Stofnfundur Samtaka áhugafólks um starf í anda Reggio Emilia

Næstkomandi fimmtudag, þann 13. september, verða stofnuð Samtök áhugafólks um starf í anda Reggio Emilia. Þeir sem starfa í anda Reggio Emilia leggja skapandi starf og gagnrýna hugsun til grundvallar öllu starfi leikskólans/grunnskólans. Þeir leggja áherslu á að börn, kennarar og umhverfið hafa áhrif hvert á annað og að börn og starfsfólk eru samverkamenn, samrannsakendur.



Meðfylgjandi eru upplýsingar um stofnfund Samtaka áhugafólks um skólastarf í anda Reggio Emilia. Á tímum þar sem umræðan snýst mest um vandmál við að manna leikskóla, um láglaunastefnu og einkarekstur, er vert að benda á að fjöldi starfsmanna leikskóla ætlar að koma saman eftir vinnutíma og stofna samtök - samtök um innri mál leikskóla. Samtök, sem hafa það að markmiði að stuðla að uppeldi lýðræðissinnaðra frumkvöðla, en ekki fylgjenda. Á fundinum sameinast fólk úr öllum stéttum leikskólans, frá mismunandi rekstrarformum, í frítíma sínum vegna eigin áhuga og faglegs metnaðar fyrir hönd leikskólastarfs. Vegna þess að þetta fólk hefur trú á starfi leikskólans.


 

STOFNFUNDUR SAMTAKA ÁHUGAFÓLKS UM STARF Í ANDA REGGIO EMILIA

 

Fundarstaður

Gamli leikfimisalurinn í Miðbæjarskólanum

Menntasvið/Leikskólasvið Reykjavíkur

Fríkirkjuvegi 1

17. 10

¾   Kristín Dýrfjörð lektor við Háskólann á Akureyri setur fundinn og fjallar örstutt um aðdraganda hans og framtíðarsýn.

17.20

¾   Guðrún Alda Harðardóttir leikskólaráðgjafi í Reykjavík, segir í máli og myndum frá REMIDA degi í borginni Reggio Emila á Ítalíu. Remida er sérstakt verkefni um enduvinnslu sem byggir á samstarfi leikskóla, borgaryfirvalda og fyrirtækja. Orðið er myndað úr Re sem endur(nýting) og svo Mida sem dregið er af Mídasi konungi  - á Akureyri var ReMida verkefni unnið undir nafninu: Verðmæti liggja víða.

17.35

¾   Sigríður Síta Pétursdóttir sérfræðingur við Háskólann á Akureyri segir frá undirbúningi fyrir REMIDA-smiðju á vinarbæjarráðstefnu á Akureyri í ágúst sem leið og fjallar um þá hugmyndafræði sem hún byggir á.

Hlé 10 mínútur.

18.05

¾   Stofnskrá og lög Samtaka áhugafólks um starf í anda Reggio Emilia (SARE) borin upp.

o       Kjör fyrstu stjórnar.

o       Kjör í vinnuhópa.

18. 40

¾   Fundarslit.

Frekari upplýsinga er hægt að afla hjá Kristínu Dýrfjörð  dyr@unak.is jafnframt er óskað eftir að fólk tilkynni þátttöku til sömu.


 

Ávarp

Mikil gróska hefur verið í leikskólastarfi hérlendis mörg undafarin ár. Innlendar og alþjóðlegar stefnur hafa haft hér áhrif. Einn angi af þeim alþjóðlegu straumum sem hingað hafa náð er leikskólastarf í anda þess sem fólkið í borginni Reggio Emila á Ítalíu hefur verið að þróa undafarna áratugi. Margir telja að skólarnir í Reggio Emilia séu fyrst og fremst leikskólar sem leggja áherslu á mikla listræna sköpun barna. Það er rétt að í leikskólunum á sér stað mikil sköpun. Hins vegar segja leiðtogar uppeldisstarfsins þar að þeirra aðalviðfangsefni sé að tryggja framgang lýðræðis, að þeirra sé að ala upp gagnrýna, skapandi einstaklinga sem bera umhyggju fyrir sjálfum sér og samfélaginu. Börn sem eru og verða frumkvöðlar en ekki fylgjendur.

 

Ástarævintýri Íslands og Reggio Emilia er nokkuð langt, leikskólinn Marbakki hóf fyrst að starfa í þeim anda 1987, á svipuðum tíma kynntust leikskólakennaranemar uppeldisstarfinu í Reggio Emilia í námi sínu.  Árið 1988 var haldin á Kjarvalsstöðum sýning á verkum barna frá borginni. Vakti sýningin mikið umtal og fjallaði Bragi Ágeirsson, gagnrýnandi Morgunblaðsins um hana. Þar segir:

Í stað þess að búa til miðstýrt hegðunarmynstur hefur verið leitast við að opna umhverfið fyrir barninu og gera það að sjálfstæðum, hugsandi og fullgildum þátttakanda. ... Víst er þetta framtak í Reggio Emilia merkilegt, en á þó ekki að koma á óvart, því að löngu er viðurkennt að börn hafa þetta allt í sér, ... Hér kemur einungis fram það, sem margur hefur vitað, en vanrækt hefur verið og víðast hvar mjög svo gróflega með ómældu tjóni fyrir þroska einstaklingsins og þjóðfélagsins um leið. (Bragi Ásgeirsson. maí, 1988)

En við Íslendingar erum ekki ein um áhuga og aðdáun á starfinu í Reggio Emila, tímaritið Newsweek valdi leikskólana þar árið 1991 sem einhverja áhugaverðustu nýbreytni í skólamálum síðustu aldar. Howard Gardner sem er okkur fjölmörgum kunnugur segir í  bók sinni Five minds for the future  (2006:132) að Reggio Emilia geti verið heiminum öflugt módel um hvernig fullorðnir geta leitt börn með ákveðnum jákvæðum hætti.

 

Fjölmargir leikskólar hérlendis hafa fetað í fótspor Marbakka og tileinkað sér að hluta  eða miklu leiti þá sýn til barna sem birtist í leikskólum Reggio Emilia. Sýn sem byggir á trú á getu barna. Sýn sem birtist í að starfsfólk, börn og foreldrar hafa sameiginlega gert daginn í dag að rannsóknar og undrunarefni. Að eilífu viðfangsefni sköpunar.

 

Nú er komið að þeim punkti að við sem höfum deilt saman með fólkinu í Reggio Emilia, ákveðinni sýn til barna, ætlum að bindast samtökum. Samtök sem hafa það að markmiði að hvetja til almennrar umræðu um uppeldismál, sem hafa það að markmiði að standa að ráðstefnum og sameiginlegum starfsdögum.

 

Allir sem áhuga hafa á skapandi, gagnrýnu og ögrandi starfi með börnum, sem hafa trú á getu barna eru velkomnir. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband