Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Vísindasmiðja í anda Reggio Emilia

Í haust ákváðu Háskólinn á Akureyri og Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíðaað efna til samstarfs á Vetrarhátíð og setja upp vísindasmiðju í Ráðhúsinu í Reykjavík. Vísindamiðjan er sett upp í anda leikskólastarfs sem hefur þróast i borginni Reggio Emilia á Ítalíu. Augu heimsins hafa beinst að leikskólunum í Reggio í áratugi. Skólastarfið þar hefur verið valið á meðal þess athyglisverðasta í heiminum af bæði alþjóðlegum fjölmiðlum og stofnunum. 

Í Ráðhúsinu á föstudag og laugardag gefst fólki kostur á að fá að leika sér og rannsaka efnivið í anda Reggio Emilia.  Boðið verður upp á  mismunandi stöðvar með mismunandi efnivið. Áherslan verður á byggingar, ljós og skugga. Við höfum safnað í samstarfi við fjölda fyrirtækja og einstaklinga margvíslegum efnivið sem aðrir gætu jafnvel álitið rusl. En er okkar gull. Ég hvet áhugasama á öllum aldri að mæta með opinn huga og taka þátt í leik og starfi. Gefa sér færi á að kynnast og nota eigin sköpunarkraft, að vera óhræddir við að leyfa hugmyndarfluginu að komast í hæstu hæðir.

Á Íslandi eru starfrækt samtök áhugafólks um skólastarf í anda Reggio Emilia. Nýlega stóðu þau fyrir símenntunar og skólaþróunardegi á leikskólanum Stekkjarási í Hafnarfirði. Þangað komu um 150 starfsmenn leikskóla og deildu reynslu sinni saman. Um þann dag má lesa hér neðar.


Óskaleikskólinn

Fyrir nokkrum árum bað ég leikskólakennaranema að setja niður á blað hvernig þeir teldu að börn vildu hafa leikskólann, hvað ætti að einkenna starfið þar. Hugmyndina fékk ég frá  höfundi bókarinnar Palli var einn í heiminum. Jens Sigsgaard spurði börn hvað þau vildu gera ef þau mættu allt. Í tilefni þess að á morgun 6. febrúar er Dagur leikskólans ákvað ég að deila hugmyndum nemanna með lesendum. En svona telja þeir að óskaleikskóli barnanna sé.

  Að börn vilja vera í leikskóla þar sem er
  • Gleði
  • Öryggi
  • Góð samskipti  milli allra
  • Skemmtilegt starfsfólk (ekki fýlu)
  • Lifandi starfsfólk
  • Engar vinnustundir sem fullorðnir ákveða allt og stjórna

  • Ekki hópastarf oftar en 2x í viku (og hafa það oftar í formi vettvangsferða)
  • Góður salur
  • Listasmiðja
  • Byggingar megi standa (þegar maður er búinn að byggja og byggja þá er svo sárt að þurfa alltaf að rífa niður)
  • Tónlist
  • Stöðugleiki í starfsmannahaldi (ég þekki fólkið sem heilsar mér í dag og á morgun, það sé ekki alltaf að skipta)

  • Hlýlegt glaðlegt starfsfólk
  • Reglur skýrar
  • Fjölbreytileika
  • Skóli þar sem manni líður vel að koma inn
  • Vel sé tekið á móti okkur
  • Lýðræðislegur
  • Þar sem mömmu og pabba líður líka vel
  • Þar sem stöðugleiki á meðal starfsfólks
  • Þar sem ég læri eitthvað nýtt og get verið með vinum mínum
  • Frjáls leikur í fyrirrúmi

  • Upplifa njóta augnabliksins
  • Langan tíma í frjálsum leik
  • Starfsfólk sem er jákvætt og virðir okkur
  • Hlýtt hjartalag, knúsar okkur þegar við á
  • Flæði – megum fara á milli
  • Líka að vera út í náttúrunni, njóta þessa að vera til (klifra í trjám og klettum, detta í þúfum og moka sandi í fjöru)
 (og eins og sjá má voru hóparnir 5).  

Ég er ánægð með menntamálaráðherra

Ég er ein þeirra sem fagna fram komnu frumvarpi menntmálaráðherra um kennaramenntunina. Og ég fagna því sérstaklega að aldrei hafi komið annað til greina en að fara eins með menntun kennara allra skólastiganna. Ég tel að ef menntun leikskólakennara verður skilin eftir á B.ed stiginu verði það rothögg fyrir starf leikskólanna. Sem rök gegn því að menntun leikskólakennara eigi að fylgja annarri kennaramenntun er bent á manneklu í leikskólum. Fyrst má benda á að mannekla hefur ekkert með menntunina að gera. Hún er auk þess staðbundið vandmál á höfuðborgarsvæðinu. Ef það gerist hinsvegar að menntun leikskólakennara verður skilin eftir, fer öll orka stéttarinnar næstu ár í að berjast fyrir þeirri leiðréttingu, því geti ég lofað.  Leikskólakennarar munu ekki sætta sig við að verða skildir eftir sem "annars flokks" kennarastétt. Sumt það sem er ritað hefur verið á ýmsum bloggsíðum bendir til þess að það sé afar stutt í þau viðhorf að leikskólinn sé fyrst og fremst gæsla þar sem mestu skiptir að "góðar" "konur" sinni börnunum.    

Ég vil nota tækifærið og benda á að hluti af samkomulaginu um meistararéttindin er að fallið er frá því ákvæði sem nú er í lögum að allt starfsfólk hafi leikskólakennaramenntun. Samkvæmt núgildandi lögum eiga 100% þeirra sem starfa með börnum í leikskólum að vera leikskólakennarar, nú er hlutfallið fært niður í 2/3 eða um 66%. Hafa félög þeirra sem eru ófaglærðir í leikskólum löngum barist fyrir þessu. M.a. til að bæta réttarstöðu síns fólks. Hvað sem mér finnst um málið persónulega get ekki annað en glaðst með því fólki sem fær þessa réttarbót. Ég held að áhrifin af ákvæðinu verði að störf inn í leikskólanum veðri betur og öðruvísi skilgreind en nú er- hvert verður hlutverk leikskólakennarar og hvert hlutverk ófaglærðra. Ég er ekki viss um að ég sé endilega sammála þessari þróun en spái að svona verði hún.

Ég vona sannarlega að samflokksfólk mitt á þingi styðji við frumvarpið.


Filmubútur

Föðurafi minn var áhugaljósmyndari, þegar hann dó 1976, skildi hann eftir sig dálaglegt safn slidesmynda. Myndirnar og sýningarvélin hans lentu hjá pabba. Um daginn þurfti ég bráðnauðsynlega á slidessýningarvél að halda. Ég mundi að vélin hans afa væri einhverstaðar undir súð á mínu æskuheimili.

Vélina fann ég og setti í gang. Viftan og peran bæði heil, en vélin er svo öldruð að peran er á stærð við venjulega snúna kertaperu og reimar í vélinni eru úr leðri. Nema þegar ég kem þangað sem ég ætla að nota vélina uppgötva ég að geislinn er ekki nógu skarpur, eiginlega alveg hræðilega daufur. Ég ákveð með det samme að skrúfa allt draslið í sundur og þrífa.

Hvað haldið þið að ég hafi fundið inn í vélinni?

Nema stráheilann filmubút, af Surtseyjargosi. Búturinn er vel varðveittur, en mig vantar hinsvegar enn um sinn betri vél. Nú þarf ég bara að skanna bútinn og skella hér inn. Þarf held ég einn dag með tölvunni í myndvinnslu svona almennt. 


Áhyggjur mínar af 1. gr. frumvarps til laga um leikskóla og mögulegum afleiðingum hennar

Ég er um margt ánægð með nýtt frumvarp menntamálaráðherra til laga um leikskóla. Ég er sérstaklega ánægð með að taka á út úr lögunum ákvæðið um að leikskólinn eigi að efla kristilegt siðgæði og þess í stað standi að leikskólinn eigi "að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra". 

Ég hef hinsvegar áhyggjur af og er andsnúin ákvæði  1. greinar frumvarpsins um fljótandi skil á milli skólastiga. Áhyggjur mínar varða ýmsa jaðarhópa og afleiðingar sem ákvæðið getur haft fyrir þá. Þá á ég við hópa sem standa af ýmsum ástæðum höllum fæti í samfélaginu. En ég hef líka áhyggjur af áhrifum á fyrirkomulag leikskólastarfsins og stýrandi áhrifum þess. Sérstaklega þegar að ákvæðinu verður beitt í báðar áttir. Þ.e.s. að grunnskólinn neitar að taka við börnum sem hann telur ekki tilbúinn til að hefja nám og börn sem teljast "bráðger" fara ári fyrr úr leikskólanum. Þau teljast tilbúin til grunnskólagöngu. Þetta viðhorf til þess að "vera tilbúin" er öllum ljóst sem lesa greinagerð og skýrgreinar með frumvarpinu sem og svörum menntamálaráðherra af mögulegum afleiðingum nýrra laga.  Í greinargerðinni segir: "Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að félagsþroski og námsframvinda barna ráði því hvenær þau ljúka leikskólanámi og hefji nám í grunnskóla. Þessi breyting er liður í því að gera skólakerfið sveigjanlegra með tilliti til þarfa hvers og eins nemanda þannig að þau geti farið hraðar eða hægar í gegnum skólakerfið." (undirstikun mín)

Á sérstökum vef um frumvörpin fær menntamálaráðherra spurningu hvort að frumvarpið hindri að bör geti hafið grunnskólanám fyrr eða síðar. Hún svarar: 

Nei, en við ákvörðun um slíkt er afar mikilvægt að vanda vel til verka og horfa bæði til félagsþroska og námsframvindu barna. Að slíkri ákvörðunartöku verða að koma starfsfólk leikskóla og grunnskóla, foreldrar og þeir fagaðilar sem þurfa þykir.

 

Með þessu er í raun verið að segja að öll börn séu ekki tilbúin til grunnskólagöngu og ef grunnskólinn eða aðrir meti það svo að barn sé enn þroskalega statt á leikskólastigi (hvað sem það svo merkir) sé hægt að neita barni um skólavist. Mér finnst þetta ganga gegn þeirri hugmyndafræði sem Íslendingar hafa hingað til státað sig af um skóla fyrir alla og þeir samþykktu með Salamanca yfirlýsingunni í júní 1994. Þar segir

Við lýsum yfir þeirri sannfæringu okkar að;

  • menntun sé frumréttur hvers barns og skylt sé að gefa því kost á að ná og viðhalda viðunandi stigi menntun;
  • börn séu mismunandi og hafi sérstök áhugamál, hæfileika og námsþarfir;
  • í skipulagi menntakerfis og tilhögun náms beri að taka mið af miklum mun á einstaklingum og þörfum þeirra;
  • einstaklingar með sérþarfir á sviði menntunar skuli hafa aðgang að almennum skólum og þar beri að mæta þörfum þeirra með kennsluaðferðum í þeim anda að mið sé tekið af barninu;
  • almennir skólar séu virkasta aflið til að sigrast á hugarfari mismununar, móta umhverfi sem tekur fötluðum opnum örmum, móta þjóðfélag án aðgreiningar og koma á menntun öllum til handa; enn fremur megni þeir að veita þorra barna góða menntun og stuðli að skilvirkni menntakerfisins í heild og bæti, þegar til lengdar lætur, nýtingu fjármuna.

 

Mér finnst eins og á vissan hátt sé verið að fría grunnskólann undan þeirri skyldu sinni að vera tilbúinn fyrir öll börn. Því samkvæmt t.d. Salamanca er það skólinn sem á að vera tilbúinn til að mæta barninu en ekki barnið að mæta skólanum. Auðvitað fer fram undirbúningur undir grunnskólann í leikskóla, en fyrst og fremst á leikskólinn að undirbúa börn undir lifið, og grunnskólinn er sannarlega stór þáttur í lífi flestra barna.

Ég verð að viðurkenna að ég er með létt óbragð í munninum yfir þessari grein og vona að henni eða túlkun hennar verði breytt í meðförum þingsins. Ég vona sannarlega að samfylkingarfólk á Alþingi sé vakandi fyrir því að verja samfélag félagslegs réttlætis og jöfnunar. Samfélags jöfnuðar til menntunar. Hvert skólastig á auðvitað að mæta hverju barni eins og það er statt, það eru mannréttindi barna. Ég veit ekki hvað foreldrum, börnum eða grunnskólanum fyndist um áhrif seinkunnar þegar á unglingsárin er komið. Þegar í bekkjum yrðu að jafnaði 3- 4 árgangar börn á aldrinum 12 -15 ára saman í bekk. Við vitum að þetta er kannski ekki mikið mál á leikskólaaldri en getur orðið stórmál þegar fram í sækir.  

 

 


Vísindasmiðja fyrir börn og fullorðna í Ráðhúsinu í Reykjavík 8 og 9 febrúar

 

 

 
og svona byggðu stelpurnar
 
   
      Föstudaginn 8. febrúar frá kl. 13.00 - 16.00 og laugardaginn 9. febrúar kl. 11.00 - 14.00 í Ráðhúsi Reykjavíkur 
 

Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og Leikskólabraut Háskólans á Akureyristanda sameiginlega fyrir vísindasmiðju um byggingar, ljós og skugga fyrir börn og fullorðna í Ráðhúsi Reykjavíkur.  

Ætlunin er að byggja úr fjölbreyttum endurnýtanlegum efnivið. Efnivið sem er bæði gagnsær og ógangsær. Sérstakur gaumur verður gefinn hvernig hægt er að nota ljós og skugga til að auðga byggingarleik. Þetta er smiðja þar sem einu takmarkanir byggingameistarans eru hans eigið ímyndunarafl. 

                                                 

Allir velkomnir.

Vísindasmiðjan er ætluð börnum á öllum aldri.

Tengiliðir:  Guðrún Alda Harðardóttir, leikskólaráðgjafi hjá Rvk  og dósent við HA S: 8471230, netfang: gudrun@unak.is

 

Kristín Dýrfjörð, lektor við Háskólann á Akureyri, S:  8974246, netfang: dyr@unak.is

 Afmæli Gunnhildar Evu

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband