Minning um tengdapabba

Borgarnes, Skallagrímsgarður, þangað liggur leiðin í  dag, við ætlum að koma þar fyrir bekk til minningar um tengdapabba minn Guðmund Trausta Friðriksson, rafmagnsverkfræðing. Hann fæddist í Borgarnesi 11. júní 1920 og lést í Reykjavík 1997.  Sem ungur drengur tók hann ásamt bræðrum sínum og föður þátt í að móta og gróðursetja tré í Skallagrímsgarðinn. Bekkurinn verður nálægt minningarbekkjum bræða hans, þeirra Ebba (Eðvarðs) og Lilla (Þorvaldur), nálægt minnisvarðanum um foreldra þeirra, Helgu Guðrúnu Ólafsdóttur og Friðrik Þorvaldsson. Allir fóru þeir bræður ungir vestur um haf til að mennta sig. Tengdapabbi var sá eini sem kom heim eftir rúman áratug við nám og störf. Eftir að hann kom til landsins starfaði hann sem borgaralegur yfirmaður Public Works hjá Bandaríkjaher á Keflavíkurflugvelli. Meðal áhugamála hans í starfi var að græða upp Miðnesheiðina. Ég man enn daginn sem grasfræ fyrir þúsundir dollara ruku út á haf með góðri vindkviðu, svona eins og þær þekkjast þarna suðurfrá. Þá "grét" tengdapabbi.

Ljósmyndun í leikskólastarfi

Í borginni Reggio Emilia á Ítalíu er reknir leikskólar á heimsvísu. Ein megin undirstaða starfsins þar er það sem nefnt hefur verið að á íslensku, uppeldisfræðileg skráning. Hún byggir á því að læra með og af barninu. Að fylgja eftir einu barni eða litlum hóp barna með ýmsum aðferðum. Þegar fólk skoðar skráningar starfsfólks leikskólanna í Reggio Emilia, undrast það. Það undrast m.a. yfir hugmyndum, tjáningu og gæðum sem finna má í skráningunum. Því er stundum haldið fram að uppeldisfræðilegar skráningar í Reggio Emilia séu sjálfstætt listform. Að þar hafi þróast skráningaform sem aðrir eigi erfitt með að fylgja eftir. En hvað er það sem skilur skráningar frá Reggio Emilia, frá öðrum skráningum? Ef til vill er það að fagurfræðin er fyrst og fremst byggð á mikilli virðingu fyrir barninu. Sem dæmi ætla ég að segja aðeins frá ljósmyndun sem skráningarform í leikskólunum í Reggio Emilia. 

Frá upphafi hefur mikil hugsun verið lögð í ljósmyndunina – að myndir og texti vinni saman. En líka frá hvaða sjónarhorni myndir eru teknar. Hvað er reynt að fanga? Er verið að festa augnablik á filmu eða ná upplifun og tjáningu? Bent er á að myndin sýnir ekki það sem fyrir framan myndavélina – heldur fyrst og fremst þann sem er bak við vélina og það sem hann hugsar, hans afstöðu. Að þegar við vísum myndavélinni að annarri manneskju þá eigum við að setja hjarta okkar og hugsun í þá athöfn.

 

Mjög fljótlega var ákveðið í Reggio Emila að velja myndir til að vinna með frá tæknilegum gæðum, en líka og aðallega vegna þeirra tilfinninga sem myndin kallar fram. Það var ákveðið að sýna myndir sem sýna samhengi, sem sýna hvernig staður leikskólinn er. Hvað á sér stað þar, þau námstækifæri sem þar bjóðast. Mirella Ruozzi pedagógista í Reggio Emilia segist hafa lært frá veröld kvikmyndarinnar. Hún vitnar til Wim Wenders sem sagði að sagan byrjaði með einu klikki og öðru klikki og enn öðru, með því verður sagan til.  En skráningar í Reggio Emilia eru einmitt oft settar fram sem sögur. Sögur um nám, sögur um rannsóknir barna á umhverfi sínu í víðasta skilningi.

En fagurfræðin nær lengra, hún nær til allrar framsetningar, til vals á letri, til útlitsteikninga – til allra tæknilegrar eftirvinnu. Mikil natni er lögð uppsetningu og klippingar. Í Reggio Emilia vinna hönnuðir og arkitektar að framsetningu efnis með leikskólafólkinu.  Mikið er spáð í hvaða skilaboð er verið að senda. Þegar bækur frá Reggio Emilia eru skoðaðar sést sú mikla og skipulega gagnaöflun sem hefur átt sér stað. Það sést hvernig eitt skref leiðir að öðru. Hvernig skipulegar skráningar verða undirstaða starfsþróunar. En það sem skín e.t.v. mest út er sú virðing sem börn njóta, sú mikla trú sem er á hugmyndum þeirra og möguleikum. Að börn eru vitsmunaverur, tilfinningaverur, félagsverur, að þau hafa hundrað möguleika til að tjá sig, hundrað mál og tæknin veitir þessum málum vængi. 


Að æfa sig

Þessa dagana er Sturla (1.9 ára) að æfa sig í nokkrum mikilvægum atriðum á þroskabrautinni. Hann er afar upptekinn við að fara upp og niður stiga. Hvert sem við komum reynir hann við stigana. Við vorum á leikskólalóð með mörgum stigum. Hann fór aftur og aftur, upp og niður, upp og niður, (leit ekki við löngum og girnilegum rennibrautum). Svo kom að því að reyna við stóra kastalann, að klifra upp kaðla til að komast efst upp í hann. Hann gerði þrjár tilraunir, var við að missa takið þegar hann var kominn nokkuð hátt upp í þriðja sinn. Fetaði sig þá varlega niður og reyndi ekki aftur. Sem sýndi mér að það er sennilega rétt sem sagt er, börn fara ekki hærra en þau treysta sér. Fæst fara sér að voða. 

Annars held ég að þetta með stigana sé að hann er að æfa til að komast hér á milli hæða. Hann hefur nefnilega mikinn áhuga á því sem er á neðri hæðinni, á herberginu þar sem afi geymir hljóðfærin. Þangað niður er brattur stigi og hlið.  

Annað atriði sem Sturla æfir að miklu kappi er að finna reglu í málfræðina. Hann er að reyna að átta sig á hvenær á að segja ömmu og hvenær amma, hvenær mömmu - mamma, afa-afi, pabbi - pabba. Hann mátar og leiðréttir sig svo. Ekki að setningarnar séu orðnar flóknar, þær eru rétt að vera þriggja orða, yfirleitt tveggja orða. Orðskilningurinn er hinsvegar nokkuð mikill. Enda mikið talað við hann og lesið. Nýja útgáfan um Pétur og úlfinn er í miklu uppáhaldi og svo auðvitað öll sönglög. Þá syngjum við fyrstu orðin en leyfum honum  að botna textana.

Í Reggio keypti ég handa honum lítið kaffistell úr leir. Það er oggulítið, gulur, rauður, grænn og blár bolli, undirskálar og teskeiðar í sama lit. Sturla er að æfa sig í alla vega kerfum, kaffistellið er í bastkörfu og hann tekur það upp í ákveðinni röð, fyrst undirskálar og svo eru bollar settir á sína undirskál og skeið við. Allt parað saman. Síðan sækir amma vatn og setur í könnuna (sem fylgir náttúrulega með) og Sturla hellir í bollana og fær sér svo kaffi. Svona eins og kaffikerlingin gerir í kvæðinu eftir Þórarinn Eldjárn, kvæði sem er í miklu uppáhaldi.

Lífið er merkilegt þegar maður er að verða tveggja.


Útinám í leikskólum

Það er margt spennandi að gerast i leikskólum landsins. Nýlega var opnuð útideild við leikskólann Rauðhól í Norðlingaholti. Slíkar deildir og skólar eru nokkuð algengir á Norðurlöndum. Hér hafa margir skólar verið að feta sig þá braut. Það sem er skemmtilegt er að áherslur eru mismunandi og fjölbreytileiki nokkur. Enda þau svæði sem næst eru leikskólunum mismunandi. Grannar okkar hafa sína skóga en við okkar móa og fjörur. Á Stóra leikskóladeginum hjá Reykjavíkurborg kynntu hinir ýmsu skólar verkefni sín. Meðal þeirra skoðaði ég fjögur sem sneru að útinámi. Það var samstarf leikskólanna Sunnuborgar og Laugaborgar um Laugardalinn. Sjálf var ég leikskólastjóri við Laugardalinn í áratug og veit hverslags vin hann er. Hann er gríðarleg uppspretta, rannsókna, athuganna og tilrauna fyrir börn og fullorðna. Þar er bæði að finna merkilega flóru og fánu. Verkefni Laugaborgar og Sunnuborgar voru skemmtileg, menntandi og metnaðarfull, til þess fallin að kveikja áhuga barna á útiveru og undrum náttúrunnar. Hinir skólarnir sem þarna fjölluðu um útikennslu (og ég skoðaði, ég náði ekki að klára alla sýninguna á tveimur tímum) voru leikskólinn Bakki sem gerði grein fyrir fjöruverkefni og leikskólinn Blásalir sem sagði frá móaverkefni.

En rót þess að ég skrifa þetta blogg er hinsvegar að ég var að skoða vefinn útnám og vildi í leiðinni vekja á honum athygli.

 


Torgin eru setustofa okkar borgaranna

Nýlega heimsótti ég borg sem lítur á torgin sem samverustað borgarbúa, sem sameiginlega setustofu þeirra. Skipulag torganna styður þessa hugsun. Nýjasta torgið er t.d. alveg flatt og hægt að breyta því í margskonar rými. Þar sem torgið er núna voru fyrir tveimur árum bílastæði, en í gamla daga var þarna torg sem iðaði af mannlífi. Þar er flatur gosbrunnur sem hægt er að stjórna bæði ljósum og vatni. Þar sem börn hlaupa og hjóla á heitum dögum inn í bununa. Þar eru bekkir með innbyggðri hljómlist, þar eru útisófasett til að setjast niður og rabba. Þar eru kaffihús, fólk á gangi, fólk á hjólum. Þar er margt fólk. Sannarlega eru torgin sameiginleg rými fólksins. Landnemahópur vinnuskólans er frábært og jákvætt framtak sem styður hugsun sem þessa. Takk fyrir mig.


mbl.is Grillað í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Lektor í bóndabeygju“

Svargrein við ritstjórnargrein Morgunblaðsins 27 júní.

Það er hlutverk fjölmiðla að halda uppi upplýstri og gagnrýninni umræðu byggðri á staðreyndum og þekkingu.  Hlutverkið er ekki alltaf það þægilegasta en það er skylda þeirra að víkja sér ekki undan óþægindum í stórum málum og smáum og fylgja sannfæringu sinni.  Á laugardag valdi Morgunblaðið að vekja athygli á fréttum um agakafla síðustu útgefinnar námskrár Hjallastefnunnar. Aðkoma  mín að málinu var að fréttamaður Ríkisútvarpsins hafði við mig samband bað mig, sem lektor í leikskólafræðum, um álit á því sem þar stóð. Það er engin launung að ég taldi agakaflann ekki standast nútímahugmyndir um leikskólauppeldi. En að sjálfsögðu mega aðrir skilja á þann veg sem þeir sjálfir kjósa þar með talið leiðarahöfundar Morgunblaðsins. Hinsvegar er vert að benda á að eftir að  Margrét Pála frétti af umfjöllun í netheimum um námskrána valdi hún sjálf að fella þennan hluta hennar úr gildi og fjarlægja af netinu. Ég á von á að næsta ritstjórnargrein Morgunblaðsins fjalli um þá einlægu ósk þeirra Margrét Pála taki kaflann aftur í gildi og birti á netinu.   

Birtist í Morgunblaðinu 29.06 2009.


Öryggi afstöðuleysis

Stundum verð ég hugsi yfir hvernig fólk notar vald sitt. Mér var nýlega sagt að ég væri áhrifa manneskja í íslenska leikskólaheiminum. Ef rétt er fylgir því líka mikil ábyrgð. En í hverju felst sú ábyrgð? Felst hún í afstöðuleysi gagnvart málefnum sem snúa að innra starfi leikskólanna? Felst hún í  því að þegja vegna þess að það er þægilegast. Ég vonaði að hrunið haustið 2007 hafi kennt okkur að til að þróast verðum við að þora að segja skoðanir okkar, láta ekki þagga niður í okkur. Leyfa okkur að takast á og vera gagnrýnin. En sennilega þarf meira en kerfishrun til.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband