Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Að vera með athyglisbrest er að vera víðhugull

Vinkona mín hélt erindi í haust á vegum menntavísindasviðs HÍ. Þar kynnti hún nýtt hugtak sem hún hefur hugsað mikið um.  Vinkona mín Arna Valsdóttir er myndlistarkona með víðan bakgrunn í listum, hún er líka kennari og móðir. Hún hefur mikið pælt í hvað felist í að vera skapandi að vera fær um skapandi hugsun. Í gærkvöldi vorum við að ræða þetta hugðarefni og ég spurði um fyrirlesturinn hennar í haust. Hún sagði mér að í anda þess að horfa á styrkleika okkar allra sé hugtakið ahyglisbrestur eitur í hennar beinum, með því er einblínt á neikvæðar hliðar einstaklingsins. Hún vill að við tölum um víðhygli, að viðkomandi hafi hæfileika til að tengja saman gríðarlega ólíkar hugmyndir, haft margt undir í einu. Við ræðum aldrei um að þá sem ekki búa yfir víðhygli sem þröngsýna, við segjum þá hafa góða einbeitingu. Ég er búin að hugsa heilmikið um þetta samtal okkar og ég held að ef okkur tekst að breyta því hvernig við horfum á athyglisbrest, ef okkur tekst að taka upp hugtak sem gefur til kynna jákvæðar afleiðingar að í stað þess að einblína á þær neikvæðu þá má vera að þau börn sem eru víðhugul mæti annarskonar viðmóti í skólum og samfélagi. Arna, takk fyrir þetta nýja hugtak.  

Piparkökuhúsin

í eldhúsinu
 

Í dag hef ég átt notalega stund með börnunum í fjölskyldunni. Markmið dagsins var að hver systkinahópur átti að teikna piparkökuhús. hvert hús var mælt út og vinnuteikningar gerðar. Deigið flatt út og síðan bakað. Gerður systir gerðist meistari sykurbræðslunnar og festi öll húsin saman. Börnin tóku svo við og skreyttu af hjartans list. Það var gaman að sjá bræðurna þrjá koma sér saman um hvernig hús þeir vildu gera, og stóra frænda hjálpa þeim með vinnuteikninguna. Og þörf frænda míns í Þorlákshöfn fyrir symmetríu á húsi þeirra bræðra og hvernig þeir fengu smá hjálp frá pabba. Íris eina stelpan í hópnum gerði  kirkju og vildi hafa prest í predikunarstól innst í henni og Stefán gerði Þrúðvang, húsið sem við sjáum út um eldhúsgluggana. Sturlubarnið lallaði um og bablaði við frændur og Írisi.

á skreytingastigiþorp

bumbubúinn nýjasti pilturinn í fjölskyldunaþorp 2

 

á skreytingastigi 4

Tækifæri og ógnanir kreppunnar

Segull öfugur

Undanfarið hef ég hitt leikskólakennara hér og þar. Það fyrsta sem ég geri er að spyrja frétta? Kreppan og áhrif hennar, bæði slæm og góð eru ávallt umræðuefni. Betra að ráða fólk, margir óska eftir að fara í fullt starf sem áður voru i hlutastarfi, fleira fagfólk. Áhyggjur af börnum og fjölskyldum þeirra eru fyrirferðamiklar. Hugleiðingar um hvað leikskólinn geti gert til að mæta því. Rætt um að ekki megi stoppa börnin í hugleiðingum sínum, en samtímis gæta þess að vera ekki að ræða um kreppuna á eigin forsendum nálægt þeim. Allt þetta sem við kunnum um að bregðast við áföllum og það sem við kunnum til að ástunda "alvöru" lýðræði í anda Deweys. Þar sem raunveruleikinn er viðfangsefni en á forsendum barnanna. Um þetta snýst stór hluti umræðunnar. Annað sem talað er um er hvernig rekstraraðilar leikskóla eru að skera niður, ýmsar óhefðbundnar leiðir farnar, spurning hvort að sumar þeirra standist lög og hvað þá kjarasamninga. Það virðist sem mikil sköpun sé þar á ferð. Minni sveitarfélög íhuga að leggja leikskólana undir grunnskólana, starfsmannafundir eru teknir af, endurmenntun skorin niður í lítið sem ekkert, sumstaðar eru laun yfirmanna lækkuð, afleysingar ekki keyptar inn fyrir fasta liði og svo framvegis. Starfsmenntaferðir, jólamatur og jólagjafir til starfsfólks eru slegnar af. Allstaðar leitað leiða til að draga úr kostnaði. Leikskólar eru stofnanir sem nutu ekki góðærisins en þeir eiga sannarlega að borga það.

Leikskólakennararnir sem ég hef talað við eru margir hugsi yfir ástandinu. Þeir velta fyrir sér hvernig best er að bregðast við. Við leikskólakennarar sem aðhyllumst starf í anda Reggio Emilia erum með skólaþróunardag í janúar. Þar er öllum kostnaði haldið í algjöru lágmarki samt velta einhverjir honum alvarlega fyrir sér. En nú reynir á að við höldum hópinn, að við deilum reynslu og ræðum faglegar forsendur starfsins. Að við styrkjum faglega innviði. Samtímis megum við ekki sofna á verðinum og láta með pennastrikum svipta okkur hlutum sem tók okkur áratugi að berjast fyrir.  

Nú ríður á sem aldrei fyrr að vera félagslega virkur, taka þátt í starfi t.d. stéttarfélaga af meiri afli en áður.


Karlinn undir klöppunum, situr á svörtuloftunum

Ég hef ekki bloggað að ráði undanfarið, engar sérstakar ástæður fyrir því. Það er ekki eins og málefni hafi skort. Samfélagsmál stór og smá. Frammistaða flokksins míns sem ég er ekkert sérlega sæl með hefði t.d. verið verðugt umfjöllunarefni. Flokks sem ég hef enn ekki yfirgefið, það er þessi genitíski kratismi í mér sem virðist þola mikið. Ég er þeirrar skoðunar að kosið verði fyrir lok kjörtímabils. Ég held að hjá því verði ekki komist. Ég var ein þeirra sem fannst að það ætti að gefa ríkisstjórninni svigrúm til starfa, hinsvegar er í mér beygur um hvernig hún hefur nýtt þetta svigrúm. Ég eins og 90% þjóðarinnar skil ekki hvað er verið að halda í kallinn á Svörtuloftum. Þennan sem situr undir klöppunum og klórar sér með löppunum. Hann er fyrir löngu búinn að bregðast trúnaði atvinnurekenda sinna, þjóðarinnar. Á öðrum vinnustöðum væri manninum sagt að taka sinn pynginn. Kannski er þetta framtaksleysi til að takast á við manninn á Svörtuloftum það sem vekur hjá manni ugg. Ef heil ríkisstjórn getur ekki losað sig við mann sem er löngu búinn að brjóta jafn illilega af sér í starfi og hann, hvers er hún þá umkomin? Þess vegna er klapparkarlinn í sjálfu sér ekki vandamálið, heldur er það hvernig málin snúast um hann, birtingarmynd vanmáttar ríkisstjórnarinnar. Því miður.

Annars hef ég verið að sinna fjölskyldunni, mínu Sturlubarni sem vill samt helst sjá afa sinn og mig í neyð.  Eftir miklar tilfæringar hér á heimilinu er það loks að komast í lag. Jerry karlinn Garcia kominn á sinn stað og Sturla fær að heilsa honum. Jerrý er allsber engill með hökutopp og bassa sem hangir hér í ganginum og Sturla minn átti og hékk í herberginu hans. Sturlubarnið hefur mikla ást á Jerrý og þarf að skoða hann nokkrum sinnum í hvert sinn hann kemur.

En Sturlubarnið er að taka mikil þroskastökk, gera sér betur grein fyrir sjálfum sér. Hefur ákveðnar skoðanir á ýmsu og kann að láta þær í ljós án orða. T.d. vill hann ekki að við borðum fyrir framan sjónvarpið, dregur okkur að borðstofuborðinu eða að stólum við eyjuna og bankar ákveðið. Mér finnst þetta reyndar fyrirmyndaviðhorf hjá honum og styð hann í þessu. Góð gildi þar, sem foreldrarnir hafa haldið að honum.

Að lokum þá er hún Guðrún Alda vinkona mín búin að opna heimasíðu fyrir leikskólann sem hún er að fara að opna eftir áramót, veit að hún var að auglýsa um helgina og ég er mjög spennt að sjá hverning henni gengur að ráða. Held að nú sé möguleiki til að byggja upp skemmtilega og fjölbreytta starfsmannahópa í leikskólum landsins.  


Á Eddunni - um endursköpun gilda

Í dag fór ég á Edduna já eða Grímuna, ég var á ráðstefnu leikskólakennara þar sem ég hlustaði á hvert erindið á fætur öðru, hlustaði á söngleik leikskólakennara sem útskrifuðust fyrir 31 ári (og þær sem sungu starfa allar að leikskólamálum), og salurinn fékk að syngja með. Og svo sungum við soldið meir. 

Erindin fjölluðu um starfið í leikskólunum, um hvernig leikskólakennarar geta nýtt sér örsögur (learning stories) úr starfinu til að læra um börnin, um félagslega færni þeirra og vellíðan í leikskólanum.  Um hvernig leikskólakennarar geta skoðað uppeldisfræðilegar skráningar (pedagogical documentation) með gleraugum valdeflingar (empowerment). Um tengsl valdeflingar og lýðræðis í starfinu meðal barnanna. Um hvernig leikskólakennarar nota samverustundir til að vinna með bókmenntir og dægurmenningu. Hvernig þeir leiða börn áfram í að kryfja hugtök, í dag fengum við greiningu barna í einum leikskóla á hugtakinu græðgi. Græðgi er að taka til sín meira en maður þarf af því að maður getur það. Svo hlustaði ég á erindi um nýjar hugmyndir um fagmennsku, sem byggja á því að velta hinum Weberska valdapíramída á hliðina, að taka upp samráð og lýðræðislegri stjórnarhætti (og vissulega líka aðstæðubundna stjórnum), stjórnarhætti sem leiða til valdeflingar þeirra sem í leikskólanum starfa.  Svo sungum við meira og knúsuðumst og föðmuðumst.

Ég sat þarna og hugsaði, þetta er okkar Edda, okkar Gríma, uppskeruhátíðin okkar. En vegna þess að við erum ekki leikarar eða fjölmiðlafólk þá birtust engar sjónvarpsvélar, birtust engar fréttatilkynningar (já þær voru sendar) aðsendar greinar í blöð áttu ekki upp á pallborð þeirra sem slíku ráða. Okkur var ekki skammtaður besti útsendingartími sjónvarpsins.  

Í samfélaginu í dag ræðum við um endursköpun gilda, að setja manneskjuna í forgang, að gefa börnum gaum. Nú er áherslan á hin mjúku gildi. En þessi áherslubreyting hefur enn ekki náð inn á sjálfhverfa fjölmiðla. Þegar ég kom heim lét ég þetta mat mitt í ljós við tvo reynda blaðamenn sem staddir voru þar. Þið hafið ekki unnið PR vinnuna ykkar, var svarið. Sem sagt sökin er okkar ekki fréttamatinu að kenna. 

PS. Þetta með PR var sagt í stríðnislegum tón (enda veit viðkomandi vel hvaða hnappa er hægt að ýta á til að fá viðbrögð) en ég held samt að baki liggi ákveðin þekking á viðteknum vinnubrögðum fjölmiðla. Vinnubrögðum sem einhvertíma voru kennd við kranafréttamennsku.  


Listuppeldi andsvar

Í dag fékk ég bréf frá finnskri vinkonu minni, listakonu sem hefur m.a. unnið að listnámi í leik og grunnskólum. Hún var að ræða þá erfiðu tíma sem hafa verið í finnskum skólum í haust, í kjölfar þeirra voðaatburða sem þar áttu sér stað. Hún segir andsvarið vera að finnska skólakerfið kallar eftir aukinni áherslu á listauppeldi í skólum. Til að bæta andrúmsloftið, til að létta álagi af börnum og ungmennum. Til að þau finni nýjar leiðir til að vinna með tilfinningar. Finnskir skólar hafa komið gríðarlega vel út úr alþjóðlegum prófum þar sem tiltekinn námsárangur er viðmiðið. En svo má velta fyrir sér því sem ekki raðast hátt á lista samanburðarglaðra stjórnvalda, líðan barna. Eitt af því sem við höfum getað stært okkur af er einmitt hvað börnunum líður yfirleitt vel í skólanum.  

Nú á tímum er listauppeldi inn í skólum þáttur sem við eigum að gefa gaum. Styrkja og styðja við.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband