Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Frumkvöðlar eða fylgjendur?

Fyrirlestur á stofnfundi SARE   (Samtök áhugfólks um starf í anda Reggio Emilia)

 

Velkomin öll, það er gaman að sjá og finna hversu vel hefur verið tekið í stofnun samtaka áhugafólks um starf í anda Reggio Emilia. Í tvo áratugi höfum við verið að grúska, mest hvert í sínu horni og stundum svolítið saman. Sumir leikskólar hafa frá upphafi skilgreint starf sitt í anda Reggio Emilia á meðan að aðrir hafa tileinkað sér ákveðna þætti eða sýn til barna. Sjálf telst ég til þessa síðastnefnda hóps. Hef oftast verið að á hliðarlínunni, en stundum með nefið á kafi. Eins og þið vitið sjálfsagt mörg hérna inni þá vildi Loris Malaguzzi minnst sjálfur skrifa um starfið í Reggio Emilia, hann óttaðist að með því móti yrði það að ákveðnum trúarbrögðum, heilagri kýr sem ekki mætti snerta. Hann hafnaði því að starfið sem slíkt væri hugmyndarfræði eða námskrá – en hann taldi það byggja á ákveðnum grunngildum, aðallega á gildum lýðræðis sem birtust í trú á getu barna, trú á mikilvægi skapandi og gagnrýnnar hugsunar, trú á því að með því að hafa öll skynfæri opin og hlusta með þeim öllum, vera vökul, gætum við kynnst því hvernig börn hugsa og læra. Við gætum þannig öll lært. Með því móti værum við samrannsakendur barna og þátttakendur í ævintýri daglegs lífs. Á þann hátt stuðluðum við að því að börnin okkar yrðu frumkvöðlar en ekki fylgjendur. Þannig væri líka tryggt að nýjasta þekking mæld á kvarða lýðræðis væri ávallt höfð að leiðarljósi í uppeldisstarfinu. Malaguzzi trúði líka á mikilvægi þess að láta reyna á mörk og ýmis landamæri, hann trúði á nauðsyn þess að fólk úr ýmsum stéttum af mörgum þjóðernum skiptust á skoðunum og störfuðu saman. Það var vegna þessarar sýnar sem borgin Reggio Emila opnaði leikskóla sína fyrir umheiminum. Hluti af þeirri opnun var farandsýning sem  vakti athygli víða um heim. Á vegum menntamálaráðuneytisins og Kjarvalsstaða kom sýning hingað árið 1988. Við höfum grafið upp frétt úr ríkissjónvarpinu frá þeim tíma. Það er skemmtilegt að geta þess að síðust 3 ár hafa Norrænu Reggiosamtökin verið að vinna í því að fá nýja sýningu frá Reggio Emilia og standa samningaviðræður yfir. Okkar von er að hægt verið að fá hana hingað 2008 eða 2009.

 

Brot úr fréttatíma frá því í maí 1988 sýnt.

 

Eins og sjá mátti í þessu myndbroti var leikskólinn Marbakki sá fyrsti sem skilgreindi sig sem skóla sem starfar í anda Reggio Emilia, það gerði hann fyrir nákvæmlega 20 árum. Litlu fyrr höfðum við sem vorum þá í Fósturskólanum fengið nasaþef af þessu ævintýr. Man sjálf eftir tíma í myndmennt þar sem við fengum að sjá slides myndir frá Reggio Emilia og undrun okkar yfir því sem við sáum þar. Fyrsti hópurinn sem heimsótti Reggio Emilia héðan gerði það reyndar vorið 1985 og voru það útskriftarnemar frá Fósturskóla Íslands.

 

Á þeim árum sem liðin eru hafa eins og áður er komið fram fjöldi skóla og fólks valið að deila lífsýn og viðhorfi til barna með fólkinu í Reggio Emilia. En mest hefur það þó verið á óformlegan hátt. Þó má ekki gleyma að árið  2001 stóðum við í Háskólanum á Akureyri fyrir alþjóðlegri ráðstefnu með norrænu Reggio Emilia samtökunum. Ráðstefnu þar sem núverandi uppeldis og heimspekilegur leiðtogi starfsins í Reggio Emilia, Carlina Rinaldi flutti inngangserindi. Af veikum mætti höfum við líka undanfarin ár haldið úti fréttabréfinu, Rögg, sem sum ykkar þekkið til. En vegna tímaskorts hefur það þó stundum farist fyrir.

 

Síðastliðin 3 ár hefur hópur starfsfólk leikskóla, aðallega á höfuðborgarsvæðinu og við frá HA hist til skiptis í nokkrum leikskólum. Þar hafa skólarnir kynnt starfsemi sína, sagt frá verkefnum sem þeir hafa verið að vinna að og sýnt og rætt um uppeldisfræðilegar skráningar sem hver leikskóli hefur unnið. En nú er komið að því að stíga nýtt skref.

 

Mig langar á þessu punkti að fá að deila með ykkur bréfi sem fundinum barst frá leikskólanum Iðavelli á Akureyri, en hann er einn þeirra skóla sem hefur nýtt sér og tileinkað sér margt frá Reggio Emilia. 

 

Sæl vinkona. Gaman að heyra af þessu framtaki ykkar í dag. Við á Iðavelli verðum með ykkur í anda og ég  vona að þið náið að kveikja góða strauma á fundinum. Fyrst hugsaði ég sem svo, hvaða þörf væri eiginlega á svona samtökum, væri ekki nóg að hafa þetta svolítið óljóst og loðið, nánast í anda stefnunnar sem ekki vill verða hugmyndafræði og svoleiðis. En þegar ég fór að hugsa (geri það stundum) þá er líklega ekki vanþörf á vettvangi til að bera saman bækur sínar og hitta aðra sem eru að pæla í svipuðum hlutum.

 

Aldrei aftur fasismi, stöðvum peningafasismann. Líklega eru vinnubrögð í skólum í anda Reggio Emilia besta leiðin til að beina þjóðfélaginu úr brjáluðu efnishyggjukapphlaupi, í að rækta anda, sál og líkama. Það þýðir lítið að breyta fullorðnu fólki en betra að leggja rækt í að sinna börnunum. Ég enda á því, að vitna í Önnu M. Guðmundsdóttur bónda á Hesteyri í Mjóafirði:

Börn njóta þess að vera treyst sem vitibornar manneskjur og búa lengi að þannig fræðslu. 

Jæja nóg um lofið nú er ég farin að roðna sjálfur, bless í bili, fyrir hönd leikskólakennara á Iðavelli, Arnar.

  

   Framtíðarsýn 

 

Ef til vill má segja að við deilum mörg þeim skoðunum sem þarna koma fram. Að við viljum vera opin og ekki of bundin á hugmyndafræðilegan klafa. Viljum geta haft svigrúm til þess að bregðast við nýrri þekkingu, með tillit til lífsýnar okkar. En samtímis hefur þörfin fyrir sameiginlegum umræðugrundvelli og samræðu okkar í milli vaxið. Við höfum þörf fyrir að bera saman bækur okkar, þörf fyrir að læra af og með hvert öðru. Til þess stefnum við á sameiginleg markmið, stefnumá að læra saman. Skipuleggja starfsdaga, námskeið og  ráðstefnur. Halda úti heimasíðu, vera virk í samfélagsumræðunni.

 

Þetta fyrst starfsár höfum við ákveðið að tileinka starfi í anda ReMídu, og ljúka því með ráðstefnu, smiðjum og námskeiði á 20. ára afmæli sýningarinnar á Kjarvalstöðum.

 

Takk fyrir.


Hátíðisdagur

Hjá mér er margfaldur hátíðisdagur í dag, fyrsta lagi ætlum við að stofna samtök fólks sem hefur áhuga á aðallega leikskólastarfi í anda Reggio Emilia, sem hefur áhuga á lýðræði, gagnrýninni hugsun og sköpun. Samkvæmt þeim póstum sem ég hef fengið verður fundurinn nokkuð fjölmennur, hægt að telja fólk í tugum.  Vei fyrir okkur.

 

Svo hefði afi minn átt afmæli og mamma heldur veislu honum til heiðurs og litla bróður mínum sem á líka afmæli í dag.

 

Vinkonur mínar segja mér að ég sé í eðli mínu búkona, mér líði best við að dedúa í eldhúsinu, baka, sulta, sjóða niður og fleira skemmtilegt. Enda afi minn sem fæddist þennan dag bæði lærður bakari  og kokkur (í Félagsbakaríinu á Ísafirði og kokkinn lærði hann á Borginni þegar hún var nýopnuð og amma mín í hina ættina matráðskona á spítölum og elliheimilum allt sitt líf) Þess vegna er það alveg í takt við daginn í dag að nú er ég búin að búa til 4 kíló af hummus frá grunni (Thaini meðtalið, ef einhvern vantar nokkurn veginn uppskrift af því) og þar sem ég sit og bíð eftir að seinni deigið hefist, líður ilmur af nýbökuðu brauði og kaffi um íbúðina. Sannarlegur veislu og hátíðisdagur hér.


Stofnfundur Samtaka áhugafólks um starf í anda Reggio Emilia

Næstkomandi fimmtudag, þann 13. september, verða stofnuð Samtök áhugafólks um starf í anda Reggio Emilia. Þeir sem starfa í anda Reggio Emilia leggja skapandi starf og gagnrýna hugsun til grundvallar öllu starfi leikskólans/grunnskólans. Þeir leggja áherslu á að börn, kennarar og umhverfið hafa áhrif hvert á annað og að börn og starfsfólk eru samverkamenn, samrannsakendur.



Meðfylgjandi eru upplýsingar um stofnfund Samtaka áhugafólks um skólastarf í anda Reggio Emilia. Á tímum þar sem umræðan snýst mest um vandmál við að manna leikskóla, um láglaunastefnu og einkarekstur, er vert að benda á að fjöldi starfsmanna leikskóla ætlar að koma saman eftir vinnutíma og stofna samtök - samtök um innri mál leikskóla. Samtök, sem hafa það að markmiði að stuðla að uppeldi lýðræðissinnaðra frumkvöðla, en ekki fylgjenda. Á fundinum sameinast fólk úr öllum stéttum leikskólans, frá mismunandi rekstrarformum, í frítíma sínum vegna eigin áhuga og faglegs metnaðar fyrir hönd leikskólastarfs. Vegna þess að þetta fólk hefur trú á starfi leikskólans.


 

STOFNFUNDUR SAMTAKA ÁHUGAFÓLKS UM STARF Í ANDA REGGIO EMILIA

 

Fundarstaður

Gamli leikfimisalurinn í Miðbæjarskólanum

Menntasvið/Leikskólasvið Reykjavíkur

Fríkirkjuvegi 1

17. 10

¾   Kristín Dýrfjörð lektor við Háskólann á Akureyri setur fundinn og fjallar örstutt um aðdraganda hans og framtíðarsýn.

17.20

¾   Guðrún Alda Harðardóttir leikskólaráðgjafi í Reykjavík, segir í máli og myndum frá REMIDA degi í borginni Reggio Emila á Ítalíu. Remida er sérstakt verkefni um enduvinnslu sem byggir á samstarfi leikskóla, borgaryfirvalda og fyrirtækja. Orðið er myndað úr Re sem endur(nýting) og svo Mida sem dregið er af Mídasi konungi  - á Akureyri var ReMida verkefni unnið undir nafninu: Verðmæti liggja víða.

17.35

¾   Sigríður Síta Pétursdóttir sérfræðingur við Háskólann á Akureyri segir frá undirbúningi fyrir REMIDA-smiðju á vinarbæjarráðstefnu á Akureyri í ágúst sem leið og fjallar um þá hugmyndafræði sem hún byggir á.

Hlé 10 mínútur.

18.05

¾   Stofnskrá og lög Samtaka áhugafólks um starf í anda Reggio Emilia (SARE) borin upp.

o       Kjör fyrstu stjórnar.

o       Kjör í vinnuhópa.

18. 40

¾   Fundarslit.

Frekari upplýsinga er hægt að afla hjá Kristínu Dýrfjörð  dyr@unak.is jafnframt er óskað eftir að fólk tilkynni þátttöku til sömu.


 

Ávarp

Mikil gróska hefur verið í leikskólastarfi hérlendis mörg undafarin ár. Innlendar og alþjóðlegar stefnur hafa haft hér áhrif. Einn angi af þeim alþjóðlegu straumum sem hingað hafa náð er leikskólastarf í anda þess sem fólkið í borginni Reggio Emila á Ítalíu hefur verið að þróa undafarna áratugi. Margir telja að skólarnir í Reggio Emilia séu fyrst og fremst leikskólar sem leggja áherslu á mikla listræna sköpun barna. Það er rétt að í leikskólunum á sér stað mikil sköpun. Hins vegar segja leiðtogar uppeldisstarfsins þar að þeirra aðalviðfangsefni sé að tryggja framgang lýðræðis, að þeirra sé að ala upp gagnrýna, skapandi einstaklinga sem bera umhyggju fyrir sjálfum sér og samfélaginu. Börn sem eru og verða frumkvöðlar en ekki fylgjendur.

 

Ástarævintýri Íslands og Reggio Emilia er nokkuð langt, leikskólinn Marbakki hóf fyrst að starfa í þeim anda 1987, á svipuðum tíma kynntust leikskólakennaranemar uppeldisstarfinu í Reggio Emilia í námi sínu.  Árið 1988 var haldin á Kjarvalsstöðum sýning á verkum barna frá borginni. Vakti sýningin mikið umtal og fjallaði Bragi Ágeirsson, gagnrýnandi Morgunblaðsins um hana. Þar segir:

Í stað þess að búa til miðstýrt hegðunarmynstur hefur verið leitast við að opna umhverfið fyrir barninu og gera það að sjálfstæðum, hugsandi og fullgildum þátttakanda. ... Víst er þetta framtak í Reggio Emilia merkilegt, en á þó ekki að koma á óvart, því að löngu er viðurkennt að börn hafa þetta allt í sér, ... Hér kemur einungis fram það, sem margur hefur vitað, en vanrækt hefur verið og víðast hvar mjög svo gróflega með ómældu tjóni fyrir þroska einstaklingsins og þjóðfélagsins um leið. (Bragi Ásgeirsson. maí, 1988)

En við Íslendingar erum ekki ein um áhuga og aðdáun á starfinu í Reggio Emila, tímaritið Newsweek valdi leikskólana þar árið 1991 sem einhverja áhugaverðustu nýbreytni í skólamálum síðustu aldar. Howard Gardner sem er okkur fjölmörgum kunnugur segir í  bók sinni Five minds for the future  (2006:132) að Reggio Emilia geti verið heiminum öflugt módel um hvernig fullorðnir geta leitt börn með ákveðnum jákvæðum hætti.

 

Fjölmargir leikskólar hérlendis hafa fetað í fótspor Marbakka og tileinkað sér að hluta  eða miklu leiti þá sýn til barna sem birtist í leikskólum Reggio Emilia. Sýn sem byggir á trú á getu barna. Sýn sem birtist í að starfsfólk, börn og foreldrar hafa sameiginlega gert daginn í dag að rannsóknar og undrunarefni. Að eilífu viðfangsefni sköpunar.

 

Nú er komið að þeim punkti að við sem höfum deilt saman með fólkinu í Reggio Emilia, ákveðinni sýn til barna, ætlum að bindast samtökum. Samtök sem hafa það að markmiði að hvetja til almennrar umræðu um uppeldismál, sem hafa það að markmiði að standa að ráðstefnum og sameiginlegum starfsdögum.

 

Allir sem áhuga hafa á skapandi, gagnrýnu og ögrandi starfi með börnum, sem hafa trú á getu barna eru velkomnir. 

 


Þegar dagarnir líða hraðar en sálin ná að elta

Sumar vikur líða svo hratt að þær eru orðnar að oggulitlu sandkorni sem maður verður að skoða með stækkunargleri. Svoleiðis er vikan mín búin að vera. Síðustu daga hef ég tekið þátt í að undirbúa stofnfund Samtaka áhugafólks um starf í anda Reggio Emilia. Það eru mörg handtökin sem vinna þarf fyrir svona fund og enn fleiri símtöl. Held að brjóskið í hægra eyranu hafi verið við það að bráðna alla vega aflagast vegna álags.   

  

Uppskrift að því að stofna eitt stykki samtök:

  • Ganga frá lögum og stofnskrá
  • Funda með ... og með ...
  • Senda tölvupóst út í alla leikskóla landsins
  • Það þarf að stofna bankareikning
  • Tala við fyrirtækjaskrá
  • Senda tölvupóst á alla aðra staði sem hugsanlegir eru
  • Senda tölvupóst á fjölmiðla
  • Ræða við fjölmiðla
  • FINNA öll þessi póstföng
  • Panta sal
  • Fá fyrirlesara
  • Ræða við hugsanlega stjórnaraðila
  • Finna fólk í hina ýmsu vinnuhópa
  • Ljósrita lög og annað efni.
  • Ræða við og eiga samráð við ... funda ... ákveða ...
 

Og svo fór ég að sjá Veðramót og fékk skólasystur í morgunkaffi og lofaði mömmu að baka brauð og búa til hummus fyrir veislu sama daginn og stofnfundurinn er. Vera á Akureyri, funda með skypinu til Akureyrar, undirbúa kennslu og kenna og ... svona vikur þær þjóta framhjá á hraða ljóssins ef ekki hraðar.  Og svo skilur maður ekkert í því að það eru allt í einu komin jól.


Veðramót

Ég hálf kveið fyrir að fara í bíó – kveið fyrir að þurfa að horfast í augu við þau ungmenni sem þarna voru kynnt til sögunnar. Held að þetta hafi ekki verið ósvipuð líðan og þegar við fengum fyrst fulltrúa frá Stígamótum í leikskólann til að ræða kynferðislegt ofbeldi í kring um 1990. Það voru erfið spor. Að þurfa að viðurkenna ljótleika heimsins og horfast í augu við hann. Þurfa að þekkja einkenni hans og atferli. Það var erfitt. Kannski kveið ég því samt mest að horfa á dregna upp hugsanlega mynd af sumum “börnunum” mínum. Börnum sem bjuggu við harðræði, ofbeldi af ýmsum toga og jafnvel algjört afskiptaleysi. Sem voru einu sinni lítil börn í leikskóla, sem kannski urðu seinna stór börn á ýmsum meðferðarstofnunum fyrir unglinga. Mér fannst myndin sterk, afar sterk. Ég er þakklát Guðnýju Halldórsdóttur að hafa haft hugrekki til að gera þessa mynd eins og hún gerði hana. Af nærfærni og virðingu, samtímis því að fegra ekki.


Kastljósið, leikskólinn og byltingarkenndar hugmyndir mínar um leikskólakerfið sem enginn hefur viljað hlusta á

Horfði á Kastljós í kvöld, fannst Björg formaður félags leikskólakennara standa sig í vel í umræðunni, hún benti m.a. á að það er engin trygging fyrir foreldra að einkavæða reksturinn – og ekki endilega betra fyrir starfsfólkið. Það hefur nefnilega sýnt sig að oft er lítið betur borgað í einkaleikskólunum og ekki víst að þar sé neitt fleira fagfólk. Þorbjörg Helga vildi meina að það væri mismunandi, sem rétt er. Björg benti henni þá á að mismun í fjölda fagfólks má líka finna á milli sveitarfélaga. Fannst áhugavert að heyra Þorbjörgu Helgu ræða um að hverfa aftur að því fyrirkomulagi sem einu sinni tíðkaðist að fyrirtæki rækju leikskóla og minnti hún í því sambandi á ríkisspítalana. Vil minna á að þeir hættu vegna þess að það samrýmdist ekki hlutverki þeirra að standa í leikskólarekstri og alls ekki eins og lögin gera ráð fyrir. Það var nefnilega löngum þannig í þeim leikskólum að ef foreldrar voru ekki á vakt mátti barnið ekki vera í leikskólanum. Skólinn var sem sagt ekki í þágu barna og ef foreldrar hættu misstu börnin plássin sín umsvifalaust. Hitt fannst mér eftirtektarvert hjá Þorbjörgu Helgu, að leikskólarnir ættu að tryggja sér fjármagn í reksturinn frá fyrirtækjum út í bæ. Væntanlega er þar verið að vísa til einkaskóla sem það hafa gert. Er ekki viss um að ef allir 70 leikskólar borgarinnar ætluðu inn á þau mið að það gengi upp. Hitt er, að ég er henni alveg sammála um að atvinnulífið þarf að koma meira á móts við foreldra.

  

Ég hef töluvert velt málum leikskólans fyrir mér. Ég stakk einhvertíma upp á því við fulltrúa R listans að þeir endurhugsuðu gjaldskrá leikskóla með það að markmiði að breyta starfsháttum þar og í leiðinni samfélagsgerðinni. Ég lagði til að 6 tíma vistun fyrir öll börn væri án gjaldskyldu en eftir það hver klukkutími rándýr og mun dýrari en heill dagur kostar nú. Að sjálfsögðu reiknaði ég með að tekið væri tillit til tekjuöflunarmöguleika einstæðra foreldra. Ég tel að þetta yrði til þess að fólk hagaði vinnu sinni á annan hátt – væri betra fyrir alla börn og foreldra og samfélag. Börn og foreldrar hefðu meiri tíma saman. Annað foreldrið færi þá fyrr til vinnu og sækti barnið á meðan hitt færi með það í leikskóla og inni kannski ögn lengri vinnudag. Hefði gjarnan viljað sjá hagfræðinga reikna út þjóðhagslegan ábata af svona kerfi. Þetta mundi líka stytta þann opnunartíma leikskólanna og gera starfið þar allt mun bæði markvissara og á vissan hátt léttara. Eins og staðan er núna er gríðarlega hátt hlutfall barna allt að 9 tímum á dag í leikskólanum. Eins mikið og ég tel leikskólann góðan og æskilegan held ég að 45 tíma vinnuvika sé of mikið fyrir 3 ára börn. Nú legg ég til að núverandi meirihluti í borginni skoði tillögu mína af alvöru, kannski er hún ekki bara lykill af betra mannlífi í borginni heldur líka að starfsmannavanda leikskólanna.  


BLÁAR TUNNUR

Á þessu heimili glöddumst við mjög þegar við heyrðum af því að borgin ætlaði að fara að dreifa bláum tunnum fyrir pappír. Ákváðum strax að panta eina slíka og láta fjarlægja eina svarta í leiðinni. Við hringdum og pöntuðum. Fengum þau svör að þetta tæki 3- 4 daga. Rúmri viku seinna var okkur tjáð að tunnurnar kæmu um mánaðarmót ágúst - september. Enn bólar ekkert á bláu tunnunum. Ég vona sannarlega að það sé vegna þess að það sé svona rosalega mikil eftirspurn og að starfsmenn borgarinnar séu að dreifa tunnunum í tugþúsundatali. Ég vona að áróður ýmissa frjálshyggjugaura hafi ekki haft þau áhrif að borgin hafi fengið bakþanka. Ég tel sorphirðu heyra til grundvallaþjónustu sveitarfélaga. Það að flokkun á sorpi sé einfölduð fyrir borgarbúa er hluti af nútímavæðingu og sennilega til sparaðar fyrir alla til lengri tíma. Hluti af ábyrgð samfélagins á endurnýtingu á takmörkuðum auðlindum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband