Lofsvert framtak

Það er lofsvert framtak hjá Icelandair að veita langveikum börnum og fjölskyldum þeirra tækifæri til að láta drauma rætast. Það er gott að sjá að á tímum efnishyggjunnar skipta okkar minnstu systkini, máli. Að eiga sér drauma er réttur sérhvers manns, að geta látið drauma sína rætast er von okkar allra. Megi börnin og fjölskyldur þeirra eiga ánægjulega daga í langþráðu fríi þau eiga það sannarlega skilið.  
mbl.is 32 Vildarbörn á leið í draumaferðina með fjölskyldu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinátta barna - sjálfstæð börn, einmana börn

Flest börn eiga vini, flest eiga þau sér vini af sama kyni og á svipuðum aldri, en ekki öll, sum börn eiga vini af hinu kyninu og sum börn eiga ekki vini. Sum börn í leikskólum eru einmana. Þetta kom fram í afar áhugaverðum fyrirlestri Fannýjar Jónsdóttur upp í KHÍ í dag.  

Fanný Jónsdóttir er leikskólakennari og lektor við kennaraháskólann í Malmö. Í fyrirlestrinum kynnti hún doktorsverkefni sitt um vináttu barna í leikskólum. Hún skoðaði 18 leikskóladeildir í tveimur bæjarfélögum. Hún komst að því að það sem einkenndi þær deildir þar sem börn voru einmanna (vel að merkja í þessari rannsókn, ekkert er verið að alhæfa en kannski má þarna finna vísbendingar), það sem einkenndi þær deildir er að þar er mikil ytri stjórn, þar er mikið talað til barna en minna við börn. Ég les úr að uppeldið sé byggt á fyrirmælum og skipunum, að láta hlýða sér. Sjálf sá ég heilmiklar tengingar milli þess sem styður við vináttu og hugmyndafræði um lýðræði í skólastarfi, við skilgreiningar sem tengjast því að hafa rétt til að tilheyra, til að eiga vini til að geta nýtt reynslu sína og svo framvegis. Að hluta til það sem ég ræddi á ráðstefnunni Raddir barna í síðustu viku.  

Á fyrirlestri Fannýjar sem var vel sóttur var meðal annars rætt um hvernig dagskipulag og starfshættir styðja við eða draga úr vináttu barna og þær afleiðingar sem það hefur fyrir börn að alast upp einmana. Fanný er skemmtilegur fyrirlesari, hún þekkti marga í salnum og nýtti sér það óspart. Tengdi fyrirlestur sinn því fólki. Magga þegar þú kenndir mér um uppeldisfræði yngstu barnanna (við Margréti Schram), Sigga þegar við lékum okkur á Brekkunni, Kristín ....  Hún notaði allan kroppinn til að túlka það sem hún vildi leggja áherslu á. Fanný er búin að vera lengi, lengi  í Svíþjóð og hefur alls ekkert hugsað leikskólafræði á íslensku í áratugi, en það var ekkert mál, þá skaut hún yfir í svísslensku.

Það sem er skemmtilegast við að fara á svona fundi er að hitta alla leikskólakennarana sem mæta, að sjá öll kunnuglegu andlitin og líka þau nýju. Verð að fá að vera aðeins væmin, á svona stundum er ég svo stolt af því að vera leikskólakennari. (snuff snuff) 

Eftir fyrirlestur Fannýjar hitti ég nokkra leikskólakennara sem þurftu svolítið að ræða við mig um fyrirlesturinn minn á föstudaginn og túlkun á honum. Virðist sem umfjöllun mín um þátttöku og stýringu starfsfólks í verkefnum og athöfnum barna hafi vakið umræður í þeirra leikskólum. Aðrir hafa komið til mín og viljað halda áfram að ræða vangaveltur mínar um einstaklingsnámskránna. Það verður að segjast að það er ótrúlega skemmtilegt að finna að fyrirlestur vekur svona miklar pælingar. Kannski er það viðeigandi á síðasta Vetrardegi að ræða breytingar og hugmyndir í uppeldismálum því að á morgun hefst nýtt sumar. Þá nær margt fleira að blómstra en náttúran.

Á morgun er nefnilega Sumardagurinn fyrsti, mér þykir reyndar einstaklega vænt um þann dag og að hann skuli enn vera frídagur. Að einn dagur á ári sé helgaður börnum segir svolítið um gildi samfélagsins. Þegar ég fjalla um leikskóla og málefni barna í útlöndum tengi ég gjarnan við Sumardaginn fyrstaog þá sérstöku merkingu sem hann hefur fyrir okkur leikskólakennara. Ég vona að Félag atvinnurekanda takist aldrei að fá þennan frídag burt í samningum eins og stundum hefur heyrst að áhugi sé fyrir.

Á morgun ætla nemar af leikskólabraut HA að lesa fyrir börn upp úr sínum uppáhaldsbókum en þá verður opið hús í Háskólanum á Akureyri.  Ég vona að margir foreldrar nýti sér það að kynna sér háskólann og hlýða á sögur.  

 Gleðilegt sumar.

PS. Hér er slóðin inn á doktorsritgerðina hennar Fannýjar fyrir áhugasama.


Sturlubarnið rannsakar dýraríkið

Á laugardag kom Sturlubarnið í þessu líka fallega vorveðri í foreldralausa heimsókn. Afinn og amman ákváðu að nota tækifærið og mennta Sturlubarnið aðeins í dýrafræði. Fyrst var farið út í garð og kisan Snati heimsótt. Snati er nú reyndar þeirrar náttúru að vilja ekkert mikið kjass, vill frekar fá að klifra upp í svo sem eins og eina grein á stóra reyninum. En Snata er vel við afa svo hann fékk hana augnablik til sín og hann og Sturlubarnið gátu saman dáðst að Snata (sem er þrílit læða). Það er líka viðeigandi að Sturlubarnið kynnist Snata, Sturla stóri frændi hans sem hann heitir í höfuðið á átti nefnilega Snata fyrst og gaf honum nafn. þegar Snati var búinn að fá nóg af athyglinni þá rúlluðu afi og Sturlubarn stórum fótbolta ögn á milli sín á pallinum.  

Í garðinum görguðu mávar himins yfir afa og Sturlubarni. Til að skoða þessi merkilegu dýr og vængjaða ættingja þeirra í návígi ákváðu amman og afinn að skjótast niður á tjörn með Sturlubarn til frekari rannsókna á dýraríkinu. Tjörnin var eins og vænsti drullupollur, brauðið flaut eins og kúkur í rotþró á vatninu, (alveg satt, ég er ekki að ýkja). Fuglarnir sýndi okkur mannfólkinu engan sérstakan áhuga, syntu fjarri öllum bökkum. Sturlubarnið fékk því ekki að sjá önd eða álft í nærvígi, það verður að bíða betri tíma. Hann horfði reyndar hissa á þessi dýr í fjarlægð en ég held að hann hafi meira langað til að steypa sér út í drullupyttinn, enda sennilega líkari sundlaug í augum Sturlubarnsins en rotþró. Hann á nefnilega eftir að læra um þær en sundlaugar þekkir hann.

Amman og afinn eiga vini í miðbænum og vinir þeirra eiga hund. Þar sem menntun barnsins um fánu landsins hafði ekki tekist nógu vel við tjörnina, ákváðu amma og afi að skreppa í heimsókn til vina sinna. Hundurinn fyrrnefndi er tík sem heitir Birta. Birta er fyrir löngu búin að átta sig á að láta ömmu í friði, henni er ekkert of vel við fleður. En afi og Birta eru sérstakir vinir, afi settist því á gólfið með Sturlubarnið og kallaði Birtu til sín. Hún var nú svolítið forvitin um þennan litla mann, hnusaði af honum og Sturlubarnið hló og hló og skellihló. Svo hljóp Birta og Sturlubarnið leit hissa í kringum sig. Hvar er hún? Svo koma hún og skransaði fyrir framan Sturlubarn og hann hló. Amman tók allt vel og vandlega upp á myndband. Þannig að þegar Sturlubarnið seinna þarf að gera grein fyrir fyrstu rannsóknum sínum í dýrafræði á hann um það skráða heimild.   

Núna er litla Sturlubarnið lasið, búinn að vera með sama kvef og amma síðan á sunnudag. Amma leit áðan á hann og hann brosti sínu blíðasta og hjalaði. Amma vonar að hann verði fljótur að ná þessu úr sér.


Af dónaskap mínum og frammistöðu fyrrum bogarstjóra í gær

Það var dónaskapur af minni hálfu í gærkveldi að minnast ekki annarra erinda á ráðstefnunni. Sue Dockett  sagði okkur frá rannsóknum sínum á meðal barna í Ástralíu. Hún fjallaði m.a. um siðferðileg álitamál rannsókna og meðal þess neikvæð áhrif hennar eigin rannsókna á aðstæður barna í skólum. Í Ástralíu virðist vera gríðarleg þörf fyrir miklu eftirliti með börnum, þannig jafnvel að þau séu aldrei úr mögulegri augnsýn kennara. Meðal þess sem Sue hefur rannsakað eru leyndir staðir og einkarými barna í skólum. Afleiðingin hefur verið að þegar hún kemur í suma skóla er búið að "taka fyrir" og útrýma þeim stöðum sem börn hafa trúað henni fyrir. Koma í veg fyrir að þau geti átt sitt einkarými.

Ég er undir sterkum áhrifum frá ýmsu sem ég sá í Reggio Emilia í vikunni. Þar er lögð áhersla á að börn geti einmitt búið til og átt slík einkarými. Á einni deildinni sem ég kom á voru nokkur börn búin að fá nóg að heimsókninni og náðu sér í bókastandinn sem er á hjólum og drógu hann út í horn. Þau komu sér þar fyrir 4 og lásu í bókum. Ég spurði leikskólakennarann hvort þau væru að búa til sitt einkarými, já sagði hún, þetta gera þau mikið sækja líka teppi og loka sig af með bækur eða dýr eða eitthvað annað sem þau hafa áhuga á. Þegar Sue svaraði spurningu Umboðsmanns barna um hvað henni væri minnistætt úr æsku, svaraði Sue því til að það væri einmitt  lítil kofi úti í garði - að hafa möguleika til að leika án þess að vera undir stöðugu eftirliti hins fullorðna.

Dagur B. Eggertsson ræddi um minningar sínar úr leikskóla, ýmislegt var þar kunnuglegt. En kannski var það frjálsræði sem hann lýsti einkennandi. Dagur átti salinn og ekki síst þegar hann hvatti leikskólakennara til að vera stoltir af sínu, leikskólinn ætti að standa upp og hrópa þetta kunnum við. Viljið þið ekki læra af okkur. Hann taldi að betra væri að vinnubrögð leikskólans smituðu upp i grunnskólann en grunnskólans til leikskólans. Það leyndi sér ekki að hér var hann að ræða um hugmyndir um fimm ára bekki.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sleit svo ráðstefnunni með stuttri samantekt úr erindum.

Ráðstefnan bar það ágæta nafn Raddir barna, kannski er það tímanna tákn að fyrir allmörgum arum hélt félag leikskólakennara ráðstefnu undir heitinu Rödd barnsins, en nú er þetta ekki lengur ein rödd heldur margar. Þetta er sem sagt kórsöngur en ekki einsöngur. þegar Hildur Skarphéðinsdóttir, skrifstofustjóri Leikskólasvið var að setja ráðstefnuna vitnaði hún m.a. í bók Þórbergs Þórðarsonar um Sálminn um blómið, en svo skemmtilega vill til að fleiri af fyrirlesurum höfðu einmitt hugsað til Þórbergs við undirbúning erinda sinna. Ég held að það séu varla til betri lýsingar á þroska barna en einmitt Sálmurinn um blómið. Kannski að hún ætti að vera skyldulesning í kennaranámi.

Að lokum ætla að fá að vitna beint í hana hér áður en okkar eigið Sturlubarn kemur í heimsókn án foreldra.

Litli sannleiksleitandinn sem hann Sobeggi afi hafði haldið, að alltaf yrði eins og hann Gvuð, var að ummyndast i óskahugsara. Það, sem hún þráði, að væri satt eða ósatt, það varð að vera satt eða ósatt. Hún var að verða eins og stóra fólkið. Hún var að byrja hlutverk sitt í hinum mikla sorgarleik mannkyns.   (úr Sálminum um blómið)


Lasin að flytja fyrirlestur - og skemmtilegar minningar

þá er dagur að kveldi kominn, ég búin að flytja minn fyrirlestur og hlusta á ýmsa aðra mjög svo áhugaverða. Í morgun vaknaði ég með hita og kvef, en ætli það sé með okkur fyrirlesara eins og þá leikara sem ég fetaði í fótspor að; the show must go on. Ráðstefnan fór nefnilega fram í Borgarleikhúsinu og ég fékk að stíga á stóra sviðið. Rástefnan var aðallega á vegum Leikskólasviðs Reykjavíkuren í samstarfi við RannUng, Rannsóknarstofnun í menntunarfræðum ungra barna. Það var því við hæfi að umgjörðin var borgarinnar.

Binna í Borgarleikhúsinu annaðist vel um mig og, ég fékk soðið vatn til að þamba eða dreypa á þegar hóstaköstin sóttu á mig. Við Binna erum skólasystur frá menntaskólaárum, að hennar sið voru allar veitingar ótrúlega flottar. Ég rifjaði upp fyrsta matarboðið sem ég hélt sjálf fyrir um 30 árum. Binna hjálpaði til við eldamennskuna. Við elduðum nautahakk kryddað með lauksúpu og við það bætt hrísgrjónum, þessum herlegheitum slengdum við ofan á pitsubotna sem við að sjálfsögðum bökuðum og settum tómatsósu á botninn, yfir allt skelltum við svo vænum skammti að osti. Mig minnir að þetta hafi nú bara þótt ágætt í okkar vinahóp.  Og öðruvísi pitsur fengu drengirnir mínir ekki í mörg ár. Þeim fannst þær reyndar vandræðalegar og vildu alls ekki bjóða upp á svoleiðis pitsur í afmælum.

Ég var pínu stressuð yfir heilsunni og hafði áhyggjur að því að vera ekki sá fyrirlesari sem ég venjulega er. Við þær aðstæður verð ég að viðurkenna að mér fannst ágætt að vera búin að skrifa allan fyrirlesturinn. Frá orði til orðs, heil fimm þúsund stykki. Mér tókst þetta held ég nokkur veginn skammlaust. Einn og einn sem þekkir vel til mín, söknuðu þess að ég færi ekki inn á milli meira út fyrir efnið. Það væri ég. Öðrum fannst ég vera svo ótrúlega vel skipulögð. Já, svona getur sami atburðurinn virkað mismunandi á fólk.

Sjálfri fannst mér fyrirlestrar þeirra Jóhönnu Einarsdóttur prófessors við KHÍ og Önnu Magneu Hreinsdóttur, doktorsnema og leikskólafulltrúa í Garðabæ áhugaverðastir. Mér fannst ýmislegt sláandi sem þar kom fram, um viðhorf barna til leikskólans. Atriði sem mér finnst okkur leikskólakennurum bera skylda til að ræða betur, kryfja og leita nýrra leiða. Í fyrirlestrum þeirra gáfu þær röddum barna hljóm um viðhorf þeirra og líðan í leikskólanum. Börn eru nösk á þau viðhorf sem þau finna gangvart sér, þau eru nösk á okkur sem kennara og þær væntingar sem þau gera til okkar, annarra barna og umhverfisins. Það er líka ljóst að ákveðin viðfangsefni eiga hug þeirra meira en önnur. Ég hlakka mjög til að lesa doktorsritgerð Önnu Magneu og vona að hún hristi svolítið upp í okkur. Umboðsmaður barna Margrét María Sigurðardóttir var ráðstefnustjóri og tókst það vel. Hún bað okkur öll sem í pontu komum að rifja upp skemmtilegar æskuminningar. Flest tengdum við þær leik, frelsi og því að geta átt stund og stað fyrir okkur. Sjálfsagt hafa ráðstefnugestir flestir farið að rifja upp eigin æsku. Rifja upp það sem skipti þá máli.

Eftir að hafa lagst á mitt græna eyra og sofnað í klukkutíma ákvað ég að ég væri nógu heilsuhraust til að fara út að borða með aðstandendum ráðastefnunnar og fyrirlesurum. Við áttum ánægjulega kvöldstund þar sem margt var krufið og skemmtilegar sögur sagðar.

Að lokum þakka ég Leikskólasviði Reykjavíkur og samstarfsaðila RannUng fyrir að standa fyrir ráðstefnunni og auðvitað sérstaklega fyrir að bjóð mér að tala.


Komin heim á landið bláa

Komin heim heil, eftir vel heppnaða ferð til Reggio Emilia á Ítalíu. Þar skyldi ég við stóran hóp sem ætlar að vera nokkra daga í viðbót. Á morgun verð ég með hópnum í anda en þá fara þau í mismunandi smiðjur og á fyrirlestra. Sjálf þurfti ég að hraða för minni heim á landið blá því ég ætla að tala á ráðstefnu í Borgarleikshúsinu um Raddir barna. Kannski viðeigandi þar sem Reggio Emilia er sennilega einna þekktust akkúrat fyrir það, ja fyrir utan ostinn parmesano-reggiano sem einmitt rataði í töskuna mína beint úr hinu ítalska kaupfélagi.

Var annars að velta fyrir mér kostum Skype. Nú hafa tveir blaðamenn rætt við mig vegna þessarar ráðstefnu, við annan ræddi ég hér í stofunni en hann sat í austurvegi alla leið í Rússíá, við hinn ræddi ég á hótelherbergi í Reggio Emilia og hann upp í Hádegismóum. Vona svo að heilsan haldi en ég hef verið að fyllast af kvefi og hálsbólgu undanfarna daga.

Erindið mitt ber hið háfleyga heiti: Hvert barn er sinn eigin kór og kannski ég nenni að segja nánar frá því eftir frumflutning, má náttúrulega ekki eyðileggja spennuna fyrir þeim sem hlusta (svona ef þeir skyldu álpast inn á bloggið mitt).

Sé svo að á mánudag er afar áhugavert erindi við Háksólann á Akureyri þar sem Bob Lingard ætlar að fjalla um alþjóðlega strauma í orðræðu um menntun, einkum þá hugmynd að menntun drengja hafi farið hrakandi og hvaða áhrif þetta hefur á réttlátt skólastarf fyrir drengi sem stúlkur.


ReMída: Skapandi efnisveita - starf í anda sjálfbærar þróunar

Það eru tvær vikur síðan við opnuðum á skráningar á ReMída ráðstefnuna og þegar eru sumar smiðjur að fyllast. Við sem stöndum að ráðstefnunni (SARE) erum mjög ánægð með skráninguna. En hámarksfjöldi eru 250 þátttakendur. Við teljum að ráðstefna sem þessi höfði til mjög víðs hóps starfsfólk, leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila, félagsmiðstöðva og allra annarra sem hafa áhuga á skapandi starfi og endurnýjanlegum efnivið. Hún er hæfileg blanda fyrirlestra og smiðja. Og smiðjunum er gefin góður tími.

Í smiðjum taka saman höndum leikskólakennarar og listamenn og vinna skapandi með efnivið sem annars fer oftast forgörðum. Ég tel þetta vera einstakt tækifæri til að kynnast fjölbreyttum vinnubrögðum og hugmyndum. Tækifæri til að nota m.a. ýmis verkfæri sem margir eru stressaðir yfir. Ég verð líka að viðurkenna að mér finnst leiðinlegt að geta ekki tekið þátt í smiðjum vegna þess að ég held utan um eina sjálf. Hefði viljað fara á þær flestar, en kannski næst ef við gerum eitthvað þessu líkt aftur.

Þar sem ég verð líklega að mestu utan þjónustusvæðis tölvunnar næstu viku ákvað ég að nota tækifærið og láta upplýsingar um ráðstefnuna standa efst á blogginu mínu.  

ReMida – skapandi efnisveita
Ráðstefna á vegum SARE haldin í
Kennaraháskóla Íslands, Skriðu þann 28.maí 2008

00 – 09:00
 Mæting - afhending gagna - kaffisopi
  
09:00 – 09:15
 Setning
  
09:15 – 12:00
 Fyrirlestrar í Skriðu.
  
09:15 – 09:40
 Karen Eskesen– Sögulegt yfirlit um ReMidur og Reggio Netværk, aðkomu sveitafélagsins.
  
09:45 – 10:45
 Rita Willum– Hugmyndafræðin á bak við ReMidu – efnisveitur. Hvað er ReMida? Afhverju að vera með ReMidu?
  
 Rita og Karen munu tala á ensku
  
10:45 – 11:15
 Kaffipása
  
11:15 – 12:00
 

Georg Hollander – „Hringur Lífsins“
„Hringur Lifsins” er síbreytilegur. Við getum til dæmis ekki vera án náttúrunnar en sömuleiðis er orðið erfitt að ímynda sér heim án hátækni. Það er mikilvægt fyrir okkur að muna hvaðan við komum án þess að forma framtíðina og ekki megum við drukkna í hafsjó markaðshyggjunnar. Samvist náttúru og hátækni, markaðshyggju og grassrótarsamfélags, neysluvöru og endurvinnslu virðist óumflýjanleg. Hvernig komum við til móts við þessi fyrirbæri? Er nauðsynlegt að velja eitt fremur en annað? Flest allt hefur eitthvað jákvætt við sig – hinsvegar skiptir máli hvernig við umgöngumst hluti. Getum við blandað saman vistvænu grassrótarsamfélagi með ríkjandi markaðshyggju eða fjöldaframleiðslu og hátækni þróun? Samfélagi sem slakar af og til á ofstöðlun og byggir á samkennd og mannauð?

 SMIÐJUR EFTIR HÁDEGI

Heiti: Fótanuddtæki fæst gefins - gegn því að vera sótt!
Lýsing: Að nýta gamalt dót úr geymslunni. Þessi vinna snýst um að hafa bæði augu og eyru opin í okkar daglega lífi. Að vera tilbúin að föndra með allan þann endurnýtanlega efnivið sem berst. Bæði frá okkur sjálfum, foreldrum og fyrirtækjum. Stundum þarf bara örlitla viðleitni frá kennurum til að byrja með og allt í einu verður eitthvað skemmtilegt til hjá krökkunum úr ólíklegasta dóti.
Smiðjustjóri:  Arnar Yngvarsson, leikskólakennari leikskólanum Iðavelli Akureyri.
 

Heiti:  „Hringur Lífsins“
Lýsing: Unnið verður í skapandi smíðaverkefnum eftir innblástur hvers og eins. Hráefnið er náttúrulegt og manngert í bland. Undiraldan er ef til vil einhverskonar verkleg „spuna-umræða“ um samvist náttúrunnar og hátækni, markaðshyggju og grasrótarsamfélags, neysluvara og endurvinnslu. Afraksturinn verða væntanlega einlæg og persónuleg sköpunarverk. Verk sem færa smiðnum og áhorfendum gleði og nýjar víddir á upplifun sína á tilveruna - eða bara einstakur smíðagripur.
Smiðjustjóri:George Hollanders, þúsundþjalasmiður, leikfangasmiðjan Stubbur, Öldu Eyjafjarðarsveit
 

Heiti: Stelpan sem át allt þar til út úr henni valt.
Lýsing: Vísindasmiðja með ívafi íslenskra ævintýra. Að byggja sögusvið, að hafa hugrekki til að leika þar, að njóta þess að skapa, skoða og skynja.
Smiðjustjóri: Kristín Dýrfjörð, lektor við Háskólann á Akureyri.
 

Heiti: Hvað er þetta?  Hvað viltu að þetta sé?
Lýsing: Ég kom til Íslands 1989 frá Cape Town, Suður Afriku, ætlaði að vera í hálft ár, en hef verið hér siðan. Fyrstu sex árin bjó ég á Ísafirði, og flutti svo til Hafnarfjarðar. Ég útskrifast frá Háskólanum á Akureyri 2006 með B.ed í leikskólafræði. Lokaritgerð mín fjallaði um listameðferð og sköpun í leikskólum. Frjáls sköpun hefur ávallt höfðað til mín og því ákvað ég að fara á námskeið í Remidu, til Danmerkur í febrúar s.l.  

Ég starfa sem fagstjóri í myndlist í leikskólanum Stekkjarási í Hafnarfirði, þar sem unnið er í anda Reggio Emilia. Starfið mitt felst m.a. í því að hafa umsjón og skipuleggja myndlistarkennslu og frjálsa sköpun, í samráði við deildarstjóra og aðra kennara. Ég hef umsjón með myndlistastofum leikskólans, sé um þann efnivið sem keyptur er inn, safna endurnýtanlegum efnivið frá fyrirtækjum og foreldrum sem nýtist okkur í sköpun. Einnig má geta þess að á Stekkjarási höfum við komið okkur upp eins konar Remidu sem sum börn kalla Töfraherbergi því þar leynast ýmiskonar fjársjóðir.  http://www.leikskolinn.is/stekkjaras/
Smiðjustjóri:Michelle Sonia Horne, leikskólakennari, leikskólanum Stekkjarás Hafnarfirði.

 

Heiti: Hringrás
Lýsing: Hugmyndavinna fyrst. Þátttakendur fá hlut sem þeir pæla í og síðan látnir útfæra hann í stærra rými. (ferlið kvikmyndað).
Smiðjustjóri: Hildigunnur Birgisdóttir myndlistamaður, Arndís Gísladóttir myndlistarmaður og starfsmaður leikskólans Sæborgar Reykjavík.
 

Heiti: Grænar endur
Lýsing: Skapandi endurvinnsla, flöskur, greinar,vírar, við og þið.
Smiðjustjóri: Halla Dögg Önnudóttir og Edda Ýr Garðarsdóttir myndlistamenn, leikskólanum Sæborg Reykjavík.
 

Heiti: Endurreisn hlutanna
Lýsing: Að stökkbreyta hlutum. Hlutir verða endurunnir, endurbættir, endurmetnir og endurreistir
Smiðjustjóri: Ilmur María Stefánsdóttir, myndlistamaður.

 

Heiti: Drasl og Drama
Lýsing:  Samskipti hlutanna skoðað, unnið í nokkrum hópum. Ferlið verður kvikmyndað.
Smiðjustjórar: Steingrímur Eyfjörð og Daði Guðbjörnsson, myndlistamenn


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband