Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Dýrkeypt hallarbylting

Miðað við útkomuna á landsvísu í þessari skoðunarkönnun er nokkuð ljóst að á landsvísu er fólk að refsa Sjálfstæðisflokknum fyrir stjórnleysið og sundrungina í borginni. Nokkur furða? Hallarbyltingin í janúar ætlar að verða flokknum dýrkeypt. Auðvitað gleðst ég yfir að mitt fólk standi vel. Vona bar að það enn hærri tölur komi upp úr kjörkössunum næst.

Kannski að foringjar flokksins verði ekki eins glaðir með sitt fólk opinberlega næst þegar það hagar sér eins og frekjur. Eins og hallarbyltingin blasir við mér og fleirum, var þetta fyrst og fremst ákvörðun sem byggist á einkahagsmunum örfárra borgarfulltrúa og frekju í völd. Það sem viðkomandi voru kjörnir til; að gæta hagsmuna borgarbúa, virðist hafa verið sett í annað sætið.


mbl.is Dregur úr fylgi við ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er "óvart" verið að búa til bakdyraleið að samræmdu leikskólastarfi?

Eins og fram hefur komið hef ég fagnað framkomnu frumvarpi menntamálaráðherra um leikskólann. En þrátt fyrir svona almennt jákvæða afstöðu til þess eru nokkur atriði sem ég hef velt vöngum yfir og haft af nokkrar áhyggjur. Áhyggjur um ýmsar afleiðingar til lengri tíma litið. 

Út í hinum stóra heimi hafa undanfarin ár verið að takast á tvö gagnstæð sjónarmið í leikskólafræðum. Annarsvegar þar sem nefnt hefur verið þroskamiðað – byggt á hugmyndafræði um  m.a. þroska barna og uppglötunarnám og gildi skapandi starfs og leiks. Segja má að undir þetta sjónarmið sé sterklega tekið í fyrirliggjandi frumvarpi. Hitt sjónarmiðið sem hefur verið ríkjandi í Bretlandi, Bandaríkjunum, Hollandi, Frakkalandi og Belgíu byggir á fræðslu og kennslumiðaðri starfsemi. Starf í leikskólum sem líkjast hugmyndum flestra um núverandi grunnskóla.

Í greinargerð með frumvarpinu er þessari leið hafnað. Hins vegar velti ég fyrir mér hugsuninni á bak við að aldurs- og þroskatengja næstu aðalnámskrá eins og boðað er í frumvarpinu. Sú sem nú er í gildi hefur verið afar víð og innan hennar hafa flestar leikskólastefnur getað staðsett sig. Þegar ég svo tengi umræðuna um aldurs og þroskaviðmiðin við 16. grein frumvarpsins um þær upplýsingar sem eiga að fara á milli skólastiga verð ég vör um mig. Eins og greinin er orðuð nú eiga leikskólar að senda allar upplýsingar sem þeir telja að gangi geti komið á milli skólastiganna, án samþykkis foreldra. Taka verður fram að Persónuvernd ríkisins hefur þegar gert athugasemd við orðalagið. Hinsvegar er boðuð reglugerð með frumvarpinu og þar á sjálfsagt að kveða nánar á um hvaða upplýsingarnar eiga að fara á milli.

Ef ég tengi umræðuna við fljótandi skólaskil, og við umræðuna um fimm ára bekki hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík, þá setur að mér hroll og ég verð uggandi. Uggandi yfir því að þarna sé verið að búa til bakdyraleið að skóla- og fræðslumiðuðum leikskólum, verið sé að boða einhverskonar formlegt mat á börnum. Mat sem kemur til með að vera meira stýrandi um innra starf en t.d. aðalnámskrá. Líka stýrandi um hvaða börn teljast TILBÚIN fyrir næsta skolastig og hvaða börn þurfa frekari LEIÐRÉTTINGU við á leikskólastiginu. Að með því beinist starfið í átt að því að aðlaga starfið “samræmda prófinu” sem leggja á fyrir barnið. Við höfum sporin að varast. Reyndar get ég ekki skilið þá grunnhugmynd að barnið eigi að vera tilbúið fyrir skólann en skólinn ekki tilbúinn fyrir barnið. Enda hugmynd sem er fjarri flestum leikskólakennurum.

Á vegum hinna ýmsu alþjóðastofnana sem hafa málefni og menntun barna á sinni könnu er sífellt verið að vinna að stefnumótun. Hana ber alla að sama brunni, að hinni norður- og mið-evrópsku hefð, áherslu á þroska, skapandi starf og nám í gegn um leik.

Sturlubarnið veltir sér

Við fylgjumst auðvitað spennt með öllu vörðum á þroskaleið Sturlubarnsins. Núna hefur hann unnið það stórkostlega afrek að fara af baki yfir á maga. Hann veltir sér á hliðina, beygir höndina í 90 gráður undir sig og og veltir alla leið. Einbeitingin og hugsunin er alveg skýr. En svo kann litla stýrið ekki enn að fara til baka, hann er því fastur á maganum og líkar það ekki vel. Við bíðum auðvitað eftir næsta þroskastökki. Undanfari veltunnar var að hann var farinn að taka dót og svo skipta sjálfur á milli handa. Gera sér grein fyrir að hægt er að nota hendur til mismunandi verka samtímis.

 


Átökin um elstu börnin

Ég var með erindi á ráðstefnu um helgina, erindið mitt fjallaði m.a. um hugmyndafræðileg átök sem hafa verið um elstu börn leikskólans nú og fyrir 40 árum. Þeirri umræðu tengist umræða um áhrif atferlismótunarsinna og ný-atferlismótunarsinna á leikskólastarfið. Sem meðal annars svar við þeirri kröfu, aðallega viðskiptalífsins, að færa menntun 5 ára barnanna inn í gunnskólann.

Ég velti líka fyrir mér hvernig leikskólastarf sé líklegt til að styðja við lýðræði, mín niðurstaða er að atferlisskólarnir séu ekki þar í hópi. Ég skoðaði hugmyndafræði leikskólanna út frá kenningum félagsfræðingsins Basil Bernstein. En hann hefur m.a. fjallað um áhrif nýfrjálshyggjunnar á skólastarf. 

Ég hlustaði líka sjálf á marga áhugaverða fyrirlesara og fékk innsýn í það sem aðrir eru að gera. Það er víða mjög öflugt starf í gangi og margar rannsóknir sem vert er að fylgjast með. Þeir sem vilja skoða ágrip erinda er bent á www.fum.is  


Nýtt meistaranám í Kennaraháskólanum

Umhyggjusamur leikskólakennari Meistaranám sem margir hafa beðið eftir. Þar sem áherslan verður á heimspeki. Ég veit að margir leikskólakennarar hafa beðið eftir slíku framhaldsnámi. Námi sem nýtist þeim sem vilja vera á gólfinu, en líka stjórnendum.  Minni á kynningu í KHÍ í dag. 

 

Meistaranám í heimspeki menntunar meistaranámi í heimspeki menntunar miðar að því að svara kalli aðal­námskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla um menntun til ábyrgrar, gagnrýninnar þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi og að mennta fólk til frumkvæðis í lýðræðis­legu skólastarfi, í heimspeki menntunar og heimspekilegri samræðuaðferð í kennslu.   

 

Markmið námsins er að nemendur öðlist þekkingu á lýðræði sem kenn­ingu og hugsjón, áhrifum þess og möguleikum í skólastarfi og hlut þess í þróun mannlegra samfélaga og í samskiptum einstaklinga og þjóða. Nemendur öðlist skilning á grunnforsendum lýðræðis í samfélagsgerð, hugsunarhætti einstaklinga og samskiptaháttum og færni til að leiða skólastarf inn á brautir ábyrgrar, gagnrýninnar og lýðræðislegrar þátt­töku allra sem að því koma. Nemendur öðlist einnig þekkingu á öðrum grundvallar­viðfangsefnum í heimspeki og hugmyndasögu menntunar. Meistaranám í heimspeki menntunar er fullt tveggja ára nám, þ.e. 120 ECTS (60 einingar) nám sem skiptist á fjórar annir. Nemendur geta tekið námið á lengri tíma auk þess sem hluta námsins er hægt að taka í fjarnámi.

 


Sennilega besta leiðin

Sjálfstæðisfólks vegna verður að viðurkennast að þetta er sennilega það eina skynsamlega í stöðunni. Blóðug átök sem hefðu annars fylgt foringjauppgjöri er forðað.  Fólk fær tíma til að ná áttum og stilla upp trúverðugri stöðu fyrir kjósendur. Það hefði verið grátbroslegt skuespil fyrir okkur hin að horfa upp á slagsmálin.


mbl.is Vilhjálmur ætlar að sitja áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjörnukíkir í dag - við þar

Í dag klukkan tvö verður þátturinn Stjörnukíkir á dagskrá á rás 1. Meðal þeirra sem rætt verður við í dag er ég og Michelle leikskólakennari á Stekkjarási í Hafnarfirði. Efni þáttarins verður skapandi starf í leikskólum. Ég vona sannarlega að mér hafi tekist að segja eitthvað af viti. Hvet sem flesta til að hlusta.   
  
Á ríkisútvarpinu er nú búið að setja nokkra þætti inn í hlaðvarp, þar er hægt að hlusta á ýmsa gamla þætti. M.a. allan Stjörnukíkir frá upphafi. Ég hvet sem flesta til að gera það, það er tíma vel varið. Sjálfri finnst mér þægilegt að vinna með rás 1 á.
Annars var viðtal við mig í síðustu viku í tilefni vísindasmiðju á vetrarhátíð í Samfélaginu í nærmynd hér má hlusta á það í nokkra daga í viðbót.
  
AF VEF ruv.is
Þetta er í vinnunni minni ... þar er ég flugmaður og einkaspæjari og ég ræð öllu.

Við bregðum okkur í töfraherbergið í leikskólanum í Stekkjarásií Hafnarfirði en þar er að finna alls kyns efnivið, sælgætisbréf, trjágreinar, gostappa og efnisbúta svo eitthvað sé nefnt en efniviðurinn ratar inn í sköpunarverk barnanna í leikskólanum sem búa til bíla og flugvélar, tölvuskjái og vinnustaði, stelpur og stráka úr könglum, kökudunkum, pappakössum og bómullarhnoðrum. Ímyndunaraflinu eru engin takmörk sett og hlutirnir í töfraherberginu geta tekið á sig ótrúlegustu myndir. Töfraherbergið byggir á efnisveitunni Remida sem finna má í norður-ítölsku borginni Reggio Emilia en þar komu leikskólayfirvöld á samstarfi við fyrirtæki og verksmiðjur sem láta af hendi rakna afgangsbirgðir og úreltar vörur af ýmsu tagi sem nýtast leikskólum í borginni í skapandi starfi. Umhverfisvernd og endurnýting er þannig innbyggð í starf Remidu. Rætt verður við Michelle Soniu Horn, deildarstjóra listasmiðju Stekkjaráss um starfið á leikskólanum.

Einnig verður rætt við Kristín Dýrfjörð, leikskólakennara og lektor við leikskóladeild Háskólans á Akureyri sem segir frá ítölsku skólastefnunni Reggio Emiliasem hefur sett mark sitt á fjölmarga leikskóla hérlendis á undanförnum árum og áratugum. Stefnan hefur vakið heimsathygli, en árið 1991 valdi tímaritið Newsweek Reggio Emilia skólana á meðal tíu bestu skóla í heimi.

Hilmar Örn Hilmarsson tónskáld tekur að sér að rifja upp sögur af eftirminnilegum kennara. Tónlistin í þættinum er eftir John Cage (brot úr A Book of Music fyrir tvo undirbúna flygla í flutningi Joshua Pierce og kafli úr Svítu fyrir dótapíanó, einnig í flutningi JP) og Benna Hemm Hemm (Riotmand af plötunni Ein í leyni).


Það liggur eitthvað stórkostlegt í loftinu

Þrátt fyrir aðför sjálfstæðimanna í Reykjavík að leikskólanum finnst mér þessa daga eins og ég sé að upplifa eitthvað merkilegt. Eitthvað sem er alveg einstakt. Tilfinning sem ég fann sterkt fyrir þegar við leikskólakennarar tókum risaslaginn. Þegar við forðum því að leikskólinn skilgreindist sem félagslegt úrræði en var staðfestur sem skóli þar sem menntun færi fram. Það var árið 1991. Ég ásamt mörgum félögum mínum vörðum mörgum stundum á þingpöllum. Við ræddum við alla sem við þekktum og voru tengdir í pólitík, við leikskólakennarar tókum höndum saman, hvar í flokki sem við stóðum og stóðum saman sem ein manneskja. Við skipulögðum fundaferðir um landið til að stappa stálinu í fólk, til að efla liðsandann, ferðirnar fengu það fræga heiti Amma Dreki. Við fengum foreldra í lið með okkur, við fengum samfélagið í lið með okkur.

 

Í dag varð ég spurð hvort nýr amma Dreki væri í uppsiglingu. Það er nefnilega svipuð stemming í loftinu. Kannski er þetta eitthvað sem gerist þegar við upplifum að við þurfum að verjast með kjafti og klóm. Það vita allir sem þekkja mig að ég er stéttafélagssinni sem stóð eitt sinn í framvarðarsveit leikskólakennara. En það skal enginn misskilja svo að vörn mín snúist um að verja hagsmuni leikskólakennara. Í siðareglum leikskólakennara (þeim sem giltu alla vega þegar ég var þar félagi og ég vona að ég hafi tileinkað mér) var ein fyrsta skylda okkar, skyldan gagnvart hagsmunum barna. Undan þeirri skyldu get ég ekki hlaupist og ef einhverstaðar eru eftir mig marðar pólitískar tær, verður bara svo að vera. Það batnar. En eyðilegging eins og nú er boðuð á leikskólakerfinu, hún batnar ekki á viku. Enn um sinn boða ég því tátroðslu.

 

Hvað er það sem gleður mig svona? Það sem gleður mig er að mér finnst vera vakning gangvart skapandi starfi, skapandi efnivið, skapandi hugsun. Vakning gagnvart gagnrýninni hugsun, gagnvart forvitni og rannsóknum barna. Gagnvart því að lifa í núinu og vera til staðar í núinu. Gagnvart því að setja alla hugsun á haus og hugsa upp á nýtt, frá nýrri sýn, úr nýrri vídd. Þessa daga er ég að hitta fólk út um allt þjóðfélagið sem spyr, hvernig er hægt að efla skapandi starf og hugsun? Margir leita til mín til að fá upplýsingar um starfið í Reggio Emilia. Eru forvitnir um þá tilraun sem er þar í gangi og hefur verið s.l. 50 ár. Í Reggio er fólk stundum spurt, hvaða rannsóknir getið þið sýnt okkur um að starfið virki. Þau svara gjarnan, samfélagið okkar er okkar besti vitnisburður.

 

Sturlubarnið í ungbarnasundi

Það var stórkostleg upplifun að skreppa í Mýrina í Garðabæ og fá að fylgjast með Sturlubarninu í ungbarnasundi. Hann skríkti og hló. Var mjög athugull og passaði að líta reglulega í áttina til ömmu og afa, svona eins og til að tékka á hvort við værum ekki örugglega að fylgjast með. Birna kennari leiddi tímann með styrkri stjórn. Greip eitt og eitt ungabarn og lét það kafa. Fylgdist árvökul með stoltum foreldrum gera slíkt hið sama.

Mér fannst líka gaman að heyra öll leikskólalögin sem hún notaði með. Hvert lag átti sína hreyfingu í vatninu. Og svo klöppuðu foreldrarnir og hrósuðu ungunum sínum. Ég er auðvitað svo leikskólaskilyrt að ég ætlaði alltaf að fara að syngja með. Ég var með myndarvélina og Lilló með myndbandsvélina. Hann náði alveg stórgóðum myndum af tímanum. Litla fjölskyldan kom svo í heimsókn á sunnudaginn og fékk að sjá afraksturinn. Fyndnast var að sjá brosið sem færðist yfir andlit Sturlubarnsins þegar að hann heyrði rödd foreldrana óma úr sjónvarpinu hvort sem var í söng eða hrósi.

borða putta  standa

áhugsamurgul önd


Það er hægt að læra af mistökum annarra

Í nóvember sl. heimsótti ég hollensk leikskólasamtök. Ástæða heimsóknarinnar var opnun sýningar  um hollenskt leikskólastarf í anda ítalskrar leikskólahugmyndafræði sem kennd er við borgina Reggio Emila. Hluti af dagskránni fólst í að Hollendingarnir sögðu okkur (fulltrúum nokkurra landa) frá aðstæðum þar. Textinn hér að neðan er úr minnisblaði sem ég skrifaði fyrir sjálfa mig eftir heimsóknina.

100_5825

 

Gestgjafarnir gáfu okkur smánasaþef inn í hið hollenska kerfi, sem er bæði gamaldags og flókið. Þeir sögðu okkur að Hollendingar séu enn að býta úr nálinni með breytingar sem þeir gerðu á skólakerfinu um 1990 þegar þeir tóku 4 og 5 ára börnin inn í opinbera skólakerfið – af leikskólunum. Þetta hafi leitt til bæði afturhaldsemi og lítillar þróunar í mörg ár á eftir. Má eiginlega segja að afleiðingarnar hafi verið hræðilegar fyrir konur þar sem þeim var með þessari ákvörðun ýtt út af vinnumarkaði. En líka fyrir börnin sem allt í einu hættu að vera í barnmiðuðu umhverfi leikskólans og var ýtt inn í formlegt umhverfi grunnskólans, með þeim kröfum sem því fylgdu. Það sem verra var grunnskólinn og kennarar það voru ekki menntaðir né á annan hátt undirbúnir undir að taka við börnunum. Þetta hafi leitt til þess að starfið varð meira fræðslumiðað en uppgötunarmiðað.

 

  100_5861    100_5858

 

Þetta hafi líka verið sérlega slæm þróun í ljósi þess að framan af öldinni stóðu Hollendingar meðal fremstu þjóða í menntun yngstu barnanna. Þangað flúði María Montesorri undan fasistum á Ítalíu og þar þróaði hún hugmyndir sínar. Þar átti frískóla-hreyfingin (Freinet)sterkar rætur sem og sterk Fröbelsk hefð. En með breytingunni var leikskólakerfinu fleygt aftur í tímann. Kom fram í máli gestgjafanna að það sé jafnvel svo í dag að það fylgi því ákveðin skömm að hafa börnin sín í leikskóla. Afleiðingin er að flestar mæður reyna að stytta vinnudaginn svo börnin þurfi ekki að vera lengi á “þessum stöðum”. Skiptir þá ekki máli hver gæðin eru. Það fylgir því ákveðið stimpill að láta börnin frá sér.

Sögðu gestgjafar okkar að þetta viðhorf hafi líka speglast í orðinu sem notað var fyrir leikskóla framan af “opfangen” – að taka upp á arma sér eða grípa börnin. Það sem er hins vegar jákvætt og við Íslendingar mættum taka til fyrirmyndar er að fjölskyldugildi eru afar sterk í Hollandi og börnin eru bæði afar mikils metin og stór hluti af sjálfsmynd fjölskyldunnar. Þetta sé meðal annars vegna sögu Hollendinga en þeir fullyrða að kjarnafjölskyldan sé “næstum” því fundinn upp af þeim. Það kom til vegna þess meðal annars að þeir eru mikil verslunarþjóð og “þurftu” því ekki að eiga eins mörg börn til að hjálpa til við vinnu og þurfti í sveitum. Þess vegna hafi líka síðustu 3-400 árin verið lögð mikil áhersla á félagstengsl innan fjölskyldan, áhersla á að börn ættu auðvelt með samskipti. Það voru þau gildi sem máli skiptu til að styrkja þjóðina sem verslunarþjóð.

Vegna þessa hafi líka verið litið svo á síðari tímum að góður leikskóli sé skóli sem líkist heimilum sem mest, þar sem starfsfólkið tekur að sér að ganga börnun í móðurstað á meðan að þær neyðast til að vera frá þeim. Kannski eilítið eins og var á Íslandi fram undir alla vega 1980. Fæstir líti svo á að menntun eigi sér stað í leikskólanum, hann sé fyrst og fremst geymslu og gæslustaður. Hann er neyðarbrauð. (Þetta minnti mig reyndar á fræga bók sem kom út á Ísalandi um 1980, Dagheimili, geymsla eða uppeldisstaður.)

                            

Árið 2003 setti hægri stjórnin í Hollandi lög sem tóku fyrir afskipti hins opinbera að kerfinu undir 4 ára eins og fyrr segir, nú er ný mið-vinstri stjórn og er hún með lög í undirbúningi sem eiga fella fyrri lög úr gildi, enda sjái flestir að þau gangi ekki upp. Stendur til að leyfa skóla fyrir börn á aldrinum 0-7 ára. Sporen (samtökin sem ég heimsótti) opna slíkan skóla 1. janúar 2009, hann er nú í byggingu.

Nú er það svo að menntun  4- 6 ára barna er hluti af hinu opinbera skólakerfi en menntun og þjónusta við yngstu börnin á hinum frjálsa markaði. Jafnvel svo mikið að ekkert er borgað með skólunum og markaðurinn er algjörlega látinn ráða. Fáar reglur eru, en þær snerta aðallega rými, mönnun og öryggiskröfur. Mjög litlar menntakröfur eru gerðar til þeirra sem vinna með yngstu börnin. Af hálfu stjórnvalda hefur fyrst og fremst verið litið á skólana sem geymslu og þjónustu.

Hér er slóð þar sem ég fjalla aðeins um Fröbel og íslenska leikskólann.

100_5921  100_5911 

100_5908


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband