Leikskóli ákveður að hætta að fara með bænir

Eins og margur veit hef ég fylgst með umræðunni um kristilega siðgæðið og hlutverk kirkjunnar í leikskólanum af nokkurri athygli. Sjálf fór ég að skoða málið af einhverri alvöru fyrir nokkrum árum. Fram að þeim tíma hafði þetta meira verið mannréttindaáhugamál hjá mér og skemmtilegt umræðuefni. Eitt af því sem kveikti frekari áhuga minn á hlutverki kirkjunnar og kristninnar í leikskólum voru viðræður við nema við HA. Fólk sem er í vettvangsnámi í leikskólum og sem margt hvert er í starfi í leikskólum með námi. Man ég að meðal þess sem þar kom fram og ég var mjög undrandi á var að í sumum leikskólum var farið með bænir, morgunbænir og borðbænir. Þetta voru annars venjulegir leikskólar reknir af sveitarfélögum. Sérstaklega virtist þetta vera einkennandi á Suðurnesjunum.

Áðan las ég á bloggi Kristins Ásgrímssonar að í einhverjum leikskóla á Suðurnesjum sé fólk hætt þessu og búið að setja inn þulu í bænastað. Ég man að þegar um þetta var spurt í einhverjum fjölmiðli fyrir nokkrum árum svaraði viðkomandi að bænin væri notuð til að búa til ritúal og fá ró í hópinn. Þula eða ljóð þjónar sama markmiði og fagna ég því að viðkomandi skóli hafi ákveðið að taka þetta skref. Á sínum tíma velti ég fyrir mér hvort að bænirnar hafi verið vegna, áhrifa ofan af velli, eða hvort þetta hafi tengst mikilli sjósókn og sjávarháska. 

Áðan horfði ég á Öddu Steinu reyna að verja málstað kirkjunnar. Ég fagna umræðan virðist hafa skilað því að kirkjan sé að gera sér grein fyrir að ásókn hennar inn í leikskóla sé eitthvað sem hún þarf að íhuga. Ífræðslustefnu stendur að samstarfið eigi að vera á forsendu skólanna en það er í lagi að minna á að á sínum tíma höfðu ýmsir hugmyndir um að ganga lengra eins og sjá má í skýrslu sem unnin var fyrir kirkjuna. Sem betur fer er skynsamt fólk í prestastéttinni sem stoppaði slíkar hugmyndir. Hinsvegar verð ég hryggja Öddu Steinu með að sumir þjónar kirkjunnar hafa valið að fara lengra og ástunda trúboð inn í leikskólum. Hafa meðal annars farið með og kennt börnum bænir. Eða er það ekki að fara með bæn, að biðja börn að loka augum, spenna greipar og biðja guð að passa pabba og mömmu? Og í mínum bókum er það trúboð sé það gert í skóla. Í mínum bókum er það á ábyrgð og hlutverk foreldra að sjá um trúaruppeldi.

Mér fannst Bjarni standa sig vel og vera málefnalegur. Eins og reyndar hefur verið með flest það fólk sem talar fyrir aðskilnaði skóla og kirkju.

Sjálf tel ég ekkert að því að fara í kirkju með börn og fræða þau um hlutverk hennar. Um það sem hún stendur fyrir. Mér finnst sjálfsagt að þau spreyti sig á að byggja hana úr kubbum og eða teikna. Reyndar fagna ég slíkum verkum. Tel þau hluta af því að efla með börnum menningarlæsi. Alveg eins og ég tel að við komum til með að gera þegar moskur og hof verða hluti af nágrenni skólanna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ég held að þú hafir nefnt það sjálf í einhverri færslu eða jafnvel í skýrslunni, en ég vil koma einu að hér.

Eða er það ekki að fara með bæn að biðja börn á loka augum, spenna greipar og biðja guð aða passa pabba og mömmu? Og í mínum bókum er það trúboð. Í mínum bókum er það ábyrgð og hlutverk foreldra að sjá um trúaruppeldi.

Adda Steina og fleira Þjóðkirkjufólk réttlætir bænakennslu og annað kristniboð í leikskólum á þeim forsendum að börnin séu skírð í Þjóðkirkjuna og þetta sé því þjónusta við foreldra - ekki trúboð.  Þeim finnst fullnægjandi lausn að önnur börn séu tekin til hliðar.

Ég verð að játa að viðhorf mitt til barnaskírnar breyttist þegar ég heyrði þetta sjónarhorn.  Hingað til hef ég litið á það sem frekar saklausan gjörning sem margir framkvæma á hefðarforsendum, aðrir af trúarlegum ástæðum.  En þegar Þjóðkirkjan er farin að nota það til að afsaka kristniboð í leikskólum á þeim forsendum að skírð börn séu kristin, finnst mér barnaskírn afar óviðeigandi.  Ég er viss um að margir foreldrar vita ekki að með því að láta skíra barn hjá Þjóðkirkjunni séu þeir um leið að leggja blessun sína yfir trúboð í skólum.

Hér er dæmi um umræðu þar sem ég reyndi að ræða þetta við Þjóðkirkjufólk með litlum árangri.

Matthías Ásgeirsson, 16.12.2007 kl. 23:18

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæll ég leit yfir umræðuna og sé að í hugum þeirra sem þarna svara af hálfu kirkjunnar m.a. Öddu Steinu er skírn fyrst og fremst trúarleg athöfn. Ég verð reyndar að vera sammála þér því ég tel að mjög margir foreldrar líti á skírnina fyrst og fremst sem nafngjöf og hefð. Held að þannig hafi það nú verið í minni fjölskyldu lengstum, og þeir trúminni í henni hafa hreinlega sagt það ekki skipta sig nokkru máli hvort einhver hempuklædd manneskja skvetti vatni á barnið eða ekki. Aðrir hafa af prinsippástæðum ekki viljað blanda kirkjunni í nafnagjöfina. En til að telja það geta skaðað barnið verður væntanlega að trúa. 

Kristín Dýrfjörð, 17.12.2007 kl. 00:41

3 identicon

Ég held að það sé gefið mál að í hugum allmargra ef ekki flestra eru skírnir, fermingar, giftingar og útfarir í kirkjum fyrst og fremst hefðir og þægileg lausn. Ekki þykist ég geta lesið hugsanir fólks, en mér er til efs að margir skíri í kirkju til að forða viðkomandi barni frá helvíti. Fólk á Íslandi trúir enda ekki á tilvist helvítis.

Og það er enda einn alöflugasti styrkleiki kirkjunnar, að bjóða upp á þægilega pakka við að gefa nafn, framkvæma manndómsvígslu, gera fólk að löglegum hjónum og ganga frá lífvana búkum ástvina. Við fáum fallegar athafnir í höndum vanra atvinnu-góðmenna, í oftast nær fallegu húsnæði og við gleðjum um leið eldri kynslóðina, sem einna helst hefur raunverulega trú í hjarta sínu. Kristnin okkar er fyrst og fremst lítt skilgreind "barnatrú" og rannsóknir sýna að meirihluti okkar trúir frekar á "yfirnáttúrulegan anda" frekar en persónulegan Guð.

Aðrir kostir fyrir svona athafnir eru mjög takmarkaðir. Allt í lagi með nafnaveislur í heimahúsi, en óneitanlega er t.d. gifting hjá "borgardómara" tilkomulítil og auðgleymanleg. Borgarleg ferming Siðmenntar er prýðileg, en útfærsla á útförum án prests og kirkju varla fyrir hendi.

Meðan kirkjan býður upp á svona þægilegan, fallegan og hefðmikinn umbúnað utan um "nauðsynlegar" athafnir mannanna þá heldur hún miklum styrkleika sínum.

Hvað leik- og grunnskólana varðar er  málið einfalt; trúboð á ekki heima í skólunum, þar með talið bænakennsla.

Lillo (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 16:11

4 Smámynd: Sólveig Lilja Óskarsdóttir

Ég finn fyrir sorg í hjarta mínu þegar ég les þennan pistil. Ég bið til Guðs að ALDREI muni moskur rísa hér á Íslandi, skoðið hvað er að gerast í hinni ´..líbó.. Svíþjóð, í Danmörku,í Englandi og USA og víðar. Múslimar eru að ná tangarhaldi á sumum íbúum þar og hafa vakið upp reiði annara, er ég á móti múslimum, nei alls ekki Guð elskar þá líka eins og annað fólk. Af hverju skildum við kristin þjóð lúffa fyrir annara trú og henda okkar út. Ég er sjálf leikskólakennari og finnst mjög sorglegt að börn eigi ekki að fá að biðja bænir í leikskólum, sjálf fór ég með bænir í bekknum mínum í grunnskóla og fannst það mjög gott og við skiptumst á að fá að velja bænina sem við fórum alltaf með hjá umsjónakennara okkar í lok dags, Faðir vor, Leiddu mína litlu hendi, Láttu nú ljósið þitt og fleiri, uppbyggjandi jákvætt sameinar og gefur frið.

Bandaríkjamenn sem voru mjög blessuð þjóð af Guði var með bænir og boðorðin tíu í skólastofum og kennslu úr Biblíunni.  Þetta var smám saman fjarlægt og uppskeran er vopnaleit á börnum áður en þau mæta í skólann morð og allt það sem hefur dunið yfir Bandaríkjunum þegar þau ákváðu smám saman að færa sig, sjálfviljug undan blessunum Guðs.

Að börn megi ekki biðja Guð að passa pabba og mömmu, ég á ekki til orð, ef hann Faðir okkar sem skapaði okkur er ekki bestur til þess fallinn, hver passar þau þá...

Jésús dó fyrir mínar og þínar syndir til þess að við mættum öðlast eilíft líf í honum, með honum, hann reis upp á þriðja degi og situr við hægri hönd Guðs Föður Almáttugs og biður fyrir okkur. Það er hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort hann meðtaki það og taki á móti því sem Jésús gerði fyrir okkur, vegna þess að Guð gaf okkur sjálfstæðan vilja, því hann þráir að við elskum hann frá hjarta okkar en ekki eins og vélmenni og þennan kærleika finnst mér að börn eigi að fá að kynnast en það eru ekki allirforeldrar sem kynna hann fyrir börnum sínum svo hvar eiga þau að fá að kynnast því og hvernig geta þau valið sjálf seinna meir um trú sem þau aldei hafa fengið að vita um að væri til, þannig að börn gætu alist upp á Íslandi án þess að vita til þess að Guð sé til Biblían sé Lifandi bók og að Jésús elski þau svo mikið að hann dó fyrir þau. Svo hver á að segja frá annar en sá sem Jésús hefur snert við.

Sólveig Lilja Óskarsdóttir, 20.12.2007 kl. 14:58

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ja hérna. Þvílíkt bullandi ofstæki hjá Sólveigu Lilju. En um leið svo kærleiksríkt að manni verður svaravant.

Sólveig. Þegar þú segir:

"Að börn megi ekki biðja Guð að passa pabba og mömmu, ég á ekki til orð, ef hann Faðir okkar sem skapaði okkur er ekki bestur til þess fallinn, hver passar þau þá".

langar mig til að benda þér á þann hægðarleik fyrir börn að biðja fyrir mömmu og pabba heima hjá sér og í kirkju.

 Þegar þú segir:

"Bandaríkjamenn sem voru mjög blessuð þjóð af Guði var með bænir og boðorðin tíu í skólastofum og kennslu úr Biblíunni.  Þetta var smám saman fjarlægt og uppskeran er vopnaleit á börnum áður en þau mæta í skólann morð og allt það sem hefur dunið yfir Bandaríkjunum þegar þau ákváðu smám saman að færa sig, sjálfviljug undan blessunum Guðs"

langar mig að benda þér á að þetta er argasta bull. Bandaríkjamenn hafa viðhaft strangan aðskilnað ríkis og kirkju/trúar frá upphafi.

Annað kem ég mér ekki til að segja.

Friðrik Þór Guðmundsson, 21.12.2007 kl. 17:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband