Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Að vera dóni eða sýna af sér dónalega hegðun

Í anda góðrar uppeldisfræði beindi Geir forsætisráðherra athyglinni að hegðun Sindra en ekki að persónu Sindra. Á því er nú nokkur munur. Í hádegisfréttum Stöðvar tvö sagði Edda í kynningu að Geir hefði kallað Sindra dóna, en það gerði hann alls ekki, hann sagði hegðun hans dónalega. Þeir sem hafa starfað með börnum þekkja einmitt áhersluna sem er á að beina athyglinni að hegðuninni. Barnið er ekki slæmt þó hegðun þess á einhverju andartaki geti verið slæm. Hvort hegðun Sindra var dónalega er svo allt annað mál og um það sjálfsagt skiptar skoðanir.  Ég held t.d. að forsætisráðherrar megi alltaf búast við því að fá pólitískar spurningar frá fjölmiðlafólki það sé hluti af starfi beggja.


Yfirklór Sjálfstæðisflokksins

Fyrir nokkru bloggaði ég um áform borgarinnar um samning við Skóla ehf, þá hafði ég heyrt eftir afar áreiðanlegum heimildum að Skóla ehf hafi verið boðið þetta verkefni að fyrra bragði. Auglýsingin hafi því verið hreint yfirklór. Það er alveg ljóst að samningur borgarinnar er í takt við slíka atburðarrás og auglýsingin á sínum tíma hönnuð fyrir Skóla ehf. Hvenær hefur t.d. heyrst að forskrift útboðs sé að finna á heimasíðu þess fyrirtækis sem síðan fær verkefnið?  

Að öðru leyti óska ég Skóla ehf til hamingju með samninginn, það er löngu tímabært að þróa yngstu deildirnar frekar. Hefði auðvitað viljað sjá opnari auglýsingu og allra helst að borgin biði sínu eigin fólki verkið, enda mikil þekking og mannauður þar til staðar. Sjálf byrjaði ég minn starfsferil sem leikskólakennari á ungbarnaskóla í Reykjavík (já þeir eru og hafa alltaf verið til), þaðan á ég gríðarlega ánægjulegar minningar. Yngstu börnin í leikskólum borgarinnar voru rétt þriggja mánaða á þeim tíma. Yngsta barnið sem ég sjálf tók inn sem leikskólastjóri var fjögurra mánaða, stúlka sem er um tvítugt í dag.


mbl.is Fréttatilkynning frá fulltrúum Vinstri grænna og Samfylkingar í leikskólaráði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sturlubarnið elskar ís alveg frá fyrsta smakki

ís í fyrsta sinnmeirasvo er bara skellt upp í mann snuði

Í gær 11. júní hefði tengdapabbi minn orðið 88 ára. Hann var annálaður "barnaspillir", ef eitthvað var hægt að láta eftir börnum þá var hann fyrstur manna til. Þegar við ung komum í heimsókn með Trausta til afa, sá Trausti okkur ekki. Armur afa var stór og traustur og þar vildi vor litli maður halda til. Afi reyndi líka að lauma í hann sælgæti gegn vanmáttugum andmælum okkar. En þó ég segi sjálf frá var reyndar varla til fallegra samband en milli Trausta og afa. Samband sem hélst alveg fram til andláts afa.

Í góða veðrinu í dag fórum við í gönguferð afi og amma með Sturlubarn, leiðin lá m.a. á Ingólfstorg þar sem fjárfest var í ís. Í tilefni afmæli langafa ákvað afi að gefa Sturlubarninu að smakka ís í fyrsta sinn. Hann varð nú soldið móðgaður að fá ekki að borða eins og hann lysti. Það er ljóst að Sturlubarnið er forfallinn ísisti frá upphafi.

Við ákváðum að skjalfesta "glæpinn" með myndatöku sem foreldrunum var sýnd við fyrsta tækifæri. Svo lofum við að miklu hófi í allri spillingu. En við erum líka viss um að ef langafi er einhverstaðar að fylgjast með hefur afmælisgjöfin glatt hann mikið.

gaman í bænumderhúfasólgleraugu

skríðaspekingslegurja hérna


Sturlubarnið hefur skap

Sturlubarn hefur tekið stórstígum framförum frá því að við fórum til útlanda. Hann er farinn að standa upp með öllu og ganga með, hann kann nú orðið að detta á rassinn, að krjúpa og skríða á fjórum fótum. Svo kann hann að koma sér af fjórum í sitjandi stellingu. En aðalsportið er að standa upp, aftur og aftur og aftur, svo bara hlær hann og hlær.

Sturlubarnið lét annars vita í morgun að honum sárnaði útlandaferð okkar. Það kom nefnilega á hann skeifa þegar hann hitti afa, bara eitt augnablik en nógu mikil. Túlkun ömmu á skeifunni hljómar svona "hvar hefurðu eiginlega verið, haldiðið þið að þig getið bara farið og ég svo mætt glaður til ykkar þegar ykkur þóknast". Neibb, Sturlubarnið hefur nú skap. Mamma hans hefur reyndar af því áhyggjur að með tíð og tíma komi hann til með að stjórna heiminum. Amma hefur minni áhyggjur af því. Umræðan kom upp eftir að ég lýsti fyrir þeim atviki sem ég varð vitni að í búð í útlandinu (ekki að ég hefði alveg eins getað upplifað það í Hagkaup), en þar var lítil stúlka sennilega milli tveggja og þriggja ára sem stjórnaði allri fjölskyldu sinni með skapinu. Og eins og við slíkar aðstæður gerist gjarnan þá lét fjölskyldan vel að stjórn.

Já svo er hann kominn með tvær tönnslur í neðrigóm.

Við keyptum á hann nokkrar flíkur í útlandinu, meðal annars rauða peysu, derhúfu og sólgleraugu svo nú er Sturlubarnið alveg extra elegant (sá svoleiðis orðalag í auglýsingu á Ítalíu, föt fyrir elegant menn).

Við uppgötuðum að við verðum líka að fara að framkvæma það óumflýjanlega, fjarlægja úr sumum neðrihillum hluti sem er afar áhugaverðir. Ekki alla hluti en suma.

Jæja, ég eld að mér hafi tekist að flytja fyrirlestur minn nokkuð skammlaust í dag á málþinginu. Þar hitti ég líka sænskan leiksólakennara sem er að skrifa doktorsritgerð um náttúrufræðiþekkingu ungra barna (ca 2- 3 ára), hvernig þau nálgast og undrast náttúrufræðina. Ætla að hitta hana aftur í vikunni og fá meira að heyra.


Góð ferð, en mikið er líka gott að vera komin heim

Við hjónin vorum að skríða í hús, búin að vera á ferðalagi síðan um miðjan dag í gær. Vorum komin á Malpensa að staðartíma rétt fyrir 9 í gærkvöldi, tók óratíma að innrita okkur. Ég spurðist fyrir um hvort að einhver veitingarstaður væri opinn fyrir innan vopnaleit og var tjáð að svo væri. Veit nefnilega sem er að það er ekki alls staðar. Við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar, Lilló að horfa á leikinn (Ítalíu - Holland) og fá okkur í gogginn. Enda ekkert borðað frá því í hádeginu. En þegar inn var komið var allt lok og læs. Enginn matur, ekki svo mikið sem deigan vatnsdropa að fá. Sem betur fer hleypti ítalska löggan okkur aftur út og við náðum rétt fyrir lokun í ristorante á vellinum. Það er svo sem ekkert mál að hafa þetta svona en það væri betra að Flugleiðir létu mann vita.

Hvað um það á föstudag dó tölvan mín og á morgun þriðjudag á ég að halda erindi á málþingi í Kennó. Tíminn á vellinum í lestum og í fluginu var nýttur til að hugsa og handskrifa glærur. Settist svo niður nú klukkan 4 til að vinna þær aðeins. Held samt að það sé meiri skynsemi að fara að sofa. Svo ætli það sé ekki best að kveðja þangað til seinna.

Sturlubarnið sem er bæði farinn að skríða alveg á fjórum og loksins kominn með tvær tennur kemur líka í afapössun í fyrramálið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband