Bloggfærslur mánaðarins, september 2007
25.9.2007 | 00:50
Nískasta þjóð í heimi - alla vega þegar kemur að börnum
Ég las áðan í Fréttablaðinu að verið væri að byggja 483.000 fermetra af verslunarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er hrein viðbót við það sem fyrir er. Mér var sem snöggvast hugsað til þess hversu nísk við erum á pláss fyrir börn.
Mér verður hugsað til þess að reglugerð um leikskóla var breytt til þess að hafa af börnum 0,5 fermetra til þess eins að sveitafélög þyrftu ekki að byggja. Gætu fjölgað plássum án steyputilkostnaðar held ég að það hafi heitið. Svo fór ég að hugsa, hvað ef við ákveddum að hvert barn ætti að fá 9 fermetra í stað þeirra 6,5 sem nú er í heildarrými, hvað þyrfti að bæta miklu við.
Samkvæmt tölum Hagstofurnar voru 17.260 börn í leikskólum landsins um síðustu áramót. Ef við ætluðum hverju þeirra 9 fermetra þyrftu þau 155.340 fermetra en núna eru þessum börnum ætlaðir 112.190 fermetrar. Viðbótin er minni en kringlan sem Samson ætlar að byggja á Vitastígnum. Hvað er að þessari ríkustu þjóð, getur verið að við dýrkum peninga fram yfir allt?
PS. Er búin að blogga margsinnis um afleiðingar þessa plássleysis á börnin og starfsfólkið. Þær heilsufarshættur sem fylgja fyrir báða, t.d. í formi heyrnarskaða. Held t.d að það hafi verið á meðal minna fyrstu færsla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.9.2007 | 17:36
Áttu lausa stund næsta laugardag, ef ...
Pabbi kom hér í heimsókn uppnuminn yfir viðtali sem hann hafði heyrt í útvarpinu við mann að nafni Karl Aspelund. Undanfarna daga og vikur hefur hugmyndafræði Reggio verið til umræðu við alla sem detta hér inn. Líka foreldra mína. Þau hafa skilið þann hljómgrunn sem ég finn í stefnu sem hefur lýðræði, sköpun, endurnýtingu og frumkvöðlahugsun að leiðarljósi, finnst hann í rökréttu samhengi við hver ég er.
Um daginn sagði pabbi við mig, já Kristín, ég held ég sé búinn að átta mig á hver kjarni þessarar Reggio aðferðar er. Það er að ala upp börn sem hvert og eitt verður sjálfstæður athugandi, sem hvert og eitt dregur sjálfstæðar ályktanir en er samtímis hugað um hópinn og samfélagið. Einstaklinga sem hvert og eitt getur staðið upp í hundrað manna hóp og getur rökrætt eigin skoðun. Í gær sagði hann, "ég held að í raun snúist Reggio fyrst og fremst um frelsið og ábyrgðina sem því fylgir sem forsenda lýðræðisins". Og honum fannst einmitt, þessi hugsun felast í viðtalinu við Karl Aspelund en þar fjallaði hann um fyrirlestur sem hann flytur um næstu helgi.
Ég las drög Karls að erindinu á netinu, en hann er að fara að tala á Norrænu handverksþingi hér á landi og ég verð að vera sammála pabba, þarna er sleginn svipaður strengur. Ég hvet þá sem geta að fara að hlusta á Karl Aspelund, hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar um hvernig hægt er að hlusta á einstaka fyrirlestra.
24.9.2007 | 15:09
Haustlitir bloggsins
Haustið liggur í loftinu, litir náttúrunnar að breytast, þess vegna ákvað ég líka að breyta blogglitunum mínum, ný mynd í haus og ný litasamsetning. Þetta er eins og að gera góða vorhreingerningu, allt verður einhvernvegin ferskara.
Í tilefni haustsins skrapp ég til tveggja stærstu blómasalanna í gær og fjárfesti í vorlaukum. Er núna að plana samsetningu vorlitanna. Í Garðheimum fékk ég hringlóttar plastgrindur aðra um 12 hina ca. 18 sentímetra í þvermál, í þær raðar maður laukum og setur niður. Fæ í vor upp fallegar skipulagðar laukbreiður, ekki verra að það er líka þægilegt að grafa þetta allt upp í einu þegar sumarblómin eiga að fara niður. Er reyndar líka að spara eggjabakkaformin, nota þau til hins sama. Og af því að ég er í eðli mínu ekki mjög skipulögð, held ég að þeir laukar sem ekki komast í grindur, lendi hér og þar í beðum.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2007 | 18:20
Hluti vandans eru alltof mörg börn á allt of fáa fermetra
Gott framtak sem ég gleðst yfir. Tel samt að komið sé að þeim punkti að sveitarfélög fari af alvöru að huga að fjölda barna á deild. Held að það sé stór ástæða þess hversu fólk tollir oft illa. Eins og ég hef stundum spurt áður hvernig liði þér lesandi góður að þurfa að vera 8-9 tíma á dag í kokteilpartýi. Þetta er ástand sem er óhæft fyrst og fremst fyrir börnin. 1. Vegna þess að ég held að það sé þroska þeirra og heilsu hættulegt. 2. Vegna þess að starfsfólk gefst upp, verður pirrað og oftar veikt, sem leiðir til verri aðstæðna fyrir börn. Svo barnanna vegna, fjölgum fermetrum á barn.
3 fermetrar er ekki nóg, ein ríkasta þjóð í heimi hefur efni á betri aðstæðum fyrir börnin sín.
Kópavogur samþykkir aðgerðaáætlun í leikskólamálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt 5.12.2007 kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.9.2007 | 00:56
Að sleppa undan gerberuáhrifunum
Fyrsti stjórnarfundur nýju samtakanna (REGGIO) var í dag. Settum niður drög að vetrardagskrá, meðal annars tvö örnámskeið á næstunni. Annað um grunnhugmyndafræði starfs í anda Reggio Emilia, fyrir þá sem eru að velta fyrir sér hvort þarna sé hugmyndafræði sem fellur að lífskoðunum þess, fyrir nýtt starfsfólk í þeim leikskólum sem þegar vinna í anda Reggio Emilia og þá sem vilja dusta af fræðunum og hitta skemmtilegt fólk. Hitt er hugsað fyrir þá sem lengra eru komnir - eru búnir að pæla lengi. Þeir þurfa líka sitt. Við ræddum töluvert um það sem ástralskar fræðikonur í leikskólafræðum kalla gerberuáhrifin og hvernig við getum stuðlað að því að okkar skipulag dragi úr þeim.
Gerberuáhrifin felast í því að ein fer á námskeið, þar upplifir hún aha, kemur tilbaka full eldmóðs en vegna þess að hún fær hvergi hljómgrunn eða stuðning við hugmyndir sínar, hneigir hún fljótlega haus, eldmóðurinn visnar og deyr. Hvað margir þekkja ekki þessi áhrif, fara á námskeið í tónlist, myndlist, tjáningu, sögugerð, næstum hverju sem er. En fá svo ekki tækifæri til að deila reynslu með öðrum. Við viljum skapa stuðningskerfi fyrir leikskólana sem dregur úr hættunni á gerberuáhrifunum. Við veltum upp ýmsum leiðum til þess.
Ræddum lógó, ræddum heimasíðuna, ræddum vinnudaga/námskeið/þróunar- og afldaga eftir áramót og svo 20 ára afmælið - remídu í maí 2008. Þegar heimasíðan verður tilbúin komum við að sjálfsögðu til með að birta fundargerðir þar.
Annars skipti stjórnin með sér verkum á eftirfarandi hátt:
Guðrún Alda Harðardóttir, varaformaður,
Kristín Karlsdóttir,ritari
Kári Halldór, gjaldkeri
Lovísa Hallgrímsdóttir meðstjórnandi
Menntun og skóli | Breytt 5.12.2007 kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.9.2007 | 00:10
Hvað einkennir “Reggio” skólana?
Fyrst og fremst trú á getu barna, og trú á að þau hafi vit og vilja til að taka þátt í og móta það starf sem fram fer. Til að þetta sé hægt verða þeir sem vinna með börnum að afsala sér og afneita ákveðinni forræðishyggju gagnvart börnum en líka forræðishyggju gagnvart efniviðnum og notkun hans. Verða að leyfa sér að viðurkenna og ögra áhrifavöldum í lífi barna. Það sé ekki til réttur eða rangur efniviður, aðeins mismunandi leiðir til að nota hann og/eða fjalla um hann. Þess vegna getur verið jafn mikilvægt að vinna verkefni þar sem barbie eða batman eru í aðalhlutverkum og að byggja úr stærðfræðilega réttum einingarkubbum úr tré. Í skólum sem vinna í anda Reggio eiga börnin og starfsfólkið að vera samstarfsfólk. Þar er engin skömm að því að kennarinn segist ekki alltaf vita svarið. Það er hinsvegar skömm að því að reyna að komast undan að leita svara.
Kannski má segja að áherslan birtist í að ákveða ekki fyrirfram hvort eitthvað er mögulegt eða ómögulegt, áherslu á skapandi starf, á að barnið er og eigi að vera þátttakandi í að móta námskránna, það sem gert er í skólanum. Að öll tjáning og tugumál barna séu virt og viðurkennd. Leikskólarnir eiga að líkjast lifandi verkstæðum, þess vegna er mikilvægt að tryggja börnum frjálst aðgengi að öllum efnivið. Enginn efniviður er í sjálfu sér bannaður eða óæskilegur. Að lokum ætti það að vera sérkenni skóla sem kenna sig við starf í anda Reggio Emilia að leikskólinn, starfsfólkið, foreldrar og samfélag taki höndum saman og komi að starfi leikskólanna.
En er ekkert sem er gagnrýnisvert við skólastarf í anda Reggio Emilia? Auðvitað er það ekki fullkomið, auðvitað hefur það sína galla, enda það hættulegasta sem fyrir nokkrar aðferð/stefnu getur komið að telja sig hafa höndlað hinn stóra sannleik. Það er í slíkum draumum sem fallið er falið. Sjálf hef ég tekið undir gagnrýni um ákveðna þætti í starfinu í Reggio Emilia, um þá þætti skal ég fjalla síðar.
Menntun og skóli | Breytt 5.12.2007 kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2007 | 17:30
Reggio og Hjalli, er munur?
Um það m.a. tókumst við Margrét Pála í síðdegisútvarpinu áðan. Alltaf skemmtilegt að ræða við fólk sem hefur skoðanir, jafnvel þó ég sé í grundvallaatriðum ósammála. En það er hluti af fjölbreytileika mannlífsins að við séum mismunandi og aðhyllumst ólíkar stefnur og lífssýn. Kannski okkar mismunur hafi kristallast í þessu viðtali.
Síðdegisútvarp rásar 2 19. september, samræðan er strax eftir kynninguna.
http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4320688
Að lokum vil ég fá að taka fram vegna orða Margrétar Pálu um að ég hafi slitið orð hennar um valdarán barna úr samhengi að svona hljómar þetta á vefnum hjalli.is undir meginuppeldisreglur Hjallastefnunnar.
Af vefnum www.hjalli.is
Sjötta meginregla Hjallastefnunnar
Hjallastefnunni er ætlað að kenna börnum aga og hegðun á jákvæðan, hlýlegan og hreinskiptinn hátt þar sem taminn vilji er leiðin til öryggis og frelsis fyrir alla... í stað undanlátssemi sem leyfir börnum að ræna völdum og stjórna í skjóli valdaráns sem þau hafa engar forsendur til að axla og í stað þess að nöldra, skammast og þora ekki að taka fullorðinsábyrgð á að stjórna og temja.
Menntun og skóli | Breytt 5.12.2007 kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.9.2007 | 02:26
Starfsdagar leikskólanna í Reggio Emilia
Um miðjan júní 1999 voru haldnir árlegir starfsdagar starfsfólks leikskólanna í borginni Reggio Emilia á Ítalíu í þetta skipti var ákveðið að bjóða nokkrum útlendingum að vera þátttakendur í starfsdögunum. Þrettán Evrópubúum og þrettán Bandaríkjamönnum mestmegnis háskólakennurum og vísindamönnum sem vel þekkja til vinnubragða og hugmyndafræði sem unnið er eftir í Reggio Emilia var boðin þátttaka. Héðan frá Íslandi var undirritaðri og Guðrúnu Öldu Harðardóttir brautarstjóra leikskólabrautar við Háskólann á Akureyri boðið. Af öðrum gestum má nefna Peter Moss frá Bretlandi, Gunnillu Dalhberg frá Svíþjóð, Carolyne Edvards frá Bandaríkjunum og að endingu heiðursgestinn prófessor Jerome Bruner. Starfsdagarnir fóru fram á ensku og ítölsku og var allt túlkað jafnhraðan á þau mál. Í upphafi skal strax tekið fram að í Reggio er ekkert til sem heitir Reggiostefna í leikskólauppeldi, þar er aðeins til gott leikskólauppeldi sem byggir á ákveðinni sýn og viðhorfum til barnsins. Jafnframt er þar skuldbinding um að kynna sér og nýta nýja þekkingu og kenningar um barnið, hvernig það nemur og þroskast. Í Reggio er rætt um samræðu eða dialog á milli þeirra og umheimsins í því augnamiði að allir læri.
Starfsdagar
Skipulag starfsdagana í Reggio er nokkuð frábrugðið því sem við eigum að venjast. Allir leikskólarnir eru saman á starfsdögum, leikskólarnir eru opnir, en starfsemin er í hægagangi. Að mörgu leyti má líkja þeim við opna ráðstefnu eða námstefnu.
Starfsfólk og foreldrar skiptast á að sækja og halda fyrirlestra, og vera í leikskólanum. Þannig er talið tryggt að allir geti tekið þátt og lagt sitt að mörkum. Umfjöllunarefni á starfsdögunum eru verkefni sem leikskólarnir hafa verið að vinna að um veturinn. Val sérhvers leikskóla á vetrarverkefnum fer fram í samræmi við umhverfi, samræður og hugarheim barnanna þar. Litið er á hvert verkefni eða þema í leikskólanum sem litla rannsókn og er því hvert verkefni lítið rannsóknarverkefni. Á starfsdögum eru síðan ferli og niðurstöður þessara rannsókna kynntar og fjallað um þær. Menn velta fyrir sér hvaða ályktun sé hægt að draga. Um hvað eru börn að hugsa, hvernig hugsa börn, hvernig tengist verkefnið kenningum og rannsóknum á þroska barna eru dæmi um spurningar sem velt er upp.
Lesa áfram í meðfylgjandi skrá hluti af skýrslu úr gamalli skrá í tölvunni minni.
15.9.2007 | 16:03
Tilfinningaþrungin stund - stofnfundur SARE
Af stofnfundi
Klukkuna vantar korter í fimm og gangurinn fyrir framan leikfimisalinn í gamla miðbæjarskólanum, sem nú hýsir leikskólasvið Reykjavíkur, er orðin fullur af fólki. Það er eftirvænting í loftinu, bros á vörum og glampi í augum. Hvarvetna heyrist, til hamingju með daginn, til hamingju með daginn. Við erum búin að bíða svo lengi. Salurinn er opnaður og inn streymir fólki, allir stólar fyllast og fleiri eru sóttir, hann er þétt skipaður bekkurinn. Á annað hundrað manns mætir til að taka þátt í þessu ævintýr. Mér verður hugsað til þess að tuttugu mínútur yfir fimm þann 7. júlí 1915 lögðu konur af stað úr portinu fyrir utan til þess að fanga kosningarrétti kvenna þann 19. júní 1905, þá eins og nú mættu áhugasamar konur.
Klukkan tíu mínútur yfir fimm var fundurinn settur og við tók dagskrá. Fyrst voru nokkur erindi flutt, meðal annars flutti ég eitt.
Það var tilfinningaþrungin stund þegar ég sýndi 19 ára gamla frétt úr ríkisjónvarpinu frá sýningu á verkum barnanna í Reggio Emilia á Kjarvalsstöðum, en þar voru líka sýnd verk barna á Marbakka. Við sáum mörg þessa sýningu og undruðumst, undruðumst yfir þeim mætti og hugsun sem þessi verk sýndu, undruðumst yfir þeirri trú á getu barna sem þar birtist. En á fundinum voru líka margir af frumköðlunum af Marbakka sem höfðu ekki séð þessa frétt síðan vorið 1988.
Næst var Guðrún Alda í pontu, hún sagði frá Remída deginum á Ítalíu vorið 2002. En Remída er nafn á sérstöku átaki og verkefni sem hefur verið að þróast í Reggio. nafnið er dregið af Mídasi konungi en eins og við munum kannski flest þá breyttist allt í gull sem hann snerti, Guðrún Alda leiddi okkur í máli og myndum í gegn um verk barna í borginni og hugmyndafræðina á bak við verkefnið.
Sigríður Síta sagði frá Remída smiðju á Akureyri nú í ágúst. En einkunnarorð hennar voru Verðmæti liggja víða. Hún sagði frá hversu vel fyrirtækin í bænum og starfsmenn Akureyrarbæjar hefðu tekið í verkefnið. Á Akureyri er áhugi að halda áfram á sömu braut og setja um Remídu sem starfrækt er allt árið.
Bæði Guðrún Alda og Sigríður Síta komu inn á hversu mikilvægt er að Remída sé sett upp í samstarfi leikskóla, sveitarfélaga og fyrirtækja. Sem dæmi er samstarf við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og Sorpu, sem og fyrirtæki nauðsynleg.
Af loknum erindum gerðum við stutt hlé og þáðum kaffi í boði Leikskólasviðs Reykjavíkur.
Nú var komið að því að bera upp stofnskrá hinna nýju samtaka, eftir yfirferð, útskýringar og smá umræður voru þau samþykkt samhljóða. Fram var komin tillaga að stjórn sem var kjörin með lófataki. Ég var kosin formaður, en Guðrún Alda Harðardóttir, leikskólakennari, dósent við Háskólann á Akureyri og leikskólaráðgjafi hjá Reykjarvíkurborg, Kristín Karlsdóttir, leikskólakennari og lektor við Kennaraháskóla Íslands, Kári Halldór, tjáeðlisfræðingur, leikari, leikstjóri og leiklistarkennari og Lovísa Hallgrímsdóttir, leikskólakennari, framkvæmdarstjóri og leikskólastjóri í leikskólanum Regnbognaum í Reykjavík. Í varastjórn voru kjörnar Sigríður Síta Pétursdóttir, leikskólakennari og sérfræðingur við Háskólann á Akureyri og Svava J. Björnsdóttir, leikskólakennari við leikskólann Laugaborg í Reykjavík.
Á fundinum voru tvö stærstu verkefni komandi árs kynnt, annarsvegar sameiginlegir starfs- og vinnudagar í janúar 2008, það verkefni skipuleggja fulltrúar 4 leikskóla í samvinnu við stjórn.
Stærsta verkefni komandi árs er ráðstefna, vinnusmiðja og námskeið um Remídu í maí 2008, á tuttugu ára afmæli rástefnunnar á Kjarvalsstöðum.
Að lokum vil ég fá að vitna í orð fjögurra ára ítalskt barns sem sagði:
Remída er hús hluta,
það er draumastaður barna.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir af stofnfundinum
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.9.2007 kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.9.2007 | 22:46
Kveðjustund
Lífið hefur sinn gang, það fæðast börn, við lifum og við deyjum. Allt gerist þetta óháð veðrum og vindum. Í gær fagnaði ég fæðingardegi og í dag kvaddi ég. Var við jarðarför, ákaflega fallega útför í sveitakirkju. Einn söngvarinn, hún Anna Sigga, söng líka við útförina hans Sturlu. Þá vildi ég engan kór. Mér fannst einhvernvegin ekki kór hæfa í jarðarför hjá svona ungri manneskju eins og sonur minn var. Þegar ég hlustaði á Önnu Siggu í dag hvarf ég augnarblik til þess tíma sem ég sat á fremsta bekk í Fossvogskirkju. Og þrátt fyrir að vera erfiðar, þá yljuðu þær minningar. Þannig vil ég líka muna.
Athöfnin í dag var falleg, falleg á margan hátt. Kirkjan smá og nándin mikil. Presturinn nærfærinn og sannur í sinni ræðu. Ung stúlka lék undur vel og af mikilli einlægni á þverflautuna sína, síðasta gjöfin mín til ömmu hvíslaði hún að mér. Jarðarfarargestir sungu með kórnum og á eftir var, Allt eins og blómstrið eina, sungið úti í garði yfir moldu, þar stóð kórinn og söng eins og englar og útfarastjórinn með. Vindurinn lék undir líkt hann væri orgel himnanna, kannski hreinsaði hann sálur okkar, blés burtu öllu amstrinu og áhyggjunum, eitt andartak, þerraði tár af hvörmum og tryggði fast faðmlag.
Í huga mér hefur: Ég kveiki á kertum mínum, við krossins helga tré, runnið upp fyrir mér aftur og aftur, bæði lag og texti. Og nú sit ég hér og raula: Nú hallar helgum degi á Hausaskeljastað. Segið mér er til fallegri texti og lag, sem hæfir stund og stað?