Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Eitt hænufet á dag

Við höfum átt róleg og góð jól hér í Miðstrætinu, vorum 7 í mat á aðfangadag (Sturlubarnið meðtalið)og gekk það allt eins og það á að ganga. Opnuðum hurð út í garð og hlustuðum á kirkjuklukkur Dómkirkjunnar hringja inn jólin, á meðan suðan kom upp á súpunni. Hlustuðum á hátíðlega tónlist, snæddum, tókum upp pakka og röbbuðum saman. Sturlubarnið sem er að upplifa sín fyrstu jól fékk eintóma mjúka pakka, sennilega minnst 12 sett af fötum. Eina leikfangið kom frá langömmu Búddu, sætasti bangsinn sem fannst í bænum.

J'OLATRE

Silfrað jólatré (ekki besta mynd).

Við fengum bestu fáanlegu gjöfina, það er að eiga góð og ánægjuleg jól með fjölskyldunni. Sturla eldri er alltaf sterkt í huga okkar um jól, þá háði hann sitt dauðastríð. Jólin okkar eru alltaf bæði tími sársauka og gleði. Gleði yfir því sem við höfum og áttum, sorg yfir því að Sturla er ekki með okkur til að njóta. Sorg yfir að hafa ekki fengið tækifæri til að sjá hann þroskast og taka út sín fullorðinsár.

Bráðum kemur nýárið með hækkandi sól og nýjum vonum og væntingum. Um daginn skrifaði ég minningargrein um gamlan vin og skólabróður, hana hóf ég og lauk með ljóði Matthíasar Jochumssonar, en ljóðið var sungið við jarðaförina hans Sturlu. Þær pælingar sem þar koma fram um áhrif tímans á mannanna mein eru tímalausar og eiga kannski sjaldan eins vel við og þegar sól fer aftur að rísa á himni, eitt hænufet á dag.  

Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknarráð,
hún ljómar heit af Drottins náð.

                                   

Sem Guðs son forðum gekk um kring,
hún gengur ársins fagra hring
og leggur smyrsl á lífsins sár
og læknar mein og þerrar tár

                                    (Matthías Jochumsson)


Pottarnir í fjölskyldunni, matarstand og silfrað jólatré

Jólaundirbúningur gengur nokkuð vel. Búin að kaupa jólagjafir og mat. Við Lilló fórum í garðinn í dag og gerðum fínt á leiðinu hans Sturlu og afanna beggja sem hann hvílir á milli. það var mikið af fólki í garðinum og allir spjölluðu við alla.  

Ég er enn að drepast úr þessari flensu, með verk í lungunum og þróttleysi sem því fylgir. Ég held ég neyðist til að heimsækja læknavaktina aftur og fá ný og sterkari lyf.

Við fórum í matarleiðangur og ég vona að ég hafi ekki gleymt neinu stórkostlegu. Hér verður bæði þríréttað og þrír aðalréttir. Við erum svo dyntótt fjölskylda og á jólunum finnst mér að allir eigi að fá það sem þeim finnst best. Svo hér verður naut, lamb og grænmetisréttur í aðalrétt, klassísk súpa í forrétt, frómas og risalamande í eftirrétt. Fyrir utan kaffið og konfektið.

Lilló er búinn að draga fram jólatréð sem er ættað frá Bandaríkjunum orðið rúmlega fimmtíu ára gamalt. Þetta er jólatréð sem var á hans æskuheimili, alveg silfrað og aldrei skreytt með öðru en rauðum kúlum. Það gerum við líka. Ég held að þetta sé hallærislegasta tré sem til er, en samtímis svo ótrúlega flott og margar minningar við það bundnar. Tréð er enn í upprunalega kassanum og hver grein í sínum upprunalega pappír.  Þegar ég verð búin að setja það upp, skal ég skella inn mynd af því.

Pabbi og mamma komu áðan að sækja stóra pottinn sinn. Þetta er 30 lítra potturinn, ég á einn 10 lítra en hann er of lítil fyrir stórveislur, 30 lítra potturinn kemur sér vel fyrir minni fjölskylduboðin, en  ef veislan á að vera stór þá þarf að leita í enn annað eldhús í fjölskyldunni og þá er dreginn fram 50 lítra stálpotturinn. Hef eldað nokkrum sinnum í honum síðasta árið.

Annars á ég eftir að hugsa stöffinguna í kalkúnann, þarf að gera hana á morgun. Kalkúninn er fyrir þá sem ekki borða hangikjöt í jólaboðinu hjá pabba og mömmu á jóladag. Mér skyldist á mömmu áðan að hún gerði ráð fyrir 34 í mat og svo litlu bönunum sem enn eru á brjósti. Það þurfti 30 lítra pottinn til að sjóða hangikjötið ofan í okkar öll. Sagðist vera búin að öllu nema baka partana, en okkur finnst þeir alveg ómissandi.

 

Miðað við mína eldamennsku á aðfangadag held ég að ég verði að sleppa því að fara á rand og hitta familíuna.  

 

Að lokum óska ég öllum nær og fjær gleðilegra jóla, árs og friðar.

 

 


Skeifufólkið

Þorfinna amma mín, gerði flest stórt. Þegar ég var barn sendi hún stundum kökudúnka á aðventunni til okkar á Krókinn og seinna í Skeifuna. Efast um að það hafi verið undir sex sortum, sem bættust síðan við allar hinar sem mamma bakaði. Þetta var á þeim tímum sem hver dúnkur var innsiglaður með límbandi og kökur ekki teknar fram fyrr en á aðfangadag. Þegar hver veggur var hvítskrúbbaður fyrir jól og hverju rykkorni úthýst með harðri  hendi helst snemma á aðventunni.

Ég hef yfirleitt talið mig líkari Kristínu ömmu minni, kannski er það vegna nafnsins, kannski vegna þess að hún var lítil kona eins og ég er. Kristín amma mín átti níu börn tvær dætur og sjö syni. Afkomendur hennar eru taldir í tugum. Amma og afi bjuggu lengst af á Eskifirði. Þegar öll börnin voru farin að heiman, eltu þau og fluttu hingað til Reykjavíkur og hjá þeim hittist stórfjölskyldan á aðfangadagskvöld.

Eftir því sem afkomendahópurinn stækkaði varð erfiðara að hittast á aðfangadagskvöld. Smá saman lagðist það af. Enda hittist öll stórfjölskyldan í jólaboði á jóladag hjá Matta bróður mömmu í Kúrlandi. Þar var líka fjölskyldan hennar Perlu konu Matta. Í á þriðja tug ára hittumst við þar tvær stórar fjölskyldur. Drukkum kakó, gengum í kringum jólatré, tókum á móti jólasveininum. 

Amma og afi vildu líka hitta allan skarann hjá sér svo þau tóku upp á því að hafa standandi borð í eldhúsinu á aðfangadag. Afi var kokkur og bakari og mallaði allt sjálfur. Frá klukkan ellefu að morgni aðfangadags til að verða þrjú renndu afkomendur við, settust niður með hluta stórfjölskyldunnar og áttu saman notalega stund. Eftir að afi dó hélt amma lengi í þennan sið. Bjóða upp á hangikjöt, svið og meðlæti á aðfangadag og annar kokkur í fjölskyldunni sá um matseldina. Drengjunum mínum fannst ekki jól nema fara til ömmu og afa. Fá smá forsmekk jólanna, hita magann upp fyrir kvöldið.  

Nú er amma farin og stórfjölskyldan hittist næstum aldrei, seinast á afmælisdeginum hans afa í Skeifunni. Við Skeifufólkið eru reyndar nokkuð mörg. Barnabörnin og barnabarnabörnin að fylla tvo tugi.  Á miðvikudag var ég með aðventuboð fyrir barnadeildina. Mættu um tugur barna, leiruðu úr trölladeigi, máluðu á striga og fóru í hljóðver með Lilló sem tók upp bæði söng og hljóðfæraleik þeirra. Verður sjálfsagt jóladiskurinn í ár hjá okkur Skeifufólkinu. Átta ára frændi minn spurði hvort það væri möndlugjöf. "Nei" sagði ég, "en hér er hinsvegar ný barnabók sem ég var að hugsa um að láta einhvern hafa" "mig, mig", sögðu þau nokkur. Við ákváðum að Íris fengi bókina fyrst og þegar hún væri búin að lesa hana ætti hún að skrifa nafnið sitt inn á kápuna og láta hana ganga. Þetta fannst öllum heillaráð. Einn frændi minn sem er lesblindur sagði, "já en ég kann ekki að lesa", "Iss" sögðum við, "það les hana þá bara einhver fyrir þig og þú kvittar, og svo lærirðu að lesa, þetta kemur". Hann var ánægður með þessa lausn. Og ég glöð að það er ekki feimnismál að eiga erfitt með lesturinn.

En þá er komið að ömmu Þorfinnu, hún var alltaf stórtæk, kunni ekki að gera smátt held ég, enda ráðskona á sjúkrahúsinu á Siglufirði í áratugi og þar áður á elliheimilinu á Seyðisfirði. Hún var með meirapróf og soldið tækjasjúk. Ég er eins, gerði fyrir þessi 10 börn 10 kíló af trölladeigi, og annað eins af grjónavelling. Ég var auðvitað spurð hvort ég héldi að ég væri að malla og gera deig fyrir heilan leikskóla. OG einn frændi minn 12 ára sagði eða tvo árganga í grunnskóla. Og svo verð ég víst að játa á mig nýjungagirni varðandi tækin.

Núna heyri ég bara jólalög og svo Stóð ég úti í tunglsljósi, úr kjallaranum, Lilló að hljóðblanda jóladiskinn. En læt fylgja með nokkrar myndir úr jólaboðinu.

afi og sturla góðir saman í boði Sturla Þór og afi

trölladeigmála 

ljósaleikur100_6019ljósaleikurSturla og afi


Eyjófur að hressast

Baktería

Svona lítur baktería út að mati sænskra leikskólabarna.

Ég er komin á breiðvirkandi sýklalyf, enda gafst ég upp fyrir veikindum mínum eftir enn eina svefnlausa hóstanótt og fór til læknis. Manneskjan með læknafóbíuna. Óþverrinn var kominn ofan í lungu og ekkert að gera nema leita á náðir Lyfju. Held náttúrulega að ef ég hefði nú tínt mín fjallgrös í sumar hefði ég náð þessu úr mér fyrr. En þegar ég eina andvökunóttina ætlaði að sjóða mér þann galdraseið, komst ég að því að koddaverið sem ég geymi grösin í var tómt. Kennir mér meiri fyrirhyggju næsta sumar.  Vonast nú til að ná að klára það sem hefur beðið í meðvitundar og kraftleysi mínu. Svo ætla ég að fá frændur og vini í lægri kantinum í heimsókn annað kvöld, hlakka mikið til. Ætlum að gera eitthvað skemmtilegt saman og boða grjónavelling með mikið af rúsínum.  

 

Sturlubarn er farinn að velta sér af maga á bak og ógurlega montinn þegar hann hefur afrekað það. Það er líka léttir að heyra að hann getur grátið aftur með hljóðum drengurinn. Unga fjölskyldan kom og leit á okkur gamalmennin áðan. Við borðuðum saman og þau horfðu á leik Totteham sem vann. Svo allir voða glaðir.


Leikskóli ákveður að hætta að fara með bænir

Eins og margur veit hef ég fylgst með umræðunni um kristilega siðgæðið og hlutverk kirkjunnar í leikskólanum af nokkurri athygli. Sjálf fór ég að skoða málið af einhverri alvöru fyrir nokkrum árum. Fram að þeim tíma hafði þetta meira verið mannréttindaáhugamál hjá mér og skemmtilegt umræðuefni. Eitt af því sem kveikti frekari áhuga minn á hlutverki kirkjunnar og kristninnar í leikskólum voru viðræður við nema við HA. Fólk sem er í vettvangsnámi í leikskólum og sem margt hvert er í starfi í leikskólum með námi. Man ég að meðal þess sem þar kom fram og ég var mjög undrandi á var að í sumum leikskólum var farið með bænir, morgunbænir og borðbænir. Þetta voru annars venjulegir leikskólar reknir af sveitarfélögum. Sérstaklega virtist þetta vera einkennandi á Suðurnesjunum.

Áðan las ég á bloggi Kristins Ásgrímssonar að í einhverjum leikskóla á Suðurnesjum sé fólk hætt þessu og búið að setja inn þulu í bænastað. Ég man að þegar um þetta var spurt í einhverjum fjölmiðli fyrir nokkrum árum svaraði viðkomandi að bænin væri notuð til að búa til ritúal og fá ró í hópinn. Þula eða ljóð þjónar sama markmiði og fagna ég því að viðkomandi skóli hafi ákveðið að taka þetta skref. Á sínum tíma velti ég fyrir mér hvort að bænirnar hafi verið vegna, áhrifa ofan af velli, eða hvort þetta hafi tengst mikilli sjósókn og sjávarháska. 

Áðan horfði ég á Öddu Steinu reyna að verja málstað kirkjunnar. Ég fagna umræðan virðist hafa skilað því að kirkjan sé að gera sér grein fyrir að ásókn hennar inn í leikskóla sé eitthvað sem hún þarf að íhuga. Ífræðslustefnu stendur að samstarfið eigi að vera á forsendu skólanna en það er í lagi að minna á að á sínum tíma höfðu ýmsir hugmyndir um að ganga lengra eins og sjá má í skýrslu sem unnin var fyrir kirkjuna. Sem betur fer er skynsamt fólk í prestastéttinni sem stoppaði slíkar hugmyndir. Hinsvegar verð ég hryggja Öddu Steinu með að sumir þjónar kirkjunnar hafa valið að fara lengra og ástunda trúboð inn í leikskólum. Hafa meðal annars farið með og kennt börnum bænir. Eða er það ekki að fara með bæn, að biðja börn að loka augum, spenna greipar og biðja guð að passa pabba og mömmu? Og í mínum bókum er það trúboð sé það gert í skóla. Í mínum bókum er það á ábyrgð og hlutverk foreldra að sjá um trúaruppeldi.

Mér fannst Bjarni standa sig vel og vera málefnalegur. Eins og reyndar hefur verið með flest það fólk sem talar fyrir aðskilnaði skóla og kirkju.

Sjálf tel ég ekkert að því að fara í kirkju með börn og fræða þau um hlutverk hennar. Um það sem hún stendur fyrir. Mér finnst sjálfsagt að þau spreyti sig á að byggja hana úr kubbum og eða teikna. Reyndar fagna ég slíkum verkum. Tel þau hluta af því að efla með börnum menningarlæsi. Alveg eins og ég tel að við komum til með að gera þegar moskur og hof verða hluti af nágrenni skólanna.

 


Stjórnrót

Trúmál eru sérstakt áhugamál hjá mér og hafa verið lengi. Um daginn á Þjóðarspegli hitti ég m.a. sálfræðikennara minn úr Fósturskólanum og við rifjuðum upp gamla tíma. Ég sagðist nú kannski ekki endilega muna margt en sumt hafi reynst mér notadrjúgt, meðal þessa er hugtakið stjórnrót (locus of control) sem skiptist í ytri og innri stjórnrót. Styrkur stjórnrótarinnar er mæld á samfelldum skala.  

  

Þeir sem stjórnast að mestu af ytri stjórnrót leita mikið út fyrir sjálfa sig að orsökum og afleiðingum. Finna aðra til að kenna um. Þeir sem hafa sterka innri stjórnrót leita inn á við í eigin tilfinningar og gerðir. "Ég féll á prófinu vegna þess að ég var ekki nógu vel lesin", á meðan ytri stjórnrótin segir, " ég féll vegna þess að prófið var ósanngjarnt, vegna þess að ég gat ekki sofið útaf..."

Mér hefur verið þessi gamla þekking nokkuð hugleikin undanfarið. Verið að yfirfæra hana á umræðuna um trúna og siðfræðina. Verið að velta fyrir mér tengslum þess að telja "björgun" íslenskrar þjóðar og menningar liggja í hugtakinu kristilegt siðgæði og stjórnrótar viðkomandi.

 

Í leikskólastarfi nýttist þessi þekking mér einna best til að vinna með sjálfsmat, sjálfsmynd og siðfræði. M.a. með inntak fyrirgefningarinnar. Og eins og flestir vita þá er það að læra um fyrirgefningu mikið mál þegar maður er fjögurra ára.

 

Er verið að plokka peninga af foreldrum?

Í fréttablaðinu eru í dag þrjár greinar sem snúa eða snerta á einn eða annan hátt leikskólann. Tvær fjalla um stóra umræðuefnið, kristilega siðgæðið sú þriðja um gjaldtöku foreldrafélaga. Þar er velt upp gildum rökum fyrir því afhverju foreldrafélagið eigi ekki að rukka inn gjald.

Ég get tekið undir þau rök sem þar koma fram og hugleiddi m.a. sjálf á sínum tíma hvort rétt væri að hafa slíkt. Ég hef t.d. sett spurningarmerki við að dansskólar komi inn í leikskólann á starfstíma og foreldrar sérstaklega rukkaðir fyrir. Man eftir að hafa komið inn í skóla þar sem miði var í hólfi barna þar sem stóð að nú færi dansnámskeiðið að byrja og ef ekki væri búið að borga fyrir tiltekinn dag yrðu viðkomandi börn ekki með. Við þetta gerði ég athugasemd. Sama má segja um námskeið í myndlist, fimleikum, tónlist og fleiru sem sérstaklega er keypt inn í skólana og foreldrar borga. Allt er þetta á gráu svæði. Reyndar vil ég ekki sjá þessa starfsemi inn í leikskólum á leikskólatíma frekar en kirkjuna.

Hluti af því sem féð er notað til er, sveitarferðir og jólasveinn á jólaball, leiksýningar og tónleikar inn í leikskólanum. Þættir sem ég sjálf flokka aðeins öðruvísi vegna þess að ekki er verið að fá fólk til að vinna með börnunum. En samt á gráu svæði. Auðvitað væri eðlilegast að hver leikskóli hefði svo rúm fjárráð að ein til tvær rútuferðir á ári  og það að fá listamenn til að sýna í  leikskólanum settu hann ekki öfugu megin við strikið rekstrarlega. því miður er það hins vegar staðreynd.

Margir hafa litið á framlag foreldra sem leið til að brjóta upp starfið, leið til að víkka sjóndeildarhring barnanna. Gefa þeim kost á einhverju sem er umfram grunnstarfsemi. Fyrir þessu er nokkuð löng hefð. Áður en foreldrafélögin tóku þetta hlutverk að sér var oft rukkað fyrir hvern atburð sérstaklega.  

Mér finnst full ástæða til að ræða málið, frá öllum hliðum og ég tel leikskólakennara bera mikla ábyrgð í að leiða þá umræðu.

Nýlega heyrði ég af foreldrum sem ofan á foreldrafélagsgjöldin þurfa að borga sérstaklega fyrir aðgang að myndasafni leikskólans á netinu. Efni sem ég hefði talið vera sjálfsagðan þátt í samvinnu leikskólans við heimili og foreldra, hluti af grunnstarfsemi leikskólans.

 


Nefrennsli, hósti og slen

Ég er lasin, með kvef og hósta, við deilum þeirri reynslu saman við Sturla þessa daga. Finn voða mikið til með honum, getur ekki hóstað en gerir það samt og er alveg búin að missa röddina. Það koma engin hljóð, bara tár og skeifa. Af gömlum sið er hann í ullarbol með silkiklút um hálsinn og í ullarhosum. Og við segjum "ææ og óó, litla skinnið".

 

mynd_stWH5c

Lasið lítið skinn

 


Mynd dagsins

vetur í reykjavík
Reykjavík að vetri
Þar sem ég veit ekki um hversu mikið ég nenni að blogga til jóla ákvað ég að setja a.m.k. eina mynd á sólahring inn á bloggið.

Stekkjastaur kom fyrstur, stinnur eins og tré

Ef vilji er fyrir hendi má kenna leikskólakennurum um að hafa komið upp hjá þjóðinni pólitískum rétttrúnaði um jólasveinana. Árni Björnsson, hins vegar þakkar okkur "fóstrum" fyrir að hafa komið skikk á jólasveinamálin í stórskemmtilegri frétt Þóru á RUV í kvöld.

Það var fyrir um 20 árum að við "fóstrur" í leikskólum landsins ákváðum að auglýsa grimmt fyrripart desember hvenær fyrsti pörupilturinn kæmi til byggða, þar með hvenær hægt væri að setja skó í glugga. Við vorum svo heppnar að foreldrar ákváðu að trúa okkur og leyfa ekki skó í glugga fyrr en að kveldi 11. desember.  Auðvitað "hlýddu" ekki allir foreldrar strax, en það tók ekkert mörg ár að "aga" þá. Í mínum skóla settum við upp vísur Jóhannesar úr Kötlum í fataherbergjum og í fréttabréf, allt til að upplýsa foreldra um hina einu réttu sönnu óumbreytanlegu röð.  Nú vita öll börn á Íslandi hvað þeir heita sveinarnir og hver hin pólitísk rétta röð þeirra er.

Mér finnst skemmtilegt að fara með jólasveinavísurnar með börnum, halda takti og hrynjanda byggja upp spennu, fer bráðum að æfa mig með Sturlu. En enn skemmtilegri finnst mér

Grýla hét tröllkerling leið og ljót, með ferlega hönd og haltan fót, í hömrunum bjó hún og horfði yfir sveit, var stundum mögur og stundum feit, á börnunum valt það hvort Grýla átti gott, ...

Ég ætla að trúa ykkur fyrir leyndarmáli, ég held að börnunum hafi líka þótt hún Grýla spennandi. Önnur kerling sem börnum fannst skemmtileg, var hún:

Steinka stál, [sem] seldi sína sál, fyrir skyrskál, seldi augun bæði, fyrir leðurskæði, seldi sig hálfa, fyrir átján kálfa seldi sig alla fyrir tólf ... (botnið)

og hér kemur enn eitt uppáhaldið:

Kom ég þar að kveldi, sem kerling sat að eldi, hýsti hún fyrir mig hestinn minn, og hét að ljá mér bátinn sinn, því langt er á milli landanna, liggur á milli strandanna, Ægir karl með ygglda brá, og úfið skegg á vöngum, ... 

Ætli ég falli nokkuð alveg að staðalmyndinni af fóstrunni, kann ekki á gítar, held ekki lagi, hef aldrei verið í kór, átti aldrei Álafossúlpu (átti samt trampara). En einu sinni kunni ég hins vegar helling af þulum svo kannski var mér viðbjargandi í starfi eftir allt.   

Ég stal einni mynd af  moggavefnum af formóðurinni sjálfri við eldamennsku. Sýnist það sem er í pottinum vera ósköp saklaust. Alla vega engin mannabein sýnileg.

 

Grýla eldar
 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband