Silfrið

Ég horfði á silfrið áðan, fannst soldið fyndið þegar “ofurblaðamaðurinn” held ég að Egill hafi kynnt Agnesi, hafnaði því að vera hlutdræg í skrifum sínum. Þar gætti hún algers hlutleysis – þvílíkt bull. Algjört hlutleysi er ekki til og verður ekki til. Það hver ég er hlýtur að stýra vali mínu á efni og sjónarhornum. Agnes segist líka hafa læknast algjörlega af kommúnisma hafi hún einhvertíma haft tilhneigingar í þá átt, enda nýkomin frá Kúbu. Hver getur dæmt Kúbverskt samfélag miðað við þá meðferð sem landið hefur hlotið. Búið að vera í viðskiptabanni í yfir 40 ár. Hefur það ekki haft eitthvað með lífskjör almennings að gera? Er þetta viðskiptabann ekki að verða úrelt? Við hvað er kaninn hræddur? Vona annars að Agnes hafi gefið sér tíma til að hlusta á Jón Baldvin, svona vegna þess hvaða hana hryllti við tilhugsun um vinstri stjórn.

 

Jón Baldvin sem Sáfi vill fara að gefa frí – minnti menn á að hverjir það voru sem byggðu upp undirstöður þess hagvaxtar sem hefur ríkt, vinstri flokkarnir ásamt framsókn. Með EES samningnum og með hinum frægu þjóðarsáttarsamningum. Samningum þar sem höndum var komið á verðbólguna.

 

Ég var í Rúgbrauðsgerðinni 1989 – það var eldskírn mín í kjarasamningsgerð. Minningin sem skiptir mig e.t.v. mestu frá þessum samningum var þegar við biðum eftir að ríkisstjórnin setti saman “félagmálapakkann” þar sem reynt var að tryggja öryrkjum, öldruðum og sjúklingum hlutdeild í ágóða samningsins. Sumum fannst það óþarfi, þær raddir heyrðust að hverjum bæri að hugsa um sinn rass og sitt félag, það væri ekki hlutverk stéttarfélaga að taka málefni öryrkja upp á sínar hendur. Ég man líka að þá reiddist Ögmundur ógurlega og hélt þrumuræðu um sameinginlega ábyrgð við okkar minnstu bræður.

 

Þó ég sé kannski ekki sammála Ögmundi flokkspólitískt þá veit ég að við deilum um margt sameiginlegri lífsýn um ábyrgð samfélagsins gagnvart okkar minnstu systrum og bræðrum. Það hefur ekki breyst.

 

Skautahlauparinn vinur minn

Fór á fætur ósiðlega snemma á sunnudagsmorgni, til þess að taka upp á myndaband lokarennsli hjá Guðmundi Páli vini mínum, hann er að fara að keppa í listhlaup á skautum á Reykjarvíkurmóti næstu helgi. Því miður missi ég af því, verð á Akureyri á ráðstefnu um þjóðfélagsmál. Rennslið gekk vel hjá Guðmundi Páli, kann allar sínar samsetningar og hopp og spinn og hvað það nú heitir allt. Hann er átta ára og er einn fárra drengja sem æfa listhlaup og hann er ótrúlega flottur og flinkur.

 

Hjá mörgum fullorðnum er að finna fordóma gagnvart strákum og listhlaupi. Mömmu hans hefur t.d. verið bent á að íshokkí sé fyrir stráka – að listhlaupið sé fínn grunnur undir það.  

 

Ég er þessa daga að lesa skemmtilega bók um leikskólabörn og kynvísa leiki. Þar er líka að finna börn sem hafa tekið að sér það hlutverk að verða gender-bender – börn sem þora að fylgja löngunum sínum – láta ekki umhverfið segja sér hvað eru réttir og hvað rangir leikir eða íþróttir.      


Hver hefur vald til að breyta innan leikskólans? Um uppeldisfræðilega skráningu

Hvað er þessi uppeldifræðilega skráning?

 Uppeldisleg skráning er þýðing á orðunum pedagogisk documentation. Gunnilla Dalhberg hefur er sú fræðikona sem hefur skrifað einna mest um bakgrunn og heimspeki uppeldislegrar skráningar utan Ítalíu. Árið 1999 kom út bókin Beyond Quality in Early Childhood in Postmodern Perspective eftir hana, Peter Moss og Alan Pence. Í bókinni er fjallað um uppeldislega skráningu sem leið að til að skilja nútímabarnið. Hér er gerð grein fyrir nokkuð af þeim hugmyndum sem þar birtast.   

Að auka skilning

Uppeldislegri skráningu er fyrst og fremst ætlað að auka skilning á hvað er um að vera í leikskólanum, í starfinu. Henni er ætlað að sýna, um hvað barnið er fært, hvað í raun býr í því. Án þess að verið sé að meta það eða mæla við fyrirframgefna staðla. Mikilvægt er að hafa í huga að uppeldisleg skráning er ekki og á ekki að vera atferlisathugun. Tilgangur atferlisathuganna er að athuga hvort og hvernig að barnið stendur m.t.t. ákveðinna staðla eða þess sem er talið NORMALT, einhverra fyrirframgefinna stærða. (t.d. á þriggja ára barn að vera farið að halda sér þurru. hoppa, komin með svona mörg orð og svo framvegis). Það er ekki hlutverk skráningar að skoða þetta. Þó að auðvitað geti skráningin leitt slíkt í ljós, þá er það ekki markmið hennar. 

Samkvæmt póstmódernískum hugmyndum er skráningunni ekki ætlað að vera beinn fulltrúi eða sönn mynd þess sem barnið segir og gerir, skráningin er ekki heilagur sannleikur um starfið. Heldur sýnir hún okkur einn sannleika, nefnilega þann sem við skynjuðum. (en þar með er enginn sem getur sagt að hann hafi verið sá eini rétti). 

Með skráningu er ímynd leikskólans skýrð og starfið er gert sýnilegt. Hún er samtímis leið fyrir leikskólakennarann til að kynnast hverju barni og hvernig það tileinkar sér þekkingu. Skráning er bæði ferli og innihald, þegar að rætt er um uppeldislega skráningu er alltaf verið að ræða um hvorutveggja. 

 

Að nota uppeldisfræðilega skráningu sem tæki til að þróa starfið

Það sem eftir er af umfjölluninni byggir á kafla í bók Hillevi Lenz Taguchi – documentation som pædagogisk refleksion, dönsku útgáfunni frá 2000.  Uppeldisfræðileg skráning er bæði tæki til samskipta og hún er leikskóla lífstíllHillevi segir að með því að taka upp uppeldisfræðilega skráningu sem vinnutæki/aðferð þá sé það ekki spurning um að breyta úr einni aðferð í aðra. Það snúist ekki um að breyta stjórnun, eða það að eftir að hafa gert fáeinar skráningar á þemum geti maður sagt "ég vinn í anda Reggio". 

 

Að spora brautina

Málið snýst um að nota tækni sem hefur verið þróuð í Reggio Emilia til að spora braut. Leggja braut fyrir stöðugt þróunar og umbreytingarstarf. Skráninga-vinnan getur gefið upplýsingar um hvar við stöndum núna. Hvert er viðhorf til barna, náms, starfsfélaga, fjölskyldna og svo framvegis. Í leiðinni þá gefur skráning upplýsingar um hvað börnin geta, hvernig þau hugsa og hvernig þau nema.

 

 

Uppeldisfræðileg skráning er hluti af námsferli

Þannig er hægt að nýta sér skráningu sem hluta af námsferli, bæði leikskólakennarans og barnsins. Ferli sem aldrei lýkur. Það er sem sagt ekki neitt eitt lokamarkmið með starfi í þróun heldur er á þetta að vera sífelld virkni. Við segjum kannski á stundum á við séum að fylgja barninu eftir með skráningum – en í rauninni er það ekki rétt – við verðum að vera samferða í þessari ferð. Ganga samstíma barninu í námsferlinu.  Í praxís má segja að þetta merki að vera sporinu á undan barninu – eða eins og Valborg orðaði varðandi leikinn þegar hún fjallaði um Vytgoskij “að vera höfðinu hærri”. Hillevi bendir á að mikilvægt sé að ekki sé litið á barnið og bernskuna rómantískum augum. Ef það er gert má segja við séum komin til baka á tíma Rossueau og rómantíkurnar. Við verðum þess í stað að líta á þann fullorðna sem tekur ábyrgð á virku, skapandi þróunarstarfi. Þar sem barnið eins og hinn fullorðni, tekur virkan þátt í nýsköpun. Barnið er hvorki ekki valdalaust og skoðanalaust peð. Það tekur virkan þátt í að móta umhverfi sitt og þekkingu.

 

 

Að þróa starfið frá botni og upp – að sigrast á hefðunum

Hillevi vill alls ekki líta þröngum og hefðbundnum augum á þróunarstarf, telur að ef það er gert þá sé hættan að utanaðkomandi segi fyrir – það sé topp niður módel. Hún bendir líka á að innan skólakerfisins höfum við löngum átt það til að skilja á milli yfirmarkmiða (opinberu námskránna) og þess sem gerist í raun og veru (lifaða námskráin). Hún bendir á trú manna  á að markmiðsetning og tilskipanir á efsta þrepi hafi áhrif á gólfið – í raun sýni rannsóknir að slíkt sé erfitt, það sé erfitt að fara gegn því módeli sem fólk er að vinna eftir.

 

 

Það sem situr í veggjunum 

Í leikskólum skapast oft mjög sterk menning og starfshefðir  sem byggja á hefðum og vinnuaðferðum sem hafa þróast á viðkomandi stað. Hún tilgreinir rannsóknir sem sýna fram á að þrátt fyrir að reglugerðir og tilskipanir breytast, breytist frekar lítið innan leikskólans. Hún veltir fyrir sér hvernig geti staðið á því.  Hún vísar m.a. til doktorsritgerðar Bo Henckel  þar að í viðtölum við leikskólakennara komu fram lýsingar á tölvuverðum fjölbreytileika í vinnuaðferðum og starfsháttum en þegar starfið sjálft var skoðað kom fram frekar lítil munur. Þannig kom fram að þær hefðir sem réðu ríkjum í skólum voru sterkari en kannski ný kunnátta sem fólk kom með. Sem dæmi geta nýir leikskólakennara velt fyrir sér hvernig þeirra þekking og reynsla kemur til með að hafa áhrif inn í þann starfsmannahóp sem fyrir er. Hvort að það sem situr í veggjunum verði áhuga og vilja til breytinga yfirsterkar? Því má líka velta fyrir sér þegar leikskólar segjast taka upp hina og þessa stefnuna hverju það í raun breytir. Ef þið horft er til þess sem póststrúktúralistarnir segja um áhrif tungumálsins – er ekki nóg að breyta sínum eigin orðaforða og hugsunarhætti heldur verður líka að skora á og taka umræðuna upp við barnahópinn. Ögra staðalmyndum og takast á við viðteknar hugmyndir.

 

 

Hvorki né eða bæði og

Hillevi fjallar svo um rannsókn sem var gerð á meðal norskra leikskólakennara þar sem þær fóru inn í grunnskólann með áður elstu börnunum leikskólans (fyrir nokkrum árum fóru 6 ára norsk börn fóru inn í grunnskólann). Þar kom fram að ekki varð til sambræðingur eða bæði/og leikskóli og grunnskóli, heldur annaðhvort. Annað hvort líktist bekkirnir hefðbundnum grunnskóla eða hefðbundnum leikskóla. Hillevi veltir upp spurningunni, hvernig er eiginlega hægt að breyta undirstöðu eiginn skilnings eða á því á hverju skoðanir um hvað felist í starfinu eru byggðar.

 

 

Hvaða leið er fær?

Hillevi spurði sjálfa sig að: Hvernig get ég öðlast skilning á vanabundna starfinu mínu – og þeim munstrum sem ég hef komið mér upp þar?  Hvernig get ég túlkað þau merki sem er að finna í starfinu? Hvað merki er ég að gefa börnunum þegar ég t.d. bið það um að gera leirkarl? Hvað leiðir get ég farið til að gefa starfinu og sjálfri mér nýja merkingu?

 

 

Uppeldisfræðileg skráning

Uppeldisfræðileg skráning er sameiginlegt verkefni sem byggir á sameiginlegir ígrundun. Hillevi telur að með því að beita þessu tæki sem skráning er sé hún nær svarinu en ella. Vegna þess að uppeldisfræðileg skráning byggir á að skoða frá botni og upp. En hún bendir líka á að skráning sé ekki jafneinföld og hún virðist við fyrstu sýn. Hún sé sameiginlegt tæki, milli barna, starfsfólks og jafnvel foreldra. Og byggir á þeirri hugmynd að virk, stöðug ígrundun sé eina leiðin til að raunverulega breyta starfsháttum.

  

Hún bendir á að í Reggio sé markmiðið að allir séu þátttakendur í mótun uppeldisstarfsins – börnin – starfsfólkið – foreldrar – pólitíkusar – fólkið í bænum og svo framvegis. Að litið er á leikskólann sem stað þar sem lýðræði á sér stað og stutt er við lýðræðið.

  

Annað sem hún bendir á er að í Reggio  þá tekur þróunarstarfið ekki bara mið að því sem er að gerast í praxís, heldur líka í kenningum. Hún vitnar til Gunnillu Dahlberg sem segir að mikilvægast sé að gera sér grein fyrir bæði því sem er næst og fjærst. Með uppeldisfræðilegri skráningu er okkur gert kleift að vera mjög nálæg, ofan í efninu en samtímis líta á það og ígrunda með fjarlægari augum kenninga.   

  

Valdið kemur því að hennar mati hvorki alfarið ofan eða neðanfrá  heldur frá báðum (og því til stuðnings notar hún kenningar Foucaults um valdið).

 

 

Orðræðan um frjálsa barnið

Hillevi fjallar um sögu leikskólans og áhrifum hennar á nútímann – gerir samanburð a leikskólahefðum í nokkrum löndum. Hún fjallar síðan m.a. um áherslur Ölfu Myrdal sem byggðu á sálfræðinni og hvernig hún fór að því að setja guð og föðurlandið út úr leikskólanum sem æðstu gildi og kom þess í stað inn félagslegum og siðferðilegum og umfram allt sálfræðilegum gildum (í Fröbelskólunum er það guð og föðurlandið að hluta). Hillievi fjallar svo um hversu mikilvægt var fyrir leikskólann að aðskilja sig hugmyndafræðilega frá grunnskólanum. Þetta hafi skapað orðræðuna um frjálsa og skapandi barnið. Þar sem frjáls leikur og skapandi starf gaf barninu tækifæri til að þroska persónuleika sinn öfugt við þá starfshætti sem tíðkuðust í grunnskólanum.

Skipulag hefur áhrif á mönnun leikskóla

Hillevi fjallar um það hvernig skipulag leikskóla styður ákveðin vinnubrögð og mönnun. Hvernig leikskólar sem eru byggðir upp sem verkstæði krefjast t.d. færri starfsfólks en þeir sem eru byggðir eru upp sem heimili – má af gamni benda á að þegar ákveðin uppbygging á sér stað í Reykjavík um miðjan  sjöunda áratug síðust aldar lætur Guðrún Erlendsdóttir (mbl 1966) þáverandi nefndarkona barnaverndarnefndar borgarinnar hafa eftir sér að stefnan sé að leikskólar “líkist einkaheimilum sem mest” (og sjáið hvaða nefnd hafði með leikskólann að gera) í viðtali við Moggann sögðu nýútskrifuðu leikskólakennararnir að hlutverk sitt væri “að vera börnunum sem móðir”. ( Mbl 1967)  Þannig að þið sjá má að sama umræða átti sér stað hérlendis og átti sér stað í Svíþjóð. 

 

Hver hefur valdið?

Samkvæmt skilningi Foucault þá höfum við alltaf vald, sem við getum veitt öðrum eða valið að stjórna sjálf. Í því felst að við ráðum því hvaða leið við veljum til að ná eða öðlast skilning um okkur sjálf og það umhverfi sem við hrærumst í. Í gegnum um uppeldisfræðilega skráningu getum við tætt af okkur ytri-lögin, flysjað okkur inn að kjarna. Við getum borið kennsl á og gert sýnilegt það sem stjórnar okkur, þ.e.a.s. þeim meginhugmyndum sem við störfum eftir og við látum stjórnast af. Hugmyndir sem við látum stjórna því hvernig við sem leikskólafólk vinnum og hvernig við störfum með börnunum.

 

Skráningin getur opnað glugga fyrir okkur gert okkur kleift að sjá hvernig í raun við erum og störfum. Hún gerir okkur kleift að breyta, eða finna andstæðurnar í okkur sem e.t.v. gerir starfið eftirsótt og ánægjulegt fyrir okkur bæði siðferðis, og fagurfræðilega. Við vöxum og þroskumst í starfi.

 

En það er líka vegna þessa valds sem við höfum yfir eigin sjálfi að við lendum í vandræðum með að breyta okkur sem og  starfsháttum og hugmyndum. Við höfum jafnvel lært að eitthvað sér rétt, satt og fallegt en nú stöndum við jafnvel frammi fyrir því að skora þær hugmyndir á hólm, vilja losna við þær. Þetta er líka erfitt því að auðvitað verðum við að sætta nýjar og gamlar hugmyndir inn í okkur og mynda úr þeim eitthvað sem vonandi stærra.

 

Menntun sem býður upp á skemmtilegt, fjölbreytt og gefandi starf

Ég er í leikskólaham

Viltu fara í grunnnám á háskólastigi sem er  

Skapandi

  • Þar sem lögð er áhersla á myndlist, hreyfilist, tónlist og margmiðlun 
  •  Þar sem þú lærir litafræði, að smíða gripi úr tré, vinna með ull og pappír, dansa vinna með leir og hljóðlist 
  •  Þar sem vísindi og listir tengjast  

Pælandi

  • Þar sem heimspekilegar pælingar eru í fyrirrúmi 
  •  Þar sem áhersla er á að tengja saman umhverfi og sögu    

 Hagnýtt 

  •   Gefur réttindi til að vinna við eitt skemmtilegast starf sem um getur
  • Þar sem hver dagur er nýtt tækifæri til sköpunar – réttindi til að starfa með börnum  
  •  Sem er góð undirstaða undir ýmsar framhaldsnámsgráður (sálfræði – félagsfræði – listgreinar – menningarfræði)   

Ef þú ert stúdent átt þú kost á þessu námi við háskólann á Akureyri   

  •  Í fjarnámi í fjarnámshóp – þar sem hópurinn hittist og er í tímum saman    
  • Í dagskóla á Akureyri í fjölskylduvænum bæ sem iðar af lífi og ungu fólki  Ef þú vilt nánari upplýsingar hafðu endilega samband við skrifstofu HA eða skoðaðu heimasíðu HA www.unak.is 

 


Katla og börnin

 

Vík Mýrdal
Af heimasíðu Mýrdalshrepps

Á fallegum vordögum eins og í dag, gnæfir eldstöð ein yfir byggð, eldstöð kennd við Kötlu. Á fallegu bæjarstæðinu kúrir byggðin út við sjó. Fólkið sem á heima þar veit að Katla getur hvenær sem er bylt sér úr djúpum næstum 100 ára dvala. Núna sefur hún værum Þyrnirósarsvefni. Fólkið sem stjórnar hefur meira að segja sett myndavél á Kötluna, veit að það þarf stöðugt að vera á vakt. Hún getur nefnilega verið soddan ólíkindatól.

 

En fólkið í fallega bænum veit líka að það þarf að vera undirbúið – þess vegna var svo flott að sjá að björgunarsveitin Víkverji og foreldrafélag leikskólans Suður-Vík ætla að leiða saman hesta sína og vera með opið hús hjá björgunarsveitinni á Sumardaginn fyrsta. Degi barnanna. Þannig kynnast börnin nefnilega þessu húsi og því fólki sem kannski einn dag birtist á tröppunum heima og leyfir þeim að taka einn bangsa með. Daginn sem Katla rumskar eða jafnvel vaknar – hún Katla þarf nefnilega engan kóngson, hún bara vaknar sjálf.


Einu sinni var leikskólinn sumargjöf til íslenskra barna

Sumargjöfsumarjöf

Sumardagurinn fyrsti er sérstakur dagur hjá þeim sem hafa málefni barna að áhugamáli eða jafnvel lífsstarfi. Það var á Sumardaginn fyrsta árið 1924 sem íslenskar konur stofnuðu Sumargjöf. Félagið sem byggði og rak fyrstu leikskólana.

 

Í stofnskrá Sumargjafar segir m.a:

 

"Að tilgangur félagsins sé að stuðla að andlegri og líkamlegri heilbrigði og þroska barna í Reykjavík og vernda þau fyrir óhollum áhrifum." Jafnframt er ætlunin að hrinda af stað rannsóknum um hag barna, stuðla að því að rita um uppeldismál í blöð og tímarit. En líka að reka ýmsar stofnanir sem tengjast hag barna s.s. vinnustofur, dagheimili heilsugæslu og fleira. Margt af því sem þarna má lesa á sama erindi til nútímans - sumt hefur ekki breyst nóg.

 

 Gamla Grænaborg og  fyrirmynd hans

Þessum markmiðum Sumargjafar var ötullega sinnt og fyrsta dagheimilið var opnað í núverandi húsnæði Kennarasamtakanna (gamla kennaraskólanum) sumarið 1924. Auk þess var farið að stað með garðyrkjunámskeið fyrir börn (forveri skólagarðanna sem við þekkjum mörg úr eigin æsku), smíðavellir voru opnaðir og barnaleikvellir settir á stofn. Árið 1931 opnaði svo fyrsti sérhannaði leikskóli Íslands, Grænaborg. en það má telja menningarsögulegt slys þegar hún var rifin til að rýma til fyrir umferðamannvirki. Grænaborg var byggð eftir sérstakri hugmyndafræði sem byggði á starfi McMillansystra í London. En þær teljast til frumkvöðla leikskólauppeldis, þær systur voru virkar í hreyfingum sósíalista og rann til rifja þær aðstæður sem börnum var boðið upp á. Þær systur voru sannir aðgerðarsinnar og settu á stofn leikskóla í London sem byggðu á  uppeldishugmyndum þeirra.    

 

McMillan

McMillan Wilkipedia

Leikskólahugmyndafræðingar

 

 Skólastarf og þjóðfélag

David Hamilton ritar að skólastarf geti aldrei verið ósnortið af því sem gerist á víðari sviðum þjóðfélagsins. Hann spyr hvort skólar eigi að vera bergmál samfélagsins þar sem varðveisla menningararfsins fer fram eða hvort þeir eigi eða ætli að vera framsæknir og verða verkfæri til þjóðfélagslegra breytinga? Hefð og saga leikskólans er hið síðara, flestir leikskólar voru stofnaðir til þess að breyta þjóðfélaginu – til þess að hafa áhrif.

 

Kannski er það þess vegna sem allflestir leikskólakennarar sjá ekkert að því að leikskólar séu reknir utan við hin opinberu kerfi. Þannig er nú einu sinni sagan og hefðin – líka hérlendis. Það var ekki fyrr en á 6 áratugnum sem opinberir aðilar tóku við rekstri leikskóla að einhverju marki fram að þeim tíma voru það kven- og verkalýðsfélög sem byggðu og ráku leikskóla auk Sumargjafar. Saga leikskólanna er ekki saga opinbers reksturs.

 

Leikskólahefðin utan hinnar opinberu hefðar

Okkar hefð, er hefð þess sem þorir að vera öðruvísi – sem þorir að fara áður ótroðnar slóðir. En þar með er ekki sagt að allar slóðir mælist jafn vel fyrir. Í eldra bloggi skilgreindi ég skóla í það sem ég kalla lífstefnuskóla í anda leikskólahefðarinnar og það sem ég kalla hagnaðardrifna skóla. Auðvitað geta og eru margir hagnaðardrifnir skólar byggðir á ákveðinni hugmyndafræði – held til dæmis að það eigi við um fjölda einkarekinna Motesorri skóla um allan heim, líka á Norðurlöndunum. Ég held ekki að það séu illmenni sem reka og eiga leikskóla. Ég held að það sé fólk sem hefur áhuga á uppeldismálum en sér heldur ekkert rangt við að hagnast á þessu áhugamáli sínu. En ég held líka að þeir sem eitthvað vit hafa á bisness gera sér auðvitað grein fyrir að skóli sem er rekinn eftir stefnu er betri söluvara. Ég sem foreldri er líklegri til að vilja senda barnið mitt í skóla sem byggir á tiltekinni hugmyndafræði. Vel að merkja eftir því sem ég best veit og kannanir sýna eru flestir foreldrar leikskólabarna á Íslandi - hvort sem leikskólar eru reknir af hinu opinbera eða öðrum afar ánægðir með leikskóla barna sinna.

 

Ef aftur er hugað að orðum Hamilton þá eru skólar aldrei ósnortnir af því sem gerist á víðum sviðum þjóðfélagsins og í okkar samfélagi hefur verið mikil drift í átt til peningahyggju. Hún birtist líka í skólaumhverfinu.

 

Leikskólar hafa frelsi til að móta starf sitt og hugmyndafræði

Leikskólar hérlendis hafa löngum verið bæði líkir og ólíkir, meira líkir samt– ég held því t.d. blákalt fram að um og yfir 80% skólastarfs og hugmyndafræði leikskóla sé sameignleg – hvort sem skólar eru reknir af sveitarfélögum – einkahlutafélögum – eða sameignarfélögum. Ég held að innra-starfið byggi á sameignlegum leikskólagrunni og hugmyndafræði sem hefur verið að mótast s.l. 200 ár  Ég held því líka fram og hef fyrir mér mína eigin reynslu sem leikskólastjóri hjá Reykjavíkurborg í 10 ár að frelsi til að þróa starfið innan hins opinbera kerfis sé mjög mikið. Að Aðalnámskrá leikskóla hafi lítt bundið uppeldislega nýbreytni og þá sem vilja fara aðrar leiðir – ekki gleyma að sú aðferð sem þykir hvað róttækust hérlendis, hjallastefnan, var þróuð innan opinberakerfisins og fjölda leikskóla sem sveitarfélög eiga og reka eru reknir eftir þeirri aðferðafræði. Leikskólar hafa nefnilega hingað til næstum getað verið eins sjálfstæðir og þeim sýnist í hugmyndafræðilegri vinnu sinni. 

 

 

100_2785 Frá heimsókn í leikskóla töfrateppana í Helsinki  

 

Gæði byggjast á mannauð

Kjartan Valgarðsson hefur áhyggjur af því hvað mér er umhugað um starfsfólk leikskóla og held að honum finnist það vera á kostnað þeirra sem ÞJÓNUSTUNNAR njóta þ.e. barna og foreldra – (á reyndar svolítið erfitt með að kalla uppeldi og menntun þjónustu en það er mitt vandamál). Ég held reyndar að þetta sé smá misskilningur hjá honum. Þessir hagsmunir fara nefnilega saman – og verða að fara saman. Gæði ÞJÓNUSTUNNAR byggja nefnilega á þeim mannauði sem til staðar er. Held að það skipti engu máli hvort leikskólar eru einka eða opinberir, ef ekki fæst hæft starfsfólk er það slæmt fyrir alla – verst samt fyrir börnin.

 

Og þar sem dagurinn í dag er sérstakur hátíðisdagur barna óska ég öllum börnum og þeim sem varðveita barnið í sér og bera hagsmuni þeirra fyrir brjósti til hamingju með daginn.

      

vetrardar
Sólin sest á veturinn


Blómlegt mannlíf í Ölfusi

Hlustaði á Barböru Guðnadóttur, menningarfulltrúa Ölfus lýsa blómlegu menningarlífi þar, ræddi meðal annars um tónleika, þjóðahátíð og um opnun sýningar um bernsku Þorlákshafnar á Sumardaginn fyrsta. Þar má víst sjá börn á bryggju og svona – var hugsað til eigin æsku með færi á bryggjunni á Eskifirði og stundum soðningu handa ömmu eða marhnút handa mömmu á Króknum. Held að nútíma foreldrar vildu fæstir vita af börnum sínum við þær aðstæður sem við mörg ólumst upp við. Um okkur fer hrollur.

 En annars var Barbara skelleg að vanda og ræddi af skynsemi um málefni innfytjenda.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband