19.2.2008 | 23:57
Það er hægt að læra af mistökum annarra
Í nóvember sl. heimsótti ég hollensk leikskólasamtök. Ástæða heimsóknarinnar var opnun sýningar um hollenskt leikskólastarf í anda ítalskrar leikskólahugmyndafræði sem kennd er við borgina Reggio Emila. Hluti af dagskránni fólst í að Hollendingarnir sögðu okkur (fulltrúum nokkurra landa) frá aðstæðum þar. Textinn hér að neðan er úr minnisblaði sem ég skrifaði fyrir sjálfa mig eftir heimsóknina.
Gestgjafarnir gáfu okkur smánasaþef inn í hið hollenska kerfi, sem er bæði gamaldags og flókið. Þeir sögðu okkur að Hollendingar séu enn að býta úr nálinni með breytingar sem þeir gerðu á skólakerfinu um 1990 þegar þeir tóku 4 og 5 ára börnin inn í opinbera skólakerfið af leikskólunum. Þetta hafi leitt til bæði afturhaldsemi og lítillar þróunar í mörg ár á eftir. Má eiginlega segja að afleiðingarnar hafi verið hræðilegar fyrir konur þar sem þeim var með þessari ákvörðun ýtt út af vinnumarkaði. En líka fyrir börnin sem allt í einu hættu að vera í barnmiðuðu umhverfi leikskólans og var ýtt inn í formlegt umhverfi grunnskólans, með þeim kröfum sem því fylgdu. Það sem verra var grunnskólinn og kennarar það voru ekki menntaðir né á annan hátt undirbúnir undir að taka við börnunum. Þetta hafi leitt til þess að starfið varð meira fræðslumiðað en uppgötunarmiðað.
Þetta hafi líka verið sérlega slæm þróun í ljósi þess að framan af öldinni stóðu Hollendingar meðal fremstu þjóða í menntun yngstu barnanna. Þangað flúði María Montesorri undan fasistum á Ítalíu og þar þróaði hún hugmyndir sínar. Þar átti frískóla-hreyfingin (Freinet)sterkar rætur sem og sterk Fröbelsk hefð. En með breytingunni var leikskólakerfinu fleygt aftur í tímann. Kom fram í máli gestgjafanna að það sé jafnvel svo í dag að það fylgi því ákveðin skömm að hafa börnin sín í leikskóla. Afleiðingin er að flestar mæður reyna að stytta vinnudaginn svo börnin þurfi ekki að vera lengi á þessum stöðum. Skiptir þá ekki máli hver gæðin eru. Það fylgir því ákveðið stimpill að láta börnin frá sér.
Sögðu gestgjafar okkar að þetta viðhorf hafi líka speglast í orðinu sem notað var fyrir leikskóla framan af opfangen að taka upp á arma sér eða grípa börnin. Það sem er hins vegar jákvætt og við Íslendingar mættum taka til fyrirmyndar er að fjölskyldugildi eru afar sterk í Hollandi og börnin eru bæði afar mikils metin og stór hluti af sjálfsmynd fjölskyldunnar. Þetta sé meðal annars vegna sögu Hollendinga en þeir fullyrða að kjarnafjölskyldan sé næstum því fundinn upp af þeim. Það kom til vegna þess meðal annars að þeir eru mikil verslunarþjóð og þurftu því ekki að eiga eins mörg börn til að hjálpa til við vinnu og þurfti í sveitum. Þess vegna hafi líka síðustu 3-400 árin verið lögð mikil áhersla á félagstengsl innan fjölskyldan, áhersla á að börn ættu auðvelt með samskipti. Það voru þau gildi sem máli skiptu til að styrkja þjóðina sem verslunarþjóð.
Vegna þessa hafi líka verið litið svo á síðari tímum að góður leikskóli sé skóli sem líkist heimilum sem mest, þar sem starfsfólkið tekur að sér að ganga börnun í móðurstað á meðan að þær neyðast til að vera frá þeim. Kannski eilítið eins og var á Íslandi fram undir alla vega 1980. Fæstir líti svo á að menntun eigi sér stað í leikskólanum, hann sé fyrst og fremst geymslu og gæslustaður. Hann er neyðarbrauð. (Þetta minnti mig reyndar á fræga bók sem kom út á Ísalandi um 1980, Dagheimili, geymsla eða uppeldisstaður.)
Árið 2003 setti hægri stjórnin í Hollandi lög sem tóku fyrir afskipti hins opinbera að kerfinu undir 4 ára eins og fyrr segir, nú er ný mið-vinstri stjórn og er hún með lög í undirbúningi sem eiga fella fyrri lög úr gildi, enda sjái flestir að þau gangi ekki upp. Stendur til að leyfa skóla fyrir börn á aldrinum 0-7 ára. Sporen (samtökin sem ég heimsótti) opna slíkan skóla 1. janúar 2009, hann er nú í byggingu.
Nú er það svo að menntun 4- 6 ára barna er hluti af hinu opinbera skólakerfi en menntun og þjónusta við yngstu börnin á hinum frjálsa markaði. Jafnvel svo mikið að ekkert er borgað með skólunum og markaðurinn er algjörlega látinn ráða. Fáar reglur eru, en þær snerta aðallega rými, mönnun og öryggiskröfur. Mjög litlar menntakröfur eru gerðar til þeirra sem vinna með yngstu börnin. Af hálfu stjórnvalda hefur fyrst og fremst verið litið á skólana sem geymslu og þjónustu.
Hér er slóð þar sem ég fjalla aðeins um Fröbel og íslenska leikskólann.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt 20.2.2008 kl. 12:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.