Skeifufólkið

Þorfinna amma mín, gerði flest stórt. Þegar ég var barn sendi hún stundum kökudúnka á aðventunni til okkar á Krókinn og seinna í Skeifuna. Efast um að það hafi verið undir sex sortum, sem bættust síðan við allar hinar sem mamma bakaði. Þetta var á þeim tímum sem hver dúnkur var innsiglaður með límbandi og kökur ekki teknar fram fyrr en á aðfangadag. Þegar hver veggur var hvítskrúbbaður fyrir jól og hverju rykkorni úthýst með harðri  hendi helst snemma á aðventunni.

Ég hef yfirleitt talið mig líkari Kristínu ömmu minni, kannski er það vegna nafnsins, kannski vegna þess að hún var lítil kona eins og ég er. Kristín amma mín átti níu börn tvær dætur og sjö syni. Afkomendur hennar eru taldir í tugum. Amma og afi bjuggu lengst af á Eskifirði. Þegar öll börnin voru farin að heiman, eltu þau og fluttu hingað til Reykjavíkur og hjá þeim hittist stórfjölskyldan á aðfangadagskvöld.

Eftir því sem afkomendahópurinn stækkaði varð erfiðara að hittast á aðfangadagskvöld. Smá saman lagðist það af. Enda hittist öll stórfjölskyldan í jólaboði á jóladag hjá Matta bróður mömmu í Kúrlandi. Þar var líka fjölskyldan hennar Perlu konu Matta. Í á þriðja tug ára hittumst við þar tvær stórar fjölskyldur. Drukkum kakó, gengum í kringum jólatré, tókum á móti jólasveininum. 

Amma og afi vildu líka hitta allan skarann hjá sér svo þau tóku upp á því að hafa standandi borð í eldhúsinu á aðfangadag. Afi var kokkur og bakari og mallaði allt sjálfur. Frá klukkan ellefu að morgni aðfangadags til að verða þrjú renndu afkomendur við, settust niður með hluta stórfjölskyldunnar og áttu saman notalega stund. Eftir að afi dó hélt amma lengi í þennan sið. Bjóða upp á hangikjöt, svið og meðlæti á aðfangadag og annar kokkur í fjölskyldunni sá um matseldina. Drengjunum mínum fannst ekki jól nema fara til ömmu og afa. Fá smá forsmekk jólanna, hita magann upp fyrir kvöldið.  

Nú er amma farin og stórfjölskyldan hittist næstum aldrei, seinast á afmælisdeginum hans afa í Skeifunni. Við Skeifufólkið eru reyndar nokkuð mörg. Barnabörnin og barnabarnabörnin að fylla tvo tugi.  Á miðvikudag var ég með aðventuboð fyrir barnadeildina. Mættu um tugur barna, leiruðu úr trölladeigi, máluðu á striga og fóru í hljóðver með Lilló sem tók upp bæði söng og hljóðfæraleik þeirra. Verður sjálfsagt jóladiskurinn í ár hjá okkur Skeifufólkinu. Átta ára frændi minn spurði hvort það væri möndlugjöf. "Nei" sagði ég, "en hér er hinsvegar ný barnabók sem ég var að hugsa um að láta einhvern hafa" "mig, mig", sögðu þau nokkur. Við ákváðum að Íris fengi bókina fyrst og þegar hún væri búin að lesa hana ætti hún að skrifa nafnið sitt inn á kápuna og láta hana ganga. Þetta fannst öllum heillaráð. Einn frændi minn sem er lesblindur sagði, "já en ég kann ekki að lesa", "Iss" sögðum við, "það les hana þá bara einhver fyrir þig og þú kvittar, og svo lærirðu að lesa, þetta kemur". Hann var ánægður með þessa lausn. Og ég glöð að það er ekki feimnismál að eiga erfitt með lesturinn.

En þá er komið að ömmu Þorfinnu, hún var alltaf stórtæk, kunni ekki að gera smátt held ég, enda ráðskona á sjúkrahúsinu á Siglufirði í áratugi og þar áður á elliheimilinu á Seyðisfirði. Hún var með meirapróf og soldið tækjasjúk. Ég er eins, gerði fyrir þessi 10 börn 10 kíló af trölladeigi, og annað eins af grjónavelling. Ég var auðvitað spurð hvort ég héldi að ég væri að malla og gera deig fyrir heilan leikskóla. OG einn frændi minn 12 ára sagði eða tvo árganga í grunnskóla. Og svo verð ég víst að játa á mig nýjungagirni varðandi tækin.

Núna heyri ég bara jólalög og svo Stóð ég úti í tunglsljósi, úr kjallaranum, Lilló að hljóðblanda jóladiskinn. En læt fylgja með nokkrar myndir úr jólaboðinu.

afi og sturla góðir saman í boði Sturla Þór og afi

trölladeigmála 

ljósaleikur100_6019ljósaleikurSturla og afi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf stórtæk
Sé að þú hefur sett upp nokkurskonar "stöðvar"
Ótrúlega öðruvísi og skemmtileg frænka  

Guðrún Alda Harðardóttir (IP-tala skráð) 21.12.2007 kl. 08:11

2 identicon

Takk fyrir frábæran dag.

Elsa Þ. Dýrfjörð (IP-tala skráð) 21.12.2007 kl. 14:05

3 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk sömuleiðis Elsa Þorfinna

Kristín Dýrfjörð, 21.12.2007 kl. 16:29

4 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Óska þér og þinni fjölskyldu gleðilegra jóla

Valgerður Halldórsdóttir, 22.12.2007 kl. 12:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband