Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
30.6.2008 | 19:13
Lögverndun starfsheitis leikskólakennara
Ég hef undafarna daga verið að velt fyrir mér ýmsum áhrifum nýrra laga um lögverndun starfsheitisins leikskólakennari. Meðal þess sem kemur fram í lögunum er að gert er ráð fyrir að allar lausar stöður leikskólakennara séu auglýstar reglulega. Hingað til hefur starfsheiti leikskólakennara og áður fóstra ekki verið lögverndað. Verndin lá í lögum um leikskóla þar sem kveðið var á um að allir sem störfuðu með börnum í leikskólum ættu að vera leikskólakennarar. Þar var ekki sérstaklega gert ráð fyrir öðrum starfsstéttum og því þurftu ekki að vera til starfslýsingar fyrir aðra en leikskólakennara. Allir sem unnu með börnum á deildum unnu sjálfkrafa samkvæmt starfslýsingum leikskólakennara. Samkvæmt nýju lögunum er gert ráð fyrir að 2/3 þeirra sem starfi með börnum séu leikskólakennarar en þar er íka gert ráð fyrir að í þriðjungi staða sé ekki nauðsynlegt að hafa leikskólakennaramenntun. Með þeirri ákvörðun er verið að koma til móts við ríkjandi ástand og gera þeim sem hafa verið í þessum störfum kleift að semja um aukin réttindi.
Nú má velta fyrir sér hverjir verði í þeim stöðum sem eru ekki sérstaklega eyrnamerktar leikskólakennurum. Verða það "leikskólaliðar" og fá þá þeir þá sérstaka starfslýsingu? eins og framkoma hér að framan hefur hingað til allt starfsfólk leikskóla unnið samkvæmt starfslýsingu leikskólakennara, það er ljóst að það á eftir að breytast. Ljóst er að það verður að vinna að gerð alla vega tvennskonar starfslýsinga, þ.e. leikskólakennara og ófaglærðra.
Annað sem ég velti fyrir mér er ef að ekki fást leikskólakennarar í allar þær stöður sem þeim eru ætlaðar (2/3 hluta), vinna þeir sem eru í sannarlegum stöðum leikskólakennara samkvæmt verklýsingu leikskólakennara eða aðstoðarfólks? Og ef þeir vinna samkvæmt starfslýsingum leikskólakennara, eiga þeir þá að vera á öðrum launum en aðrir ófaglærðir og eiga t.d. rétt á að vera í sama stéttarfélagi og leikskólakennarar? Hvernig er það t.d. með leiðbeinendur í grunnskólum eru þeir í stéttarfélagi grunnskólakennara eða í verkalýsðfélögum í sínu bæjarfélagi? Og hvernig er það með annað aðstoðarfólki í grunnskólanum eins og stuðningsfulltrúa? eru þeir í KÍ eða viðkomandi BSRB verkalýsðfélagi eða ASÍ verkalýðsfélagi? Ég reikna með að alla vega stéttarfélag leikskólakennara hafi verið farið að huga að þessu nýja landslagi fyrir löngu og farið að ræða við sína félagsmenn þó svo að ég hafi ekki frétt það (enda ekki í KÍ).
Hvort er betra fyrir starfsmann sem hefur lengi unnið sem leiðbeinandi að vera í stöðu sem á að auglýsa reglulega eða vera í "aðstoðarstöðunni"? hvorum megin eru a) betri laun b) meira starfsöryggi?
Ég er með þessum pistli að hugsa upphátt, en þetta er sjálfsagt veruleiki sem er til umræðu í mörgum leikskólum í dag. Og eins og ég sagði hér að ofan kannski eru öll svörin þegar fyrir hendi.
30.6.2008 | 17:27
Keilir og leikskólaliðanámið þar
Ég las nýlega frétt um að Keilir ætlaði í haust að hefja nám fyrir leikskólaliða, um væri að ræða starfsréttindanám sem veitti viðkomandi seinna möguleika til að bæta við sig hjá þeim og verða aðstoðarleikskólakennari. Jafnframt er stefnt á að bjóða upp á nám til leikskólakennara. Ég fagna því auðvitað að sem flestum gefist færi til að mennta sig og leikskólanum veitir sannarlega ekki af fleira menntuðu fólki. Hinsvegar velt ég fyrir mér hvað sé í raun verið að bjóða upp á. Hvort að þarna sé verið að byggja upp falsvonir. Að fólk fái réttindi sem ég get ekki séð að þeim séu tryggð.
Inntökuskilyrðin hjá Keili eru 70 einingar á framhaldsskólastig og er námið á framhaldsskólastigi. Í nýsamþykktum lögum um leikskóla og menntun starfsfólk þar er ekki kveðið á um starfsréttindi fyrir leikskólaliða né heldur aðstoðarleikskólakennara, í greininni um starflið leikskóla stendur
Heimilt er að starfsfólk án leikskólakennaramenntunar taki þátt í að annast uppeldi og menntun barna, enda fáist ekki leikskólakennari til starfsins. Kveða má á um leiðbeiningar- og stjórnunarhlutverk leikskólakennara gagnvart öðru starfsfólki leikskóla í reglugerð.
því tel ég hæpið að auglýsa námið sem starfsréttindanám, þegar augljóst er að það er það ekki. Sama á við um aðstoðarleikskólakennaraheitið. Það á sér hvergi stoð í samningum eða lögum. Mér þætti meira traustvekjandi að Keilir hugaði að svona smáatriðum áður en haldi er af stað. Hinsvegar fann ég á vefnum að fólk sem hefur lokið svonefndri leikskólabrú nefnist í kjarasamningi leikskólaliðar (inntökuskilyrði á hana voru 3ja ára starfsreynsla og 230 stundir af fagnámskeiðum, námið sjálft er 31 framhaldskólaeining). Þetta nám er að ég best veit skipulagt í samráði við stéttarfélögin.
30.6.2008 | 10:45
Mark - veiiii - leikur barna á Spáni í morgun
Ég fékk í morgun tölvupóst frá vinkonu minni í Barcelona, þar ríkir mikil kæti. Hún horfði á leikinn á veitingarstað þar sem allir óskuðu öllum til hamingju að leikslokum, fólk faðmaðist og kysstist. Í morgun heyrði hún í börnunum í leikskólanum sem er rétt hjá þar sem hún býr, þau skora mörk og svo fagna allir hinir. Margir Torresar af báðum kynjum og margir fylgjendur á ferli á skólalóðum Spánar þessa daga.
Guðrún Alda skrifaði
Fólk klifraði upp á ljósastaura og flaggaði, klifraði upp á búðarglugga - hljóp um götur og það lá við að við yrðum umföðmuð á Römblunni - þetta var ótrúlegt. Það sást glöggt hverjir voru túrista - þeir stóðu eins og þvörur og horfðu spurnaraugum í kringum sig - við fögnuðum og urðum þá skyndilega ekki túristaleg;)
Ég sé enn fyrir mér þá sýn þegar karlmaður um sjötugt kom hlaupandi eftir stórri umferðargötu (engir bílar þar á ferð) leiðandi barn í kringum 5-6 ára (trúlega barnabarnið) með sólskinsbros á vör baðandi út þeim handlegg sem hann leiddi ekki barnið og söng "Viva la Espana!" barnið hljóp brosandi með og fannst voða gaman að hlaupa úti í nótinni með afa;)
Sjálf fór ég heim frá Ítalíu sama dag og þeir urðu heimsmeistarar og núna var ég á flugvellinum í Mílanó þegar þeir töpuðu gegn Hollendingum, en dagana fyrir úrslitaleikinn í heimsmeistarakeppninni hafði verið að magnast upp ótrúleg spenna og breiðtjöld voru komin á hvert torg. Þeir í hópnum sem voru á Ítalíu daginn sem þeir unnu segja það ógleymanlega reynslu.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 10:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2008 | 02:09
þrefallt afmæli - húrra húrra húrra
Ég var að koma úr þreföldu afmæli systkina minna og mágkonu og er nú runninn upp minn eigin afmælisdagur. Afmælið hjá hinum var flott, góður matur, skemmtilegt fólk og góð skemmtiatriði. Þau voru nú aðallega í formi söngs og hljóðfæraleiks annarra fjölskyldumeðlima. Lilló og Barbara brilleruðu náttúrulega, bæði með frumsömdu og gömlu og góðu. Lilló spilaði á sinn gítar en Barbara mætti með fiðluna hans Baldurs, hún meðhöndlaði hana annars eins og selló, kallaði hana litla sellóið. Svo stigu á svið Daníel Tjörvason og vinur hans Jón Ásgeir. Þeir voru búnir að æfa mikla söngdagskrá og slógu í gegn drengirnir, eiga örugglega mikla framtíð fyrir sér í þeim bísness ef þeir kjósa. Hafa nokkurn tíma til að skoða hug sinn eru að ljúka 7 bekk. Logi bróðir sjá um veislustjórn og hann hélt utan um músíkina. Hann er heyrnarlaus á öðru og við systkinin höfum veitt því eftirtek að hann á aldeilis til að hækka styrkinn í græjunum þegar líða fer á kvöld og bjórglösum fjölgar. Annars er hann pínu proffi í þessu, var það sem kallast DJ á sínum sokkabandsárum. Spilaði m.a. á Borginni og H100 (ef einhver veit hvað það var).
Setti inn slatta af myndum í séralbúm hér til hliðar en læt líka nokkrar fylgja með hér. Svona til að spilla ekki deginum fyrir hinum (með því að gera hann að mínum hehehh) fór ég heim þegar klukkuna vantaði tvær í miðnætti. Þá var veislan í fullu fjöri og gítarar og söngbækur höfðu verið dregnar fram.
Þegar þetta er ritað held ég og ef ég þekki systkini mín rétt (öllsömul fimm) þá eru þau öll um það bil að verða hás af söng. Ef þau líta til mín í afmæliskaffi á morgun verða þau kjaftstopp af hæsi.
ps. Og svo verð ég að óska okkur öllum til hamingju með þau sjálfsögðu mannréttindi samkynhneigðra að geta gengið að eiga sína heittelskuðu þar sem þeir/þær kjósa.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.6.2008 | 14:08
Viðbótarnám fyrir leikskólakennara
Sérhæft nám til B.Ed. gráðu á leik- og grunnskólabraut kennaradeildar
Námið mun fara fram í námskeiðum sem þegar eru kennd í grunnnámi á leik- eða grunnskólabraut og hefst haustið 2008 í reglubundnu staðar- eða fjarnámi, ef hægt er að semja við viðkomandi fjarnámsstaði. Gerð er krafa um 10 ára starfsreynslu, þar af 3 ár á síðustu 5 árum. Skilgreind lengd námsbrautar er eitt skólaár eða lengra og er námið hugsað sem hlutanám. Inntökuskilyrði er nám frá Fóstruskóla Íslands eða Kennaraskóla Íslands (KÍ). Námið veitir aðgang að meistaranámi (M.Ed.) í menntunarfræðum.
Skyldugreinar eru eftirfarandi (12 ein.):
Nám samkvæmt fyrirliggjandi námskrá - nemar fylgja námskeiðum grunnnáms.
ÍSL0155 - Íslenska - Hagnýt íslenska
AÐF0252 - Aðferðir - Eigindleg aðferðafræði
LOK0155/KJR0155 - Lokaverkefni - Ritgerð til B.Ed. prófs.
Nemendur hafa síðan þriggja eininga val, leikskólakennarar úr leikskólakjarna og grunnskólakennarar úr grunnskólakjarna. Nánari upplýsingar um námskeið og innihald þeirra er að finna í náms- og kennsluskrá skólans hér.
Leikskólakjarni:
LSK0155 Hugmyndafræði, leikur og vinátta
NSL0152 Námsskrá leikskólans
NSS0155 Námssálfræði og sérþarfir
LSK0553 Upphaf leikskólagöngu og foreldrasamstarf
LSK0652 Menning og fjölbreytileiki
DST0153 Deildarstjórnun í leikskóla
LIM0153 Myndlist og listauppeldi
LSK0352 Bernskulæsi og barnabókmenntir
NMS0155 Menntasýn og mat á skólastarfi
Hægt er að velja námskeiðin á þeim tíma sem þau eru kennd nemendum í grunnnáminu.
Grunnskólakjarni
EVI0152 Náttúrufræði fyrir grunnskólakennara I
STÆ0153 Stærðfræði fyrir grunnskólakennara I
GSK0154 Grunnskólafræði - Inngangur og námsskrá
ÍSL0255 Íslenska: Kennsla bókmennta og málfræði
GSK0253 Grunnskólafræði - Kennsluaðferðir
GRK0154 Grenndarkennsla
GSK0352 Grunnskólafræði - Námsefni
GSK0453 Grunnskólafræði - Skólaþróun og hagnýtir þættir
HSM0153 Heimspeki menntunar
Hægt er að velja námskeiðin á þeim tíma sem þau eru kennd nemendum í grunnnáminu.
Umsóknareyðublöð er að finna hér.
24.6.2008 | 18:35
Allra bestasti staður í heimi
"Þetta er allra bestasti staður í heimi" sagði drengurinn sem ég hitti í efnisveitunni í Hafnarfirði í dag. Hann var þar með öðrum krökkum úr heilsdagsskólanum í Fossvogsskóla. Þau þurftu að taka þrjá strætisvagna til að koma, en létu það ekki stoppa sig. Mættu klukkan 11 í morgun og voru til 14. Sköpuðu og léku sér af list. "Eigum við eftir að koma aftur" heyrði ég annað barn spyrja. "Má ég taka vélmennið mitt með" spurði ein lítil trítla sem var búin að missa framtennurnar. Vélmennið var aftur vel tennt.
Efnisveitan hefur iðað af lífi síðustu vikurnar og vonandi á hún eftir að iða lengi enn.
23.6.2008 | 14:43
Valdgreining Sturlubarnsins
Eitt af því sem er talið aðalsmerki góðra ritgerða er að þær séu bæði greinandi og frumlegar. Eftir að hafa fylgst með litla Sturlubarninu okkar undafarna mánuði sé ég hvað greinandi hugsun kemur snemma fram hjá börnum. Þau skoða, vega og meta kosti ólíklegustu þátta í umhverfinu. Þau greina til að mynda snemma hvar valdið liggur og þau læra líka snemma að bera sig eftir því. Þau gera hvað þau geta til að hafa áhrif á og stjórna umhverfi sínu.
Sem dæmi þá finnst Sturlubarninu gaman að dansa og hreyfa sig í takt við tónlist. Í stofunni okkar eru græjur og um daginn ákváðu amma og afi að hlusta á geisladiska með Sturlubarninu. Hann varð auðvitað ósköp ánægður, stóð upp við græjurnar og iðaði allur. En hann reyndi líka sitt besta til að koma við þetta undratæki sem hljóðin bárust úr. Í eitt skiptið tókst honum óvart að ýta á takkann sem opnar geisladiskaspilarann. Um leið og við lokuðum horfði hann á okkur en ýtti svo aftur og aftur og aftur á hann. Sama á við um sjónvarpið heima hjá honum, hann skríður að borðinu, reisir sig, og reynir að ýta á takkann, enn hefur honum ekki tekist að slökkva eða kveikja en hann veit að það er þarna sem það gerist. Þetta er takkinn.
Fjarstýringar og símar vekja með Sturlubarninu sérstaka ánægju og hann gerir sitt besta til að ná í þessi áhrifamiklu tæki. Þegar það svo tekst eru fáir kátari enn hann. Ef pabbi hans setur t.d. fjarstýringu upp í glugga horfir Sturlubarnið á og hann veit að hann nær ekki í hana og heldur áfram að dunda við sitt. En um leið og hann er kominn upp í sófa (sem er undir gluggakistunni) er hann snöggur og ber sig eftir fjarstýringunni, reisir sig upp við sófabakið, nær með fingurgómunum í gluggakistuna og vegur sig upp, svo þreifa litlir puttar í átt að þessu undra og valdatæki, fjarstýringunni. Það er nefnilega svo að Sturlubarnið er alveg fær um að leggja á minnið það sem skiptir hann máli. Ef sími er skilinn eftir á stað sem Sturlubarnið nær til er hann snöggur að koma sér af stað. Reyndar má sama segja um bolta og gítar (og af öllu hefur hann gríðarmikinn áhuga á derhúfum, hummm). En bæði gítar og boltar eru hlutir sem hann getur haft áhrif á. Hann gerir og það gerist eitthvað. Hann er að uppgötva eigin áhrif á orsök og afleiðingu.
Á flestum heimilum eru tækin sem ég hef verið að fjalla um ákveðin valdatæki. Ekki í skilninginum að völd séu endilega af hinu illa heldur að völd byggist á því að hafa afgerandi áhrif á tiltekna þætti. Sturlubarnið hefur veitt því athygli að fullorðna fólkið er mjög áhugasamt um þau tæki sem hann hefur svona mikinn áhuga á. Hvað gerum við ef sími hringir, við veitum honum öll athygli, hlaupum af stað. Við flökkum á milli stöðva með fjarstýringunni. Allt þetta er Sturlubarnið búið að greina. En fyrsta greining hans á valdinu er auðvitað miklu eldri, hún hófst strax við fæðingu. Á þeirri þekkingu sem hann öðlaðist þar byggir hann rannsóknir sínar nú.
Sturlubarnið er nokkuð dæmigert barn. Á hverjum degi eiga sér stað álíka rannsóknir barna um veröld alla á umhverfi sínu. Þar sem börn greina aðstæður, draga ályktanir og framkvæma. Það eru forréttindi að vera amma og fá tækifæri til að fylgjast með rannsóknum Sturlubarnsins á veröldinni. Meðal annars vegna þess að það eru öðruvísi gleraugu sem sem maður getur sett upp sem amma, já eða afi.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.6.2008 | 00:59
Origami, grill og skírn í góðu veðri
Í dag fékk ég tölvupóst frá vinkonu sem spurði sí svona hvort ég væri veik? Ég hef ekki séð þig á blogginu óralengi. Reyndar skal játast að ég er búin að vera með hálsbólgu, hita og ljótan hósta en aðalástæða fjarveru minnar frá tölvunni og blogginu eru annarvegar að tölvan mín er í viðgerð, móðurborðið fékk hægt andlát á Ítalíu og staðgengilinn er svo gamall jálkur að það passar t.d. að ræsa hana á morgnana, fara svo á klóið, tannbursta sig og setja vatnið yfir, þegar því er lokið er kominn tími til að fara inn í tölvuna, meðan ég helli svo upp á kaffið rennur fyrsta heimasíðan upp. Þolinmæði mín við þessar aðstæður er verð ég að viðurkenna afar takmörkuð. Hin ástæðan er auðvitað veðrið og garðurinn hér fyrir utan.
Fólkið í húsinu okkar kann vel að meta að vera úti og við kunnum ágætlega við hvort annað af öllum hæðum. Í dag sátum við úti og brutum saman trönur í tugavís og hengdum í trén okkar. Nú sveima þær yfir okkur og vekja með okkur fallegar hugsanir í hvert sinn sem við berjum þær augum. Snorri á efstu var kennari okkar hinna, fyrst til að ná árangri var auðvitað fimm ára heimasætan á annarri hæð hún Áróra sem bauðst svo til að sýna mér eða bara brjóta fyrir mig. Okkur kom saman um að ég yrði að gera sjálf því annars lærði ég þetta aldrei. Að lokum tókst það og eftir það komu þær nokkrar sem fljúga nú frjálsar í reynitrénu.
Fyrstu trönurnar gerðum við allar úr tilskyldum origami pappír en smám saman fóru að fæðast trönur úr ýmsum ruslpóst sem hefur borist hér inn í hús og var ekki enn kominn í bláu tunnuna okkar. Ágætis aðferð við endurnýtingu og sjálfbæra þróun.
Já og svo erum við líka búin að kaupa okkur nýtt grill hér í húsið og mikið grillæði hefur gripið okkur. Ein og ein steik hefur dottið á grillið en líka og kannski aðallega mikið magn af grænmeti. Svo hef ég bakað eitt og eitt brauð þar.
Í gær átti svo stóra systir mín hún Elsa Þorfinna afmæli, í tilefni dagsins var nýjasta frænkan mín skírð í garðinum hjá Elsu og Inga. Litla daman er dóttur-dóttir Elsu og Inga, hún fékk nafnið Hjálmdís Elsa í höfuðið á báðum ömmum og kannski pínu mömmu sinni henni Bergdísi. Hjálmdís Elsa var auðvitað besta barnið í veislunni og undurfalleg í hvíta skírnarkjólnum sem Elsa amma prjónaði og öll hennar barnabörn hafa verið skírð í.
Jæja og um næstu helgi eigum við hinar systurnar afmæli, Gerður ætlar að halda upp á sitt afmæli án mín. Sagðist fyrst hafa verið að hugsa um að fá minn afmælisdag lánaðan en svo hafi Björk og Sigurrós skemmt það fyrir henni með tónleikahaldi. Í staðinn ætlar hún að fá daginn hjá móðurbróður vorum. Þó svo að ég verði ekki með henni í þetta sinn ætlar hún að leyfa Tjörva bróður og Nínu að fljóta með. Þau halda upp á fertugsafmælin og Gerður það fertugasta og fimmta. þau ætla að halda stóra garðveislu og nema hvar?, í æskugarðinum í Skeifu hjá mömmu og pabba.
Þar til næst kæru vinir, bið ég að heilsa.
Ps. Ég er búin að fá afmælisgjöf frá bóndanum að eigin ósk er það rauður HÅG Capisco skrifstofustóll, honum er sérstaklega ætlað að venja mig af því að sitja í semi jógastellingu við tölvuna, getur verið að það sé gott fyrir bakið en er helst til mikið álag á hnén og æðar í kálfum. Er eins og krakkarnir segja ógeðslega ánægð með stólinn minn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.6.2008 | 12:05
Þar sem gleðin býr
Það gott að vera þar sem gleðin býr, þar sem gerast sögur og ævintýr, svona er veröldin okkar sem laðar og lokkar, svo ljúf og hýr.
Gleðilega þjóðhátíð
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.6.2008 | 21:42
Systa afmælisbarn og fyrsta gisting Sturlubarnsins
Á föstudag fékk ég það ánægjulega hlutverk að elda súpu ofan í stóra veislu, átti að elda fyrir 90 og það gerði ég í stærsta risasúpupotti stórfjölskyldunnar. Súpan var fyrir fimmtugsafmæli góðrar vinkonu minnar hennar Systu. Systa hafði annars séð um aðföng sjálf, búin að vera eins og útspýtt hundskinn að sanka að sér matvælum og dýrindis veigum. Á sjálfan veisludaginn fékk hún salinn klukkan fjögur (sem var svo heppilega í næsta nágrenni við mig) og þar mættum við tvær með henni til að skera ávexti og grænmeti, setja allskyns pylsur, skinkur og osta á bakka. Fyrir utan brauðin sem hefðu getað fætt heila sókn. Á meðan fékk súpan að malla í rólegheitum heima, hafði skorið niður í hana og byrjað að malla kvöldinu áður. Enda alþekkt að þannig verða súpur bestar. Súpuna bárum við yfir rétt í þann mund sem fyrstu gestirnir mættu á staðinn um sjö.
Afmælisveislan
Afmælið var einstaklega skemmtilegt og vel heppnað. Byrjaði á að afmælisbarnið sjálft, hún Systa, las upp ritgerð sem hún skrifaði 13 ára. Viðfangsefnið var að kveldi fimmtugsafmælisdags hennar 2008. Strax þarna var Systa bæði feikigóður og skemmtilegur penni fyrir utan hvað hún hefur verið hugmyndarík og ótrúlega fyndin. En 14 ára sá hún nú reyndar fimmtuga konuna fyrir sér sem hálfgert gamalmenni, einmanna með kött, áskrifanda að hreinu lofti.
Aðrir veislugestir fóru með frumsamda texta og svo var sungið og spilað undurfallega á gítar fyrir hana. Besta skemmtiatriði kvöldsins var þegar vinkonur hennar úr menntó, lásu úr gömlum bréfum sem hún hafði sent aðallega um næturlífið í Reykjavík í kringum 1980, held að frásagnir af einu og einu rósarvínsglasi hafi fylgt með. Ég og aðrir veltumst um úr hlátri. Mér skilst að einhver hafi vaknað morguninn eftir með verki í kjálkunum, brosverki.
Yndislegasta og fallegasta atriðið var þegar sonur hennar hann Guðmundur Páll sem er á 11 ári flutti ræðu um mömmu.
Að lokum spilaði hljómsveitin Hringir fyrir dansi. Hana skipa þau Magga Stína, Kormákur, Kristinn og Hörður Braga. Þau voru hreint út sagt alveg frábær og héldu upp stanslausu stuði fram á nótt. Held að sumir hafi ekki dansað svona mikið frá því að þeir gerðu það á Borginni fyrrum.
Frábær afmælisveisla sem lengi verður í minnum höfð.
Ég hélt reyndar að síðasta vika yrði svona vika til að anda. Aðeins að slaka niður, en þannig varð hún ekki, mikið af fundum og verkefnum fyrir utan að Sturlubarnið var hjá okkur á meðan mamma fór að vinna.
Aðfaranótt laugardags fékk svo Sturlubarnið að gista fjarri foreldrum í fyrsta sinn. Verður það að teljast einn af stóru áföngunum í lífi hvers barns þegar það dvelur nótt fjarri foreldrum. Reyndar segir ég að þegar barn t.d. byrjar að sofa í leikskóla sé það ein mesta traustyfirlýsing sem það veitir. Það krefst nefnilega mikils traust að treysta öðrum fyrir sér í svefni. En fyrsta næturgistingin Sturlubarnsins gekk eins og í sögu. Hann fór að sofa eins og hann hefði aldrei gert annað en að gista hjá ömmu og afa. Vaknaði reyndar heldur snemma fyrir okkur en alveg passlega fyrir sig, klukkan 7 að morgni. Fór svo út og fékk sér góðan dúr upp úr 9. Mamma og pabbi komu svo um hádegi og náðu í piltinn. Hann varð auðvitað ósköp glaður að sjá þau. Reyndar rumskaði hann um miðja nótt og við kipptum honum upp í. Það verður að viðurkennast að maður er fljótur að gleyma hvað hreyfiþörf barna í svefni getur verið mikill. En það eins og annað rifjaðist fljótt upp.
Að spila og syngja með er sérstakt áhugamál Sturlubarnsins, nú er afi búinn að gefa honum gamalt úkulele sem hann reynir mikið að pikka og svo syngur hann. hehaue em eða eitthvað svoleiðis. Heldur samt lagi og það er sko meira en amma gerir.
Vinir og fjölskylda | Breytt 17.6.2008 kl. 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)