Á Eddunni - um endursköpun gilda

Í dag fór ég á Edduna já eða Grímuna, ég var á ráðstefnu leikskólakennara þar sem ég hlustaði á hvert erindið á fætur öðru, hlustaði á söngleik leikskólakennara sem útskrifuðust fyrir 31 ári (og þær sem sungu starfa allar að leikskólamálum), og salurinn fékk að syngja með. Og svo sungum við soldið meir. 

Erindin fjölluðu um starfið í leikskólunum, um hvernig leikskólakennarar geta nýtt sér örsögur (learning stories) úr starfinu til að læra um börnin, um félagslega færni þeirra og vellíðan í leikskólanum.  Um hvernig leikskólakennarar geta skoðað uppeldisfræðilegar skráningar (pedagogical documentation) með gleraugum valdeflingar (empowerment). Um tengsl valdeflingar og lýðræðis í starfinu meðal barnanna. Um hvernig leikskólakennarar nota samverustundir til að vinna með bókmenntir og dægurmenningu. Hvernig þeir leiða börn áfram í að kryfja hugtök, í dag fengum við greiningu barna í einum leikskóla á hugtakinu græðgi. Græðgi er að taka til sín meira en maður þarf af því að maður getur það. Svo hlustaði ég á erindi um nýjar hugmyndir um fagmennsku, sem byggja á því að velta hinum Weberska valdapíramída á hliðina, að taka upp samráð og lýðræðislegri stjórnarhætti (og vissulega líka aðstæðubundna stjórnum), stjórnarhætti sem leiða til valdeflingar þeirra sem í leikskólanum starfa.  Svo sungum við meira og knúsuðumst og föðmuðumst.

Ég sat þarna og hugsaði, þetta er okkar Edda, okkar Gríma, uppskeruhátíðin okkar. En vegna þess að við erum ekki leikarar eða fjölmiðlafólk þá birtust engar sjónvarpsvélar, birtust engar fréttatilkynningar (já þær voru sendar) aðsendar greinar í blöð áttu ekki upp á pallborð þeirra sem slíku ráða. Okkur var ekki skammtaður besti útsendingartími sjónvarpsins.  

Í samfélaginu í dag ræðum við um endursköpun gilda, að setja manneskjuna í forgang, að gefa börnum gaum. Nú er áherslan á hin mjúku gildi. En þessi áherslubreyting hefur enn ekki náð inn á sjálfhverfa fjölmiðla. Þegar ég kom heim lét ég þetta mat mitt í ljós við tvo reynda blaðamenn sem staddir voru þar. Þið hafið ekki unnið PR vinnuna ykkar, var svarið. Sem sagt sökin er okkar ekki fréttamatinu að kenna. 

PS. Þetta með PR var sagt í stríðnislegum tón (enda veit viðkomandi vel hvaða hnappa er hægt að ýta á til að fá viðbrögð) en ég held samt að baki liggi ákveðin þekking á viðteknum vinnubrögðum fjölmiðla. Vinnubrögðum sem einhvertíma voru kennd við kranafréttamennsku.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við fengum athygli á aðalmiðlinum ; roggur. ( Á roggi eða rogg ??)

Eins og kom fram í gær þá á þróun í leikskólastarfi og málum sér stað innan frá. Við erum aflið sem knýr fram jákvæðar breytingar. Við þurfum ekkert innantómt þvaður í kringum okkur því að við erum ekki háð skjalli til að gera vel.

( "þau eru súr" refurinn

Ingibjörg Kristleifsdóttir (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 08:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband