Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008
19.2.2008 | 12:08
Berdreymni
Er til eitthvað sem nefnist berdreymni? Stundum velti ég því fyrir mér, ég er nefnilega ein þeirra sem er stundum óþægilega berdreymin. Kannski er þessi berdreymni það eitt að ég hef í gegn um tíðina lært að túlka slæma fyrirboða. Ástæðan fyrir að ég nefni slæma fyrirboða er að ég er miklu líklegri til að muna þá slæmu en þá góðu þegar ég vakna.
Einu sinni velti ég því upp með heimspekingi hvort að raunveruleg berdreymni gæti verið til. Hann taldi svo ekki vera, en ég af því miður allt of mikilli reynslu taldi svo vera. Hins vegar veit ég ekki hvort að það að vera berdreymin er það eitt að vera betur læs á suma þætti í umhverfinu en aðrir. Ég held því ekki fram að berdreymni sé yfirnáttúruleg. Ég held frekar að ég t.d. skynji alvarleika veikinda fólks ómeðvitað og þegar svefninn sækir á mig vinni ég úr þessum vísbendingum. Að ég í draumi hafi komið mér upp einhverskonar afruglunarstöð fyrir skynjanir mínar.
Þó svo að mér hafi ekki alltaf liðið vel með drauma mína, þeir jafnvel leitt til þess að ég hef orðið stressuð gagnvart því að sofna. Þá hafa þeir samt á sinn hátt gert mér kleift að takast á við erfiðustu stundir lífs míns. Undirbúið mig undir andlega ágjöf. Ef til vill er berdreymni þegar upp er staðið einn af varnarháttum sálarinnar.
Að lokum eitt minna uppáhaldsljóða eftir Stein Steinar, sem ég hef nú reyndar frekar tengt skýjaborgum. (er e.t.v. lýsandi fyrir ástandið hjá ákveðnum flokki í borginni þessa stundina)
Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.
Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg
af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið
á bak við veruleikans köldu ró.
Þinn draumur býr þeim mikla mætti yfir
að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér.
Hann vex á milli þín og þess, sem lifir,
og þó er engum ljóst, hvað milli ber.
Gegn þinni líkamsorku og andans mætti
og öndvert þinni skoðun, reynslu og trú,
í dimmri þögn, með dularfullum hætti
rís draumsins bákn og jafnframt minnkar þú.
Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum
í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.
Hann lykur um þig löngum armi sínum,
og loksins ert þú sjálfur draumur hans.
18.2.2008 | 17:57
Aðför að leikskólanum a la Viðskiptaráð
Eftir kosningar s.l. vor lagði Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík ofuráherslu á að aðskilja leikskólasvið frá menntasviði, taldi hann að einungis þannig nyti leikskólinn sérstöðu sinnar og aukin færi gæfust til að styrkja innviði hans og starf. Því var haldið fram að leikskólinn hefði ekki notið athygli og hann staðnað í tíð Reykjavíkurlistans. En nú eru hin raunverulegu markmið aðskilnaðarins að koma fram. Þau virðast vera ótrúlega samhljóma hugmyndum Viðskiptaráðs sem m.a. komu fram í skýrslu þeirra frá því 2006 og ýmsum eldri hugmyndum sem tengdust styttingu náms til stúdentsprófs. Það virðist sem að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík setji hugmyndir viðskiptalífsins ofar hugmyndum t.d. bæði fræða- og kennarasamfélagsins í skólamálum. Er þetta í raun í samræmi við það sem gerist á hinum stóru veiðilendum stórfyrirtækjanna, kaupa og búta niður þangað til að ekkert er eftir að upprunalega fyrirtækinu.
Áhrif Viðskiptaráðs eru víðtæk, s.l. haust sáum við hvernig átti að leysa vandamál leikskólans með einkavæðingu gera mannekluvandann að vandamáli annarra, nýta tækifærið og láta draum Viðskiptaráðs rætast. Láta fyrirtæki eins og banka sjá um leikskóla fyrir sitt starfsfólk, koma upp leikskólakeðjum, svona eins og hamborgarakeðjum. Reyndar er í skýrslu Viðskiptaráðs meira og minna talað um daggæslumál en ekki leikskóla, hér eru nokkur dæmi úr skýrslunni og þau viðhorf sem speglast í henni til leikskólans, foreldra og hlutverk samfélagsins.
Samt er það svo að ákaflega lítið hefur miðað í átt að skilvirkari og þjónustumiðaðari leikskóla. ... Það er lítið því til fyrirstöðu að einkaaðilar hefji rekstur á sviði daggæslu. ... Vandinn sem við er að etja á daggæslusviðinu er því einkum fjárhagslegur. Í vissum tilvikum má rekja hann til aukinna krafna á hendur rekstraraðilum og þrengri heimilda hvað stærð rekstrareininga snertir.
Viðskiptaráð telur að rekstareiningar í daggæslu sé alltof litlar og megi vel stækka án þess að gæði þjónustu minnki. Ella verði rekstur leikskóla varla fýsilegur út frá hagkvæmnissjónarmiði. Þá telur Viðskiptaráð Íslands æskilegt að foreldrar taki almennt ríkari þátt í fjármögnun dagvistunar með beinum hætti frekar en að styðjast við það millifærslukerfi sem nú er við lýði.
Nú sjáum við næsta stig aðfarar að leikskólanum sem Þorbjörg Helga leiðir fyrir hönd frjálshyggjuaflanna í Sjálfstæðisflokknum. Sjálf hef ég af sögulegum ástæðum aldrei lagst gegn öðrum rekstrarformum leikskólans. Ég get tekið undir hugmyndir um þjónustusamninga svo framarlega sem réttindi bæði barna og starfsfólk sé tryggður. En ég hef ávallt talið og sú skoðun mín hefur ekki breyst að leikskólinn sé og eigi að vera samfélagslegt verkefni á samfélagslega ábyrgð. Kannski við endum með kerfi eins og Hollendingar sem enn sögðu mér þegar ég var þar í haust, enn vera að borga fyrir eigin aðför af leikskólakerfinu.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.2.2008 | 00:02
Pólitísk "skemmdarverk" Þorbjargar Helgu
Skemmdarverk, er það hugtak sem upp í hugann kom þegar ég las fundargerð leikskólaráðs Reykjavíkur. Ég vonaði sannarlega að nýr meirihluti stigi í fyrstu, allavega, varlega til jarðar. En hvað er það sem truflar mig svona? Jú það er samþykkt síðasta fundar um að byrja á að færa 5 ára börnin inn í grunnskólann næsta haust. Sem þróunarverkefni í hverju hverfi um sig til að byrja með en ...
Fyrir tæpum 40 árum var eins farið að með það sem þá nefndist forskóli, eða 6 ára bekkir. Í upphafi voru leik- og grunnskólakennarar jafnhæfir til starfsins en smá saman viku leikskólakennarar og þegar 6 ára bekkurinn var gerður skólaskyldur duttu þeir út. Áherslan sem átti að vera á leikinn, vék fyrir stafakennslu. Fyrir þá sem það ekki vita langar mig líka að benda á að þó svo að formleg innlögn stafa fari e.t.v. ekki fram í leikskólum fer þar fram gríðarlega mikið lestrarnám. Þar er boðið upp á bæði markviss og meðvituð námstækifæri. Nú á eins að fara með 5 ára börnin og allt er þetta gert í nafni samkeppni sem og hræðslu. Vegna þess misskilnings að við séum að fara illa með tíma barna þegar áherslan er á skapandi starf og leik. Þess misskilnings að forritun, ítroðsla og blindur agi leiði til aukinnar samkeppnishæfni þjóðfélagsins og betri vinnudýra fyrir fyrirtækin. En til að agi verði til gagns verður hann að beinast að áhuga barnsins, sköpun þess. Ef við ætlum að tryggja samfélag velfarnaðar og réttlætis verðum við að byggja menntun barna okkar á sköpun, gagnrýninni hugsun og lýðræði. Ef ætlun okkar er betra samfélag þá verðum við að beina aganum að verkunum, að áhuganum.
Ég vil líka benda á að það eru örfá ár frá því að hin Norðurlöndin tóku það skref að gera 6 ára bekkinn skólaskyldan, þá eftir margra ára þróunarstarf sem hagsmunaaðilar tóku þátt í (raunar hafa Finnar sem gjarnan koma best út úr könnunum ekki enn gert það að fullu). Það módel sem virðist vera horft til hér er frá Bandaríkjunum og Bretlandi og jafnvel Frakklandi. Þessi lönd eru heldur ekki sérstaklega ofarlega á lista OCED þegar horft er til fyrirmyndstarfsemi í leikskólum. Um daginn hlustaði ég á Barak Obama þar sem hann lagði áherslu á að styrkja leikskólastigið, leggja áherslu á skapandi starf og að skólar hætti að kenna fyrir prófin. Þegar ég er erlendis (t.d. í Bretlandi) verð ég líka iðulega vör við að horft er til Norðurlanda þegar verið er að skoða yngsta skólastigið.
Því miður hugnast mér ekki fyrstu skref Þorbjargar Helgu og félaga í nýju leikskólaráði og ég veit að ég er ekki ein um þá skoðun. Sennilega er leikskólakennarastéttin að miklum hluta mótfallin þessum hugmyndum. Ég hefði talið gott fyrir fólk sem er pólitískt með allt niður um sig að fara sér hægt. En kannski eru þau svo hrædd um að núverandi valdatími þeirra verði svo stuttur að allt sé á sig leggjandi til tryggja framgang hugmynda frjálshyggjunnar og grafa í leiðinni undan samfélagssinnuðu skólakerfi. Að á endanum sé það tilgangurinn sem helgar meðalið.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
16.2.2008 | 15:19
Stóri háskóladagurinn
15.2.2008 | 11:55
Lægsti samnefnari ASÍ
Úr umsögnum og greinargerðum er hægt að lesa ýmis viðhorf. Bæði jákvæð og neikvæð. Mér brá í brún þegar ég las umsögn ASÍ við leikskólafrumvarpið. Þau viðhorf sem þar skína í gegn eru að; leikskólinn sé fyrst og fremst þjónusta við atvinnulífið skólaárið og starfið eigi fyrst og fremst að miða að þörfum atvinnulífsins, til starfans þurfi "aðeins" gott fólk með góð viðhorf, menntun utan námskeiða og símenntunar sé aukaatriði.
Lægsti samnefnari
ASÍ leggur áherslu á að taka eigi tillit til lægsta samnefnara þ.e. Reykjavíkurborgar þegar horft er til hlutfalls fagfólks (42% í borginni) og ófaglærðra í leikskólum. Ég vil benda á að á Akureyri eru leikskólakennara um 75% starfsmanna. Svo virðist að starfsfólk ASÍ hafi gleymt því að landið er stærra en Reykjavík. Mannekluvandmál sem þeir fullyrða um eru aðallega og mest á höfuðborgarsvæðinu. Ég vona sannarlega að viðhorfið um lægsta samnefnara sé ekki ráðandi þegar kemur að réttindum sem skipta ASÍ (og fleiri) máli. Þetta sé ekki þeirra grundvallaafstaða í málum eins og fyrirhugaðri þjónustutilskipun Evrópusambandsins. Ég treysti á samstöðu verkalýðsfélaganna gegn hugmyndum eins og að lægsti mögulegi samnefnari sé fullgildur samnefnari.
Ég tek hins vegar undir með ASÍ um mikilvægi og gildi símenntunar fyrir alla.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.2.2008 | 00:28
Valhöll sló Spaugstofunni við í handritagerð
Spaugstofan hefði ekki getað skipulagt atburðinn í Valhöll betur. Handritið var eins og skrifað af spaugara af guðs náð. Reyndar held ég að Síminn ætti að hugleiða að semja við Valhallarfólk um höfundarrétt fyrir næstu stóru auglýsingu.
Sjáið þetta fyrir ykkur, ljósvakafólki fyrst hleypt inn. Ljósmyndarar ryðjast inn og smella af í gríð og elg eru svo reknir öfugir út. Skellt á nefið á prentmiðlafólki og það ekki einu sinni með útvarp eða sjónvarp til að sjá og heyra það sem fer fram fyrir innan dyrnar. Örvæntingafullir blaðamenn hringjandi á ritstjórnir og símum haldið að hátölurum sjónvarpanna svo þeir heyri það sem fer fram undir málverkinu af Bjarna Ben.
Starfsmaður Símans birtist á staðnum og heldur að þeim þriðju kynslóðinni þar sem hægt er að horfa á sjónvarpið og segir, "sjáið, við erum hér" Feginssvipur færist yfir andlit blaðamannanna.
Já, Spaugstofan hefði ekki getað skipulagt þetta betur.
Óánægja blaðamanna skiljanleg" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.2.2008 | 21:16
To be or not to be - frú eða herra borgarstjóri
Ég gaf kost á mér sem leiðtogi sjálfstæðismanna í borginni í síðasta prófkjöri, það hefur ekki breyst. Eitthvað á þessa leið mælti Gísli Marteinn í Kastljósinu í kvöld, svona til að minna okkur á að hann gerði tilkall til leiðtogahlutverksins, lagði sig í hættu og uppskar töluvert fylgi, Villi fékk bara aðeins meira. Sterka stöðu Hönnu Birnu má sennilega að hluta skýra með tilvísun til þess að bæði stuðningsmenn Vilhjálms og Gísla Marteins studdu hana í annað sætið. Enda hvorugur viljað sjá hinn í því sæti. Það er því ekkert skrítið að Gísla Marteini sjálfum gulldreng flokksins og krútti gamla fólksins sárni. Hann þorði að taka áhættu, hætta sér úti í storminn á meðan Hanna Birna valdi að sigla lygnan sjó. Með tilliti til þessa er heldur ekkert einkennilegt að hann nú geri tilkall, það hljóta þó að hafa runnið á hann tvær grímur í sjónvarpinu um daginn þegar Agnes, Staksteinaskrifari lýsti yfir stuðningi við Hönnu Birnu. Ég verð reyndar að viðurkenna að mér finnst hún frekar óspennandi pólitíkus. Leitt að segja það en svona er það nú.
ps. Svo segja þau öll, við erum að gefa Villa ráðrúm til að hugsa og svo styðjum við þá ákvörðun sem hann tekur. Af hverju segja þau ekki Villi á allan okkar stuðning hver svo sem ákvörðun hans verður. Mér finnst eins og í hinu liggi við styðjum hann til að hætta, en ekki til annarra verka.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.2.2008 | 10:56
Í minningu Búddu
Í fjölskyldunni hans Lilló eiga allir gælnöfn, að því komst ég fljótlega, pabbinn Lúllú, bræðurnir Onni og Diddó, systirin hefðbundið Rúna og mamma þeirra Búdda. Einhvernvegin dettur manni helst í hug hnellin kerling, en svo var nú aldeilis ekki. Búdda var bæði frekar hávaxin og alla tíð svo grönn að módel samtímans væru næsta feit við hliðina á henni. Hún var líka smekkmanneskja bæði í klæðnaði og í hönnun á heimili sínu. Glæsikona sem hafði sterka tilfinningu fyrir samsetningu lita og hluta. Þegar ég kom fyrst í Brúnalandið var heimilið eins fryst í tíma. Fallegt sixtís heimili. Hornsófinn og gólfteppin blá, með appelsínugula rýjateppinu ofan á. Gylltar gardínur, frístandandi hillur og borðstofu húsgögn úr tekki. Heimilið bar með sér smekk húsfreyjunnar. Hún sagði mér eitt sinn að Guðmundur (ég gat aldrei kallað tengdapabba Lúllú) hafi fengið henni peninga til að kaupa ljós í allt Brúnalandið, hún hafi farið og keypt kristallsljósakrónu yfir borðstofuborðið fyrir alla upphæðina. Og Lúllú gapað þegar hún kom heim. Seinna þegar hún var flutt í litlu íbúðina sína í Ljósheimunum endurskapaði hún heimilið í Brúnalandinu en núna í nýmóðins stíl. Þar er tungusófinn blár og gardínur gylltar.
Búdda lifði stundum hratt en hún lifði því lífi sem hún kaus sér, ekki alltaf hefðbundið en sönn sjálfri sér og sínu. Húmoristi fram í fingurgómanna, stundum einkahúmor hennar og Jöru, eins og þegar við komum eitthvert sinnið í Skinnalónið og þær sátu út á palli og ræddu saman með sitthvorn háhæla skóinn undir eyra. Á árum áður hvessti stundum á milli okkar, ég var ung og kunni ekki alltaf að umgangast fólk sem ekki fór sömu leiðir og ég. Samt naut ég þess nú nokkuð að vera tengd Jöru vinkonu hennar og sambýliskonu fjölskylduböndum. Ég held reyndar að það hafi átt sinn þátt í að hún tók mig í sátt. Með árunum þroskuðumst við báðar og seinni ár áttum við í góðum samskiptum. Þá sagði hún mér stundum sögur af lífi sínu í Ameríku, af presthjónunum blindu sem gáfu hana og Guðmund saman. Sérstaklega var henni minnistætt þegar prestfrúin þreifaði á andliti hennar og sagði svo, þú ert falleg. Það var Búddu mikið áfall fyrir 10 árum þegar Jara dó, áfall sem ég held að hún hafi aldrei jafnað sig fullkomlega á. Börn og barnabörn Jöru héldu ávallt tryggð við hana og fyrir það var bæði hún og við þakklát. Búdda var með afbrigðum gjafmild og stór í gjöfum sínum. Ég er henni þakklátust fyrir þá gjöf sem hún gaf okkur Lilló fyrir sjö árum þegar Sturla dó, hún gaf okkur að nota leiði sem hún átti frátekið hjá Guðmundi og Jóni pabba sínum. Ég veit að hún hafði ekki ætlað sér að láta brenna sig, en eftir andlát Sturlu ákvað hún að það myndi hún gera og hvíla við hlið þeirra. Síðasta fjölskylduboðið sem hún tók þátt í var nafnaveisla Sturlu Þórs, sonarsonar okkar, þegar hún heyrði nafnið hans klökknaði hún eins og við. Litríku, óhefðbundnu lífi er nú lokið, að leiðarlokum vil ég þakka fyrir samvistir og votta börnum hennar og systur samúð mína.
(Minningargrein mín í mogganum í dag)
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2008 | 20:30
Frábærir foreldrar - frábær börn
Það var einu orði sagt frábært að fylgjast með samvinnu og leik barna og foreldra í Ráðhúsinu í Reykjavík í dag. Gleði og samvinna voru þau orð sem helst komu upp í hugann. Fullt af myndum hér.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.2.2008 | 21:41
Skemmtilegur en annasamur dagur - upprennandi skapandi vísindamenn
Vísindasmiðjan í Ráðhúsin tókst afbragðsvel í dag. Nýi borgarstjórinn hann Ólafur kom og stoppaði töluverðan tíma ásamt aðstoðarkonu sinni Ólöfu Guðnýju. Þau spurðu mikið um hugmyndina og hugmyndafræðina á bak við smiðjuna. Samstarfskona mín sagðist meta pólitíkusa eftir því hvernig þeir bregðast við m.a. svona atburðum, ástæða þess að hún minntist á þetta er að ungliðadeild bæði úr Sjálfstæðiflokknum og Samfylkingunni voru í húsinu en stungu ekki inn nefjum.
Átta leikskólar lögðu á sig ferð út í veðrið með börnin og mættu. Sögðu mér að strætó stoppaði fyrir utan Ráðhúsið og þetta væri ekkert mál. Hjá sumum var þetta sárabætur fyrir dagskrá sem hafði verið blásin af um morguninn. Aðrir splæstu í rútu. Ég spurði börnin hvort þau vissu hvað húsið héti sem við værum í, jú þau vissu það alveg, "Ráðhúsið í Reykjavík".
Við höfðum töluverðar áhyggjur af að vera með nóg af efni í 400 fermetra sal. Aðallega vegna hjálpar garðyrkjunnar í Reykjavík vorum við með mikið meira en nóg. Þau höfðu útbúið fyrir okkur trékubba af mikilli alúð. Við fengum töluverðar fyrirspurnir um kubbana og ætlum reyndar að lána leikskólum okkar kubba. Við þurfum hinsvegar að fá þá aftur til að nota í vor í smiðju.
Við vorum líka með einar sex stöðvar með ljósaborðum sem vöktu mikla lukku. Ein stöðin átti að vera hvítt á hvítt. Þ.e.a.s. alla vega hvítur og glær efniviður. Þegar ein lítil stúlka kom að stöðinni sagði hún, "prinsessuborð".
Tveir drengir svona 8 og 9 ára dunduðu sér í næstum þrjá tíma við að smíða kúlurennu braut. Ég lánaði þeim nokkur vasaljós, skömmu seinna sagði annar þeirra við mig. "Þessi leikskólabörn eru alltaf að stela af okkur". Guðrún Alda var með auka vasaljós og ætlaði að láta þann yngri hafa það vegna þess að sá eldri var með hin. Eldri drengurinn segir, "réttu mér það". Guðrún svarar "já en þú ert með". Sá yngri leit á hana í forundran og sagði "við erum saman". Flottir strákar.
Börnin voru mjög upptekin við að skoða hvernig ýmsir hlutir hleyptu í gegn um sig ljósi. Þau settu mismunandi litað plexígler fyrir ljósið, stundum voru börnin mjög kerfisbundin í þessu. Voru búin að sækja sér stafla, prufuðu fyrst hvern lit fyrir sig, svo fleiri liti saman, settu spegla fyrir ljósið og masonítplötur. Upprennandi verklegir vísindamenn.
Aðrir þróuðu trommusett, og byggingar risu. Hér við hliðina má sjá albúm með myndum frá vísindasmiðjunni í dag. Við hlökkum til morgundagsins og vonum að þá komi krakkar á öllum aldri til að byggja og rannsaka.
Menntun og skóli | Breytt 9.2.2008 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)