Hverjum er það að kenna að leikskólakennarar sækjast ekki eftir að starfa í hjallaleikskólum?

Ég er að undirbúa fyrirlestur um ytra mat, hluti af því er að lesa þær skýrslur sem til eru opinberlega um ytra mat á leikskólum. Nýjasta skýrslan er um hjallaleikskólann Ása í Garðabæ. Matsaðilar virðast um margt nokkuð ánægðir með starfsemina en þeir gera líka fjölda athugasemda. Það sem stóð nú kannski einna mest í mér við fyrsta lestur er umfjöllun um "skort" á leikskólakennurum í hjallaskólum og mögulegar ástæður þess. Reyndar hefði ég kosið að betur væri gert grein fyrir ýmsum þáttum í skýrslunni, eins og samsetningu starfmannahópsins, útreikninga á barngildum og fleira. 

                                                                                       

                                                                                   

 Í skýrslunni segir:                                                                                                                                            

Leikskólastjóri og framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar segja lágt hlutfall leikskólakennara m.a. skýrast af því að þeir sæki frekar í að vinna með eldri börnum. Allir fimm ára kennarar Ása fylgdu börnunum í eldribarna starfið þegar það hófst haustið 2003 og þar eru alltaf allir hópstjórar fagmenntaðir, auk þess sem aðstæður á vinnumarkaði hafi verið skólunum í óhag.  Þá hafi það eflaust áhrif að Kennaraháskóli Íslands sendi sjaldan nema til Hjallastefnunnar. Undir þetta tóku leikskólakennarar sem rætt var við en ein þeirra hafði í námi sínu þrívegis sótt um að komast í starfsþjálfun til Hjallastefnunnar en verið synjað. Að sögn framkvæmdastjóra vill Hjallastefnan hafa fjölbreytni í starfsmannahópnum. 

                                                                                                          

Hins vegar kemur annarstaðar fram í skýrslunni að faglærðu fólki (í skýrslunni er ekki gerður greinarmunur á hvort að viðkomandi er leikskólakennari eða hefur annarskonar fagmenntun á háskólastigi) hefur fækkað úr því að vera rúmlega 50% starfsmanna í að vera 35% á milli áranna 2006 og 2007 (landsmeðaltal sama hóps er um 40%). Hér verður Kennaraháskólanum vart kennt um. Mér finnst líka vera umhugsunarvert að skýrsluhöfundar velja að taka orð eins leikskólakennarans sem sagðist hafa þrívegis sótt um að komast á hjallaskóla en ekki fengið. Ég veit að á höfuðborgarsvæðinu er fjölmargir leikskólar sem sjaldan eða aldrei fá leikskólakennaranema. KHÍ, setti það sem skilyrði fyrir mögum árum að æfingarkennarar þeirra hefðu lokið ákveðnum námskeiðum sem þeir bjóða upp á, nú veit ég ekki hvað margir hjallakennarar hafa lokið því námskeiði eða hvort reglan er enn í gildi eftir að nýtt fyrirkomulag í vettvangsnámi var tekið upp. Leikskólar á höfuðborgarsvæðinu er líka um 150 en það er mun fleiri en þeir nemar sem eru í vettvangsnámi á hverjum tíma á þessu svæði. Vegna þessa dreifast nemar mjög misjafnlega. Það er auðvitað algjör óþarfi af mér að vera að svara fyrir KHÍ (nýja menntavísindasvið HÍ) þau eru fullfær um það. Svo má vera titlatog í mér en nám á vettvangi er ekki eiginleg starfsþjálfun, heldur er það m.a. hugsað til að nemar kynnist og fái tækifæri til að tengja saman ýmsar kenningar sem þeir hafa verið að fara og hagnýtingu þeirra á vettvangi.

                                   

Kannski að höfundar skýrslunnar hitti sjálfir naglann á höfuðið um ástæðu þess að fáa leikskólakennara sé að finna á Ásum. En í skýrslunni segir:

                                                                                                                

Starfslýsingar Hjallastefnunnar eru að mati skýrsluhöfunda nokkuð óvenjulegar að því leyti að þar er ekki verið að lýsa ábyrgð og verksviði hvers starfs á leikskólanum heldur er um að ræða mjög ítarlegar leiðbeiningar og vinnuferli um hugmyndafræði og allt starf á leikskólum Hjallastefnunnar. Starfslýsingarnar virka því bæði sem stefnumótun og ítarleg  starfsmannahandbók. ... Höfundar spyrja sig þó hvort svo ítarlegar lýsingar og ferli geti haft áhrif á hvers konar starfsfólk ræðst til skólans

                                                                                              

Er það mat skýrsluhöfunda að stefnumótun leikskólans sé stýrt miðlægt frá Hjallastefnunni og starfsmenn komi þar ekki nægjanlega að faglegri umræðu og þróun. Námskrá Hjallastefnunnar er að mati höfunda fremur uppeldiskenning og lýsingar á starfinu en skólanámskrá. Þar að auki eru tengsl námskrá Hjallastefnunnar við aðalnámskrá leikskóla ekki nægjanlega rökstudd.  

                                                                                                                                        

  

Getur verið að þarna sé e.t.v. að finna hluta af ástæðunni, að faglegt frelsi sem leikskólakennarar hafa flestir talið mikilvægt sé ekki eins mikið innan hjallastefnunnar og annarstaðar.

                                                           

 

Mér finnst ákveðið ábyrgðarleysi hjá skýrsluhöfundum að taka undir ásakanir Hjallastefnunnar á hendi KHÍ, hefði talið að þetta væri atriði sem þeir hefðu sjálfir getað aflað sér upplýsinga um réttmæti hjá yfirmanni leikskólakennaranámsins í KHÍ. En í skýrslunni segja höfundar:

                                                                           

Leikskólar hafa á undanförnum misserum átt í miklum erfiðleikum með að manna störf vegna þenslu á vinnumarkaði. Ásar eru þar engin undantekning.  Í viðtölum kom fram, að það að Kennaraháskóli Íslands sendi fáa nema til Hjallastefnuskóla, geti haft þar áhrif. Undir þetta taka skýrsluhöfundar en reynsla þeirra segir að oft ræðst starfsfólk á staði sem það hefur kynnst í námi sínu. Því er beint til ráðuneytis menntamála að skoða ástæður þessa. 

Ég saknaði þess líka í skýrslunni að þar heyrast ekki raddir barnanna. Þeirra rödd er ekki hluti af mati á starfinu. Það hefði mátt gera á ýmsan hátt með hópviðtölum og með því að gera vettvangslýsingar, biðja þau um að teikna tiltekna þætti eða leika og svo framvegis. Þátttaka barnanna í mati er í anda  Aðalnámskrá leikskóla og í samræmi við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem gert er ráð fyrir þátttöku barna bæði í námskrárgerð og mati. 

Að lokum velti ég fyrir mér hvernig geti staðið á því að ráðuneyti menntamál ákveði að ráðstafa þeim litlu fjármunum sem árlega eru ætlaðir til mats á leikskólastarfi til að gera úttekt á leikskólum sömu stefnunnar. En mér er kunnugt um að á næstunni er væntanleg skýrsla um mat á leikskólanum Hjalla í Hafnarfirði og síðasta skýrsla á undan skýrslunni um Ása sem unnin var fyrir ráðuneytið fjallaði einmitt um hjallaleikskólann Ós. Ég hlýt að velta fyrir mér hvort að ráðuneytið sé sérstaklega áhyggjufullt um þessa stefnu.

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Hjallastefnan er furðuleg að mínu mati, dóttir mín vinnur í leikskóla sem fylgir Hjallastefnunni og tvö barnabörn mín, börnin hennar eru í sama leikskóla.  Samt held ég að það séu margir kostir við þessa Hjallastefnu, vegna þess að barnabörnin mín eru svo stillt og hlýða strax þegar talað er við þau.   Svo er þetta með leikföngin, þau búa til dót úr engu.  Prik getur verið svo margt.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.9.2008 kl. 00:41

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Já ég er alveg sammála þér um að það eru kostir við að börn hafi auðugt hugmyndaflug. Og ég held nú reyndar að börn séu almennt snillingar við að túlka og gefa efniviðnum sem þau leika með líf og nýtt líf. Fyrir mörgum árum skrifaði ég fyrirlestur um skapandi starf. Þar sagði ég m.a.

"Þar er forsenda sköpunar að trúnaður og traust ríki. Leikskólakennarinn verður að treysta barninu til að velja sér efnivið og viðfangsefni, sem það hefur áhuga á og ræður við. Kennarinn verður líka að treysta því að barnið geti sjálft stjórnað þessu vali án mikilla afskipta hins fullorðna. Flestir kannast við valsvæðin og töflurnar eða teppin sem eru notuð til að stjórna umferðinni á leiksvæðum. Smith telur að þessi binding barna á sama svæði, sérstaklega ef ekki má hreyfa efnivið á milli þeirra, sé til þess fallin að draga úr sköpun barnanna. Hún telur ennfremur að það að barn þurfi að ljúka ákveðnum tíma eða verki á svæðinu sé heldur ekki til þess gert að ýta undir það að barnið sjái t.d. að sama svæði búi yfir fleiri en einum möguleika. Hún biður okkur að hugsa okkur stofur þar sem ekki er fyrirfram búið að ákveða hvað er í boði og hvað mörg börn mega leika á sama svæði samtímis eða hversu langan tíma hægt er að vera á svæðunum. Slík skilyrði  mundu gera hverju barni kleift að vera eins lengi og það hefði þörf fyrir á hverju leikskvæði án tillits til hvort það væri eitt eða fleiri börn væru þar samtímis.Að ljúka verki er ekki aðalatriðið heldur að taka þátt og framkvæma. Slík vinnubrögð leiða til þess að barnið verður sjálfstætt í ákvarðanatöku sinni og að það geti fylgt henni eftir samkvæmt Kamii & Devires. Það að barn sé gagntekið af því sem það hefur fyrir stafni ýtir undir sköpunargleði þess og mátt.  

Ef barn veit að því er treyst til að velja sér sjálft viðfangsefni og vinna vel með það. Þá má gera ráð fyrir að það viti líka að því er treystandi til að velja sér efnivið og fara með hann inn á nýtt svæði. (Whitson)

Það skiptir máli að börnunum sé gefið næði og nógur tími til að vinna að því sem að eru að gera. Sköpun þrífst ekki í einangrun hún verður til við samskipti og samspil. Hugmyndin er að börn sjái og skynji að hægt er að gera og nota sama hlutinn á mismunandi máta. Með öðrum orðum þau eiga að vera upptekin af þeim möguleikum sem efni býður upp á ekki af efninu sjálfu. Þau eiga að geta notað það sama aftur og aftur á nýjan og nýjan hátt en þurfa ekki ný og ný leikföng."

þetta er nú úr óttalega gömlum fyrirlestri en ég held að hann eigi alveg jafnvel við nú og þá. Að prik geti verið prik eða hestur eða ...

 

Kristín Dýrfjörð, 27.9.2008 kl. 01:04

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

  Nákvæmlega

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.9.2008 kl. 02:08

4 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Áhugavert blogg. Hjallastefnan hefur hins vegar hrist upp í þessu kerfi sem bara er til góðs. Fagleg skoðun á málinu er það sem þarf. Því meira sem hægt er að halda "trúarkreddum frá umfjölluninni þeim mun betra".

Sigurður Þorsteinsson, 27.9.2008 kl. 07:49

5 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Ég held að það sé enginn vafi á að hjallastefnan hefur hrist upp í einhverju, en var samt að velta fyrir mér hvort þú eigir þá aðallega við vegna rekstrarformsins eða vegna stefnunnar og þá hana sem heild eða einstaka hluta hennar.

Nú veit ég ekki alveg hvað þú átt við með trúarkreddum, sjálfsagt er ég haldin einhverjum slíkum varðandi það sem mér finnst vera gott leikskólastarf. 

En það var líka ýmislegt annað sem ég velti fyrir mér og kom fram í skýrslunni. Skrifa um það seinna og set í samhengi ef ég nenni.

Hinsvegar veit ég líka að mörgum finnst að ég eigi ekki að hafa skoðun á hjallastefnunni, svona eins og af því að ég er samfylkingarmanneskja eigi ég ekki að hafa skoðun á vinstri grænum eða sjálfstæðisflokknum. En ég er því algjörlega ósammála, börnin sem eru í skólum Hjallastefnunnar ehf eru mörg hundruð og mér finnst ég hafa ábyrgð á að taka þátt í umræðu um uppeldisaðferðir þar eins og annarstaðar. Hjallastefnan er líka orðin það stórt batterí í skólamálum að þar geta menn varla vænst annars en að fólk í skólasamfélaginu hafi skoðun, vonandi byggða á faglegri sýn. Ég tel mig hafa það.

Mitt umfjöllunarefni og aðaláhugamál í leikskólastarfi hefur verið lýðræði og ég tengi umfjöllun mína yfirleitt á þær brautir.

Kristín Dýrfjörð, 27.9.2008 kl. 13:25

6 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Kveðjur að norðan

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 27.9.2008 kl. 18:08

7 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk fyrir það, vona að vel hafi gengið í gær hjá þér (er reyndar alveg viss um það).

Kristín Dýrfjörð, 27.9.2008 kl. 19:03

8 Smámynd: Sóley Valdimarsdóttir

Sæl.

Ég fór og athugaði skýrsluhöfunda og gat ekki séð að reynsla þeirra af leikskólamálum væri mikil. Reyndar stendur á heimasíðu þeirra að einn af höfundum skýrslunnar hafi útskrifast með B.Ed gráðu 1975 úr KHÍ en ég vissi ekki að sú gráða hafi verið tilkomin á þeim tíma. Kannski að ég hafi misskilið eitthvað.:-)

Sóley Valdimarsdóttir, 27.9.2008 kl. 21:13

9 Smámynd: Bergljót B Guðmundsdóttir

Bergljót B Guðmundsdóttir, 27.9.2008 kl. 21:53

10 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæl Kristín

Hugleiðingar þínar um Hjallastefnuna finnast mér áhugaverðar. Öll umræða um leikskólamál eru af hinu góða. Við eigum endilega að skoða leikskólamál gagnrýnum augum. Alveig eins og að Hjallastefnan á ekki að gjalda rekstarformsins, á hún ekki að njóta þess sérstaklega heldur. Fyrirtækið á hins vegar að njóta jafnræðis. Í The Animal farm urðu sum dýrin jafnari en önnur og ég hef óbeit á slíkri jafnaðarmennsku. Þá ættu börnin að njóta jafnræðis, af hvoru kyninu þau eru, eða vegna annarra aðstæðna.

Hef orðið var við að margir leikskólakennarar brugðust illa við þegar leikskólar urðu einkareknir. Þetta á sérstaklega við um vinstrisinnaða leikskólakennara. Hef líka orðið var við hatur. Slíkt stafar yfirleitt af vanmáttarkennd og þekkingarleysi. Ríkisafskipti, rétt eins og einkavæðing getur orðið að trúarbrögðum, og þá á öll fagleg sjónarmið erfitt með að komast að.

Lýðræðisleg umræða hvar í flokki sem við erum eru gagnleg. Ef við látum fagleg sjónarmið í fyrsta sæti, þá komumst við merkilega oft að sameiginlegri niðurstöðu. Flokkapólitíkin á ekki að þvælast fyrir okkur í þessu máli.  

Hjallastefnan á örugglega eftir að þróast, og það gerir hún örugglega best, með því að fá faglega jákvæða umfjöllun.

Sigurður Þorsteinsson, 27.9.2008 kl. 22:02

11 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæll fyrst varðandi viðhorf gagnvart hugtakinu einkarekinn, ég er ein þeirra sem lengir hef sagt að skóli sem er í eigu sveitarfélags en rekin af öðum sé ekki einkarekin, hann er rekinn af fé samfélagsins.

Hinsvegar er vil ég líka benda þér á að skoða sögu leikskólans, leikskólinn hefur lengur og meira verið rekin af öðrum en sveitarfélögum en nokkur önnur skólastofnun. Okkar rætur og saga er saga ekki einkaframtaks heldur sameiginlegs átaks kvenna.

Nú þekki ég ekki þá leikskólakennara sem þú hefur verið að ræða við, en það sem ég hef alltaf sett í forgrunn vegna mismunandi rekstrarforms er að hvorki starfsfólk né börn líði fyrir rekstararformið. Þá ég við að börn fái t.d. ekki þá þjónustu sem þau annars eiga rétt til og að starfsfólk missi ekki réttindi sem lengi hefur verið barátta fyrir. Hluti eins og veikindarétt og lífeyrisrétt. Þar sem ég þekki til í leikskólum sem eru í öðru rekstrarformi er þessa yfirleitt gætt, en því miður hefur það ekki verið allstaðar.  

Ég hef áður skrifað blogg um mismunandi rekstrarform og þennan þátt sögu leikskólans. Ég held að ef könnun væri gerð á meðal kennarastéttanna þá væru sennilega mun fleiri leikskólakennarar fylgjandi mismunandi rekstrarformi en aðrir, einmitt vegna sögu okkar og ásóknar eftir að vinna með hinar ýmsu stefnur. Sjálf hef ég lent í því að þegar ég leyfði mér að gagnrýna stefnu var það tekið fyrst og fremst sem gagnrýni á rekstrarformið. En það skal reyndar viðurkennt að ég geri stóran mun á hvort skólarnir séu reknir í hagnaðarskini eða eru lífstefnuskólar varðandi viðhorf mín þeirra.

Ég ætti að finna nokkur eldri blogg um sama mál og skella slóð inn á hér í athugasemdakerfinu. Geri það kannski á eftir.

Kristín Dýrfjörð, 27.9.2008 kl. 23:08

12 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

ES. Ég gleymdi og ég sé þegar ákveðna breytingu á hjallastefnunni, t.d. hafa allar meginreglur stefnunnar verið endurritaðar og teknar úr þeim þættir sem mér alla vega fannst miður geðfelldir. Eina von skólastefnu til að halda lífi er að vera lifandi og í sífellt í gagnrýninni endurskoðun. En ég held að þetta með faglega jákvæða umfjöllun sé bull, fagleg umfjöllun er auðvitað málið.

Kristín Dýrfjörð, 27.9.2008 kl. 23:13

14 identicon

Er ég að skilja þig rétt, eru færri leikskólakennara að vinna í leikskólum Hjallastefnunnar en í leikskólum sem vinna eftir öðrum stefnum?

Steinunn (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 17:53

15 identicon

Sæl Kristín.

Kann að vera að Hjallar fái fáa nema, en ef þau þjást af leikskólakennaraskorti held ég að ástæðan heiti miklu fremur Dewey.

Hörður Svavars (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 18:18

16 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæl Kristín

Rekstur sem er á höndum einkaaðila, úthýst úr rekstri sveitarfélaga, heitir einkavæðing. Sú einkavæðing er oftast gerð með þjónustusamningi. Slík úthýsing er mjög þekkt í þeim ríkjum sem jafnaðarmennskan er hvað sterkust í Evrópu. Í vaxandi mæli leitast menn við að létta kerfi og úthýsing verkefna er ein af þeim leiðum. Slíkt leiðir mjög oft til þess að sveitarfélagið, starfsfólkið og neytandinn hefur hag af. Ekki endilega fjárhagslegan. Slík úthýsing er eitur í beinum margra sem dýrka opinberan rekstur.

Held að þeir sem eru í "buisness" fari seint út í leikskólarekstur til þess að græða peninga. Ávinningurinn verður að vera í öðru formi, m.a. sjálfstæði. Útboð á slíkum rekstri verða að gera t.d. ráð fyrir faglegri þekkingu.

Mun kynna mér fyrri skrif þín.

Varðandi  faglega jákvæðri gagnrýni og faglegri gagnrýni þá byrjaði ég að skrifa faglega jákvæða gagnrýni, þá var ég sennilega með hugann að gagnrýni getur verið sett fram með jákvæðri hugsun, eða neikvæðri. Ætlaði síðan að strika orðið jákvæða út, en hætti við, með ábendingu föður míns í huga. Ég er lesblindur og fæ föður minn sem er afburða íslenskumaður oft til þess að lesa yfir glærur og skrif. Hann benti mér á að það gæti verið mjög gagnlegt "til þess að kanna markaðinn" að skilja eftir eina til tvær villur. Það kannar m.a. umburðarlyndið. Hlustaðu vel á hverning gagnrýnin er sett fram, sagði hann við mig.

Hjá þér var meint villa ,,bull". Er sannfærður um að þekking þín á leikskólamálum er mjög mikil. Það sem þú hefur hins vegarskrifað um rekstarþætti hér að ofan, ber þess merki að þar ert þú ekki á heimavelli. Hvaða orð viltu að ég noti um það. Í kynningu á Hjallastefnunni man ég eftir að hafa heyrt talað um virðingu og umburðarlindi, þann kafla gætir þú örugglega kynnt þér, og lært af.

Sigurður Þorsteinsson, 29.9.2008 kl. 00:38

17 identicon

Sæll Sigurður, ertu ekki óþarflega viðkvæmur? Þú ert sammála því að það sé þversögn í að tala um "jákvæða faglega gagnrýni" en þolir ekki að það sé kallað bull þegar það er bullað.

Ég er viss um að Kristínu er sama um að þú segir hana hafa farið með bull ef hún bullaði, en það gerir þú ekki. Þú ýjar bara að einhverju og gefur svo í skyn að kunni ekki að sýna virðingu og umburðarlyndi, bara af því hún kallaði bull, bull. Hvorki lýsir það virðingu og umburðarlyndi né jákvæðri faglegri gagnrýni. Eða er ég bara að bulla?

Hörður (IP-tala skráð) 29.9.2008 kl. 01:37

18 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk Sigurður, jú ég þekki hugtakið og skilgreininguna á bak við hugtakið úthýsingu. Ég hef ekki séð neinn þeirra sem eru með þjónustusamninga við sveitarfélög nota það hugtak. Enda lítið notað í skólasamfélaginu. Mér er líka kunnugt um að úthýsing hefur verið að ryðja sér til rúms víða í opinbera kerfinu. Meðal annars þar sem ég starfa. Ýmis tæknistörf hefur þar verið úthýst.

Ég veit ekki hvort að ég getir fellt mig við þetta hugtak, þegar fjallað er um uppeldis og menntunarþátt skólamála. Ræstingar, skrifstofuhald, bókhald, tölvumál já, menntamál, nei. Ekki frekar en ég gat fellt mig við ýmis hugtök gæðastjórnunar upp úr 1990 þegar sumir reyndu að innleiða þau í skólastarf. Á vegum gæðastjórnunarfélagsins tók ég þátt í endalausum umræðum um hugtök eins og viðskiptavinir og skilgreiningu á því hverjir það væru og birgjar og ... umræðan komst reyndar að mínu mati aldrei út úr því.  

Það getur verið að hérlendis fari flestir leikskólakennarar í að gera þjónustusamninga eða byggja (það hafa sumir gert eins og leikskólinn Regnboginn í Reykjavík) vegna þess að þeir vilja tryggja ákveðið faglegt sjálfstæði. Og þér að segja skil ég það vel. Sjálf held ég að ef ég væri aftur á leið inn í leikskólann vildi ég hafa slíkan samning. En ég er jafnaðarmanneskja í eðli mínu og ég tel að ýmis atriði verði að vera á jafnréttisgrunni. T.d. ætti ég erfitt með að sjá leikskóla með samning, skóla sem er í húsnæði sem sveitarfélagið á, hætta að vera hverfisleikskóla. Mér þætti líka óeðlilegt að foreldrar borguðu meira fyrir að hafa barnið sitt í slíkum skóla en sveitarfélagsreknum. Þó svo að forsendurnar séu aðrar á það ekki að koma fram við foreldra og börn.

Hinsvegar vil ég líka benda þér á að víða í hinum enskumælandi heimi er leikskólarekstur afar arðbær og vaxandi "iðnaður" (child care industry). Þar er margt fólk í þessu rekstri peninganna vegna. Á fæstum stöðum fæst mótframlag frá hinu opinbera. Ég á fjölda vina um allan heim sem reka eigin leikskóla. Afar metnaðarfullt fólk sem setur uppeldisstarfið í forgrunn. Svo það sé alveg klárt þá er ég ekki á móti mismunandi rekstrarformum. En eins og ég hef áður sagt og mun segja geri ég mun á hver tilgangurinn er.

Svo við snúum okkur að hjallastefnunni, þá efa ég ekki að í upphafi var fyrst og fremst um að ræða lífstefnuskóla. Enda starfið fyrsta áratuginn eða svo þróað innan hins opinbera kerfis. Hvað skólarnir eru í dag auk þess að vera lífstefnuskólar hef ég ekki hugmynd um.  Víða erlendis er gerður greinamunur á því sem kallast non profit og profit skóli. Þar eru víða reglugerðir og viðmið sem hægt er að styðjast við til að skilgreina. Kannski er það eitt af því sem við þurfum að fá hér. Að skólarnir gefi út yfirlýsinga um að þeir séu nonprofit skólar. Ég sé ekki að það ætti að vera vandkvæðum bundið. Það er enginn að segja að non profit skólar þurfi að halda öllum á horriminni launalega eða varðandi réttindi. Ég held að flestir skólar (eða þau fyrirtæki sem þau reka) með þjónustusamninga ættu að geta fallið hér undir. Vonandi geta þeir meira að segja gert betur en táknrænt betur.

Með tilvísun þína í hjallanámskránna þekki ég þann hluta hennar sem hefur verið birtur opinberlega nokkuð vel. Síðasta handbók mín um starfið þar er reyndar orðin nokkuð við aldur, sennilega 4-5 ára. Ég hef nú í gegn um tíðina átt erfitt með að fella mig við hvernig ýmist er orðað þar. Hef meðal annars ekki fundist það bera vott um umburðarlyndi þér að segja. Svona eins sagði í einni meginreglunni að henni væri ætlað að koma í veg fyrir valdarán barna. (Sá reyndar að það er búið að fella þessa setningu út nú í haust og fagna ég því).  

Ég sé líka að þér finnst ég skorta bæði virðingu og umburðarlyndi. Ég get alveg tekið undir það. Um sumt er ég ekki umburðarlynd og skammast mín ekkert fyrir það, ég veit sjálf hvar ég stend. Virðing er áunnin, ég get borið virðingu fyrir fólki þó ég geti ekki borið virðingu fyrir skoðunum þess. Þú spyrð hvaða orð ég vilji að þú notir um þekkingu mína á rekstri. Þú hefur fullt frelsi til að nota það orða sem þér sýnist. Ég var reyndar leikskólastjóri í um 10 ár og ég hef framhaldsnám í stjórnun. Ég kenni um lög og reglugerðir sem snúa að leikskólanum og hvernig starfsfólk verður að þekkja þær og taka tillit til í starfi sínu.  (Þá er ég ekki bara að tala um lög um leikskóla). Og ég held mig við að segja að það sé bull að allt verði að vera sett fram með jákvæðum hætti, en held mig við faglega. Es. það er ekki samasemmerki á milli faglega og neikvætt.

Að lokum það hefur verið skemmtilegt að skiptast á skoðunum við þig, lesblindu þekki ég líka vel, hún er ættlæg í minni fjölskyldu sem og skrifblinda.    

Kristín Dýrfjörð, 29.9.2008 kl. 01:44

19 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk Hörður var ekki búin að sjá kommentið frá þér mér til varnar, takk fyrir það. En varðandi fyrra kommentið þitt þá fatta ég það ekki alveg. Pínu langt í leiðslunum hjá mér, þú fyrirgefur. Var að velta fyrir mér hvort þú sért að segja að leikskólakennarar vilji vinna við Deweyska leikskóla eða þar sem kenningar hans eru hafðar í heiðri öðrum fremur. Þar sem lýðræðið fellst í því að taka þátt í lifandi samfélagi og vera mótandi afl í því, þar sem starfsfólk og börn eru samverkamenn. Þar sem litið er á barnið sem borgar í mótun fremur en borgara framtíðar. Þar sem áhersla er á núið og þá menntandi reynslu sem það gefur.

Kristín Dýrfjörð, 29.9.2008 kl. 01:51

20 identicon

Já Kristín á við það að sú áhersla sem lögð er Dewey í námi leikskólakennara og hversu hann litar leikskólann geri þá að svo miklum lýðræðissinnumm, þeir hafi innhverft lýðræðið og orðið Lýðræðislegar manneskjur eins og Dewey orðar það.

Kommentið var umræðunni til varnar, ekki þér, þó þú verðskuldir alveg stuðning fyrir þennan vettvang sem þú heldur úti. Mange takk.

Hörður (IP-tala skráð) 29.9.2008 kl. 07:27

21 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Det er slet ikke noget.

Kristín Dýrfjörð, 29.9.2008 kl. 10:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband