Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
26.11.2007 | 01:50
TJÁNING MIKILVÆGASTA VERKFÆRI KENNARANS
Námskeið á vegum SARE
(Samtök áhugafólks um starf í anda Reggio Emilia)
verður haldið á Kaffi Reykjavík,
þann 29. nóvember n.k. frá 16 - 19
Fyrirlesari verður Kári Halldór
Kynntur er grunnur að markvissri og áhrifaríkri sjálfsþjálfunaraðferð tjátækninnar sem byggir á tjáeðlisfræði mannsins. Einnig er fjallað um aðgengileika Essvitundar mannsins og hagnýtingu hennar. Tjátæknin miðar að því að skapa meðvitund um undirstöðuatriði mannlegrar tjáningar og hvernig virkja megi lögmál tjágáfu mannsins. Megin áhersla er lögð á að gefa þátttakendum verkfæri sem þeir geta hagnýtt sér bæði í lífi og starfi og að einbeita sér að því sem er aðgengilegt og auðþjálfanlegt, sem grunn að sjálfsþjálfunarferli.
Kári Halldór er leiklistarstjóri /tjáeðlisfræðingur, leikstjóri, leiklistarkennari, tjátækniþjálfari.
Gjald 5000 fyrir félaga SARE,
7.500 fyrir aðra. Kaffi og kleina innifalið
Allir velkomnir.
Skráning fer fram hjá Kristínu Dýrfjörð í tölvupósti dyr@unak.is
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.11.2007 | 02:08
Heimsókn í Londonar leikskóla - hluti 1
Ég heimsótti leikskóla í vesturhluta London s.l. föstudag, skólinn er miðstöð blandaðrar starfsemi sem snýr öll að börnum og foreldrum. Þetta er heilsdagsleikskóli fyrir 60 börn, 54, 3- 5 ára börn eru á einni deild og svo eru 6 tæplega 3ja ára börn á sérstakri móttökudeild. Síðan er leikhópar fyrir 25 börn í einu, fyrir og eftir hádegi. leikhóparnir eru fyrir foreldra og börn þeirra frá fæðingu til 5 ára. Í leikskólanum er aðstaða fyrir félagsráðgjafa til að hitta foreldra, þerapistar vinna þrjá daga í viku með foreldrum bæði einstaklingslega og í litlum hópum. Foreldrafræðsla og ýmis samvinnuverkefni foreldra eru líka í gangi. Með leikhópunum vinna 2 leikskólakennarar en foreldrar eru að sjálfsögðu líka á staðnum. Hinsvegar geta foreldrar farið í viðtöl til félagsráðgjafa og þerapista á meðan börnin eru í leikhópunum, sem og tekið þátt í fjölskylduverkefnum sem í boði eru hverju sinni. Ég fékk leyfi til að mynda en það er að sjálfsögu ekki sjálfgefið. Á meðan á heimsókn minni stóð voru foreldrar að vinna saman að fjölskyldubók fyrir börnin. Það starf leiddi foreldri (Ann) sem er með barn í leikskólanum og annað í leikhóp. Hún sagði mér að leikhópurinn hafi bjargað lífi hennar. Þegar yngri drengurinn fæddist mætti hún með hann fyrst 10 daga gamlan í leikhóp. Sagði hún mér að leikskólinn sé hennar líflína.
Fjölskyldubók
Ég fékk að fylgjast aðeins með þegar foreldrar voru að vinna að bókinni. Foreldrar koma undirbúnir með myndir og teikningar að heiman, sem þeir telja skipta máli fyrir sitt barn. Ann sagði mér að þegar hún gerði bækur sinna drengja hafi hún sest með þeim og þau rætt hvaða myndir ættu að fara, og þeir hafi líka teiknað myndir sérstaklega fyrir bókina. Aðrir foreldrar settu inn myndir og atriði sem skiptu máli fyrir þá og voru tengdir menningu og bakgrunni. t.d. sá ég bækur þar sem börn og fjölskyldan var að biðja saman, og mynd þar búið var að bæta teiknuðu bænateppi við mynd af barninu. Þannig spegluðu bækurnar mjög mismunandi bakgrunn fjölskyldnanna. Bækurnar eru gerðar á A4 spjöld sem eru síðan plöstuð og fest saman með hringjum. Þannig að lítið mál er að bæta við blaðsíðum eftir því sem tíminn líður. Þegar ég fletti nokkrum bókum tók ég líka eftir ákveðnum mun í hvernig foreldrar unnu eftir kyni barna þeirra. Til dæmis var meira um að í bókum stelpnanna væri notað glimmer og alla vega skreytingarefni. Ég spurði Ann aðeins um þetta, hún sagðist aldrei hafa pælt í þessu en núna mundi hún nota þetta sem umræðuefni í næsta hópatíma með sömu foreldrum.
Leikskóladeildin
Leikskóladeildin (þessi með 54 börnum) er í risastóru rými sem er skipt upp í vinnusvæði, síðan hafa þau aðgang að litlum hreyfisal og rúmgóðu herbergi sem þjónar sem bókasafn og staður til að njóta næðis. Börnunum 54 er skipt upp í tvo hópa og hefur hvor hópur 3 starfsmenn. Öll sérkennsla á sér stað inn í hópunum og er gert sérstaklega ráð fyrir mönnun vegna þess. Hver leikskólakennari er ábyrgur fyrir tilteknum hóp og þegar ég var í heimsókn sat einn leikskólakennari í undirbúningsherberginu og vann að því að setja uppeldislegar skráningar inn í möppur sinna barna. Til slíkrar vinnu eru áætlað fjórir klukkutímar á viku. Sagði leikskólastjórinn (Maggie) mér það vera nokkuð sem allir leikskólakennarar í London fá. Skráningar var líka víða að finna á veggjum skólans. Maggie sagði mér að hún liti svo á að með myndum af ýmsum vinnuferlum gerði hún foreldrum og öðrum úr samfélaginu sem ætti leið inn í skólann ljóst hvaða og hvernig starfsemi færi þar fram. Myndir sem sýndu í raun námstækifæri barna.
Skráningarnar
Ég ræddi við leikskólakennarann um skráningar, hún sagði að áður hafi þær verið mjög uppteknar af því að skrá það sem snéri að opinberum skilgreindum námssviðum. Það hafi aftur leitt til þess að þær hafi aðallega gert skráningar á því sem snéri að lestrarundirbúning og stærðfræði. Því hafi þær hætt því og nú leitist þær við að "sjá" barnið. Þegar ég ræddi aftur við aðra leikskólakennara í Bretlandi, vildu þau meina að þessi tegund skráninga sé mjög einstaklingsmiðuð og bjóði ekki upp á sama skilningi á námi barna og uppeldisfræðilega skráningin. Hún sé ekki notuð sem leið og aðferð til skilnings - heldur meira sem skýrsla. Vildi viðkomandi meina að þetta væri algjör tímasóun. Ég gat á engan hátt tekið undir þetta sjónarmið. Það hlýtur að skipta máli og hafa áhrif á bæði starfið og þróun þess að í hverri viku setjist leikskólakennari niður og íhugi nám og líf hvers barns. En ég tek undir að mér finnst vanta umræðuþáttinn.
´
Aðeins um garðinn
Garðurinn er oggulítill eins og oft er í borgarskólum en hann var vel skipulagður og í raun framlenging á leikrýminu inni. Jæja ég klára þessa færslu seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.12.2007 kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2007 | 01:39
Komin heim
Þá er ég komin heim, búin að þramma um bæði Amsterdam og Kaupmannahöfn í dag. Báðar borgir komnar í jólabúning. Var reyndar í London um fyrir og um helgina og hún er líka komin í sinn jólabúning. Á mánudaginn vann ég á bókasafninu og beið eftir að ná fundi. Fékk boð um klukkan fimm að viðkomandi gæti hitt mig, átti við hana ágætis spjall. Hún spurði mig svo hvenær flugið mitt færi frá Heathrow, "átta segi ég", "ertu galin", "hefurðu ekki þurft að vera löngu farin af stað?" Mér sem fannst ég í góðum tíma. Alla vega þegar fundi lauk fór ég af stað og var komin vel tímalega á völlinn. Reyndar stressaðist ég aðeins þegar lestin lenti í 15 mínúta stoppi á leiðinni. Í London var annars slík rigning á sunnudag og mánudag að ekki hefur annað eins sést í haust. Meira segja seinkaði fluginu mínu til Amsterdam vegna rigningar.
Það er búið að vera mikið að gera þessa daga í Amsterdam, búin að skoða leikskólasýningu, funda nokkrum sinnum, fara út að borða og heimsækja tvo leikskóla. Er að vinna í minnispunktunum mínum. Dagurinn í dag hefur verið fínn, náði að funda lítillega um málefni sem tengjast SARE, ég skoðaði leikskóla í Amsterdam í morgun, fór svo með vatnataxa þaðan á aðaljárnbrautarstöðina.
Lenti í Köpen um fjögur og náði að þramma niður Strikið og draga að mér jólaandanda borgarinnar. Vélin heim var svo full af íslenskum karlmönnum sem ég held að flestir hverjir hafi verið að koma landsleiknum. Á morgun er svo ráðstefna um leikskólaarkitektúr.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2007 | 12:02
16. nóvember 2007
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.11.2007 | 22:24
Sturla Þór heitir hann litli ömmu og afastrákurinn
Á nafnadaginn - kátastur á teppi að skoða heiminn
Trausti og Íris buðu til nafnaveislu í dag. Þau komu okkur Lilló gjörsamlega í opna skjöldu þegar þau tilkynntu að drengurinn heitir Sturla Þór í höfuðið á Sturlunni okkar. Við táruðumst öll, frænkur og frændur, ömmur og afar í föðurættinni. Þegar kúturinn var nýfæddur sögðum við Trausta og Írisi að það væri engin pressa frá okkur eða að við ætluðumst til að hann nefndi í höfuðið á bróður sínum. Við vildum alls ekki að þau upplifðu pressu, okkur fannst rétt að þau veldu nafn á drenginn sinn á sínum forsendum. Þess vegna urðum við svo hissa en líka innilega glöð.
Sturlan okkar eldri væri tuttugu og þriggja ára núna hefði hann fengið að lifa. Við fengum ekki tækifæri til að sjá hann þroskast sem fullorðinn einstaklingur. Núna fáum við annað tækifæri til að sjá Sturlu vaxa úr grasi. Fyrir það erum við þakklát og hamingjusöm.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
10.11.2007 | 23:26
Gunnhildur Eva 7 ára
Í dag fór ég í afmælisboð í fjölskyldunni. Gunnhildur Eva sem verður 7 ára á mánudaginn, fékk að halda upp á afmælið hjá langömmu og langafa í Skeifu. Gunnhildur er í sex ættliði elsta dóttir, elstu dóttur, það finnst mér merkilegt. Röðin er Gunnhildur Eva, Hrafnhildur, Elsa Þorfinna, Kristín Ágústa, Kristín Jónína, Þuríður (langamma mín, fædd 1875) var elst, en móðir hennar Rannveig var önnur systir sem og móðir hennar Þuríður og móðir hennar Rannveig. (Athugulir geta séð að ég er þriðji ættliður með sama nafn, og Kristín amma mín hét í höfuðið á ömmu sinni og langömmu í föðurætt, en þær hétu báðar Kristín).
Afmælið var líka fyrsta afmælið hans litla kúts, sem á þriðjudaginn varð 6 vikna, hann þrífst vel, virðist það allt fara í lengdina.
Ég mætti með ljósaborð í afmælið sem vakti nokkra lukku hjá börnunum, það var gaman að skoða bæði kynbundið og aldurstengt hvernig börnin léku sér.
Þar sem þetta var búningaafmæli, voru þarna bæði, Barbie, prinsessur, álfkonur og ofurhetjur ýmsar. (Takið eftir að ég eins og börnin skilgreini ekki álfkonur sem ofurhetjur, humm). Alma og Elmar voru bæði ofurhetjur. Alma var afar hamingjusöm í sínum Superman búning og í bleikum stígvélum í stíl. Frekar fyndið til þess að hugsa að Superman (eða Spiderman) er kannski stelpum þóknanlegur vegna litagleði á meðan Batman er "stráka" Elmar var Batman. Ég spurði nokkra hvort Barbie væri ekki örugglega ofurhetja, og uppskar hæðnishláturfrá 6 ára frænda mínum beinagrindinni, Styrmi Sturla. Sá á reyndar þrjá eldri bræður og kannski ekki mikið umgengist Barbie, nema hjá þessum örfáu stelpum sem eru í fjölskyldunni. Held ég geti fullyrt að þeir hafa ekki fengið Barbiehallir og Barbiebíla í jóla og afmælisgjafir.
Verst þykir mér að Ólíver slapp hjá að láta mynda sig. En við ræddum aðeins um gjöfina sem hann fékk frá ömmu um daginn, hún gaf honum langan pott með þremur pottum í og í hverjum potti var mold og í moldinni gróðursettur kaktus. Hann hefur þá í herberginu sínu og hugsar vel um þá. Þetta getur maður alveg í þriðja bekk.
PS. Lilló var svo vænn að upplýsa mig um tiltekið þekkingarleysi mitt á ofurhetjum, að sjálfsögðu er Alma Rán í Spiderman búningi ekki Superman. Hér með leiðréttist þetta og vona ég að litla frænka mín fyrirgefi mér þetta.
Dægurmál | Breytt 13.11.2007 kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.11.2007 | 13:27
Misskilið umburðarlyndi = meðvirkni
Í gær sótti ég málþing til heiðurs Sigrúnu Aðalbjarnardóttur, prófessor við Háskóla Íslands. Málþingið nefndist, Ákall 21 aldarinnar - Virðing og umhyggja. En tilefnið var útkoma bókar með sama heiti. Sigrún er ein þeirra fræðikvenna sem hefur staðið fremst á sínu sviði. Ég fagna bókinni og hvet alla til að verða sér út um eintak.
Ég yfirgaf reyndar samkomuna í kaffihléinu, átti ýmislegt eftir að gera og verð líka að játa að ég nennti ekki að hlusta á Evu Maríu sjónvarpskonu, hefði sennilega átt að láta mig hafa það því á eftir henni voru aðrir sem ég hef meiri áhuga á. ´
Fyrstur flutti Bjarni Ármannsson ávarp, ávarp sem gaman væri að fá að sjá á prenti, ég verð að viðurkenna að ég var honum að mestu sammála. Hann ræddi meðal annars um glidi íslenskunnar, um skapandi fólk, um samskipti.
Sigrún flutti yfirlitsfyrirlestur um bók sína, sagðist hún vona að útkoma hennar styddi við virðingu fyrir kennarastarfinu. Jón Torfi var skemmtilegur sem málþingsstjóri, dró saman og tengdi mál manna við fræðilegar vangaveltur og málefni dagsins. Þegar Sigrún benti á að börn og unglingar eru 9 mánuði í skóla, lungað úr deginum, benti Jón á 11 mánaða leikskóla með 9 tíma daglegri viðveru.
Vilhjálmur Árnason flutti erindi um lýðræði, hann byrjaði á að vitna í 2. grein laga um grunnskóla þar sem segir að "Hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun". Umræða hans snérist síðan um hvað þessi þjóð lítur á sem lýðræði og hvernig það birtist í bók Sigrúnar. Aðallega skoðaði hann bókina út frá þremur meginlýðræðisrökum.
Eitt þeirra atriða sem hann ræddi nokkuð er hugtakið virðingarleysi. Hann hélt því t.d. fram að það fælist í því ákveðið virðingarleysi að samþykkja allar skoðanir jafnvel þær sem misbjóða okkur, það er ekki bara virðingarleysi gangvart þeim sem við erum að ræða við heldur ekki minnst gagnvart okkur sjálfum, hann nefndi þetta sem dæmi um misskilið umburðarlyndi sem væri í raun annað nafn yfir meðvirkni.
Mér hefur reyndar stundum fundist þetta viðhorf vera ríkt, að við eigum í nafni umburðarlyndis að umbera skoðanir og vinnubrögð sem jafnvel ganga gegn öllu því sem við tilfinningalega, faglega og fræðilega, teljum vera gott. (Ég valdi viljandi að setja tilfinningarökin hér með). Við eigum alls ekki að vera tortryggin, heldur eigum við að vera jákvæð og skilningsrík. Til að fá fólk til að fallast á aðferðafræðina er vísað til hugmynda póstmódernismans (aðallega af hentugleika) um að til séu fleiri en einn veruleiki og til sé fleiri en ein sýn á veruleikann sem getur verið jafnrétt fyrir viðkomandi. Hugmyndir sem ég er sammála, en vona að ég láti samt ekki blinda mig eða binda mig á klafa þess að allar hugmyndir séu réttar og góðar vegna þess einfaldlega að í þeim felist sannleikur einhverra annarra. Það má vel vera að ég sýni með þessu hroka gangvart hugmyndum og lífsgildum. En þá verður bara svo að vera.
Með tilvísan til umburðarlyndis er því haldið að okkur að við eigum að umbera en ekki bara umbera, við eigum alls ekki að gagnrýna. Við eigum bara að hugsa um okkur og svo hugsa hinir um sig og sínar skoðanir, (en þeirra hugmyndaheimur getur samt gefið þeim leyfi til að þvinga með mismunandi hætti skoðunum upp á aðra, og svo treysta á að við í nafni umburðarlyndis, sitjum hjá).
Mér fannst einmitt grein Georg Soros í Fréttablaðinu í morgun vara sterklega við slíkum hugsunarhætti og sýna fram á hvert hann hefur leitt okkur. Hann lýsir því þar hvernig hugarfarsleg mengun á sér stað í heilu þjóðfélagi. Þar sem því var lymskulega komið áleiðis til þjóðarinnar ef þú ekki samþykkir það sem við höfum ákveðið eða teljum best, þá ertu hluti af vonda liðinu. Hann telur að við þurfum að læra að meta hvenær verið er að draga upp það sem hann nefnir ranga mynd af veruleikanum. Að markmið menntunar sé m.a. að kenna fólki að sjá í gegn um þær blekkingamyndir sem dregnar eru upp. Að læra að tortrygga.
Mér finnst glitta heldur óþyrmilega í samskonar viðhorf þegar á að velja og stýra hver má tala um hvað, ég má ekki hafa skoðun á málefnum, hugmyndafræði eða vinnubrögðum hópa sem ég ekki tilheyri. Ég nefnilega er ekki hluti af hópnum, ég á bara að tala um það sem ég þekki af eigin raun, reynt á eigin skinni og hafa skoðun á því. Hinir mega þá væntanlega ekki hafa skoðun á mér, en það er gjaldið sem þeir eru tilbúnir að greiða til að geta predikað í eigin ranni sínar skoðanir án skoðunar eða gagnrýni utanaðkomandi aðila. Stundum hefur mér fundist þetta viðhorf vera þegar rætt er um trúarbragðafræðslu (jafnvel bænahald) í skólum, kirkjan segir, við skulum koma og fræða okkar börn um kristnina en svo mega hinir fræða sín börn. Við erum best til þess fallin að gera þetta. Hinir eru best til þess fallnir að ræða við sína. Í sjálfu sér hljómar þetta afar slétt og fellt og jafnvel sanngjarnt. En er það svo?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.11.2007 | 01:29
Starf í anda Reggio Emila - kynning í KHÍ
Fyrirlestur um
Starf í anda Reggio Emilia
Fimmtudaginn 15. nóvember, frá klukkan 16 18 verður haldin almenn kynning á starfi í anda Reggio Emilia í Skriðu, fyrirlestrasal Kennaraháskóli Íslands v/ Stakkahlíð
Fyrirlesarar verða þær Guðrún Alda Harðardóttir, dósent við Háskólann á Akureyri og leikskólaráðgjafi hjá Reykjavíkurborg og Kristín Karlsdóttir, lektor við Kennaraháskóla Íslands.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um viðhorf til náms og hvernig þau endurspeglast í starfi leikskóla Reggio Emilia. Fyrirlesturinn er einkum ætlaður þeim sem eru að byrja að feta sig áfram í starfi í anda Reggio Emilia eða sem upprifjun fyrir þá sem lengra eru komnir.
Allir velkomnir, félagar SARE 1200 aðrir 2200
Æskilegt er að láta vita um þátttöku til mín á netfang dyr@unak.is
frá "Reggio" leikskóla
8.11.2007 | 18:33
"Ég margleit í speglana og sá ekkert, hann bara var þarna allt í einu"
Börn í slysum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.11.2007 | 00:29
Vona að viðhaldið sé í lagi
Sem einlægur og reglulegur notandi Fokkervéla er ég að velta fyrir mér, í síðustu viku þurfti að snúa vél við til Akureyrar vegna þess að það var ísing og hurð lokaðist ekki almennilega, í dag er það hreyfill og jafnþrýstingur. Vona sannarlega að viðhaldið sé í lagi. Sem áhugamanneskja um flugöryggi finnst mér mikilvægt að vita hvort þetta er t.d. sama vélin og hvort hún sé þá ekki á leiðinni í allsherjar yfirhalningu.
Nú er sá árstími sem stormviðvaranir eru nærri daglegt brauð og maður má alltaf búast við töluverðri ókyrrð en mér finnst óþægilegt til þess að vita að vélarnar séu í ofanálag að bila á þennan hátt. Mér finnst óþægilegt að fólkið mitt þurfi að vita af mér í flugi við þessar aðstæður.
En svona til að klára málið þá sagði einu sinni samstarfsmaður við mig að innst inni gleddist hann alltaf þegar flugslys væru einhverstaðar úti í heimi, það drægi nefnilega úr tölfræðilegum líkum á að hann lenti í slíku sjálfur á ferðum sínum. Svona vil ég ekki hugsa, að ég hafi verið tölfræðilega heppin að vera í ekki í þessum flugum. Flugöryggi á að vera sjálfsögð krafa.
Jæja ætli það sé ekki best að fara að koma sér í rúmið, á að fara í flug með fyrstu vél í fyrramálið.
Lenti aftur á Egilsstaðaflugvelli eftir að olíuþrýstingur í öðrum hreyfli féll | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)