Þjóðfundur 2009 - fimm dagar

thjodfundur_logo_undirtitill_270x120 Það er farið að styttast í Þjóðfundinn. Mér finnst næstum eins og ég sé að telja niður í jólin en samt eitthvað miklu meira. Ég trúi nefnilega að þjóðfundurinn sé svo merkilegt fyrirbæri að í framtíðinni eigi hann eftir að rata í sögubækur. Dagsetningin eigi eftir að stimplast inn hjá þjóðinni, fjórtándi nóvember 2009. Á miðjum frostavetri 1918, þann 1. desember fékk þjóðin fullveldi. Spánska veikin nýbúin að fara eins og eldur um sinu og hafði lagt fjölda fólks af velli. Fólk var í sárum en það gaf sér tíma til að mæta fyrir framan stjórnaráðið til að verða vitni að þessari merku stund. Okkar vetur er fallegur og frosthörkur hafa ekki náð tökum á þjóðinni eða þjóðarsálinni þrátt fyrir allt. Þjóðfundurinn er hluti af því vori sem við eigum í vændum. 

Á þjóðfundi

Á Þjóðfundi gefast tækifæri til að ræða um þau gildi sem við leggjum til grundvallar í lífinu hvert og eitt. Og við fáum tækifæri til að heyra um þau gildi sem aðrir leggja áherslu á sínu lífi. Við fáum líka tækifæri til að ræða þessi gildi og komast að einhverri niðurstöðu það hvaða gildi skipta okkur máli sameiginlega.  En það er ekki allt, við fáum líka tækifæri til að varpa fram hugmyndum okkar að þeim stoðum sem við veljum að samfélag okkar byggi á. Hverskonar samfélag við viljum vera þátttakendur í. Hvers konar atvinnulíf viljum við sjá blómstra, hvers konar menntakerfi eða heilbrigðiskerfi, hvað með sjálfbærni og umhverfismál. Hvernig samfélagi viljum við skila til barna okkar og hvernig samfélagi viljum við eldast í, já eða foreldrar okkar og afar og ömmur.  Við fáum tækifæri til að ræða þetta allt á fundinum. Við fáum tækifæri til að velja á milli þeirra hugmynda sem okkur þykja markverðastar. En samtímis vita að það verður haldið utan um allar hugmyndir.

Það er nefnilega þannig að allar hugmyndir sem koma fram á fundinum verða færðar til bókar og þær opnaðar öllum  sem vilja til að skoða (vefsíða) það verður til gríðarlegur gagnabanki á fundinum, gagnabanki sem á eftir að vera fræðimönnum viðfangsefni næstu árin og kannski hundrað árin. Það verður merkilegt að skoða eftir 10 ár hvað var Íslendingum efst í huga ár eftir hrun. Hver var þeirra framtíðarsýn og hversu nálægt henni verður samfélagið þá.

Mér finnst líka mikilvægt að segja frá því að stefnt er að því að vinna úr öllum niðurstöðum á fundinum, þannig að þegar fundi lýkur liggur fyrir vilji þversniðs þjóðarinnar. En það er ekki allt því að í heilt ár á eftir veður hugmyndum fundarins fylgt eftir með fundum og verkefnum.

Það er kjarkmikið fólk sem lagði af stað með hugmynd, vegna þess að það veit sem er að allt sem þarf er hugmynd og vilji. Þessu fólki sem hefur lagt nótt við nýtan dag til að vinna að framgangi Þjóðfundarins og trúaða á verkefnið vil ég færa mínar bestu þakkir. Takk fyrir að hafa vilja, trú og þor. 

 

 Þjóðfundur 2009 vefsíða
mbl.is Þjóðfundurinn vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing og lýðræði - þjóðfundur

Ég er gæfurík manneskja, mér hefur auðnast að vera með fólki sem mér finnst vænt um, finna að ég tilheyri hóp og að ég haft möguleika til að hafa áhrif á umhverfi mitt. Hluti gæfu minnar hefur fólgist í að starfa með eða í tengslum við yngstu samborgarana síðustu 30 ár. Þessum sem við segjum á tyllidögum að eigi að erfa landið. Þessum sem við segjum að við séum að búa í haginn fyrir. Á Íslandi er löng hefð fyrir umræðu um lýðræði, við höldum því fram að lýðræðislegar áherslur einkenni samfélagið og við erum dugleg að halda fram lýðræðislegu hlutverki skólanna okkar. Þessu til áréttingar bendum við á að í lögum er tekið fram að skólar skuli stuðli að því að undirbúa börnin fyrir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Hin opinber áhersla er til staðar. Margir hafa hinsvegar velt upp hvernig skólar geti kennt lýðræði og hvort það sé yfirhöfuð hægt. Til að geta svarað því, verður fólk fyrst að skilgreina hvað það eigi við með lýðræði, í hverju felst það. Flest okkar þekkjum þessa skilgreiningu sem byggist á því að meirihlutinn ráði í skjóli þess að vera meirihluti. En þegar við hugsum aðeins dýpra, komumst við að því að svo einföld getur skilgreiningin á lýðræði ekki verið. Ef við hugsum um það þá fylgja lýðræðinu önnur gildi. Meðal þeirra má nefna hugtök, eins og virðing, þátttaka, ábyrgð og hlustun svo einhver séu nefnd.  

Hugtök sem eru ákaflega mikilvæg öllum sem starfa með yngstu borgurunum. Í raun má segja að þetta séu grunnhugtök alls starfs með börnum. Í hverju felst að virðing í starfi með börnum? Virðing fyrir skoðunum barna, virðing fyrir fjölskyldulífi þeirra, virðing fyrir tíma þeirra, rými og verkum eru á meðal þátt sem hægt er að nefna. Ég er sannfærð um að til að skólar geti sagst vinna á lýðræðisgrunni verði allt starf þeirra að vera gegnsýrt virðingu. Þess vegna getur virðing ekki verið einkamál skóla. Hún er grundvallaratriði í lífi hverrar manneskju. Það sem við viljum öll upplifa. Að virðing sé borin fyrir okkur.

Að hlusta og rökræða  

Í leikskólum verðum við að vera tilbúin til að hlusta og rökræða við börnin. Það er að segja ef við í raun ætlum að sýna þeim virðingu. Við verðum að vera tilbúin til að hafa skoðanaskipti við þau. Hvernig á barn annars að læra að ígrunda og standa með sjálfu sér, ef aldrei er rætt við það. Hvernig á barn að geta þroskað hæfileika sína til að hugsa ef við hugsum helst allt fyrir það. Ef við veljum alla kosti fyrir það.  Eða setjum þeim svo afmarkaða kosti að þeir krefjast ekki ígrundunnar

 Þjóðfundurinn 

Hvers vegna vel ég að ræða þetta hér og nú? Það er vegna þess að ég tel að hugmyndin um Þjóðfundinn sem halda á í Laugardagshöllinni þann 14. nóvember byggist á þessum sömu gildum og við viljum hafa í heiðri í starfi með börnum. Hugmyndin byggist á að til að vera  þátttakandi í endurreisn samfélagsins verði að veita þjóðinni tækifæri til að bera ábyrgð á mögulegum lausnunum. Með Þjóðfundinum fáum við tækifæri til að hugsa saman fram til nýrra hugmynda, til þess að gera upp hvað það er sem skiptir okkur öll máli. Hvaða gildi, hvernig samfélag við viljum skila áfram til barna okkar og barnabarna.  Kannski er það svo að Þjóðfundurinn er þegar upp er staðið, fyrst og fremst fyrir börnin okkar og barnabörn. Með honum fáum við tækifæri til að sýna þeim virðingu í verki. Ég vona innilega að börnin okkar fái sömu möguleika og ég fékk, til að tilheyra og til að hafa áhrif á umhverfi mitt, að gæfa mín verði líka gæfa þeirra.

 

Birt í Morgunblaðinu þann 31. október 2009  

Þjóðarspegill - þátttökuaðlögun

Næstkomandi föstudag  þann 30. október verður Þjóðarspegill Háskóla Íslands haldinn í tíunda skipti. Þar er að vanda að finna fjölbreytta dagskrá. Þjóðarspegill er opinn öllum og kostar ekkert inn. Ég verð með erindi um þátttökuaðlögun um morguninn. Reyndar verð ég með annað erindi um sama efni á málþingi HÍ Föruneyti barnsins seinna um daginn. En ætla að reyna að nálgast viðfangsefnið úr sitthvorri áttinni. Í tengslum við Þjóðarspegilinn skrifaði ég grein í rafrænt tímarit sem kemur út í tengslum við hann um reynslu sex leikskóla af þátttökuaðlögun. Hvet þá sem áhuga hafa á hinum ýmsu þjóðfélagsmálum að mæta og hlusta. Kannski á einn fyrirlestur, kannski allan daginn.

John Dewey

Á morgun er málþing um áhrif John Dewey á íslenskt skólastarf á Menntavísindasviði Hí. Dagurinn er valinn vegna þess að á morgun er 150 ár síðan Dewey fæddist. Hugmyndir Dewey hafa haft mikil áhrif á flest skólafólk og verið leiðarljós margra við þróun á skólastarfi. Sumir afgreiða Dewey með einföldum hætti, klisjan learning by doing heyrist þá gjarnan. Klisja segi ég vegna þess að þessum orðum er ekki fylgt eftir og ekki pælt í við hvað liggur að baki því sem stundum er nefnt athafnabundið nám á íslensku. 

Ég ákvað í tilefni dagsins að rifja upp lítinn kafla úr fyrirlestri sem ég hélt um Dewey fyrir nokkrum árum í tilefni 10 ára afmælis leikskólabrautar HA. Ég valdi kafla um áhrif umhverfis og einstaklings, um fánýtar athafnir og reynslu.

En víkjum aftur að hugmyndum Dewey og áherslu hans á samspil umhverfis og einstaklinga, auðvitað er það svo að þó svo að menntun eigi að eiga sér stað í samspili umhverfis og einstaklings er ekki öll reynsla nauðsynlega þroskandi eða menntandi að hans mati. Hann varaði við fánýtum athöfnum sem virðast hafa það sem markmið að hafa ofan af fyrir og skemmta börnum á kostnað raunverulegrar þátttöku og áhuga þeirra. Þetta sjónarmið má finna bæði í einu af höfuðritum hans Reynsla og menntun ((Experience and Education, 1938) og í Skóli og samfélag (School and society, 1943) en þar gagnrýndi hann m.a. Kindergareten-hreyfinguna.[1] Gagnrýni hans beindist að því að verið væri að leggja fyrir börn verkefni og ætlast til að þau tækju þátt í athöfnum sem ekki fullnægðu því meginmarkmiði að efla hugsun og þroska barna.

 

Dewey lagði áherslu á að agi yxi út frá vinnunni vegna vinnunnar, hann segir t.d. að ef kennari hafi það sem markmið að börn læri og hafi á takteinum tiltekna þekkingu, svo sem að kunna skil á innihaldi ákveðinnar skólabókar, þá beinist aginn að sjálfsögðu að því markmiði. En ef markmiðið beinist aftur af því að þroska mannsandann, félagslega samhjálp, samvinnu og þess að lifa og starfa í samfélagi þá verði aginn að tengjast þeim markmiðum. Hann telur að þar sem slík markmið ríkja sé tilfinning fólks fyrir röð og reglu nokkuð ólík því sem gerist í fyrra dæminu. Að í skólum þar sem unnið er í anda verkstæðisvinnu sé og verði ákveðin óreiða í gangi. Þar sé ekki hljótt, þar sitji börn ekki kyrr. Í slíkum skóla venjist barnið því að læra í gegn um þátttöku í athöfnum daglegs lífs. Nám verði inngróin venja.

 

[1]Hreyfing kennd við hugmyndafræði Fröbels um leikskóla


Ævintýr í Eyjafirði

Það eru ófáir vinir mínir sem í gegn um tíðina hafa farið í matarferðir til útlanda. Í slíkum ferðum eru bændur gjarnan heimsóttir og gestir fá upplýsingar um tilurð afurða. Hluti af ferðunum er svo að snæða mat eldaðan af fyrirtaks kokkum úr viðkomandi hráefnum á fallegum stað. En viti menn það þarf ekki lengur að fara til útlanda til að upplifa slíkt ævintýri, það er nóg að skreppa norður í land. Í Eyjafirði er margskonar ræktun og vinnsla á matvöru. Þar er líka fyrirtaks veitingahús sem hefur kappkostað að vinna með matvæli ættuð úr sveitunum í kring. Þar er byggt á hugmyndafræði slowfood hreyfingarinnar. Nú hefur þetta veitingahús tekið upp á þeirri nýung að bjóða gestum í ferð um matarlendur Eyjafjarðar og loka svo deginum með kvöldverði á Friðrik V. Þeir sem vilja kynna sér næstu ferðir nánar er bent á heimasíðu Friðriks V.

Vinir mínir sem ætluðu að fagna stórum áfanga í lífi sínu, ákváðu í stað þess að skreppa helgarferð til útlanda, einmitt að fara í slíka ferð. Þau komu svífandi til baka. Einstök upplifun, sögðu þau.

Ég hef verið þeirrar gæfu njótandi að fylgjast með Friðrik V frá opnun, séð staðinn vaxa og vaxa. Séð hvað sú skarpa sýn sem hefur einkennt hugmyndafræðina frá upphafi hefur skilað miklu. Sýn sem þau deilda saman Arnrún, Friðrik og börnin. Friðrik V er nefnilega fjölskylduveitingahús eins og þau gerast best. En annað sem hefur líka einkennt þau, er hugrekki til að takast á við áskoranir og finna nýjar leiðir í rekstri. Meðal þeirra má nefna jafn ólíka hluti og að bjóða grunnskólabörnum á Akureyri upp á valgrein sem snýr að mat úr hérðaði og það nýjasta matarferðir um Eyjafjörð.


Fánaborg leikskóla

Nýlega var ég stödd í leikskóla sem starfar í anda Reggio Emilia. Frá upphafi var ákveðið að taka hugmyndafræði endurnýtingar alla leið. Alla leið þá er átt við að stærstur hluti þess efniviðar sem notaður er, er endurnýttur, hlutir eru keyptir jöfnum höndum nýir og notaðir. Það sem fellur til í leikskólanum er endurnýtt. Næstum allur matur er unninn frá grunni, hvítur sykur ekki notaður og svo framvegis. Frá leikskólanum fer tæpur einn haldapoki af óendurnýtanlegu sorpi á dag (utan bréfbleyja). Einn gestanna spurði leikskólastjórann hvort leikskólinn stefndi á Grænfánann. Nei - ekki sérstaklega, var svarið, enda taldi leikskólastjórinn leikskólann ekki þurfa opinberan stimpil til að framfylgja grænni stefnu þar sem stuðlað er að sjálfbærni og í anda staðardagskrár 21. Það er ekki heldur í anda Reggio Emilia að fá eða þurfa stimpil.

Stundum þegar ég er á fundum í Reggio Emilia kemur þessi spurning upp, á að stimpla eða gefa út vottorð um að skólar starfi svo og svo mikið í anda hugmynda Reggio Emilia? Ef svo er hvað þarf til að geta sagst vera "Reggio Emilia" skóli? Vottorðaútgáfu er ávallt hafnað, það er einfaldlega ekki til uppskrift. Reggio Emilia hugmyndafræði í leikskólauppeldi er hugmyndafræði sem er sífellt í mótun. Fyrir utan þá staðreynd að enginn skóli getur verið Reggio Emilia skóli, nema skólarnir í Reggio Emilia. Hugmyndafræðin þar er sífellt í mótun hún tekur mið af nýrri þekkingu, nýjum rannsóknum, nýrri samræðu. En fyrst og fremst byggir hún á viðhorfum (sem birtist m.a. í orðræðu) sem starfsfólk og samfélag verður að tileinka sér. Það sem skólarnir í Reggio Emilia gera hinsvegar er að deila hugmyndum sínum og þekkingu með umheiminum. Þannig getum við lært af þeim skrefum sem þar hafa verið tekin. Skólar sem starfa í anda eða hafa átt hugmyndafræðilegt mót við hugmyndir fólksins í Reggio Emilia hafa margir bundist samtökum. Deila þar hugmyndum og reynslu. En hver um sig er þar á eigin forsendum, það er enginn sem segir; þú ert ekki nógu mikið Reggio. 

Ég á von á því að skólar sem segjast eiga hugmyndafræðilegt mót við Reggio Emilia hafi skuldbundið sig til að tileinka sér ákveðin viðhorf og hugmyndafræði. Þannig er í mínum huga ekki nóg að setja litað vatn í flöskur eða  vinna í anda hugmyndafræðinnar í klukkutíma á dag. Það er út af fyrir sig ágætt en er ekki í anda heildtækrar hugmyndafræði. Í því felst engin skuldbinding.

Í ljósi alls þessa þá á ég ekki von á að einn fáninn í fánaborg leikskólanna verði Reggio Emilia fáni. 

 


Þversnið samfélagsins

Vilhjálmur Einarsson skrifar grein í Morgunblaðið í dag um framhaldsskólann sem ég hvet fólk til að til að lesa. Þar fjallar hann um reglur um inntökur fyrr og nú. Ég er ein þeirra sem er fylgjandi því að skólar hafi sín "upptökusvæði" en hafi síðan svigrúm til að veita ákveðnu hlutfalli nemenda utan svæðis inngöngu. Ég er líka fylgjandi því að öllum skólum beri skylda til að taka inn tiltekið hlutfall nema úr öllum einkunnarhópum og um þá sækja. Þó svo að umræðan hafi e.t.v. mest snúið um þá sem vilja í MR og Versló eru fjölda annarra skóla sem unglingarnir vilja sækja, t.d. vegna áhuga á listnámi, kokkamennsku, hönnun, bifvélum, ja eða þeirra viðhorfa sem þeir vita að ríkja þar. Með kerfi sem byggir á blöndun ýmissa þátta er líklegra að skólarnir að verða þversnið samfélagsins.  Mér finnst það eftirsóknarvert.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband