi ferlibók og skili skýrslum sem eru byggðar á framkvæmd og fræðum. Fræðilegi þátturinn er bæði uppeldisfræðilegur og raunvísindalegur, en nemarnir tengja verkefni sín líka starfi og hugmyndafræði listamanna (Ólafur Elíasson og Leonardo daVinci eru báðir vinsælir). Undafarin ár hafa nemarnir skilað öllum verkum til mín í formi heimasíðna. Nú stendur líka til að stækka áfangann um eina einingu og tengja við fleiri þætti. Aðallega er ætlunin að huga betur að notkun ýmiskonar tölvubúnaðar en líka styrkja ýmislegt sem fyrir er.
Þessi tilraun sem á upphaf sitt að rekja til Öngulstaða fékk strax nafnið vísindasmiðja. Síðan hafa liðið mörg ár og við kennt námskeiðið undir þessu nafni. Myndir geta áhugasamir litið hér til hliðar undir myndaalbúm.
Í dag flétti ég í gegn um dagskrá listahátíðar og hvað sé ég, í Listasafni Reykjavíkur verður boðið upp á VÍSINDASMIÐJU fyrir börn. Ég gladdist í hjarta mín, hugtakið okkar frá Öngulstöðum hefur náð inn í samfélagið.
Læt hér fylgja með sem skrá, fyrirlestur sem ég flutti um vísindasmiðju á málþingi KHÍ fyrir nokkrum árum.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2008 | 18:06
Fyrsta kröfuganga Sturlubarnsins
Okkur fannst ómögulegt annað en að byrja hið pólitíska uppeldi Sturlubarnsins við fyrsta tækifæri. Hann fékk því að verja deginum með afa og ömmu í kröfugöngu og 1. maí kaffi. Afi hringdi í Palli hinum megin og spurði hvort hann og Liv ætluðu ekki með litla Hannes Hrafn í gönguna. Við gengum svo öll út á Laugarveg, þar sem við biðum eftir okkar stað í göngunni. Sturlubarnið fékk að koma upp úr vagninum og fylgjast með lúðrahljómsveitum og fánaborgum. Hann horfði á allt hinn kátasti. Þegar fáni Kennarasambandsins kom skelltum við okkur þar inn í gönguna. Liv, Palli og Hannes Hrafn fóru með BSRB svo þar skildu leiðir þeirra félaga. Frá því að félag leikskólakennara var lagt niður sem stéttarfélaga og nýtt Kennarasamband stofnað hef ég gengið undir þeim fána. Að venju voru sömu kunnuglegu andlitin á sínum stað í göngunni. Í raun er hún svolítið eins og stéttarpólitískt stórættarmót.
Dagskráin var of löng að venju, hefði sannarlega mátt sleppa hinum ofnotaða Gísla gamansama fréttamanni úr Borgarfirðinum, mér fannst ekki staður og stund fyrir hans gamnmál þarna. Hins vegar ræddu verkalýðsforkólfar um kaup og kjör, hins almenna borgara og hinna sem eru með ofurlaunin. Áhyggjur af einkavæðingu heilbrigðiskerfisins voru og fyrirferðarmiklar. Áhyggjur sem við deilum mörg. Á torginu voru alla vega tveir ráðherrar Samfylkingar, þau Ingibjörg og Össur, kannski þau hafi hlustað af athygli.
Þegar dagskráin hafði staðið í nærri klukkustund og enn slatti eftir í að syngja alþjóðasöng verkalýðsins, vaknaði Sturlubarnið af værum svefni og við ákváðum að hann þyrfti að komast í hús. Stefnan var því tekin yfir á Kaffi Reykjavík þar sem Kennarasambandið bauð sínum félagsmönnum og gestum í kaffi. Kaffi Reykjavík tekur mörg hundruð manns og þar var setið á hverju borði á tveimur hæðum. Litli bróðir minn, yfirkokkurinn þar, var búinn að útbúa hið glæsilegasta veisluborð, smurt brauð og hnallþórur í bland. Sturlubarnið var alveg upp á sitt besta í margmenninu. Lék við hvurn sinn fingur og heillaði vinkonur ömmu sinnar upp úr skónum (þó amma segi sjálf frá).
Hans helsta verkefni var að henda dótinu sínu á gólfið og láta ömmu taka það upp, aftur og aftur og aftur. Reyndar tekur amma með glöðu geði upp dótið fyrir Sturlubarnið, hún veit sem er að þetta er stórt stökk í vitsmunaþroska hans. Hann er að gera sér grein fyrir fjölmörgu, orsök og afleiðingu, að hafa stjórn á umhverfi sínu, rýminu og fleira og fleira. Leikurinn að henda og sækja er enn einn vaðsteinninn í þroskanum.
Jæja nú eru amma og afi og Sturlubarnið komin heim og afi og Sturlubarnið að leggja sig. Amma í anda áramótaspaugstofunnar ákvað að blogga um daginn, og þar með formlega festa í dagbók Sturlubarnsins hans fyrstu kröfugöngu.
Guðrún Alda Harðardóttir, fyrrum formaður Félags íslenskra leikskólakennara tók myndirnar
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.4.2008 | 10:54
Alvarlegt
Ég hef lengi haft ákveðnar áhyggjur af sífellt lengri dögum barna í leikskóla. Þegar vikuleg viðvera barna er þetta 40 - 45 stundir í leikskóla er það langur tími. Engin sem þekkir mig getur efast um að ég hef tröllatrú á leikskólanum og tel hann skipta gríðarlegu máli. Mér finnst hinsvegar að börn og foreldrar eigi líka rétt til þess að verja tíma saman. Tíma þar sem barn eða fullorðnir eru ekki annað eða bæði örþreytt. Því miður bíður samfélagið ekki alltaf upp á slíkt. Mér finnst líka athyglivert að karlar með ung börn vinna langan vinnudag (50 tíma á viku), kannski er það vegna þess kynbundna launamunar sem enn viðgengst og eðli starfa þeirra, en konur með ung börn vinna a meðaltali um 80% starf. Í óskasamfélagi ætti vinnutími foreldra ungra barna ekki að vera yfir 35 -37 stundum að meðaltali hjá báðum.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru 12.027 börn í leikskólum á aldrinum 3-5 ára um síðustu áramót, af þeim er rúmlega þriðjungur eða 4.712 börn í 9 tíma vistun eða meira. Önnur 4.797 börn eru í 8 tíma vistun samtals eru þetta tæplega 80% barna á þessum aldri. Af þeim börnum undir þriggja ára sem eru í leikskóla eru 75% þeirra í 8 tíma eða lengur.
Leikskólarnir hafa eins og alþjóð veit sumir átt í miklum erfiðleikum með mönnun undanfarin ár. Samkvæmt niðurstöðum rannsókna sem Capacent birti nýlega er stór hluti leikskólakennara í um það bil 80% starfi, vinnur um 6,5 tíma á dag í þessum sömu leikskólum. Af reynslu veit ég að leikskólakennarar vinna frekar fyrri hluta dagsins (auðvitað ekki algilt og sumir vinna 4 daga og frí þann fimmta, sem ). Vegna þess má ætla að fæst börn séu með leikskólakennurum síðustu 2 til 2,5 tíma dagsins. Mér finnst það alvarlegt.
Sumir hafa viljað skipta tíma leikskólans upp í "kennslu" og "gæslu" tíma, eða "gæða" og "gæslu" tíma. Sjálf er ég algjörlega ósammála slíkri skiptingu og tel hana í andstöðu við allar hugmyndir um nám og reynslu. Við vitum það að börn læra álíka af því sem er óskipulagt og óyrt og hinu, þau læra af viðmóti og viðhorfum sem þau finna. Þættir sem m.a. eru teknir fyrir í námi leikskólakennara.
Allur tími barna er námstími og allt það fólk sem vinnur með börnum eru þátttakendur í uppeldi þeirra. Sjálf vil ég ekki nota orðið kennsla um starfið í leikskólanum (og geri það aldrei) eða nemendur um börnin. Ég segi að okkur leikskólakennurum beri að skapa námstækifæri fyrir börn og starfsfólk. Skapa umhverfi sem styður við og hvetur til náms barna. Og börn eiga rétt á slíku umhverfi, þau eiga rétt á menntandi umönnun eins og einhverstaðar segir.
Ef að flestir leikskólakennarar eru farnir heim um þrjú eða jafnvel fyrr þá velti ég því fyrir mér hver sé með börnin seinni part dagsins- og í hverju stafið á þeim tíma sé fólgið. Með þessu er ég ekki að efast um að leiðbeinendur eru upp til hópa hið vænsta fólk sem hefur metnað fyrir starfinu. En til einhvers held ég að starfsfólk þurfi leikskólakennaramenntun.
Mér fannst það líka athyglivert í fréttinni að Hagstofan reynir að afsaka foreldra, þeir kaupi nú átta tíma en séu ekki að nýta þá. Með þessari athugasemd er Hagstofan í raun að halda því fram að langir dagar séu óæskilegir, annars væri þessi skýring ekki sett með.
![]() |
Leikskólabörn aldrei fleiri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.4.2008 | 20:59
Erlendu úttektaraðilar Háskólans á Akureyri ánægðir með fjarnámið
Háskólinn á Akureyri fékk sérstakt hrós í nýlegri úttekt á fræðasviðum fyrir fyrirkomulag og styrk fjarkennslu. Það vakti sérstaka eftirtek útlendu úttektaraðilanna hversu vel skólanum helst á fjarnemum miðað við staðnema. ÞAð er þekkt að brotfall fjarnema sé hærra en staðnema, samkvæmt skýrslunni er það áþekkt í báðum hópum hjá HA.
Leikskólabraut Háskólans á Akureyri tók fyrsta fjarnemahópinn inn haustið 1999, þetta var hópur úr Skagafirði og frá Akureyri. Kennslufyrirkomulag var það sama og núna, það er að hópurinn á hvoru landssvæði safnaðist á einn stað í og var í gagnvirku sjónvarpssambandi við kennara. Frá upphafi var kennslan samtímis studd efni sem miðlað var á vef. Um leið og t.d. Webct var tekið upp við HA, tókum við kennarar á leikskólabraut það upp.
Með þessu fjarnáminu var gert átak víða um land til að mennta leikskólakennara, (Ísafjörður, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Selfoss, Borgarnes, Hafnarfjörður, Kópavogur allir þessi bæir og fleiri til nutu góðs af). Fyrir nokkrum árum bað ég nema sem þá voru að brautskrást að setja niður á blað hvað skipti þá máli varðandi fjarkennsluna og þá kom sterklega fram að það að vera í hópi skipti máli, að það hafi tekist að skapa námsumhverfi þar sem fólk gat rætt saman og tekist á.
Sjálf hef ég frá upphafi kennt í fjarkennslunni og er stolt af því gæfuspori sem ég tel okkur hafa stigið. Ég tel átakið sem við gerðum varðandi leikskólakennaramenntunina hafa skipt máli fyrir leikskólabörn landsins. Háskólinn var í úttektinni hvattur til að gera fjarnámið sýnilegra í stefnumótun sinni. Þar fuðruðu menn sig reyndar á að skólinn hreykti sér ekki meira á pappírum af fjarnáminu.
Læt fylgja með brot úr skýrslunni (með undirstrikunum mínum)
UNAK has a very strong record role in distance learning. Therefore it is surprising that the visions and challenges connected with a strong distance learning effort are not more visible in the strategic documents. UNAK is recommended to give more evidence at the strategic level to its work on distance learning, including development of methodologies and techniques, special activities and counselling for distant learners and implications for staff.Distance teaching is as a rule not directed at individual students. Groups of distance learners meet at eight Learning Centres around Iceland where the physical and learning facilities for distance learning are provided. The Centres are linked to UNAK via TC_P/IP protocol, optical fibre or leased line. The distance learners are required to be on the UNAK campus twice each term. Interestingly enough their drop-out rate is no higher than for on-site students. Part of the explanation seems to be that the students are usually older and more committed.Specifically concerning distance education agreements have been made with the continuing education centres/knowledge centres in other parts of Iceland, specifying the facilities that should be provided for distance learners in each locality. Both staff and students are well-supported. Considering the high proportion of distance students UNAK must be recognised for the facilities it offers these and for the cooperation with the reginal learning centres.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég er í átaki, sem felst í því að skreppa alla vega einu sinni á dag út úr húsi. Það getur nefnilega verið hættulegt að vinna alltaf heima. Heimili, vinnan, frítíminn, og það heila verður að einum graut. Núna ákvað ég að skunda einn hring í kringum tjörnina. Ákvað samt að fara inn í Ráðhúsið vegna þess að oft eru þar áhugaverðar sýningar sem gaman er að reka nefið inn á (það samræmist meginmarkmiðinu að vera á ferli og fara út úr húsi).
Að detta inn á málþing - einmana gamalt fólk
Á leið minni í gegn um Ráðhúsið datt ég inn á málþing um stöðu eldri borgar, þar var verið að kynna nýja rannsókn sem unnin var á meðal fólks yfir áttrætt hér í borginni. Ég gat auðvitað ekki stillt mig um að stoppa og hlusta. Komst að því að það er um 5% hópur í þessum aldurshóp sem af eigin sögn hefur það skítt, fjárhagslega, tilfinningalega og heilsulega (auðvitað ekki sömu 5% í öllum tilvikum). Um 5% fá sjaldan eða aldrei heimsóknir, eru einmana. Eins og sama hópastærð í leikskólanum. Í Reykjavík eru þetta milli 200-300 manns yfir átrætt.
Rannsóknir sýna að það getur verið manninum lífshættulegt að vera einmana til lengri tíma. Þessar upplýsingar sem og niðurstöður rannsókna á meðal barna og unglinga eiga að vekja okkur til umhugsunar.
Sóknarnámskeið áður fyrr
Á málþinginu hitti ég Þórunni Sveinbjörnsdóttur fyrrum formmann Sóknar og síðar varaformanns Eflingar. Hún er nú hætt, gat ekki hugsað sér fleiri kjarasamninga. Hún sagði mér að hún sé að vinna að ótrúlega skemmtilegu verkefni, að taka saman sögu námskeiða og starfsþróunar hjá Sókn/Eflingu - skoða hvernig námskeiðin og námsleiðirnar hafa þróast. Heyrðist hún enn vera pínu vonsvikin yfir okkur leikskólakennurum - við soldið fastheldin og ósveigjanleg í réttindamálum leiðbeinenda. En hvað um það - við rifjuðum líka upp að ég kenndi oft slatta á námskeiðum Sóknar í gamla daga þegar ég var leikskólastjóri. Sagði Þórunni að einn leikskólastjóri hefði einmitt rifjað það upp með mér um daginn að hún hafi fyrst hitt mig sem leiðbeinandi í leikskóla á námskeiði hjá Sókn. Seinna fór hún í KHÍ og er núna leikskólastjóri - held í sama leikskólanum og hún hóf feril sinn innan leikskólans. (hefur reyndar komið við á fleiri stöðum í millitíðinni). Þetta sannaði fyrir okkur Þórunni að það skiptir máli að hafa tækifæri til að mennta sig til allra starfa innan leikskólans. Ekki endilega til að verða leikskólakennari eða stjóri, heldur til að hafa gleði og ánægju af vinnu sinni. Verða betri í því sem maður er að gera.
Ráðhúskaffið
Þegar öllu lauk, ég búin að samskipta settist ég inn á Ráðhúskaffið - þar bauð vertinn mér í tvöfaldan expressó, fyrir aðstoð í vetur. Sit þar nú og sýp á mínu kaffi og hlusta á hroturnar í fastagestinum. Ferkar vinalegt.
Best að klára tjarnarhringinn og koma sér heim í æestur verkefna.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2008 | 20:55
Er það trygging fyrir gæðum leikskóla að börnin séu glöð?
Ég hef oft heyrt starfsfólk leikskóla segja að það vinni í anda Dewey. Kenningar hans séu hafðar sem leiðarljós í starfi. Ég efa ekki að það geti verið að hluta til rétt, sérstaklega það sem snýr að reynslu og tilfinningum. En ég hlýt að taka undir með Dewey að reynsla er mismunandi og þó börnin séu glöð og virðist ánægð í leikskólanum er það ekki ávísun á að reynsla þeirra þar hafi nauðsynlega verið menntandi og hjálpi barninu að vera þátttakandi í því sem er að gerast hér og nú og í framtíðinni.
Dewey taldi reynsluna þurfa að uppfylla skilyrði til þess að hún teldist menntandi, hún þyrfti að byggja upp hæfni til að takast á við og vinna úr nýrri og breyttri reynslu í framtíðinni. Hægt er að velta fyrir sé hvort leikskólakennarar séu vissir um að það eigi við um starfið í leikskólanum, jafnvel þó börnin séu ánægð? Er t.d. með sanni hægt að segja að ánægð börn, ánægðir foreldrar séu merki um gæðastarf í leikskólum? Er í raun hægt að styðjast við yfirborðkennda frasa þegar verið er að fjalla um starfið í leikskólanum?
Greinarkornið hér að ofan er hluti af fyrirlestri sem ég samdi og flutti í tilefni 10 ára afmælis leikskólabrautar Háskólans á Akureyri.
Fyrir þá sem áhuga hafa á að lesa allan fyrirlesturinn má finna hann hér í meðfylgjandi skrá.
Menntun og skóli | Breytt 29.4.2008 kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.4.2008 | 16:28
Fyrirgefðu, fyrirgefðu sagði innbrotsþjófurinn, haltu bara áfram að sofa
Það finnst ekki öllum það sama kómískt, en innbrotsþjófur sem afsakar sig og segir manni að halda áfram að sofa er samt soldið kómískur. Rétt fyrir klukkan 6 í morgun heyri ég að það er tekið í handfangið á hurðinni í svefnherberginu mínu, hurð sem snýr út í garð. Ég reisi mig í rúminu og horfi í átt að hurðinni. Sé ég ekki kunnuglegt andlit innbrotsþjófs nokkurs sem einmitt er nýbúinn að gera tilraun til að heimsækja okkur stinga hausnum í gegn um gardínurnar.
Ég segi hvassri röddu, "!!!!! hvað ertu eiginlega að gera þarna maður". Garminum bregður svo voðalega að hann fer allur í mínus. Segir "fyrirgefðu, fyrirgefðu ég ætlaði ekkert að trufla, haltu bara áfram að sofa" og svo er hann hlaupinn.
Ég tékka á hurðinni (sem hafði kviklæsts og við erum búin að bæta úr því svo slíkt gerist ekki aftur), leggst aftur upp í og sofna eins og steinn. Eiginmaðurinn við hlið mér opnaði aðeins annað augað og sagði: "er ekki allt í lagi". "Jú, jú" segi ég "þetta var bara hann !!!!!!" og við sofnuðum og sváfum á okkar græna fram á rauða morgun.
Um hádegisbilið segi ég við eiginmanninn; "heyrðu hélstu nokkuð að þig hefði verið að dreyma," "nei, nei en hvað sagði hann !!!!! við þig". Það hefur mikið verið hlegið hér í dag.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)