Skapandi skólastarf sem byggir á virðingu og þar sem ríkir gleði

Virðing, gleði sköpun.

Laugardaginn 13. febrúar stóð hópur áhugafólks um menntamál að Þjóðfundi um menntamál í húsnæði menntavísindasviðs, Háskóla Íslands. Á fundinn mætti á þriðja hundrað manns til að ræða um menntun barna á aldrinum 2- 16 ára.  Fundarmenn skiptust í tvo meginhópa. Annarsvegar foreldra og hins vegar sérfræðinga um menntamál, grunnskólakennara, leikskólakennara, fræðamenn og fleiri

Fundurinn er afsprengi Þjóðfundar 2009, hann byggir á þeim aðferðum sem þar voru þróaðar en jafnframt voru þau vinnubrögð þróuð til að ná fram samstöðu um aðgerðir. Fólkið sem stóð að Þjóðfundi um menntamál 2010 hafði margt lagt sitt að mörkum við undirbúning og framkvæmd Þjóðfundar 2009.   

Eftir Þjóðfund 2009 var mörgum boltum hent upp í loft,  við sem stóðum að Þjóðfundi um menntamál gripum einn þessara bolta.

Á þjóðfundi um menntamál var byrjað á því að skilgreina þau gildi sem fundargestir telja mikilvægust við menntun barna. Þau gildi sem skoruðu hæst voru Virðing, gleði og sköpun.

Þegar hugmyndir gesta um þemu voru flokkuð komu fram sex þemu, sem ekki eru flokkuð  mikilvægisröð,

Að lokum komu fram yfir 30 beinar tillögur að aðgerðum í menntamálum, aðgerðir sem allar verða birtar á vef Menntafundar nú í vikunni (á menntafundur.ning.com). Tillögurnar verða jafnframt kynntar á  Menntaþingi, menntamálaráðherra þann 5. mars næstkomandi.


Kennsluhættir - sköpun - kennaramenntun

Nú hafa Þemu Þjóðfundar um menntamál verið sett fram, fundargestir eru nú að vinna í því að raða hugmyndum sínum á þemun, næsta skref er að vinna að hugmyndum að aðgerðum sem falla undir þemun. Að degi loknum verða til minnst 30 tillögur að beinum aðgerðum í menntamálum.

ÞEMU:
Kennaramenntun
Skóli og samfélag
Skapandi skólastarf
Skólaþróun
Samfélagsfærni
Kennsluhættir og námsefni

ÞJÓÐFUNDUR UM MENNTAMÁL - VIRÐING - SKÖPUN - GLEÐI

Þjóðfundur um menntamál var settur kl 9.30í morgun, fundurinn byggir á hugmyndafræði og vinnubrögðum þjóðfundar 2009. Í morgun byrjaði fólk a setja niður gildi sem það telur að setja eigi í öndvegi menntunar á Íslandi.  

 Gildin sem fólk telur mikilvægust í menntun eru Virðing, Gleði, Sköpun

Gildin

 

hægt er að fylgjast með fundinum á

http://menntafundur.ning.com/

og á

http://www.facebook.com/pages/pjodfundur-um-menntamal-2010/234699679463?ref=ts#!


Þjóðfundur - áherslur í menntamálum

Nú eru þjóðfundargögn opin öllum sem áhuga hafa. Til að nálgast þau þarf ekki annað en að fara inn á vefsíðuna www.thjodfundur2009.isHér á eftir geri ég grein fyrir brotabroti af þeim gögnum sem þar urðu til. Ég ákvað að skoða flokkinn áherslur í menntamálum en eins og flestir vita skoruðu menntamál hátt á fundinum.

Tilefnið var stutt viðtal í Samfélaginu í nærmynd á rás 1 í dag, Gamlársdag. Ég vildi vera búin að skoða lítillega hvaða möguleika ég hefði til að rýna í gögnin, möguleika sem allir landsmenn hafa. Í flokknum sem ég valdi voru 698 hugmyndir. Ég hlóð þeim niður í Exell og hóf svo frekari flokkun. Fyrst flokkaði ég gögnin í það sem ég kalla innri mál skóla og það sem ég nefni kerfisbundna þætti. Menntun fyrir alla, greiðari aðgangur aldaðra, betri tengsl skólakerfis og atvinnulífs eru dæmi um það sem fór í kerfisflokkinn. Meðal innri þátta flokkaði ég allt sem snéri að innra starfi skóla s.s. kennslu, kennsluhætti, áhersla á tiltekin viðfangsefni. Ég ætla að gera aðeins nánari grein fyrir flokknum innri þættir. Eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan dreifist sá flokkur nokkuð á milli atriða. En örfá atriði standa öðrum framar uppúr.

Lýðræðismenntun
Fyrst ber að nefna flokkinn lýðræðismenntun. Í þann flokk setti ég allt sem tengja má virðingu, heimspeki í skólastarfi og lífsleikni. Dæmi sem þar eru að finna eru setningar á borð við að það ætti að „Kenna gagnrýna hugsun þar sem sanngirni er höfð að leiðarljósi” og það „Mætti vera meiri fræðsla um hvernig þjóðfélagið virkar fyrr, t.d. leikskólar, grunnskólar“ nauðsyn þess að „Gera ungt fólk meðvitað um stjórnmál og efnahagsmál í þennan flokk setti ég líka áherslur „Kennsla í andlegum gildum tekin upp í grunnskólum“ svo fátt eitt sé nefnt. Þegar nánar er rýnt í flokkinn kemur í ljós að kynjamunur er nokkuð greinilegur, það eru fleiri konur sem leggja áherslu á þessi gildi en karlar.

Verkvit
Undir verkvitflokkaði ég allt það sem getur talist meiri áhersla á verklega þætti skólastarfs og að það þurfi að gera þeim hærra undir höfðu. Sá flokkur er nokkuð merkilegur aðallega fyrir þær sakir að hann efnið virðist helst vera hugðarefni fólks á aldrinum 45 til 64 ára en af 31 af 42 sem átti hugmynd í þessum flokki voru á þeim aldri. Sem dæmi um hugmyndir sem þarna komu fram má nefna „Hugur og hönd jafngild í menntakerfi“ „Upphefð iðnmenntunar“ að það beri að „Auka fjármagn til tæknimenntunar það myndi stuðla að nýsköpun í framtíðinni“ og að það beri að gera „Verk- og listmenntun, jöfn bóklegri menntun“.

Kynjasjónarmið
Tveir flokkar skera sig úr sem sérstakir kvennaflokkar – annar kunnuglegur hinn kannski minna kunnuglegur. Aðeins einn karl í þessum flokki hafði áhyggjur að eða vildi bæta sérkennslu í skólum á meðan að 11 konur á ýmsum aldri töldu þetta vera málaflokk sem huga þarf að. Hinn flokkurinn sem er e.t.v. nýrri í umræðuna er sjálfbærni. Þar flokkaði ég reyndar allt sem snéri að umhverfisvernd, vistfræði, endurnýtingu efniviðar í skólastarfi og hugtakið sjálfbærni sem kom oft upp. Hugtakið umhyggja er iðulega kennt við konur, sjálfbærni byggir á gildum umhyggjunnar og standa því konum e.t.v. nærri en körlum. Hér er að sjálfsögðu einungis átt við sjálfbærni í skólastarfi en eins og flestir vita skoraði sjálfbærni hátt á þjóðfundinum. Að skoða það hugtak og hvað liggur á bak við það í fleiri flokkum getur verið afar áhugavert og verðugt verkefni. Læt svo fylgja með litla mynd af flokknum innri starf í skólum.

Atafla

Óska ég svo öllum gleðilegra áramóta og farsæls árs. Þau ykkar sem lesa mig þá sjaldan ég blogga þakka ég fyrir lesturinn.  


MÁLSVARI ÓSKAST!

Nú er búið að „útbýtta“ styrkjum úr sprotasjóði leik- grunn- og framhaldsskóla hjá menntamálaráðuneytinu. Sprotasjóðurinn hefur það mikilvæga verkefni að styðja við þróunar og nýbreytnistarf í skólum. Þróunarverkefni eru einhver besta leiðin til að tryggja gæði og faglegan vöxt skóla. Þróunarverkefni ýta fólki oft af stað á nýjar brautir, leiða til nýrrar hugsunar. Þau eru ein leið til að tryggja að skólarnir okkar verði þeir gæðaskólar sem við öll viljum.

Fyrir nokkrum árum lét RANNÍS gera rannsókn á tilurð og eðli þróunarverkefna og hvernig þau festust í sessi innan skólanna. Þar var skoðað hvort hægt væri að sjá merki þeirra einhverjum árum seinna í skólastarfinu. Í stuttu máli sagt kom fram að í leikskólanum vinnur fólk saman að verkefnum (75%) á meðan að verkefnin voru verk einfara í framhaldsskólunum (8% samvinna). Á öllum skólastigum festust um 60% verkefna í sessi.

Hinsvegar má velta fyrir sér gáruárhrifum verkefna sem eru samvinnuverkefni margra og verkefni sem miða að því að bæta kennslu eins kennara. Má ekki ætla að vilji yfirvalda sé að "fjárfesta" í gáruáhrifum? En hvernig er raunveruleikinn?

Með nýjum lögum um öll þrjú skólastigin var þróunarsjóðum steypt saman í einn stóran sprotasjóð. Umræðan var að það leiddi til meira jafnræðis á milli skólastiga en verið hafði í fyrra kerfi. Veit ég að margir leikskólakennarar bundu miklar vonir við nýja stóra sjóðinn.

HVAÐ GERÐIST?
Rúmlega 44.4 milljónum var úthlutað til ýmissa verkefna í gær (22. des). Ég efa ekki að öll verkefnin hafi verið verðug og komi til með að styðja við skólastarf. Um það snýst ekki umræðan. Vil ég nota tækifærið og óska þeim sem fengu til hamingju. Af minni hálfu snýst málið um jafnræði og lýðræði. Það snýst um hvernig opinberu fé er skipt á milli skólastiga. Það er ekki nóg að tala fallega um góðu leikskólana okkar á hátíðarstundum en þess á milli gleyma þeim og að mínu mati lítillækka.

Í nefndinni sem úthlutaði var ekki einn einasti málsvari leikskólans. EKKI EINN. Alla vega ekki ef litið er til verka þeirra sem úthlutuðu og þær áherslur sem þar birtust. Vel að merkja þá var óskað eftir forgangsverkum en hingað til hefur ávallt líka verið úthlutað í flokkinn annað. Fyrir honum er gert ráð á rafrænu umsóknarblaði en hans sér ekki stað í úthlutun.

Í nefndinni sátu: (Læt tegund kennaramenntunar þeirra fylgja með) 
dr. Rósa Gunnarsdóttir, menntamálaráðuneyti, (grunnskólakennari).
dr. Sigurjón Mýrdal, menntamálaráðuneyti, (grunn og framhaldsskólakennari).
Elna Katrín Jónsdóttir, Kennarasambandi Íslands, (framhaldsskólakennari).
Svandís Ingimundardóttir, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, (grunnskólakennari).
dr. Finnur Friðriksson, Háskólanum á Akureyri (málvísindamaður).

 
Allt er þetta hið mætasta fólk en það er æpandi að ekkert þeirra er leikskólamanneskja.

Hér að neðan geri ég grein fyrir úthlutunni eins og hún blasir við mér.

FRAMHALDSSKÓLINN
Ef aðeins er rýnt í tölurnar má sjá að í framhaldskólum eru um 27.600 nemendur (Hagstofan er með þá aðeins fleiri en segir að um 6% séu tvítaldir). í hefðbundnum framhaldsskólum eru 25.196 nemar í 34 skólum, af þeim fengu nú 7 þróunarstyrki fyrir 11.9 milljónir. Hver skóli fékk að meðaltali 1,7 milljón í styrk og á hvern framhaldsskólanema (miðað við hærri tölu nema) var ætlað 431 kr.

GRUNNSKÓLINN
í grunnskólum eru 43.511 nemendur, grunnskólar eru 176 og fengu 23 þeirra þróunarstyrk í ár fyrir 17.2 milljónir. Meðaltal styrkjanna var 687 þúsund krónur, ef styrkir eru brotnir niður á hvern nema var úthlutunin 395 kr. á hvern grunnskólanema.

LEIKSKÓLINN
Leikskólar eru 274 og í þeim eru 18.278 börn, 5 þeirra fengu styrki fyrir 4 milljónir eða um 800 þúsund að meðaltali í styrk. Hvert leikskólabarn er metið á 219 krónur rétt hálfdrættingur framhaldsskólanemans.

Styrkir sem ekki eru festir á skólastig (Leikskóli er aldrei skráður sem aðalumsækjandi fyrir slíkum styrkjum) eru fyrir um 10,3 milljónir, meðaltal styrkja er tæpar 2.1 milljón (helmingur af því sem er úthlutað til leikskólastigins í heild á hvert verkefni í þessum flokk).

Ég er ekki að biðja um hnífsoddajafnrétti en ég bið um jafnræði og sjálfsagt réttlæti.

Innan menntamálaráðuneytisins starfar fólk sem hefur áhuga á leikskólamálum, það veit ég. En ég veit líka að þar starfar ENGINN LEIKSKÓLAKENNARI. Kannski að áherslurnar væru aðrar ef svo væri.

Það er alveg ljóst að leikskólinn þarf að eignast málsvara. Hér með er óskað eftir þeim.

Sjálfboðaliðar

thjodfundur_logo_undirtitill_270x120

Það er svo merkilegt hvað fólk er tilbúið að leggja á sig fyrir góðar hugmyndir og góð málefni. Við Íslendinga höfum í gegn um tíðina séð hverskonar grettistaki er hægt að lyfta með samstilltu átaki. Stundum hafa tilefnin verið vegna áfalla sem við sem þjóð höfum staðið frammi fyrir og stundum þegar við viljum styrkja góð málefni eins og t.d. byggingu Grensásdeildar. Ávallt þegar ég upplifi slík andartök eða atburði verð ég snortin og gleðst yfir því að tilheyra þessum samstæða en samt margbreytilega og ólíka hópi.

Fyrir mörgum árum stóð ég á slíkum krossgötum í eigin lífi, ég stóð fyrir framan hruni á minni heimsmynd sem ég vona að ég eigi aldrei eftir að upplifa aftur. Í einu vetfangi hrundi heimurinn eins og ég þekki hann og eftir stóð ég. En þá fann ég einmitt þennan samhug þjóðarinnar, fann hvað var gott að tilheyra þessum hóp, Íslendingar. Hóp sem réttir fram hendur og hjálpar. Bláókunnugt fólk sem lét sér annt um mig. Hvað eftir annað höfum við Íslendingar getað sýnt í verki hvers við erum megnug þegar við viljum.  

Undanfarna vikur og mánuði hef ég fylgst með því fólki sem stendur að Þjóðfundi. Séð allar þær vinnufúsu hendur sem að honum standa. Næstum getað þreifað á allri þeirri hugarorku sem þar er að finna. Hundruð kvenna og manna sem leggja fram vinnu sína sem sjálfboðaliðar, að sjálfsögðu endurgjaldlaust. Á einhverju andartaki var mér boðið með í hópinn. Boðið að leggja mitt að mörkum. Endurgjaldið sem mér var lofað er ánægja, gleði, oggu þreyta og að hitta og að kynnast skemmtilegu fólki. Mér finnst það reyndar mikið endurgjald. Mér finnst líka gaman að sjá og skynja hina miklu vídd sem er í hópi þeirra sem að Þjóðfundi standa. Fólk sem kemur frá mismunandi stöðum í lífinu, með mismunandi reynslu, menntun og bakgrunn.

Helst hefði ég viljað fá boð á Þjóðfund, mundi glöð gefa eftir svæðisstjórahlutverkið fyrir þau forréttindi að fá að leggja fram hugmyndir og pælingar, fyrir að fá að vera þátttakandi í umræðunni. Ég vona sannarlega að þeir sem hafa fengið boð staðfesti þau og ekki bara það, heldur mæti og verji laugardeginum í þágu framtíðarinnar í Laugardagshöllinni.

Ps. á morgun ætla ég að skrifa um hvað mig langar að gera persónulega með hugmyndafræðina og tæknina sem hefur verið að mótast í tengslum við Þjóðfundinn, (þekkingin sem hefur orðið til er nefnilega alveg ótrúlega mikil).

 

Þjóðfundur

 


mbl.is Þjóðfundur um framtíðarsýn Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju eru ekki allir valdir með slembiúrtaki á Þjóðfundinn?

Ég er svo heppin að vera einn 18 svæðisstjóra á Þjóðfundi. Á mínu svæði verða 9 lóðsar sem leiða umræðuna við borðin 9 sem eru á svæðinu, en lóðsarnir taka ekki þátt í umræðunni. Þeim er fyrst og fremst ætlað að vera þjónar borðsins. Á hverju borði eru 9 fundarmenn með málfrelsi, tillögu- og atkvæðarétt. Saman við borð geta raðast smiðir, háskólakennarar, fiskvinnslufólk, þingmenn, fólk sem starfar í frjálsum félagasamtökum, vonandi eins ólíkur hópur og hægt er að hugsa sér. Við borðið eru allir jafningjar þar sem hver og einn fær jafnmörg og mikil tækifæri til að hafa áhrif á það sem gerist þar. Lóðsarnir eiga að gæta þess að stýra umræðunni í anda jafnræðis og halda henni á jákvæðum nótum. Þjóðfundi er nefnilega ekki bara ætlað að vera stefnumót við framtíðina, heldur líka gefandi og ánægjuleg reynsla fyrir þá sem taka þátt. 

Ég hef verið spurð hvers vegna ákveðinn hópur fólks frá frjálsum félagasamtökum, þingmenn, ráðherrar og fólk innan úr stjórnkerfinu er boðið að mæta á fundinn (um 300 manns í heildina). Ég svara að ef við viljum að þetta fólk sem sannarlega hefur möguleika til að ýta breytingum úr vör eða fylgja þeim eftir, ef það er með á fundinum er líklegra að það taki niðurstöður til sín, það tekur jú þátt í að móta þær. En mér finnst líka mikilvægt að benda á að þessi hópur dreifist með öllum hinum á öll borðin. Þess vegna er hlutverk lóðsana sem stýra borðunum einstaklega mikilvægt. Það er þeirra hlutverk að gæta þess að allar raddir, öll sjónarmið komi fram og njóti sín. Að hver sem ég er er ég jafnmikilvægur og næsti maður eða kona.Til að trygga að allir fái notið sín á fundinum verða til taks aðstoðarmenn fyrir þá sem eiga erfitt t.d. með að skrifa eða annað. Þannig verður reynt að tryggja að allir sem hafa fengið boð geti sannarlega verið þátttakendur. 

Í kvöld þá hittumst við öll af mínu svæði, allir lóðsarnir voru fullir tilhlökkunar, þeir hlakka til að hitta fólkið sem verður með því við borð og að fá tækifæri til að taka þátt í þessum ótrúlega atburði með því.   

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband