Framfaraskref hjá borginni

Á tímum góðæris í samfélaginu ríkti kreppa í leikskólum landsins. Kreppa sem byggði á því að varla fékkst fólk til að vinna þar. Leikskólinn varð miðstöð nútíma farandverkamanna sem komu og fóru eftir hentugleika. Það starfsfólk lleikskóla sem myndaði hryggjarstykkið í starfinu var oft orðið ansi langþreytt þegar að sumri kom, það fólk hefði gjarnan þegið sumarlokun. Hvað þá börnin sem máttu búa við óstöðugleika starfsfólks vetur og sumar. Á tíma góðærisins áttu allir að þjóna viðskiptalífinu. Líka börnin. Í mörg ár hefur félag leikskólakennara hvatt til þess að leikskólum landsins sé lokað hluta sumarsins. Við það myndist tiltekin upphafs og lokapunktur í starfinu, að sumarlokun þjóni leikskólanum og starfsemi hans.

Þegar Reykjarvíkurlistinn tók upp á því á sínum tíma að hafa opið sumarlangt í Reykjavík var ég ein þeirra sem var mjög ósátt, m.a. vegna þess að leikskólarnir fengu engar hækkanir í fjárhagsáætlun til að halda úti sumaropnum. Okkur var sagt fullum fetum að þetta kostaði ekkert. En auðvitað kostaði þetta heilmikið og hafðu verulega áhrif til verri vegar á rekstur margra leikskóla. Nú er lokun leið til sparnaðar.

Mér finnst samt merkilegast að fréttin er alfarið skrifuð út frá þeirri hugmynd að leikskólinn sé fyrst og fremst þjónustufyrirtæki. Meira að segja fyrirsögnin endurspeglar það mat. Hún er skrifuð eins og sumarlokun nú sé neikvæð þróun. Þar er ég aldeilis ósammála. Ég tel þetta vera framfaraskref hjá borginni og vona að sem flest önnur sveitarfélög fari sömu leið.


mbl.is Þurfa að laga sig að sumarlokun leikskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Taka sig af markaði

Það er orðið ósköp langt síðan ég hef bloggað, ég hef meira segja velt fyrir mér að loka blogginu mínu alfarið. Taka það af markaði eins og sagt er í fjármálaheiminum. Svo staldra ég við  og ákveð að bíða aðeins sjá hvort skrif-andinn fari nú ekki að gagntaka mig á ný. Það er ekki eins og ekki sé úr nógu að velja til að hafa skoðun á og fjalla um.

Pólitíkin hefur verið afar fjörug. En samt valdið mér vonbrigðum. Ég átti von á að fleiri og sterkari kandídatar gæfu kost á sér hjá Samfó hér í Reykjavík. Finnst hábölvað að þurfa yfirhöfuð að kjósa í Reykjavík norður. Velti fyrir mér hvort ég neyðist kannski til að skila auðu (svo get ég náttúrlega strikað út ansi marga hef í gegn um tíðina stundum gert það svona til að friða samviskuna). Það er slæm tilfinning að geta ekki talað fyrir flokknum sínum. Það er slæm tilfinning að hafa varið hann út yfir gröf og dauða í haust, viljað gefa honum tækifæri en uppgövta svo að það var misnotað. Það er slæm tilfinning að sitja uppi með.

Já, það er hægt að blogga um pólitíkina. Nú stendur Samfylkingin frammi fyrir formannavali. Margir sjá Dag sem framtíðarforingja ég er ekki eins viss. Þessa daga tel ég að best færi á því að Jóhanna gefi kost á sér. Hún á mitt atkvæði sem er nú nokkuð sagt. Ég á það nefnilega til að vera nokkuð pólitískt langrækinn og átti lengi erfitt með að fyrirgefa Jóhönnu það sem ég kalla aðför að leikskólanum. Það var fyrir langa löngu um 1990. Held reyndar að hún hafi bara haft svona slæma ráðgjafa. En út í þá sögu ætla ég ekki að fara hér.     

Svo gæti ég bloggað um Sturlu, hann er auðvitað ekkert nema frábær. Ég skrapp á bókamarkaðinn um daginn og keypti nokkrar bækur handa barninu. Meðal þess alfræðibók um ránfugla ætluð 8 -11 ára lesendum. Eins og ég vissi er hún þegar í uppáhaldi hjá 18 mánaða barninu. Hann flettir henni fram og til baka og bendir á alla fuglana. Hann sýnir mér hvernig á að gera kló og grípur um handarbakið á mér. Málið er að hann er gagntekinn af fuglum, sérstaklega krummum og bendir á þá hvar sem hann sér þá. Í bókum, úti í náttúrunni, ég ákvað að ýta undir þetta áhugamál hans. Kenna honum að skoða bækur með þessum uppáhaldsdýrum hans, fuglum.  Það er líka til skemmtilegur vefur með fuglum Íslands, myndum og myndbandsbrotum, við skoðum hann stundum. Það er gaman að segja frá að hann kemur með stóru bókina um ránfuglana sem hann getur varla haldið á, til okkar og segir, lesa.   

Um helgina fórum við Lilló með Sturlu í fertugsafmæli, þar var spilað á fiðlu. Fyrst spiluðu litlu frændur hans fallega á fiðlurnar sínar og svo tóku proffarnir við. Systir og mágur hennar mágkonu minnar. Sturla sat flötum beinum á gólfinu og hlustaði á þau með öllum líkamanum. Svo klappaði hann eftir hvert lag. Hann var líka svo heppinn að þau leyfðu honum að strjúka fiðluboganum eftir strengjunum.

Hann er á skemmtilegum aldri drengurinn svo nóg væri hægt að blogga um það (ég held náttúrulega að öll börn séu á skemmtilegum aldri en það er annað mál). 

Ég hef líka verið í símenntunarprógrammi síðustu vikurnar, tekið þátt í að skipuleggja nýjan leikskóla sem er að opna. Ég hef lært mikið að því góða fólki og bíð spennt eftir að fá að fylgjast með því þróa starfið sitt næstu vikurnar.  

Jæja ætli það sé ekki gott að enda hér, taka inn þriðja skammtinn af fúkkalyfjunum og ofnæmislyfjunum jafnvel koma sér í koju.

 

 


Gerðuberg og vetrarhátíð

Við stöndum í þakkarskuld við Gerðuberg fyrir aðkomnu þeirra að vetrarhátíð. Í Gerðubergi voru börn og barnamenning í fyrirrúmi. Laugardagurinn var tileinkaður börnum. Atriði þar sem börn, mömmur, pabbar, afar og ömmur tóku sameiginlega þátt. Þegar ég kom þangað iðaði húsið af lífi en samtímis ró. Glöð börn og glaðir fullorðnir. Gerðuberg gerir sér vel grein fyrir nauðsyn þess að skapa dagskrá þar sem börn geta verið þátttakendur, þar sem áherslan er á menningu með börnum en ekki afþreyingu eða menningu fyrir börn. Í Gerðubergi gerir fólk sér líka grein fyrir að til þess að börn læri að njót menningar þurfa þau að komast í tæri við hana. Ég hitti t.d. fólk á laugardag sem sjálft sótti Gerðuberg sem börn og vildi að þeirra börn upplifðu það sama.  

Ég þekki marga sem eiga sér draum um barnamenningarhús, sem opið væri fyrir börn og fullorðan saman. Staður til að koma og gera. Vera skapandi og til að skynja. Hús sem byggir á hugmyndinni um barnamenningu bæði fyrir börn og með börnum. Þeir sem komu í Gerðuberg á laugardag skilja hvað verið er að ræða um.

Sýningin á myndskreytingu barnabóka er afar áhugaverð og ég hvet sem flesta til að skoða hana.

Lifandi kviksjá

Arna Valsdóttir var með lifandi kviksjá í Gerðubergi. Þegar ég kom var stöðugur straumur barna og fullorðinna til að prufa og þora, láta reyna á hug og líkama. Í salnum var mikill ró yfir öllu og öllum en samtímis ótrúlega fallegir hlutir að gerast.

Ég hitti líka Elfu Lilju Gísladóttur tónlistarkonu sem sýndi mér nýja bók um börn og tónlist sem hún gefur út. Ég ætla að skrifa sér blogg um hana í vikunni. 


Skjálfandi grísir og áræðnir kettlingar

"það ert sko þú, ... Þú ert sko stórkostlegur, það geislar af þér eins og af sjálfri sólinni." Svara grísirnir skjálfandi. 

Ég hef verið að velta fyrir mér hvort það hvaða barnabækur eru lesnar í leikskólum og hvort  innihald þeirra sé ekki forvitnilegt rannsóknarefni. Að greina innihald t.d. með tilliti til birtingarmynd kynjanna og kímni.  Hvort tveggja afar mikilvægir þættir.

Barnabækur fylgja leikskólum. Á flestum þeirra er til nokkuð gott safn barnabóka sem síðan er bætt upp með heimsóknum á bókasöfn. Þar sem ég var leikskólastjóri var veglegt barnabókasafn til. Við lögðum metnað í að kaupa inn og viðhalda þeim bókum sem við áttum. Allar bækur voru  plastaðar og ef þær fóru að lýjast voru þær teknar til hliðar og gert við. Sumar þreyttar perlur voru bara skoðaðar og lesnar með starfsfólki. Lágu annars ekki frammi.  Bækur voru hluti af umhverfinu.

Þema

Á mínum leikskóla var á þessum tíma unnið eftir þemum sem ákveðin voru tvisvar til þrisvar sinnum á ári. Í kjölfarið fékk ákveðinn hópur það verkefni að fara yfir og taka saman bækur sem hentuðu þemanu, finna vísur og ljóð sem við ætluðum að leggja áherslu á í tengslum við þemað.  Þetta voru vinnubrögð sem allir voru ánægðir með.  Bækurnar voru teknar til hliðar, ljóð, þulur og söngvar sett saman möppu. Við útbjuggum ákveðið kerfi  til að syngja eftir.  Við teiknuðum myndir á karton og lagatextarnir voru skrifaðir aftan á. Settum sem markmið að á þessum og þessum tíma ætti börnin að kunna x marga texta, þulur og ljóð.  

Samverustundir

Í leikskólanum voru samverustundir daglega, yfirleitt tvisvar á dag þar sem bækur voru lesnar, þulur sagðar, sungið og dagleg mál rædd.  Í leikskólanum var líka yfirleitt hlustað á sögur af geisladiskum eða af bandi í hvíldarstund barnanna eða lesnar framhaldssögur. Sögur Ole Lund Kirkegaard , Guðrúnar Helgadóttur og  Astrid Lindgren voru á þessum tíma vinsælar. Sögur í hvíldartímum voru sjaldnast vandamál en annað átti við um samverustundir, þær áttu til að verða handahófskenndar.

Ástæðan var að við starfsfólkið rúlluð á milli þessara stunda og þá gat það komið fyrir að margir voru að lesa sömu bækurnar. Og þó að börnum þyki oft gaman að hlusta á endurtekningu þá getur of mikil endurtekning verið  þreytandi. Við ræddum málin og komumst að því við yrðum að koma okkur upp kerfi.  Kerfið okkar var mjög einfalt, á þeim stað sem samverustundin fór fram var klippispjald, með áföstum blýanti og eyðublaði sem við útbjuggum.  Á eyðublaðið skráði hver þær bækur sem hann var að lesa og hver las og dagsetningu. Með þessu móti var þess krafist af öllu starfsfólki að það undirbyggi sína samverustund, að fram færi meðvitað val um það sem lesa ætti. Að happa og glappa aðferðin væri ekki í fyrirrúmi.  Auðvitað gilti áfram að börnin komu með bækur að heiman eða að óskabækur væru lesnar.

Forvitnilegt að skoða betur

Undafarnar vikur hef ég verið að velta fyrir mér barnabókum, sérstaklega úr frá kynbundnu innihaldi þeirra og kímni. Ég velti fyrir mér hvaða bækur er verið að lesa í leikskólum landsins og hvernig staðið er að vali á bókum, bæði þeim sem lesnar eru hverju sinni og þeim keyptar eru inn í leikskólann.  Ég hef verið að skoða margar bækur sem eru nú vinsælar á meðal leikskólabarna.  Sérstakleg hef ég velt fyrir mér þeirri mynd sem dregin er upp af kynjunum. Hver er birtingarmynd kvenna og karla, drengja og stúlkna í þessum bókum? Hverjir eru t.d. gerendur í bókunum og í hverju er gjörningar þeirra fólgnir?

  

Snúður og Snælda 001

Sígild Snúður og Snælda. Snælda áræðin og úrræðagóð. Snælda sem er samkvæmt fræðum dagsins í dag er, "genderbender". 

öskubusku systir að gomma í  sig

Vonda stjúpsystirin akfeit úðar í sig sælgæti á ballinu á meðan hin fíngerða Öskubuska dansar við prinsinn.

lubbi lundi

 

Stelpan á lopapeysi og gallabuxum sem fer með pabba og finnur lundapysju.

hver er flottastur grísir

 Hinn stórskemmtlegi, sjálflægi, úlfur sem hræðir alla til samþykkis.


Svartur himinn

Í áranna rás hef ég verið upptekin af því hvernig við upplifum náttúruna í borginni. Þegar ég var að læra að verða fóstra gerðum við verkefni sem byggðist á því að setja fram hugmyndir um  draumaleikskólann. Flestir höfðu hann í útjaðri byggðar, þar sem stutt var í náttúruna. En raunin er að fæstir leikskólar eru þannig staðsettir.  

Með tíð og tíma hafa mínar hugmyndir um náttúrupplifun breyst, nú er ég upptekin af því að upplifa náttúruna þar sem ég er stödd hverju sinni. Heiman frá mér sé ég niður á tjörn. Ég sé fuglana leika á tjörninni, ég sé starrabreiður í trjánum í ljósaskiptum, sé himininn verða eitt augnablik svartan. Ég fylgist með leik hrafnanna, svifi þeirra og setum á ljósastaurum. Ég horfi á liti himinsins, stundum bláan, gráan, fjólubláan, bleikan, gulan, svartan og allt þar á milli. Ég horfi á jörðina mjúka, hlýja, hvíta, gráa, harða, blauta. Fylgist með úrkomunni. Sé gróðurinn spretta fram og dafna, sé hann breyta um lit og lögun. Ég upplifi árstíðir og vindinn. Ég er nefnilega fyrir löngu búin að átta mig á því að náttúran er ekki eitthvað utan við allt, hún er hluti af öllu.

Upplifun okkar Sturlu 

En núna hef ég líka eignast félaga til að upplifa þetta allt með. Við förum í gönguferðir og leitum af kisum, hundum, fuglum og sérstaklega krummum. Í dag fórum við í eina svona ferð, ég og Sturla. Fyrst gengum við hægt út götuna og heilsuðum þeim kisum sem á vegi okkar urðu. Við sáum smáfugla í trjánum, krumma taka sig upp við höfnina og svífa yfir okkur. Á tjörninni gáfum við gráðugum gæsum, einstaka álft og feimnum öndum brauð. Við heyrðum kurr dúfnanna og garg í álftum sem allt yfirgnæfðu. Við skoðuðum myndirnar á tjarnarbakkanum af fuglunum og fylgdumst með mannfólkinu. Á leiðinni heim stoppuðum við runna og Sturla nuddaði nefinu upp við hann og datt svo inn í hann. Í ljósaskiptunum í dag þegar starrinn fór að safnast saman til að ferðast í náttstað, fylltust allir trjátoppar og sjónvarpsgreiður í götunni, svo þegar þeir tóku sig upp, allir sem einn, sagði Sturla vááááá og klappaði saman lófunum.

Við Sturla þurfum ekki að fara upp í Heiðmörk, í Elliðaárdal eða annað til að upplifa náttúruna, við þurfum rétt að stíga út og þarna bíður hún eftir okkur í öllu sínu veldi. Bíður eftir að við tókum eftir henni, virðum og elskum. Að við kennum litlu börnunum okkar það sama. 

ps. Sturla er að byrja að tala og fyrstu orðin fyrir utan mamma, pabbi og afi eru gisa, úa og ummmi.  Og vísnabókin með dýramyndum og vísum er hans uppáhaldsbók.   


Bréf Davíðs

Vil benda á bloggfærslu þar sem farið er yfir bréfaskriftir Davíðs úr ráðherrastól. Í færslunni er endurbirt 10 ára gömul fréttaskýringargrein úr Degi eftir Friðrik Þór Guðmundsson. Þar er að finna nokkur merkileg bréf sem Davíð sendi í sinni ráherratíð. Ég býst ekki við að Björn hafi fellt sig við þau bréf, enda varla í anda góðar stjórnsýslu. Það kom mér reyndar á óvart að mogginn rauf fréttatengsl við færsluna hans Friðriks. Ákvörðun sem ég skil ekki alveg.  

En það má Davíð eiga að hann á góða vini sem styðja við bakið á honum. Held samt að það væri líka gott ef hann ætti góða vini sem tækju á sig þau óþægindi að gera honum grein fyrir stöðu sinni eins og hún snýr að stærstum hluta þjóðarinnar.

 

Viðbót

Búið er að tengja færsluna aftur við fréttina og er það vel.  Ég heyrði líka að bréf  Davíðs til Sverris þá Landsbankastjóra var lesið upp í fréttatíma RUV áðan.


mbl.is Björn: Réttmæt ábending Davíðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðurinn sem veitti ríkisstjórninni náðarhöggið

Sturla Böðvarsson hefur ákveðið að láta af störfum á Alþingi. Honum hugnaðist ekki að vera ofurliði borinn í kosningu, sérstaklega vegna þess að hann vann störf sín svo vel.  En auðvitað er undirliggjandi það viðhorf að sjálfstæðismenn eigi stól forseta. Hann hefur verið "feitt brauð" handa stjórnmálamönnum sem allir vissu að væru búnir með sitt pólitíska líf.

Kannski stóð Sturla sig vel sem forseti um það má sjálfsagt deila en hann gerði það ekki undir því álagi sem var í þinginu eftir jólafríið. Þá sýndi hann mikla vanhæfni í að lesa í aðstæður.

Vissulega bar Sturla ekki einn ábyrgð á klúðrinu í þinginu daginn sem það hóf störf eftir jólafrí, (frí sem var ansi langt í ljósi ástandsins), en hann bar á því mesta ábyrgð, hann var jú forseti þingsins. Það var þessi fína málaskrá hans sem fyllti mælinn og gerði það að verkum að þúsundir venjulegra borgara streymdu niður á Austurvöll með búsáhöldin, gjörsamlega misboðið. Dómgreindarskorturinn í alþingishúsinu var algjör, vanmáttur ríkisstjórnarinnar og ráðleysi opinberuðust þjóðinni sem aldrei fyrr. Á sinn hátt má segja að Sturla hafi veitt ríkisstjórninni náðarhöggið. Ég er viss um að margir landsmenn telja sig standa í þakkarskuld við hann vegna þess.

Persónulega tel ég að Sturla hefðu átt að hætta afskipti af pólitík, axla ráðherraábyrgð, eftir hvert klúðrið á fætur öðru við rannsókn á flugslysinu í Skerjafirði, aðdraganda þess og eftirmálum. Þar sem sambærileg vandamál og við stöndum frammi fyrir í dag við rannsókn á bankamálinu komu kannski berlegast í ljós. Vanhæfni sem m.a. orsakast af smæð samfélagins, af miklum og sterkum vina- og ættartengslum. 

 

ES. Paranoja sjálfstæðismanna gagnvart Ólafi Ragnari er orðin sambærileg paranoju Jóns Ásgeirs gagnvart Davíð, bæði jafn vandræðalegt að verða vitni að.


mbl.is Sturla og Herdís hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband