Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Gott framtak

Þetta er gott framtak og á vonandi eftir að styrkja flokkinn og innviði hans í borginni. Verða til þess að byggja upp grasrótarstarfið af meiri krafti.  Líst vel á talskonur og menn um einstök atriði.  En svona í tilefni dagsins hefði verið betra að sjá jöfn kynjahlutföll.
mbl.is Samfylkingin í Reykjavík skipar talsmenn í einstökum málaflokkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningar meira virði en líf barna

Því miður – hafa stór alþjóðafyrirtæki tekist með auglýsingum að koma þeirri trú inn hjá fólki víða í meirihlutaheiminum að formúla blönduð í mismengað vatn sé betri en móðurmjólk. Peningalegir hagsmunir þeirra eru gríðarlegir, svo miklir að þeir ýta rökum og rannsóknum Alþjóðaheilbrigðismálstofnunar út af borðinu.

 

Þetta er með alvarlegri fréttum dagsins, þetta er frétt sem snýr að lífsmöguleikum miljóna barna um allan heim.

Þetta er mun verra en ef viðvörunum um skaðsemi reykinga væri aflétt af sígarettupökkum.


Bera karlar meiri virðingu fyrir konum en konur gera?

Það er sjokkerandi að lesa þessa frétt, að við konur höfum meðtekið jafnréttis umræðuna á þann hátt að við tökum kynjamun sem óbreytanlegum sannleik, sem gildandi og réttan. Það eru jú skilaboðin sem við erum að senda. Að við teljum okkur og störf okkar í raun minna virði en karla. Það er líka áfall að karlar virði okkur minna en aðra karla en samt meira en kynsystur okkar gera. Er sú hugmyndafræði enn ríkjandi á meðal kvenna (og að einhverju leyti karla) að karlar eigi að vera góðir skaffarar? Er það svo að karlar hafa meðtekið umræðuna um jafnan rétt á meðan við erum stökk í gömlum sannindum, komumst ekki upp úr hjólförunum.

Hvað hefur brugðist?

Ég vona sannarlega að þessi könnun standist ekki aðferðafræðilega og allt það - þó ég eigi nú ekki von á að það sé raunin. - Því miður.


mbl.is Bæði kynin reikna með því að konur sætti sig við lægri laun en karlar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Börn - ballett - Reggio

 

 

skógarglugginn

Er búin að vera í Stokkhólmi undanfarna daga á Alþjóðlegum fundi Reggio Children, hér eru fulltrúar margra landa og mismunandi aðstæðna. Við höfum heyrt sögur frá þessu löndum og af þeim aðstæðum sem börn búa við. Það hreyfði mikið við mér í dag þegar ung Argentínsk stúlka fór að hágráta þegar við vorum að ræða aðstæður barna og ábyrgð samfélagsins. Hún grét vegna barnanna í heimalandi sínu - spurði hvers vegna hefur þetta þróast svona. Við gátum litlu svarað en vorum held ég flest í þeirri grúppu nokkuð viss um að til að breyta aðstæðum þyrftir að byrja á einni manneskju, einum skóla, einu þorpi, einu héraði og þá kannski... 

 

Fór í dag á ballettsýningu hjá Ítölskum dansflokki, Arteballetto, sem vann verkið upp í samræðu við börn í Reggio. Leikhúsið var fullt af sænskum leikskólabörnum sem lifðu sig sterkt inn í verkið, það gerðum við líka, þessi fullorðnu. áhrifamikil og sterk sýning.

 

Við betra tækifæri ætla ég að blogga meira af fundinum sem hefur verið afar áhugaverður. Læt fylgja með myndir frá heimsókn minni í leikskólann Skogen í Skarpsnäk. Þetta er að sjálfsögðu skóli sem vinnur í anda Reggio. Þetta var heillandi heimsókn sem veitti mér heimmikið. Verð að viðurkenna að þegar ég hef verið í svona heimsóknum langar mig mest af öllu inn á deild. Kannski það eigi fyrir mér að liggja fyrr en varir.


Blár himinn og myndir sem ég tók með morgunkaffinu

 

sólin teiknar
Sólin teiknar

Himininn er blár  -  lofthiti - það er logn -

Dagur sem kallar á að vera varið utan dyra hér í Reykjavík.

 

á pallinumVor eigin sólpallur

 

  það sem stendur eftir af elsta steingerða hesthúsi borgarinnar

Það sem eftir stendur af

elsta steingerða hesthúsi Reykjavíkur.


Sóleyjastríðið - endurtekið efni hvert sumar

Er búin að skoða sumarblómamarkaðinn nokkuð vel, sennilega sá staður þessa daga sem maður hittir flesta – allir að koma görðunum í stand. Ég er að fara út, fyrst á fund með alþjóðlega Reggió-netinu í Stokkhólmi og svo í skólann og á ráðstefnu í London. Verð nú að viðurkenna að mér finnst næstum synd að fara að heiman á þessum árstíma, held að við þurfum langt, bjart sumar til að lifa af langa dimma vetur. En eins og sómakærum húsmæðrum í miðbænum hæfir verður garðurinn að vera "sjónhæfur" áður en ég fer. Hef nefnilega ekki trú á að Lilló nenni að stússast í sumarblómum, gamla sláturvélin sem hann rúllar á undan sér er hans aðaláhugaverk í garðinum.  

 

 

Blómaúrval gróðrarstöðvana breytist lítið milli ára, stjúpur og morgunfrúr standa alltaf fyrir sínu. Keypti slatta af báðum. Svo slapp með í kassann, meyjarblóm og fiðrildablóm og apablóm og ...  Treysti á að norðanáttin gangi niður um miðnættið, ætla þá út í garð og pota þessu ofan í mold. Svo fer ég með á leiðið hans Sturlu á morgun. Er annars með strengi á frekar óvenjulegum stöðum þessa daga, held að það hafi eitthvað með garðavinnu og árvisst sóleyjastríð mitt að gera.  


Flugvöllurinn - ?

akureyri úr lofti
 

Ég er ein þeirra sem nota flugið á milli Reykjavíkur og Akureyrar töluvert. Ég skil þess vegna rök þeirra sem vilja hafa völlinn í Reykjavík. Það hefur komið nokkrum sinnum fyrir að fljúga hefur þurft á Keflavík á sl. árum, það þýddi margra tíma ferð og ég er ekki að ýkja. Ef flugumferð verður flutt suðureftir er það lámarksskilyrði að það verði búið að byggja samgöngutækin á milli Reykjavíkur og Keflavíkur fyrirfram. Annars er hætt við að slíkt loforð “gleymdist” hjá fjárveitingarvaldinu. Þetta verða að vera almenningssamgöngur - því varla er vilji til að auka umferð einkabíla á Reykjanesbraut eða í gegn um þau bæjarfélög sem á leiðinni eru. Það verður líka að tryggja að flutningur þýði ekki mæting klukkutíma fyrir flug suðurfrá. Með því að blanda saman öllum gerðum að flugumferð er hætt við að flugvélar þurfi að bíða oftar á brautarenda eftir leyfi til að taka af stað eða lenda. Ef slíkt verður raunin suðurfrá þá lengist allur ferðatími og það gengur að innanlandsfluginu dauðu. Ef einhver heldur því fram að það gerist ekki þá er ekki lengra en nokkrar vikur að vél í áætlunarflugi í Rvk þurfti að bíða eftir leyfi til að taka á loft vegna innkomu einkaþotu. Þetta seinkaði áætlunarfluginu um 30 mínútur. Hvernig liti þetta úr á miklu stærri velli?  

 Einhvertíma var ég á fundi í Samfylkingunni hér í Reykjavík þar sem fólk taldi (í alvöru) að þeir einir væru að nota flugið sem væru á leið til útlanda. Fæst af mínu samferðafólki eru slíkir ferðalangar. Mikið er af fólki sem er að sinna allavega erindum á báðum stöðum. Reyndar hlæ ég stundum af því að á mánudagsmorgnum er meirihluti þeirra sem fara norður karlar á óræðum aldri með tölvutöskur. Það endurspeglar sennilega viðskiptalífið hversu fáar konur eru þá á ferð. Á sunnudagskvöldum ferðast ég oft með hálfri vél af börnum sem eru að koma “heim” eftir mömmu eða pabbahelgi. Ég hef þá orðið vitni af kostulegum samræðum barna sem eiga það eitt sameiginlegt að ferðast með umslag um hálsinn en eru orðin alvanir viðskiptavinir.     

 

Ég bý í miðborg Reykjavíkur og verð þar af leiðandi mikið vör við flugið – þekki orðið hljóðið í ákveðnum vélum, fæ í magann í hvert sinn sem þyrlurnar koma inn á afbrigðilegum tímum. Ég hef líka veitt því eftirtekt að umferð á einkaþotum hefur aukist og þær eru að verða kraftmeiri. Sennilega munu það efnafólk sem á þessar þotur standa með landsbyggðarfólki í að halda vellinum. Það er nefnilega lítið gagn í að kaupa vél sem getur verið einhverjum mínútum fljótari í för yfir úthafið ef viðkomandi þarf svo að vera stökk á Reykjanesbrautinni eða á hringtorgum í Hafnarfirði.        

Ég hef ekki fullmótað mér skoðun á byggð á flugvallarsvæðinu eða hversu dýrmætt byggingarland þarna er. Kannski vegna þess að með sömu rökum er hægt að segja að það sé vitleysa að vera að reyna að halda í Elliðaárnar (sem ég ólst upp við), þetta sé fínt svæði, sprungulaust og skjólgott. Eða Öskjuhlíðin, eða Hljómskálagarðurinn eða Klambratúnið allt er þetta fyrirtaks byggingarland – sem ég vil ekki að verði byggt á. Mér finnst gott þegar ég keyri niður Bústaðarveg á móti vestri að sjá út yfir sjóinn og á góðum dögum sjá jökulinn. Mér finnst gott að sjá vítt, kannski vegna þess að þegar ég lít út um stofugluggann sé ég næsta garð og næsta hús. En þegar ég fer um borgina mína sé ég svo miklu meira.  


mbl.is Ekki eining innan Samfylkingar um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Faglegur metnaður

Það er ekki  lengur ágreiningur í samfélaginu um hvort leikskólinn eigi að vera til fyrir alla eða ekki, það er ekki ágreiningur um hvor hann á að vera hálf- eða heildags. Í könnun sem borgin lét gera kemur fram mikið stolt starfsfólks leikskóla af starfi sínu – það upplifir samtímis ákveðið virðingarleysi. Þetta er þversögn sem hefur verið að þvælast fyrir starfinu. Við viljum öll góða leikskóla – bestu mögulegu leikskóla fyrir börnin okkar, en hingað til höfum við ekki verið tilbúin að borga. En með nýrri ríkisstjórn og metnaðarfullu leikskólaráði er ég viss um að þetta breytist.  

Í könnunni kemur líka fram að miklu minni starfsmannavelta er á fagfólkinu og minnst af öllu á leikskólakennurum. Hluti af gæðastarfi leikskóla er hátt menntunarstig og stöðugleiki í starfmannahópnum. Með tillögum starfshóps borgarinnar er ætlunin að styrkja hvorutveggja.  

  

Þessu ber að fagna og legg ég til að ungt fólk skoði þá möguleika sem HA hefur upp á að bjóða, bæði í fjar- og dagnámi.


mbl.is Vilja auðvelda starfsfólki á leikskólum að ljúka fagnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skráning skiptir máli

Frábært að sjá þessa frétt. Fór og skoðaði þá dönsku. Vildi vita hverskonar skráningar þeir væru að ræða um. Þar er rætt um að gera skráningu á uppeldisstarfinu. Ég hef sem betur fer ekki orðið vör við að hérlendis sé neikvæð umræða um þennan þátt starfs leikskólakennara. Þvert á móti tel ég að leikskólinn sé faglega mikils metinn í samfélaginu.   

 

Við Háskólann á Akureyri og í KHÍ er kennd uppeldisfræðileg skráning (Pedagogic Documentation). Rannsóknir hafa sýnt að þróun leikskólastarfs liggur að miklu í þessari tegund skráninga. Hún styrkir leikskólakennara, hún sýnir þeim hvernig börn nema og hvar styrkur þeirra liggur. Ég hef í tveimur bloggum hér að neðan fjallað um slíkar skráningar.

 

Listir og eðlisfræði í leikskólum - uppeldisfræðileg skráning notuð sem tæki til að lýsa því sem þar gerðist  og svo blogaði ég um skráningar sem þróunartæki.

 

Jafnframt er gaman að geta þess að leikskólinn Fagrabrekka í Kópavogi sem starfar í anda Reggio Emilia fékk styrk úr þróunarsjóði leikskóla til að vinna úr skráningarverkefni sem náði yfir heilt ár. Verkefni um fjögurra ára börn sem hönnuðu og saumuðu kjól frá grunni, (og það sem er svo dásamlegt við skráningarnar er að á myndunum sést vel að þetta er verk barnanna). Annar leikskóli sem hefur verið að skrá starfið sitt er leikskólinn Sæborg í Reykjavík en um starfið þar var gerð heimildarmynd í fyrra.

 

bleikt pasta

mbl.is Pappírsvinnan ekki til einskis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strokað yfir einstaklinginn

Um daginn fór ég í Bykó - þar voru foreldrar með lítið barn. Barnið merkt bak og fyrir leikskólanum sínum, það var í allt of stórum bómullarbol yfir flíspeysunni sinni, bæði merkt leikskólanum.  Mér er yfirleitt alveg sama um tísku, það sem einum finnst ljótt finnst öðrum flott - segir ekkert annað en um hvað mér finnst fallegt og það er örugglega ekkert í takt við tískuna. En ég varð fyrir sjokki með sjálfa mig. Ég nefnilega horfði á barnið og sá það ekki, ég sá bara fötin og skólann sem það var vandlega merkt. Svona eins og það hefði verið gangandi kókakóla auglýsing. Öll merki um einstakling voru strokuð út - til þæginda fyrir foreldra virðist vera af því sem ég hef lesið eða til þess að koma í veg fyrir einelti. Því miður kaupi ég ekki slík rök. Ef fötin eru ástæða eineltis væru eineltismál ekki jafn flókin og þau eru. Þá dygðu sennilega hókus pókus lausnir.

 

Fyrir nokkru hlustaði ég á fyrirlestur félagsfræðings sem sagði frá ferðalagi sínu til Pakistans. Hann sagðist hafa ferðast þar með rútu um héruð. Einn áningarstaðurinn var við akur þar sem konur unnu í litskrúðugum saríum. Fólkið sem var með honum varð mjög uppnumið og ræddi um hvað þetta væri mikið óskapalega falleg sjón. Félagsfræðingurinn sagði þá,  "já en tókuð þið eftir mönnunum í þorpinu sem við vorum að fara í gegn um?" "Já, já" sagði fólkið.  Tókuð þið eftir hvernig þeir voru klæddir? Spurði hann. "Já, já" sagði fólkið "í einlitum kakífötum". "Einmitt" sagði félagsfræðingurinn, "þannig geta þeir betur fylgst með fólkinu á ökrunum sem er gert áberandi í litskrúðugu fötunum sínum á meðan þeir eru klæddir felulitum."

 

Báðir hópar voru þannig í einkennisbúning, sem þjónuðu ákveðnum en samtímis földum tilgangi. Alveg eins og ég held að það þjóni földum tilgangi að klæða börn í leikskólabúninga. Og í guðanna bænum forðið mér frá rökum um einfaldara líf fyrir foreldra og minna einelti.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband