Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
11.12.2007 | 03:12
Þegar leikþörfin grípur mig
10.12.2007 | 00:06
Áhrif húsnæðis og mönnunar á leikskólastarf
Veturinn 1993-94 lagði ég fyrir íslenska leikskólakennara spurningarlista um ýmislegt sem snéri að starfi þeirra. Hér til hliðar undir tenglar er skýrsla um rannsóknina fyrir þá sem áhuga hafa á að kynna sér efni hennar. Af einhverjum ástæðum tók ég þessa skýrslu fram og fór að fletta í henni. Það er margt forvitnilegt þar að finna, kannski sérstaklega vegna þess hversu langur tími er liðinn og þess sem hefur gerst í millitíðinni í leikskólanum. Ég held að það væri afar forvitnilegt að spyrja sumra spurninga aftur og bera saman við tölurnar frá 93-94.
Ein af þeim spurningum sem ég lagði fyrir, er hvort unnið sé samkvæmt einhverri ákveðinni hugmyndafræði í leikskólum. Þegar svörin um hvað leikskólakennarar töldu hafa mest áhrif á gæði var greind niður eftir hvernig hugmyndafræði er í leikskólunum, kemur í ljós að svo til enginn munur er á milli hópa. Þ.e.a.s. viðhorf leikskólakennara til þess sem þeim finnst hafa mest áhrif á gæði, markast ekki af því hvernig hugmyndafræði er í leikskólanum þar sem þeir starfa. Undantekningu er þó að finna, leikskólakennarar sem starfa í leikskólum þar sem til er skrifleg lýsing á hugmyndafræði, telja barnafjölda á starfsmann ekki hafa eins mikil áhrif á gæði starfsins og leikskólakennarar þar sem persónuleg hugmyndafræði er. Í spurningalistanum skilgreindi ég hugmyndafræði eins og áður hefur komið fram
[1]Svörin greindust niður á eftirfarandi hátt.
Tafla 7. Áhrif barnafjölda á starfsemi leikskóla[2]
meðalgildi | |
1 Persónuleg hugmyndafræði | 2,291 |
2. Munnleg lýsing á hugmyndafræði | 2,176 |
3. Uppeldisáætlun | 2,063 |
4. Skrifleg lýsing á hugmyndafræði | 1,260 |
Hér er áberandi að þar sem skrifleg lýsing ræður ríkjum telja leikskólakennarar fjölda barna á hvern starfsmann hafa minnst áhrif á gæði. (Tafla 7). Eru til einhverjar haldbærar skýringar um hvernig getur staðið á þessu? Eru leikskólakennarar í leikskólum þar sem til er skrifleg hugmyndafræði öruggari í því sem þeir eru að gera? Er starfið þar betur skipulagt þannig að þeir finna minna fyrir fjölda barna? Þetta er forvitnilegt að skoða betur. Þó svo að marktækur munur sé á milli þessara hópa hvað varðar áhrif barnafjölda á gæði starfseminnar raðast sá þáttur lágt þegar á heildina er litið. Ég velti því fyrir mér hvernig geti staðið á því. Félag íslenskra leikskólakennara hefur verið í fararbroddi í umræðu um fjölda barna á deildum og fjölda barna per starfsmann. Á þeim tíma sem spurningarnar voru sendar út átti sér stað mikil umræða um Leikskólaverkefni Dagvistar barna, þróunarverkefni í Kópavogi, ábataskiptasamning við Reykjavíkurborg og hagræðingu. Er hægt að draga þá ályktun að sú umræða hafi haft þessi áhrif?
Þegar ég spurði um þætti sem hömluðu gæðum í starfi nefndi einungis 14, 6% að of mörg börn á starfsmann gerðu það og 17% nefna húsnæðismál. Árið 1995 er sett reglugerð sem jók barnafjölda og minkaði húsnæði. Þessi mæling er því gerð rétt fyrir þær breytingar og því kannski enn merkilegra að sjá svör dagsins í dag. Mín tilgáta er að bæði mundu skora mikið hærra í dag. Þegar ég spurði síðan beint um áhrif húsnæðis á starfið segja 12% það hafa mikil áhrif, 53% töluverð áhrif, og rúm 34% lítil eða engin áhrif. Mér finnast þetta merkilegar tölur.
Ég spurði um hvernig áhrif húsnæðið hefði og fékk eftirfarandi svör. Spurningin var opin og ég ákvað flokkana eftir á.
Tafla 19. Hvaða áhrif telur þú húsnæði hafa á starf leikskóla?
Gott húsnæði auðveldar - lélegt dregur úr | 23,1% |
Áhrif á hópaskiptingu | 20,8% |
Letur/pirrar | 18,5% |
Almenn áhrif | 17,3% |
Setur starfseminni skorður/ramma | 13,3% |
Áhrif á líðan barna/þurfa pláss og næði | 7,5% |
Áhrif á þemavinnu | 4,0% |
Gild svör 173 |
[1] * Persónulega hugmyndafræði sem hver leikskólakennari mótar fyrir sig.
* Munnlega lýsing á hugmyndafræði sem er sameiginleg í leikskólanum og byggir á hugmyndum leikskólakennara um hvernig einstaklinga þær vilja sjá í framtíðinni
* Skriflega lýsing á hugmyndafræði
[2] Í úrvinnslunni var síðan hverju svari gefið ákveðið gildi 0 ef enginn valdi það og 4 ef það var talið hafa mest áhrif. Frá þessu var síðan reiknað. Lægsta mögulega gildi er 0 og það hæsta 4.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2007 | 03:17
Gamlir hilluvinir
Sumar bækur dvelja stundum upp í hillu í langan tíma, svo dreg ég þær fram og hugsa "já þetta er nú áhugavert". Í gær dró ég þrjá gamla hilluvini fram. Einn þeirra lít ég nú reglulega í, sá vinur minn fjallar um lýðræðislega menningu, lætur ekki mikið yfir sér er réttar 60 síður, en fær mig alltaf til að hugsa.
Ástæða þess að ég dró hann fram í þetta sinn er að systir mín er að skrifa ritgerð og ég mundi að í þessari bók er frábær tilvitnun í Sören Kirkegaard sem mér fannst hún endilega þurfa að lesa. Hún varð reyndar alveg sammála mér og gott ef hún ekki nýtti sér hana.
Bókin byrjar reynda á að lýsa því hvernig við sem vinnum með pedagógík verðum að hugsa um hana. Hvernig við getum aldrei látið aðra um að malla hana ofan í okkur. Jú kannski einhver megi malla, en við verðum að melta og gera að næringu fyrir okkur. Það getur enginn gert fyrir okkur. Það krefst hugsunar og gagnrýni. Það krefst skuldbindingar. Annars er þar fantagóður kafli sem fjallar um ritgerð Geroge Orwells um reynslu hans af heimavistarskóla og hvernig hægt er að ala upp í börnum hræðslu og skömm. Skömmin var svo djúp að þegar skólameistarinn lamdi hann svo fast með keyrinu að skaftið á því brotnaði, öskraði hann á drenginn, "sjáðu hvað þú hefur gert?" Og drengurinn tók skömmina og ábyrgðina til sín.
Næsta bók sem ég dró fram fjallaði um sögu uppeldisfræðinnar eitt af mínum uppáhaldsfögum. Þar er m.a. lýst hvernig sunnudagskólahreyfingin varð til. Fyrst í Bretlandi til að gefa börnum sem þræluðu í námum kost á lágmarks menntun (sem reyndar fljótlega breyttist í kristinfræðslu einvörðungu) og svo hvernig sunnudagskólahreyfingin færðist til Norðurlanda. Eitt af því gert er að umfjöllunarefni er hvernig stóð á því að Danir tóku aftur upp fermingar. En það gerðu þeir upp til að tryggja lágmarksþekkingu á kristindómnum. Þetta var árið 1736 en þá höfðu fermingar verið aflagðar í 200 ár eða frá því um siðaskipti 1536. Ástæða þess að þeir tóku upp fermingar var m.a. vegna þess að kristindómsfræðslan hafði þótt svo leiðinleg að fólk kom sér hjá henni. Prestum var því falið að kenna Litla kverið eða Katekismus og prófa í því fyrir fermingar.
Afi minn sagði mér reyndar að honum hafi verið gert að læra þá bók utanað og væri algjörlega bólusettur gangvart henni. Held að lærdómurinn hafi ekki gengið jafn hratt og til stóð og því aðferðirnar til að tryggja að drengurinn lærði stundum full harkalegar. En það er önnur saga. Reyndar er líka í bókinni áhugaverður kafli um hvernig áróðri var lætt í gegn um jafn sakleysisleg fög og stærðfræði í þriðja ríkinu.
Dæmi 95
Það kostar 6 milljónir ríkismörk að byggja geðveikraspítala, Hvað er hægt að byggja mörg einbýlishús sem kosta 15.000 þess í stað?
Og dæmin voru fleiri og ef eitthvað enn meira hrollvekjandi.
Þriðji vinurinn sem fékk að koma af hillunni, fjallar um Remote control childhood. Eða Æsku fjarstýringanna. Þar er verið að fást við sjónvarpsmenningu okkar. Meðal þess sem þar er ráðlagt er að horft með börnum á þætti, og ræða þá við þau. Þeir eru jafnvel svo góðir að gefa upp hvernig foreldrar geta gert þetta.
Dæmi: Talið um viðbrögð ykkar bæði jákvæð og neikvæð um það sem hvort ykkar sér.Hvað fannst þér um þáttinn/leikinn (tölvu)? Mér fannst alveg frábært þegar __________ gerðist, hvað fannst þér um það?
Mér líkaði ekki þegar að ____________ ég vildi óska að þeir þyrftu ekki alltaf að meiða hvert annað. Hvað fannst þér?Svona heldur þetta áfram og þarna eru punktar til að hjálpa foreldrum að ræða um mun á fantasíu og raunveruleika. Um það að bera saman reynslu barnanna af því sem þau sjá í sjónvarpinu við það sem er að gerast í þeirra eigin lífi. Ræða um ofbeldi og illkvittni, og til að ræða við börn um staðalmyndir. Og svo auðvitað margt fleira.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 03:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2007 | 03:54
Leikskólakennaranám - á grunn og framhaldsstigi
Innritun í nám
sem hefst á vormisseri 2008
Meðal þess er:
- Grunnskólakennaranám (staðar- og fjarnám)
- Leikskólakennaranám (staðar- og fjarnám)
Framhaldsnám:
- Diplómu- og meistaranám í menntunarfræði
Hægt er að skoða nánari upplýsingar með því að fara á www.unak.is. Vakin er athygli á að upplýsingar um öll námskeið er að finna í náms- og kennsluskrá. Skráningargjald fyrir vormisseri er 22.500 kr.
Fjarnám er í boði á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við Námsflokka Hafnarfjarðar - Miðstöð símenntunar, fleiri staðir koma til greina ef næg þátttaka fæst.
7.12.2007 | 01:54
Þjóðarspegill
Er á morgun (föstudag) í HÍ, mörg forvitnileg erindi. Ætli sé ekki best að koma sér í rúmið á skikkanlegum tíma og mæta. Ætla m.a. að hlusta á Þórdísi Þórðardóttur lektor í KHÍ ræða um góðu gæjana sem alltaf vinna. ( góðu karlarnir eru klárari, þeir vinna alltaf Samræður leikskólabarna um barnaefni) . Og kannski ef ég nenni, þá blogga ég um eitthvað sem mér finnst áhugavert af því sem ég hlusta á. Ég hef ekki komið í HÍ síðan nýja háskólatorgið var vígt, verður gaman að sjá hvernig það kemur út.
Góð áform - nei nei, ekki megrun
Ég var nú eiginlega búin að ákveða að bjóða öllum börnunum í fjölskyldunni hingað á morgun. En ákvað svo að fresta því fram í næstu viku. Þetta getur orðið dálaglegur hópur ef allir mæta, slagar hátt í eina leikskóladeild og megnið piltar. Ætla að gerast jólaleg með börnunum og draga fram trölladeig, liti, byggingarefni og fleira skemmtilegt. Svo vilja væntanlega einhver skreppa með Lilló inn í "hljóðverið" (lesist tölvu og tónlistarrými) og taka upp jólalög. Í fyrra tók hann upp þverflautuleik með einni 13ára sem gaf diskinn síðan í jólagjöf. Held að tímarnir hennar hér hafi orðið hátt í tíu og enn fleiri hjá Lilló við að hljóðblanda. Ég ætti náttúrulega að biðja hana leyfis og skella einu lagi hér inn. Krökkunum í fjölskyldunni finnst ekki leiðinlegt að vinna lög og diska með Lilló. Eina er að við erum kannski ekki nógu dugleg að bjóða þeim í heimsókn.
Mörg barnanna í fjölskyldunni eru að læra á hljóðfæri og sum í kór, kannski ég ætti að bjóða þeim að mæta með hljóðfærin. Ætti að verða ágætisblanda af strengja og blásturshljóðfærum.
Sturlusaga
Já og svo koma Sturla áðan með foreldrunum sem voru bæði hálflasinn, en hann bara brosti. Lilló segir að hann hafi hlegið framan í sig. Reyndar er oft hægt að róa hann ef hann er að væla með því að ná við hann augnkontakti. Trausti segir að hann vilji baða sig í athygli og krefjist hennar. Hann heldur líka kontaktinum oft ótrúlega lengi áður en hann snýr sér undan og hlær. Við eigum líka ævagamla spiladós sem við keyptum einu sinni í Ameríku. Sturla er mjög áhugasamur um hana, leitar með höfðinu eftir hvaðan hljóðið kemur og skríkir svo. Mömmu hans er þó meira umhugað um liðleika og styrk. Ætlar að gera hann að litlum fimleikadreng, fimleikastúlkan sjálf.
6.12.2007 | 00:32
Viðtal við séra Sigfinn
Hlustaði á Sigfinn Þorleifsson sjúkrahúsprest á rás 1 áðan, hægt er að hlusta á þáttinn á vefnum. Hann var þar að ræða bók sem hann var að gefa út. Hlakka til að lesa hana. Af því sem mér heyrðist byggist hún á mannvirðingu, umburðarlyndi og kímni. Sigfinnur er einn þeirra presta sem oft settist hjá mér á sínum tíma. Prestur sem er svo mikil manneskja. Það er bæði gott að hlæja og gráta með honum. Hann jarðsetti bæði afa minn og ömmu enda alin upp á Eskifirði og leikbróðir móðurbræðra minna. Ömmu fannst ekki annar prestur koma til greina. Eftir andlát Sturlu hélt hann utan um minningarstund með unglingunum vinum hans og fjölskyldum. Seinast hittumst við í jarðaför í haust. Hún var falleg.
Sigfinnur er einn þeirra presta sem gerir það að verkum að hófsamt fólk er enn í þjóðkirkjunni.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.12.2007 | 03:20
Þegar kirkjan bað mig að tala
Fyrir nokkrum árum var ég beðin um að halda erindi í Akureyrarkirkju um, væntingar til hlutverks kirkjunnar í íslenskum leikskólum. Það var séra Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup á Hólum sem hafði samband við mig. Ég varð mjög hissa og spurði hvort hann væri viss um að hann vildi heyra mínar skoðanir. Hvort hann teldi mig réttu manneskjuna til að mæta. Skoðanir mínar á tengslum kirkju og leikskóla hafa nefnilega aldrei verið neitt leyndarmál og ég oft orðað þær í hópi leikskólakennara. Jón taldi kirkjuna alveg geta hlustað.
Ég hef síðan verið Jóni þakklát tækifærið, vegna þess að það gaf mér færi að festa á blað mínar eigin hugleiðingar um tengsl leikskóla við kirkjuna. Fram að þeim tíma hafði ég forðast eins og heitan eldinn að setja hugleiðingar mínar fram opinberlega.
Erindið var fyrir alþjóðlega prestaráðstefnu. Þó svo að ég hafi flutt það á ensku var það samið á íslensku. Hér að neðan má finna skrá sem inniheldur fyrsta hluta af erindinu, hugleiðingar mínar. Annars fjallaði það um könnun sem ég gerði í leikskólum landsins. Þar fékk ég líka þessa sögu.
Börn eru klár
Þetta er í litlum leikskóla í litlu þorpi. Það er að nálgast Páska. Leikskólakennari er í samverustund að fræða börnin um hvers vegna við höldum Páskana hátíðlega. Börnin horfa stórum augum og hlusta af athygli. Leikskólakennarinn segir þeim af Jesú og Síðustu kvöldmáltíðinni og hvernig Jesú baðar fætur lærisveinanna. Hún segir þeim hvernig vondir menn hafi komið og tekið Jesú næsta dag og þeir hafi neglt hann á krossinn þar sem hann deyr. En þremur dögum seinna á Páskunum hafi fólkið uppgvöggvað að Jesú var ekki dáinn, hann var upprisinn. Fjögurra ára stúlka hlustar af athygli, augun opin, undrun í svipnum. Eftir leikskóla fer hún í heimsókn til ömmu og segir henni söguna sem leikskólakennarinn sagði um Jesú. Þegar hún er búin bætir hún við: en ég veit ekki hvort ég ætti að trúa henni.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 05:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.12.2007 | 20:52
Skýrsla um rannsókn mína um trúarlíf í leikskólum
Í nokkru ár hef ég verið að dunda við að skoða aðkomu kirkjunnar að leikskólum landsins. Um tíma var ég meira að segja alvarlega að velta fyrir mér að gera það að doktorsverkefni mínu. En ákvað svo að annað efni væri bæði áhugaverðara og skemmtilegra til að hugsa um og dvelja með í mörg ár. Kannski má samt segja að efnið sé að hluta skylt, viðfangsefnið sem heillar mig meira er nefnilega lýðræði í leikskólastarfi.
Til þess að skoða trúaruppeldið fékk ég styrk, bæði frá Kristnihátíðarsjóði og frá Rannsóknarsjóði leikskóla Reykjavíkurborgar. Aðallega hef ég nýtt mér rannsóknir mínar í fyrirlestra fyrir leikskólakennara hérlendis og fyrir ráðstefnur erlendis. Sumt af því hefur komið út erlendis og annað ekki. Á árinu er væntanlegur kafli eftir mig um efnið í afmælisriti Háskólans á Akureyri. Ég skal líka fúslega játa að af einhverjum ástæðum hefur mér enn ekki tekst að skrifa grein um efnið sem fallið hefur innlendum ritrýnum í geð. Nú nenni ég ekki lengur að eltast við það og verð líka að gangast við að vera nokk sama.
En þeir sem hafa áhuga á að fá bókarkaflann sendan geta fengið sett sig í samband við mig og fengið lokadrögin. En öðrum bendi ég á áfangaskýrsluna hér að neðan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.12.2007 kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.12.2007 | 15:10
Aðventuhugvekja
Ég var skírð rúmlega tveggja ára, þá gafst ferð austur og prestur með rétt stjórnmálaviðhorf til verksins. Hann sagði mig fyrsta barnið sem þakkaði honum fyrir skírn. Á sunnudagsmorgnum fórum við í sunnudagaskóla í kirkjunni. Ég man að mér fannst skemmtilegast að fá biblíumyndir, myndir úr dæmisögunum. Kannski að það hafi orðið til þess seinna að þegar ég varð læs, fannst mér gamla testamentið skemmtilegra en það nýja. Las það eins og hverja aðra sögubók. Mér fannst líka Grettissaga Ásmundssonar skemmtileg, sögur fullar af ofbeldi virðast hafa höfðað til mín. Reyndar tengi ég áhuga minn á Grettissögu frekar við að vera alin upp í Skagafirði. Á sunnudagseftirmiðdögum fórum við líka stundum í sunnudagaskóla hjá Daníel Glad. Man reyndar ekki mikið eftir því. Nema að við keyptum alltaf Barnablaðið. Eftir að við fluttum suður koma Daníel stundum og ég man að pabbi keypti af honum bækur.
En ég man líka hvenær ég hætti að vilja fara í sunnudagaskólann, þannig var að afmælisvikuna fékk maður stóra biblíumynd, flest börn biðu eftir henni allt árið. Þessari einu stóru. Ég á afmæli að sumri og þegar ég spurði um stóra biblíumynd fékk ég hana ekki, var sagt að ég ætti ekki afmæli, það var nefnilega ekki vandmál kirkjunnar að sum börn áttu afmæli þegar enginn sunnudagskóli var. Ég var um sjö - átta ára, eftir þetta vildi ég aldrei fara í sunnudagskólann. Man heldur ekki til þess að hafa sagt neitt við foreldrana. Hætti bara að mæta.
Ég var um tíma trúað barn. Var alltaf að keppa við guð, til þess að hann gæti sannað fyrir mér tilveru sína. Ef ég gæti hlaupið milli tveggja ljósastaura áður en næsti bíll kæmi væri til guð. Okkur voru ekki sérstaklega kenndar bænir heima en stundum fórum við samt með þær, þegar við fórum austur var lögð áhersla á kvöldbænir enda amma trúuð kona. Stundum fórum við með þessar bænir. Við lágum svo alveg grafkyrr og sögðum ekki orð. Ég held að þetta hafi verið partur af bænakennslunni að þegar við vorum búin að fara með áttum við að vera hljóð, annars þurfum við að fara með alla þuluna upp á nýtt. Ég man ekki hvenær við hættum alveg kvöldbænum, held kannski það hafi verið þegar við fengum herbergi tvö og tvö saman. Áður vorum við fimm saman í herbergi systkinin.
Næstu viðskipti mín við kirkjuna tengdust fermingu. Ég var lengi að gera upp við mig hvort ég ætti að fermast. Ræddi þetta m.a. annars við foreldra mína sem sögðu mér að þetta væri svo gott tækifæri til að halda fjölskyldum saman, væri hluti af menningu okkar og því að búa til ritúöl innan fjölskyldna. Þetta hefði minnst með það að gera hvort ég væri trúuð eða ekki. Ég ákvað að fermast. Á þeim tíma var fermingarfræðsla á skólatíma. Reyndar fannst mér kristnifræðikennarinn minn Ingólfur Jónsson frá Prestbakka miklu betri til verksins fallinn en fermingarfræðslupresturinn séra Ólafur Skúlason. Ólafur vildi auðvitað að við sæktum messur, við vorum kannski ekki eins upptekin af því. Hann lofaði bekknum með bestu messusóknina pylsupartýi að vori. Ég man ekki til þess að neinn bekkur hafi fengið þau verðlaun.
Í fermingunni minni fékk ég óstöðvandi hláturkast, mér varð litið á vinkonu mína liggjandi fram á gráturnar og hún leit á mig. Við bældum hláturinn niðri. Held að enginn kirkjugestur hafi séð hvað var að gerast. Þarna lærði ég að stundum bregst fólk við stressi á undarlegan hátt.
Það sem er mér þó minnisstæðast úr fermingunni minni var ræða prestsins. Hann lagði nefnilega út frá endurgjaldi. Þannig var málum vaxið að í sókninni hafði maður verið dæmdur til fangelsisvistar. Kona mannsins leitaði til prestsins um aðstoð, sem hann veitti með gleði. En nú er maðurinn laus úr fangelsi, sagði séra Ólafur, og hann hefur enn ekki komið í kirkjuna og þakkað guði fyrir að það var til fólk sem aðstoðaði fjölskylduna hans. Þetta áttum við að láta okkur að kenningu verða, að þakka þeim sem þakka bæri í framtíðinni. Kannski ætti ég að þakka fermingarprestinum mínum fyrir að opna augu mín fyrir hræsni. Sennilega átti ræðan þátt í að móta viðhorf mín til kirkjunnar, en ekki kristninnar.
Ég hlustaði á Jón Magnússon ræða áðan um að við leituðum til presta (eða að þeir biðu fram þjónustu sína) þegar bjátaði á, þegar við værum sjúk eða þegar við sætum, í fangelsum. Ég hef líka af þessu reynslu. Prestar sjúkrahússins komu og sátu oft hjá mér þegar ég sat yfir syni mínum. En þeir reyndu aldrei að ræða trú við mig, reyndu aldrei að ræða um upprisu eða annað sem tengist kristni. Við ræddum um allt mögulegt, þeir hafa mikla reynslu af því að umgangast dauðann. Þeirra hlutverk er sálgæsla án tillits til trúarbragða. Þessir prestar reyndust okkur vel, fyrir það erum við þakklát. Þeir reyndust líka því unga fólki sem í kringum okkur var vel. Ég man til dæmis vel eftir stund sem þeir leiddu nokkrum dögum eftir hrapið, þeir gerðu það vel og báðu fólk að biðja/hugsa til þess sem það trúði á. Til þess sem skipti það máli. Ég man líka tæpu ári eftir andlátið, fórum við hjónin með litla gjöf á gjörgæsluna, á leiðinni upp, hittum við einn þessara presta. Við ræddum töluvert við hann. Hann sagði á þeirri stundu setningu sem ég hef síðan deilt með öðrum í sömu sporum. Hann sagði mér að fyrsta árið væri erfiðast, en strax og það væri liðin ár og dagur, væri ég ekki jafnupptekin af því að hugsa; fyrir ári vorum við að gera þetta, eða að þá leið mér svona. Svo skrýtið sem það hljómar það reyndist þetta rétt. Það er bull að tíminn lækni öll sár. Það nær sér enginn eftir að hafa misst barnið sitt en við getum lært að lifa með því. Á stundum eins og í dag þegar fréttir berast af andláti barns eftir hörmulegan atburð, rífur það í sárin mín. Ég hugsa til fjölskyldunnar en líka til allra þeirra sem standa vaktina á gjörgæsludeildinni. Hugur minn er hjá þeim.
Trúmál og siðferði | Breytt 3.12.2007 kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.12.2007 | 01:44
Játningar mínar og fordómar
Akureyrarkirkja
Ég er að hugsa um að játa á mig mikla fordóma og í leiðinni skella fram einum gildisdómi (sem ekki er hægt að sakfella mig fyrir). Eftir að hafa hlustað á fólk í fréttum tala um kristna siðgæðið eins og það sé heimsins einasta siðgæði alla vega réttasta siðgæðið og fara í huganum yfir umræðuna sem var um 10 litla negrastráka, og það að einhverjir vogi sér að telja bókina meiðandi, hvað þá að hún ýti undir rasískar tilhneigingar, þá held ég að þetta sé sama fólkið upp til hópa. Fólkið sem hópaðist í bókabúðir til að kaupa þessa dæmalaust fallegu og saklausu barnabók til að lesa með börnum sínum og barnabörnum um jólin. Fólkið sem segir; "ég fór með bænir og það hefur nú ekki skaðað mig" og sem segir "þetta er nú bók sem var lesin fyrir mig og ég er ekki fordómafullur".
Ég veit ekki hvað þetta er í þjóðarsálinni en ég játa að hvað sem það er þá pirrar það mig. Ég játa á mig mikla fordóma. Ég játa lítið umburðarlyndi.
Svo hugsa ég ef þetta væri sjónvarpsfréttir frá miðausturlöndum og umræðan væri um Kóraninn, þá myndi sami hópur fordæma slíka ofsatrú og jafnvel kalla hana öfgatrú. En hjá okkur heitir það menning og það að varðveita menningararfinn. Er allur arfur þess virði að halda í hann?
Ps. Ég er í þjóðkirkjunni.
ps.ps. Á laugardegi, held ekki að fólk upp til hópa hafi borið skaða af bænum eða bókinni, finnst þetta hinsvegar vera rökleysa í umræðu. En því miður þetta eru rök sem ég heyri gjarnan til stuðnings meðal annars sunnudagaskólastarfi inn í leikskólum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)