Heimsókn í Londonar leikskóla - hluti 1

Ég heimsótti leikskóla í vesturhluta London s.l. föstudag, skólinn er miðstöð blandaðrar starfsemi sem snýr öll að börnum og foreldrum. Þetta er heilsdagsleikskóli fyrir 60 börn, 54, 3- 5 ára börn eru á einni deild og svo eru 6 tæplega 3ja ára börn á sérstakri móttökudeild. Síðan er leikhópar fyrir 25 börn í einu, fyrir og eftir hádegi. leikhóparnir eru fyrir foreldra og börn þeirra frá fæðingu til 5 ára. Í leikskólanum er aðstaða fyrir félagsráðgjafa til að hitta foreldra, þerapistar vinna þrjá daga í viku með foreldrum bæði einstaklingslega og í litlum hópum. Foreldrafræðsla og ýmis samvinnuverkefni foreldra eru líka í gangi. Með leikhópunum vinna 2 leikskólakennarar en foreldrar eru að sjálfsögðu líka á staðnum. Hinsvegar geta foreldrar farið í viðtöl til félagsráðgjafa og þerapista á meðan börnin eru í leikhópunum, sem og tekið þátt í fjölskylduverkefnum sem í boði eru hverju sinni. Ég fékk leyfi til að mynda en það er að sjálfsögu ekki sjálfgefið. Á meðan á heimsókn minni stóð voru foreldrar að vinna saman að fjölskyldubók fyrir börnin. Það starf leiddi foreldri (Ann) sem er með barn í leikskólanum og annað í leikhóp. Hún sagði mér að leikhópurinn hafi bjargað lífi hennar. Þegar yngri drengurinn fæddist mætti hún með hann fyrst 10 daga gamlan í leikhóp. Sagði hún mér að leikskólinn sé hennar líflína. 

Fjölskyldubók 

Ég fékk að fylgjast aðeins með þegar foreldrar voru að vinna að bókinni. Foreldrar koma undirbúnir með myndir og teikningar að heiman, sem þeir telja skipta máli fyrir sitt barn.  Ann sagði mér að þegar hún gerði bækur sinna drengja hafi hún sest með þeim og þau rætt hvaða myndir ættu að fara, og þeir hafi líka teiknað myndir sérstaklega fyrir bókina. Aðrir foreldrar settu inn myndir og atriði sem skiptu máli fyrir þá og voru tengdir menningu og bakgrunni. t.d. sá ég bækur þar sem börn og fjölskyldan var að biðja saman, og mynd þar búið var að bæta teiknuðu bænateppi við mynd af barninu. Þannig spegluðu  bækurnar mjög mismunandi bakgrunn fjölskyldnanna. Bækurnar eru gerðar á A4 spjöld sem eru síðan plöstuð og fest saman með hringjum. Þannig að lítið mál er að bæta við blaðsíðum eftir því sem tíminn líður. Þegar ég fletti nokkrum bókum tók ég líka eftir ákveðnum mun í hvernig foreldrar unnu eftir kyni barna þeirra. Til dæmis var meira um að í bókum stelpnanna væri notað glimmer og alla vega skreytingarefni.  Ég spurði Ann aðeins um þetta, hún sagðist aldrei hafa pælt í þessu en núna mundi hún nota þetta sem umræðuefni í næsta hópatíma með sömu foreldrum.

Leikskóladeildin 

Leikskóladeildin (þessi með 54 börnum) er í risastóru rými sem er skipt upp í vinnusvæði, síðan hafa þau aðgang að litlum hreyfisal og rúmgóðu herbergi sem þjónar sem bókasafn og staður til að njóta næðis. Börnunum 54 er skipt upp í tvo hópa og hefur hvor hópur 3 starfsmenn. Öll sérkennsla á sér stað inn í hópunum og er gert sérstaklega ráð fyrir mönnun vegna þess. Hver leikskólakennari er ábyrgur fyrir tilteknum hóp og þegar ég var í heimsókn sat einn leikskólakennari  í undirbúningsherberginu og vann að því að setja  uppeldislegar skráningar inn í möppur sinna barna. Til slíkrar vinnu eru áætlað fjórir klukkutímar á viku. Sagði leikskólastjórinn (Maggie) mér það vera nokkuð sem allir leikskólakennarar í London fá. Skráningar var líka víða að finna á veggjum skólans. Maggie sagði mér að hún liti svo á að með myndum af ýmsum vinnuferlum gerði hún foreldrum og öðrum úr samfélaginu sem ætti leið inn í skólann ljóst hvaða og hvernig starfsemi færi þar fram. Myndir sem sýndu í raun námstækifæri barna.

 

Skráningarnar 

Ég ræddi við leikskólakennarann um skráningar, hún sagði að áður hafi þær verið mjög uppteknar af því að skrá það sem snéri að opinberum skilgreindum námssviðum. Það hafi aftur leitt til þess að þær hafi aðallega gert skráningar á því sem snéri að lestrarundirbúning og stærðfræði. Því hafi þær hætt því og nú leitist þær við að "sjá" barnið. Þegar ég ræddi aftur við aðra leikskólakennara í Bretlandi, vildu þau meina að þessi tegund skráninga sé mjög einstaklingsmiðuð og bjóði ekki upp á sama skilningi á námi barna og uppeldisfræðilega skráningin. Hún sé ekki notuð sem leið og aðferð til skilnings - heldur meira sem skýrsla. Vildi viðkomandi meina að þetta væri algjör tímasóun. Ég gat á engan hátt tekið undir þetta sjónarmið. Það hlýtur að skipta máli og hafa áhrif á bæði starfið og þróun þess að í hverri viku setjist leikskólakennari niður og íhugi nám og líf hvers barns. En ég tek undir að mér finnst vanta umræðuþáttinn.

skraning

 ´

Aðeins um garðinn 

Garðurinn er oggulítill eins og oft er í borgarskólum en hann var vel skipulagður og í raun framlenging á leikrýminu inni. Jæja ég klára þessa færslu seinna.

Í garðinum   hollowkubbar úti

úti   úti


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband