Framfaraskref hjá borginni

Á tímum góðæris í samfélaginu ríkti kreppa í leikskólum landsins. Kreppa sem byggði á því að varla fékkst fólk til að vinna þar. Leikskólinn varð miðstöð nútíma farandverkamanna sem komu og fóru eftir hentugleika. Það starfsfólk lleikskóla sem myndaði hryggjarstykkið í starfinu var oft orðið ansi langþreytt þegar að sumri kom, það fólk hefði gjarnan þegið sumarlokun. Hvað þá börnin sem máttu búa við óstöðugleika starfsfólks vetur og sumar. Á tíma góðærisins áttu allir að þjóna viðskiptalífinu. Líka börnin. Í mörg ár hefur félag leikskólakennara hvatt til þess að leikskólum landsins sé lokað hluta sumarsins. Við það myndist tiltekin upphafs og lokapunktur í starfinu, að sumarlokun þjóni leikskólanum og starfsemi hans.

Þegar Reykjarvíkurlistinn tók upp á því á sínum tíma að hafa opið sumarlangt í Reykjavík var ég ein þeirra sem var mjög ósátt, m.a. vegna þess að leikskólarnir fengu engar hækkanir í fjárhagsáætlun til að halda úti sumaropnum. Okkur var sagt fullum fetum að þetta kostaði ekkert. En auðvitað kostaði þetta heilmikið og hafðu verulega áhrif til verri vegar á rekstur margra leikskóla. Nú er lokun leið til sparnaðar.

Mér finnst samt merkilegast að fréttin er alfarið skrifuð út frá þeirri hugmynd að leikskólinn sé fyrst og fremst þjónustufyrirtæki. Meira að segja fyrirsögnin endurspeglar það mat. Hún er skrifuð eins og sumarlokun nú sé neikvæð þróun. Þar er ég aldeilis ósammála. Ég tel þetta vera framfaraskref hjá borginni og vona að sem flest önnur sveitarfélög fari sömu leið.


mbl.is Þurfa að laga sig að sumarlokun leikskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einhverra hluta vegna get ég ómögulega tekið undir þessi orð , leikskólar eru þjónustufyrirtæki við foreldra, þannig er það nú bara, og við hljótum að vilja gera þá kröfu að þegar kemur að sumarfríi að börnin fái að eyða því í faðmi fjölskyldunnar og með foreldrum sínum.  Með þessu fyrirkomulagi, sérstaklega í árferði sem ríkir núna, munu margir lenda í því að þurfa að fá pössun fyrir börnin sín hluta þess tíma sem sumarlokunin er eða jafnvel allan tímann þar sem foreldrar geta ekki fengið sumarleyfi á þeim tíma sem leikskólarnir loka. Hvað græðum við á því?  Auðvitað kostar það að hafa leikskólana opna og ég er þeirrar skoðunar að endurskoða þurfi m.a. gjaldskrá leikskólanna, hvers vegna eiga til dæmis foreldrar sem eiga 2 börn á leikskóla eða fleiri börn að fá 100% afslátt af námsgjaldahlutanum? Það hefur ávallt hljómað í mín eyru skrítin pólitík.  Fólk sem kýs að eiga mörg börn á stuttum tíma hlýtur að gera sér grein fyrir því að það kostar peninga og að greiða þurfi fyrir þá þjónustu sem fólk kaupir fyrir börnin.  Jafnframt er ég þeirrar skoðunar að borgin ætti að sjá sóma sinn í því að dæla auknum fjármunum inn í leik- og grunnskólana, af nægu er að taka þar sem peningum hefur verið hent í alls konar gæluverkefni.   

Elín (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 17:33

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Auðvitað tek ég undir að leikskólinn er að HLUTA þjónustustofnun, en hann er fyrst og fremst skilgreindur sem menntastofnun. Hvort sem er heldur og á hvort hlutverkið sem fólk velur að líta sem fyrsta hlutverk vitum við að þetta eru til þess að gera dýrar stofnanir. (Jafnvel þó að launin séu jafn lúsarleg og þau eru). Það er reyndar orðið nokkuð síðan leikskólar voru almennt lokaðir á sumrin, sennilega ein 12-14 ár.  Þegar sú ákvörðun var tekin byggði hún á kröfum og röddum afar fámenns hóps, mestmegnis atvinnurekenda. Fyrir þá örfáu foreldra sem ekki geta fengið sumarleyfi á sama tíma og börnin hefur stundum verið rætt um að hafa einn skóla í hverfi opinn. Safna þangað öllum börnum og þannig draga úr kostnaði. Mér er alveg sama hver segir hvað, sumaropnun er lúxus sem við höfum ekki efni á og þjónar starfinu ekki. Ef það er val vil ég frekar niðurgreiða fyrir annað barn og bjóða upp á sæmilegan mat í leikskólum landsins.

 Annars hefur verið töluverð umræða um þetta annarstaðar og ég vil fá að klippa svar leikskólakennara inn. Svar sem rímar ágætlega við mína reynslu og kom fram í viðtölum við foreldra sem ég tók fyrir nokkrum árum. Hlið sem snýr að velferð barnanna.

Tímabær athugasemd, takk Kristín og til hamingju Borg. Ég vona að þetta sé það sem koma skal. Ég hef reynslu af því hve erfiður júlímánuður getur verið þeim leikskólabörnum sem þurfa að nýta þann tíma. Afleysingafólk tekur yfir störf fagfólks og vinirnir í burtu. Sum börn eru einmana og líður ekkert of vel í skólanum á þessum tímapunkti. Svo hef ég verið kennari í vinnu í júlí, sem hefur ekkert liðið of vel heldur. Börn sem þekkja mig mismikið og eru þar af leiðandi missátt, þurfa að leiðbeina og hjálpa afleysingafólki, jafnvel sinnta öllum undirbúningi fyrir næsta skólaár svona rétt samhliða og svo væri gott að þrífa leikföng, sótthreins og laga til. Gæti rifjað margt og mikið upp en aftur takk.
Við vitum að það þarf allstaðar að spara og ég tel sumarlokun með skynsamlegri leiðum til sparnaðar í leikskólum borgarinnar. 

Kristín Dýrfjörð, 11.3.2009 kl. 18:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband