Fyrsta kröfuganga Sturlubarnsins

Okkur fannst ómögulegt annað en að byrja hið pólitíska uppeldi Sturlubarnsins við fyrsta tækifæri. Hann fékk því að verja deginum með afa og ömmu í kröfugöngu og 1. maí kaffi.  Afi hringdi í Palli hinum megin og spurði hvort hann og Liv ætluðu ekki með litla Hannes Hrafn í gönguna. Við gengum svo öll út á Laugarveg, þar sem við biðum eftir okkar stað í göngunni.  Sturlubarnið fékk að koma upp úr vagninum og fylgjast með lúðrahljómsveitum og fánaborgum. Hann horfði á allt hinn kátasti. Þegar fáni Kennarasambandsins kom skelltum við okkur þar inn í gönguna. Liv, Palli og Hannes Hrafn fóru með BSRB svo þar skildu leiðir þeirra félaga. Frá því að félag leikskólakennara var lagt niður sem stéttarfélaga og nýtt Kennarasamband stofnað hef ég gengið undir þeim fána. Að venju voru sömu kunnuglegu andlitin á sínum stað í göngunni. Í raun er hún svolítið eins og stéttarpólitískt stórættarmót.

Dagskráin var of löng að venju, hefði sannarlega mátt sleppa hinum ofnotaða Gísla gamansama fréttamanni úr Borgarfirðinum, mér fannst ekki staður og stund fyrir hans gamnmál þarna. Hins vegar ræddu verkalýðsforkólfar um kaup og kjör, hins almenna borgara og hinna sem eru með ofurlaunin. Áhyggjur af einkavæðingu heilbrigðiskerfisins voru og fyrirferðarmiklar. Áhyggjur sem við deilum mörg. Á torginu voru alla vega tveir ráðherrar Samfylkingar, þau Ingibjörg og Össur, kannski þau hafi hlustað af athygli.

Þegar dagskráin hafði staðið í nærri klukkustund og enn slatti eftir í að syngja alþjóðasöng verkalýðsins, vaknaði Sturlubarnið af værum svefni og við ákváðum að hann þyrfti að komast í hús. Stefnan var því tekin yfir á Kaffi Reykjavík þar sem Kennarasambandið bauð sínum félagsmönnum og gestum í kaffi. Kaffi Reykjavík tekur mörg hundruð manns og þar var setið á hverju borði á tveimur hæðum. Litli bróðir minn, yfirkokkurinn þar, var búinn að útbúa hið glæsilegasta veisluborð, smurt brauð og hnallþórur í bland. Sturlubarnið var alveg upp á sitt besta í margmenninu. Lék við hvurn sinn fingur og heillaði vinkonur ömmu sinnar upp úr skónum (þó amma segi sjálf frá).

Hans helsta verkefni var að henda dótinu sínu á gólfið og láta ömmu taka það upp, aftur og aftur og aftur. Reyndar tekur amma með glöðu geði upp dótið fyrir Sturlubarnið, hún veit sem er að þetta er stórt stökk í vitsmunaþroska hans. Hann er að gera sér grein fyrir fjölmörgu, orsök og afleiðingu, að hafa stjórn á umhverfi sínu, rýminu og fleira og fleira. Leikurinn að henda og sækja er enn einn vaðsteinninn í þroskanum.

Jæja nú eru amma og afi og Sturlubarnið komin heim og afi og Sturlubarnið að leggja sig. Amma í anda áramótaspaugstofunnar ákvað að blogga um daginn, og þar með formlega festa í dagbók Sturlubarnsins hans fyrstu kröfugöngu.  

   1 mai 2 1 mai 3 1 mai 10

1 mai 6 1 mai 7 - Björg Bjarna 1 maí 4 Þröstur

 1 maí 1 1 mai 5 leika á hausnum á afa

 

Guðrún Alda Harðardóttir, fyrrum formaður Félags íslenskra leikskólakennara tók myndirnar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Illa er nú farið með blsessuð börnin, að útsetja þau fyrir bullinu í  ,,berjums bræður" liðinu, sem svo leggst í sama hóglífið og kapitalistarnsi við fyrsta tækifæri, líkt og mýmörg dæmi eru um.

Rauðar dulur út úm allt og mussulið í hópum, ekki getur þetta verið gott fegurðaruppeldi, kona góð.

Það væri annað ef fánalið þjóðernissinna væri enn við l´ði, þar fór flottur hópur, í fallegum einkennisklæðnaði vel snyrtir og svo þega kommaliðið ætlaði að abbast uppá þá voru þeir einfaldlega barðir niður eða flúðu í burt skiljandi dulurnar rauðu efti sig á fortóvinu, likt og ruslið ----sem þær raunar eru .

Miðbæjaríhaldið

í stuði

Bjarni Kjartansson, 2.5.2008 kl. 10:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband