Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
30.9.2008 | 15:41
Ömmur og afar merkilegt fólk
Húrra fyrir okkur ömmum og öfum. Eins og þeir sem lesa bloggið mitt vita hef ég bloggað af miklum móð um barnabarnið og rannsóknir hans. Þar sem ég hef sannarlega notið þess að vera amma en í leiðinni horft á og upplifað með augum leikskólakennarans. En ef ég sný mér að fréttinni sem þessi færsla er hengd við vil ég nota tækifærið og benda á að í Ástralíu eru leikskólar ekki jafnalgengir og hérlendis og ekki var bara átt við ömmur og afa heldur aðra merkilega einstaklinga í lífi ungra barna. Í fréttinni segir nefnilega:
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru börn á aldrinum 3 til 19 mánaða fljótari að læra hlutina komi fleiri að umönnun þeirra en foreldrar þeirra en í flestum tilfellum mun þá vera um afa og ömmur þeirra að ræða.
Í Ástralíu er það e.t.v. algengast en hér er þessu að hluta öðruvísi farið. Hér eru börn hjá dagmömmum og í leikskólum. Ég vil í leiðinni minna á eldra blogg um áhrif félagslega stöðu á þroska barna.
Afi og amma mikilvæg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.9.2008 | 23:23
Lifrabuff er málið
Ég las áðan að slátursala hafi farið af stað með trukki í haust. Víða á heimilum á eftir að vera þröngt í búi og fólk þarf að sýna hagsýni í matarinnkaupum. Þar sem ég var leikskólastjóri var einn réttur öðrum vinsælli bæði hjá börnum og starfsfólki, það var lifrabuff með brúnni sósu, rauðkáli og kartöflum/kartöflumús og steiktum lauk og kannski rabbbarasultu. Matráðskonurnar okkar voru snillingar að elda fyrirtaks lifrabuff fyrir yfir 200 manns og það er ekki létt verk. Ég held reyndar að lifrabuff sé enn víða vinsælt í leikskólum. Það var ekki bara að lifrabuffið hafi verið ódýrt heldur er það fyrirtaks járngjafi. Ég held að lifur eða lifrabuff einu sinni í viku sé bara hið besta mál.
Hér er uppskrift af lifrabuffi sem hljómar svipað og sú sem ráðskonurnar á Ásborg gerðu.
Tvær lifur (meðalstórar)3-4 hráar kartöflursmá hveitismá mjólk (ca 3/4 dl)1 tsk pipar 3 tsk salt 4 laukar (getur líka verið fínt að henda eggi með til að binda saman deigið). Hakkið saman í matarvinnsluvél. Mótið í frekar þunn buff (svona eins og hamborgara) og steikið á pönnu við góðan hita. Gott að henda lárviðarlaufi á pönnuna (til að fá gott bragð í sósuna). Gott að klára steikingu í ofninum (á meðan þið eruð að malla sósuna á pönnunni). Þar sem ég veit að fleirum en mér finnst gaman að leika með krydd, bendi ég á að prufa sig áfram með hvítlauk, koriander, engifer og fleira og fleira. bon appetit.Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.9.2008 | 02:25
Sturla
Sturla kom í heimsókn í dag, hann kom með foreldrunum að horfa á fótbolta. Sturla fór nú fljótlega út í vagn og svaf þar af sér megnið af fótboltanum. Ég held reyndar að honum hafi veri slétt sama. Þegar hann kom inn dundaði hann sér með dótið sitt, dósalokin eru enn vinsæl og svo eru nú af tæknilegum ástæðum alla vega húsgögn hér í stofunni, m.a. forláta skápur með hömruðu gleri í hurðum. Það er gaman að opna skápinn og skoða í gegn um glerið, já eða bara opna skápinn. Sturla fékk líka brauð með bláberjasultu og osti. Brauðið fór upp í hann en osturinn á gólfið.
Svo kom afi heim og bjart bros færðist yfir Sturlu. Hann fór beint í fangið á afa (hann fékk varla næði til að heyra úrslitin í boltanum sem voru reyndar miður gleðileg fyrir Tottenham). Sturla benti ákveðið í átt að fatahenginu. Afi fór með hann upp að því og lét hann hafa derhúfu. Það var nú ekki það sem Sturla vildi. Hann benti bara aftur, og það var alveg ljóst á hvað, hann var að benda á bláa útigallann sinn. Svo réttum við honum hann og hann reyndi strax að byrja að troða sér í. Nú var orðið nokkuð ljóst hvað barnið vildi. Hann vildi út. Við ákváðum að það væri líka einmitt það sem við vildum gera með honum. Svo afinn og amman drifu sig í útiföt og lögðu af stað niður að tjörn. Ætluðum að líta eftir nokkrum kisum í leiðinni. Þær eru nefnilega alltaf jafnvinsælar.
Sturla fékk að labba parta úr leiðinni. Afi hafði gefið honum steinbít í roði sem hann nagaði af áfergju. Ég hélt kannski að fnykurinn yrði til þess að allir ketti hverfisins mundu trítla á eftir okkur. Það varð nú ekki raunin, en við sáum alla vega einn. Inn á milli fékk Sturla að hvíla litlu beinin og vera í fangi afa.
Amma tók að sjálfsögðu myndavélina með. Enda finnst henni frekar skemmtilegt að taka myndir af piltunum sínum. Hinsvegar komst amma að því þegar á tjörnina var komið að batteríið væri búið. Þegar við vorum búin að gefa öndum, gæsum og tveimur frekum mávaungum töltu við sem lá leið í 10-11 í Austurstræti. Sturla vildi reyndar fá að komast í tölvuna hjá afgreiðslustúlkunni en var haldið frá, ekki honum til ánægju. Á bakaleiðinni skoðuðum við hinn sívinsæla vegg barnanna. Vegg sem er mikið augnayndi í miðborginni. Við stoppuðum líka smá við Stöðlakot á Bókhlöðustíg og þar fékk Sturla að leika og rannsaka heiminn lítillega.
28.9.2008 | 15:28
Neyðarlegt fyrir öryggisfyrirtæki
Brotist inn hjá Bang&Olufssen | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.9.2008 | 00:22
Hverjum er það að kenna að leikskólakennarar sækjast ekki eftir að starfa í hjallaleikskólum?
Ég er að undirbúa fyrirlestur um ytra mat, hluti af því er að lesa þær skýrslur sem til eru opinberlega um ytra mat á leikskólum. Nýjasta skýrslan er um hjallaleikskólann Ása í Garðabæ. Matsaðilar virðast um margt nokkuð ánægðir með starfsemina en þeir gera líka fjölda athugasemda. Það sem stóð nú kannski einna mest í mér við fyrsta lestur er umfjöllun um "skort" á leikskólakennurum í hjallaskólum og mögulegar ástæður þess. Reyndar hefði ég kosið að betur væri gert grein fyrir ýmsum þáttum í skýrslunni, eins og samsetningu starfmannahópsins, útreikninga á barngildum og fleira.
Í skýrslunni segir:
Leikskólastjóri og framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar segja lágt hlutfall leikskólakennara m.a. skýrast af því að þeir sæki frekar í að vinna með eldri börnum. Allir fimm ára kennarar Ása fylgdu börnunum í eldribarna starfið þegar það hófst haustið 2003 og þar eru alltaf allir hópstjórar fagmenntaðir, auk þess sem aðstæður á vinnumarkaði hafi verið skólunum í óhag. Þá hafi það eflaust áhrif að Kennaraháskóli Íslands sendi sjaldan nema til Hjallastefnunnar. Undir þetta tóku leikskólakennarar sem rætt var við en ein þeirra hafði í námi sínu þrívegis sótt um að komast í starfsþjálfun til Hjallastefnunnar en verið synjað. Að sögn framkvæmdastjóra vill Hjallastefnan hafa fjölbreytni í starfsmannahópnum.
Hins vegar kemur annarstaðar fram í skýrslunni að faglærðu fólki (í skýrslunni er ekki gerður greinarmunur á hvort að viðkomandi er leikskólakennari eða hefur annarskonar fagmenntun á háskólastigi) hefur fækkað úr því að vera rúmlega 50% starfsmanna í að vera 35% á milli áranna 2006 og 2007 (landsmeðaltal sama hóps er um 40%). Hér verður Kennaraháskólanum vart kennt um. Mér finnst líka vera umhugsunarvert að skýrsluhöfundar velja að taka orð eins leikskólakennarans sem sagðist hafa þrívegis sótt um að komast á hjallaskóla en ekki fengið. Ég veit að á höfuðborgarsvæðinu er fjölmargir leikskólar sem sjaldan eða aldrei fá leikskólakennaranema. KHÍ, setti það sem skilyrði fyrir mögum árum að æfingarkennarar þeirra hefðu lokið ákveðnum námskeiðum sem þeir bjóða upp á, nú veit ég ekki hvað margir hjallakennarar hafa lokið því námskeiði eða hvort reglan er enn í gildi eftir að nýtt fyrirkomulag í vettvangsnámi var tekið upp. Leikskólar á höfuðborgarsvæðinu er líka um 150 en það er mun fleiri en þeir nemar sem eru í vettvangsnámi á hverjum tíma á þessu svæði. Vegna þessa dreifast nemar mjög misjafnlega. Það er auðvitað algjör óþarfi af mér að vera að svara fyrir KHÍ (nýja menntavísindasvið HÍ) þau eru fullfær um það. Svo má vera titlatog í mér en nám á vettvangi er ekki eiginleg starfsþjálfun, heldur er það m.a. hugsað til að nemar kynnist og fái tækifæri til að tengja saman ýmsar kenningar sem þeir hafa verið að fara og hagnýtingu þeirra á vettvangi.
Kannski að höfundar skýrslunnar hitti sjálfir naglann á höfuðið um ástæðu þess að fáa leikskólakennara sé að finna á Ásum. En í skýrslunni segir:
Starfslýsingar Hjallastefnunnar eru að mati skýrsluhöfunda nokkuð óvenjulegar að því leyti að þar er ekki verið að lýsa ábyrgð og verksviði hvers starfs á leikskólanum heldur er um að ræða mjög ítarlegar leiðbeiningar og vinnuferli um hugmyndafræði og allt starf á leikskólum Hjallastefnunnar. Starfslýsingarnar virka því bæði sem stefnumótun og ítarleg starfsmannahandbók. ... Höfundar spyrja sig þó hvort svo ítarlegar lýsingar og ferli geti haft áhrif á hvers konar starfsfólk ræðst til skólans.
Er það mat skýrsluhöfunda að stefnumótun leikskólans sé stýrt miðlægt frá Hjallastefnunni og starfsmenn komi þar ekki nægjanlega að faglegri umræðu og þróun. Námskrá Hjallastefnunnar er að mati höfunda fremur uppeldiskenning og lýsingar á starfinu en skólanámskrá. Þar að auki eru tengsl námskrá Hjallastefnunnar við aðalnámskrá leikskóla ekki nægjanlega rökstudd.
Getur verið að þarna sé e.t.v. að finna hluta af ástæðunni, að faglegt frelsi sem leikskólakennarar hafa flestir talið mikilvægt sé ekki eins mikið innan hjallastefnunnar og annarstaðar.
Mér finnst ákveðið ábyrgðarleysi hjá skýrsluhöfundum að taka undir ásakanir Hjallastefnunnar á hendi KHÍ, hefði talið að þetta væri atriði sem þeir hefðu sjálfir getað aflað sér upplýsinga um réttmæti hjá yfirmanni leikskólakennaranámsins í KHÍ. En í skýrslunni segja höfundar:
Leikskólar hafa á undanförnum misserum átt í miklum erfiðleikum með að manna störf vegna þenslu á vinnumarkaði. Ásar eru þar engin undantekning. Í viðtölum kom fram, að það að Kennaraháskóli Íslands sendi fáa nema til Hjallastefnuskóla, geti haft þar áhrif. Undir þetta taka skýrsluhöfundar en reynsla þeirra segir að oft ræðst starfsfólk á staði sem það hefur kynnst í námi sínu. Því er beint til ráðuneytis menntamála að skoða ástæður þessa.
Ég saknaði þess líka í skýrslunni að þar heyrast ekki raddir barnanna. Þeirra rödd er ekki hluti af mati á starfinu. Það hefði mátt gera á ýmsan hátt með hópviðtölum og með því að gera vettvangslýsingar, biðja þau um að teikna tiltekna þætti eða leika og svo framvegis. Þátttaka barnanna í mati er í anda Aðalnámskrá leikskóla og í samræmi við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem gert er ráð fyrir þátttöku barna bæði í námskrárgerð og mati.
Að lokum velti ég fyrir mér hvernig geti staðið á því að ráðuneyti menntamál ákveði að ráðstafa þeim litlu fjármunum sem árlega eru ætlaðir til mats á leikskólastarfi til að gera úttekt á leikskólum sömu stefnunnar. En mér er kunnugt um að á næstunni er væntanleg skýrsla um mat á leikskólanum Hjalla í Hafnarfirði og síðasta skýrsla á undan skýrslunni um Ása sem unnin var fyrir ráðuneytið fjallaði einmitt um hjallaleikskólann Ós. Ég hlýt að velta fyrir mér hvort að ráðuneytið sé sérstaklega áhyggjufullt um þessa stefnu.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
26.9.2008 | 10:05
Allur góður arkitektúr lekur
Ég rakst á afar áhugaverða grein eftir Ævar Harðarson arkitekt um byggingaskaða. Greinin fjallar um hluta af doktorsrannsókn hans við háskólann í Þrándheimi. Það sem vakti sérstakan áhuga hjá mér var aðferðafræðin, en hjá öðrum vekja niðurstöður og umfjöllunarefni sjálfsagt meiri áhuga.
Greinin ber hið skemmtilega nafn; Allur góður arkitektúr lekur, önnur skemmtileg tilvitnun er sótt til eins merkasta arkitekts Bandaríkjanna Frank Loyd Wright." Ef þakið lekur ekki hefur arkitektinn ekki verið nægjanlega skapandi". Frank Loyd Wright hefur ávallt verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér vegna tengsla hans við leikskólahreyfinguna í Bandaríkjunum fyrir aldamótin nítjánhundruð. En 1876 fór mamma hans á ráðstefnu þar sem m.a. var verið að kynna uppeldisfræði Fröbels. Hún keypti handa Frank litla fröbelkubba. Hann notaði þá alla ævi til að leysa og hugsa um vandamál sem snéru að t.d. jafnvægi. Í Frank Loyd Wright safninu í Chicago er hægt að sjá kubbasettið hans.
En greinina eftir Ævar er hér að finna.
Skortur á gæðastjórnun í mannvirkjagerð veldur mistökum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.9.2008 | 02:12
Afmælisbarnið okkar hann Sturla
Já nú er Sturlubarnið orðið eins árs. Samt er eins og hann hafi verið hjá okkur, alltaf. Hann er það dásamlegasta í lífi okkar. Mikill persónuleiki og allgjör gullmoli. Síðastliðið ár hef ég fylgt þroskasögu hans á netinu. Skrifað um þau þroskaspor sem hann hefur tekið. Nú er hann byrjaður í leikskóla og og á spennandi mót við tækifæri hvers dags. Hann er uppgövta heiminn á annan hátt en áður, gera sér enn betur grein fyrir eigin valdi og áhrifum. Hann er að kynnast jafnöldum og læra að deila lífi sínu með þeim. Hann er að nálgast þann aldur sem uppáhaldsorðið er NEI: Ég og afi óskum honum til hamingju með afmælið, við hlökkum til að hitta hann í kvöld, við hlökkum til að fylgjast með og kynnast honum betur.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 02:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.9.2008 | 23:32
2 tonn af sandi féll á eldhúsgólfið í dag
Gólfin í húsinu okkar hafa verið svolítið mishæðótt. Við mælum hallan í hvað fara margir tíkallar undir skápafætur til að stilla þá af. held að metið sé 6 tíkallar. Nú er sem sagt verið að laga þetta í hluta íbúðarinnar. Meðal þess sem gert var í dag var að taka milliborðin úr loftinu (til að styrkja bitana) og niður komu nokkur tonn af sandi. Enginn á átti von á öllum þessum sandi sem hefur svo smogið allstaðar. Af þessum tæpu 30 fermetrum sem eldhúsið er komu minnst 2 tonn af sandi. Húsið var byggt 1902-1903 og sandurinn var var allur borin með handafli. Hann þjónaði þeim tilgangi að vera hljóðeinangrun. Hann hefur líka þjónað því hlutverki ágætlega en nú ætlum við að taka upp léttari efni, steinullina og gifsa allt á eftir. Mér varð hugsað til verkamannanna sem unnu verkið á sínum tíma, til hestanna. Það verður eiginlega að segjast eins og er að í núverandi ástandi lítur eldhúsið út skelfilega út.
23.9.2008 | 23:38
Hrekur Bónus litlu búðina úr hverfinu?
Í kvöld skrapp ég í búðina, til kaupmannsins á horninu. Það var ólga í loftinu, ég skynjaði hana um leið og ég kom inn. Það var nokkuð mannmargt í búðinni, fólk úr hverfinu mínu. Sumum var mikið niður fyrir. Það hefur nefnilega frést að Bónus sé að flytja í næstu götu, í hús Iðnaðarmannafélagsins á Hallveigarstíg. Í búðinni frétti ég að Jói í Bónus hafi sést taka út húsnæðið, arkitekt Bónus hafi verið þar á ferð og að Bónus sé búið að segja upp húsnæðinu í Kjörgarði. "Og hvað eigum við að gera? Geta íbúðarsamtökin ekki beitt sér? Hvað með aukna umferð og bílastæðavandræði?" Um þetta var rætt, já, fólkinu úr hverfinu var mikið niður fyrir.
Kaupmaðurinn á horninu hefur þjónað okkur dyggilega í öll þessi ár. Þar er opið frá 10-10/362, fólk er í reikning og það rabbar saman í búðinni, það rabbar við afgreiðslufólkið. Búðin okkar er litla félagsmiðstöðin í hverfinu. En getur hún lifað með Bónus í 2 mínútna fjarlægð? Ég vona það, ég mun halda áfram að versla þar og það munu margir aðrir gera. Við þurfum litlar búðir í hverfið okkar, búðir eins og kaupmanninn á horninu sem gefa lífinu í borginni lit, skapar fjölbreytileika í mannlífið. Ég fer stundum í Bónus, kaupi oft magnvörur þar, en megnið kaupum við hjá kaupmanninum á horninu. Ég vona að okkur gefist áfram tækifæri til þess. Einn viðskiptavinurinn sagði eitthvað á þá leið að það væri næstum eins gott fyrir kaupmennina að hætta strax eins og að láta murka hægt úr sér lífið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.9.2008 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.9.2008 | 02:19
Fimmeyringur og bílakassafjalir
Fyrsti dagur stórframkvæmdanna er liðinn. Nú er búð að fjarlægja gömlu eldhúsinnréttinguna, rífa vegginn á milli eldhús og sjónvarpsherbergis. Panellinn sem settur var fyrir tæpum 30 árum er horfinn. Smiðirnir horfðu á í undran þegar þeir uppgötvuðu að húsið er ekki einangrað og held ég enn meira þegar ég sagði þeim að það hefur aldrei verið kalt. Þeir fundu kassafjöl inn í einum veggnum, merkt Reykjavík, þetta var fjöl af flutningskassa, kannski hefur það verið Eimskip sem flutti inn. Varð til þess að ég átti í nokkrum samræðum við smiðina sem eru frá hinum ýmsu fyrrum austantjaldsríkjum um vöruskiptasamninga. ræddi meira að segja aðeins um gamla hverfið mitt Blesugrófina, þar voru flest hús byggð úr svona fjölum upp úr stríðinu. Við fundum ýmsa peninga en merkilegastur er sennilega fimmeyringur frá 1946. Geymi hann og set kannski inn í vegg aftur.
Við erum búin að ákveða að láta taka stigann sem er upp á næstu hæð, hann er jafngamall húsinu og ég er pínu með í maganum yfir að láta hann fara í Sorpu. En hvað gerir maður annars við 105 ára tréstiga? Við notum hann núna aðallega sem bókahillur og skógeymslu. En það á eftir að birta mjög í anddyrinu og létta á því þegar stiginn er farinn. Þangað til búum við eins og í góða hirðinum, allt ofan í öllu. Annars koma svona gamlir gripir oft að góðum notum pabbi og mamma eiga yfir 50 ára tveggjahellu eldavél með ofni. Vélin er síðan þau bjuggu í gjáhúsunum í Hafnarfirði einhvertíma um miðja síðustu öld. Við erum að hugsa um að fá hana lánaða. Ómögulegt að gerast of miklir styrktaraðilar skyndibitastaðanna.
Á morgun hendi ég inn myndum af herligheitunum.