14.1.2011 | 12:55
Leikskólastarf
Í leikskólum landsins á sér stað metnaðarfullt starf. Margir skólar skrá starfið á ýmsa vegu, ljósmyndir eru algengar og svo hafa smámyndbönd verið að ryðja sér til rúms. Á heimsíðum margra skóla er hægt að sjá slík myndbönd sem eru eins og gluggar inn í starfið. Gluggar sem gefa foreldrum, fjölskyldum og jafnvel þeim pólitíkusum sem áhuga hafa eilítið blik inn í daglegt starf og sérstök verkefni. Myndböndunum er ætlað að upplýsa og mennta og stundum skemmta. Í tilefni Dags leikskólans þann 6. febrúar ákváðu félög leikskólakennara að fara af stað með litla örmyndbandasamkeppni. Hver skóli má senda inn þrjú, þriggja mínútna myndbönd. Ég hlakka mikið til að sjá afraksturinn, sjá það hluta af því frábæra starfi sem á sér stað í leikskólum landsins.
Nokkrir leikskólar eiga sínar eigin youtube síður. Meðal þeirra er leikskólinn Furugrund í Kópavogi sem gefur þar nokkuð góða mynd af starfinu, önnur síða er tengd leikskólanum Urðarhóli í Kópavogi, en Birte Harksen leikskólakennari hefur haldið úti öflugri youtube síðu sem aðallega er tileinkuð tónlistaruppeldinu í leikskólanum. Það er merkilegt að geta þess að eitt myndbandið þar hefur yfir 300 þúsund áhorf. Nýjasta síðan er sennilega síða leikskólans Aðalþings í Kópavogi en á henni er enn fá myndbönd, enda skólinn til þess að gera nýr. Þessir leikskólar hafa líka vel virkar heimsíður sem að mestu virðast opnar öllum sem áhuga hafa.
Ég get þess að þær eru opnar því margir skólar hafa farið þá leið að læsa síðum sínum. Það eru margar ástæður þess að skólar velja að fara þá leið, ein þeirra er hræðsla um að efni sé notað án heimildar og e.t.v. ekki á sanngjarnan hátt. Vandinn við að loka síðum er hins vegar sá að þá gegna þær ekki því hlutverki að vera gluggi inn í leikskólastarfið og í leiðinni efla skilning fólks út á hvað það gengur. Það er þessi vandaða meðallína sem er erfið að rata.
Lengst af hefur ein öflugasta leikskólasíða landins verð síða leikskólans Iðavallar á Akureyri. Á Iðavelli hafa þau trú á opnum hugbúnaði og opnum síðum. Þau hafa meðal annars bent á að ekkert sem særir eða gerir lítið úr börnum rati á síðuna. Að virðing barna sé höfð að leiðarljósi við val á efni. Annars má benda á að flestir leikskólar á Akureyri hafa nokkuð virkar heimasíður. Það sem meira er þær eru flestar unnar frá grunni í viðkomandi skólum, reyndar finnst mér að sumir skólar mættu alveg minnka skrautið og krúsidúllurnar á síðunum sínum. Mér finnst síður allmargra Reykjavíkurskóla geldar í útliti og eiginlega bara ljótar. Þetta eru joomla síður sem virðast staðlaðar en lítt hugað að fagurfræði eða notendaviðmóti. Sjálf reyndi ég mig einu sinni við Joomla kerfið en verð að viðurkenna að ég náði ekki andlegu sambandi við það. Segir örugglega meira um mína tölvufærni en kerfið. Margir þekkja síður Hjallastefnunnar sem fleiri leikskólar kaupa. Þær er afar snyrtilegar en hafa ekkert þróast úlitslega í mörg ár. Á þeim eru líka viðmótsgallar sem gerir það leiðigjarnt að ferðast um þær. Síður leikskólanna í Reykjanesbæ eru samhæfðar en á margan hátt frekar þægilegar, heilsusleikskólarnir kaupa augljóslega sama kerfi og Reykjanesbær.
Auðvitað verða þeir leikskólar sem hafa heimsíður, hvort sem þær eru opnar eða lokaðar, fallegar eða ljótar að gæta að virðingu barna og stafsfólks. Best er auðvitað að hver skóli móti sér eigin vinnureglur, siðareglur um netbirtingu.
Nýlega var ég að vinna myndband um leikskólastarf. Ég var að klippa sama fjölda brota og búa til heildstæða mynd. Ég var nokkurnveginn búin að móta útlínur handrits og leitaði svo í brotunum hvað félli að því. Oft fann ég klippur sem hentuðu efnislega, en ekki frá því sjónarhorni að gæta virðingar barna.
Ég þekki leikskólafólk sem aldrei birtir myndir eða brot þar sem börn gráta, en er allur grátur sjálfkrafa slæmur? Bara svona pæla.
Að lokum væri frábært að fá ábendingar um virkar leikskólasíður.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 02:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2011 | 15:04
Hvað eru kjaramál leikskólastjóra?
Á morgun ætlar félagsfólk í Félagi leikskólastjórnenda að hittast og ráða ráðum sínum. Ætlunin er að vinna að stefnumótun og framtíðarsýn fyrir félagið sem stofnað var á síðasta ári. Í raun byggist það á grunni fagfélags leikskólastjóra. Á morgun fá allir félagsmenn tækifæri til að taka þátt í að byggja upp sýn nýja félagsins. Fyrir hvað það á að standa, þá sýn og gildi sem eiga að liggja starfinu til grundvallar. Ég velti hins vegar fyrir mér hvað séu kjaramál leikskólastjóra?
Hvaða mál skipta leikskólastjóra máli varðandi rekstrarumhverfi þeirra stofnana sem þeir reka? Það er vitað rekstrarumhverfið er mjög misjafnt á milli sveitarfélaga og jafnvel innan sveitarfélaga. Fyrir mörgum árum heyrði ég því varpað fram hvort að ekki væri bara best að fá viðskiptafræðinga til að stjórna rekstrinum og þá gætu leikskólakennararnir sinnt fagmálunum. En í mínum huga er málið ekki svo einfalt. Ég tel nefnilega að það sé illmögulegt að aðskilja fagmál og rekstrarmál.
Forgangsröðun verka og fjármagns verður að vera í höndum leikskólastjóranna. Þegar ég byrjaði ung sem leikskólastjóri gerði ég "óskalista" í aðdraganda fjárhagsáætlunargerðar, ég setti svona 6- 8 atriði á listann og fékk kannski 1-3. Í mínu tilfelli tók það um 5 ár að klára listann (við í mínum leikskóla völdum að senda inn sama listann ár eftir ár). Á honum voru jafn ólík atriði eins og að skipta út rándýrri og óhentugri loftlýsingu, mála veggi, kaupa ný borð og stóla fyrir börnin og húsgögn í kaffistofuna, dýnur í hvíld og svo framvegis. Þetta var á þeim árum þegar leikskólar fengu úthlutað x fyrir leikföng, x fyrir bækur, x fyrir vefnaðarvöru og svo mætti áfram telja. Síðan mátti helst ekki færa á milli flokka. Í litlum leikskólum var nær útilokað að eignast stærri hluti. Verst var að við höfðum oft litla yfirsýn yfir marga flokka, sáum t.d. aldrei reikninga frá rafmagnsveitunni. Matarkostnaður kom ekki niðurliðaður og svo framvegis. Bókhaldið okkar var eiginlega beiðnabókin. Svo breyttist þetta og við fengum að sameina flokka og ráða hvernig við vörðum heildarupphæðinni og við fengum tölvuforrit sem hjálpuðu okkur að halda utan um reikninga og sundurliða þá sjálf (alla veg við sem höfðum tölvur í skólunum). Sameining flokkanna leiddi til nýrra lista. Hjá okkur forgangsröðuðum við mikilvægum efnivið í uppeldisstarfið, á listanum lenti, hljóðfæri, einingakubbar, vandaðir litir og svo framvegis. Miðstýringaráráttan var samt ekki alveg dauð og sumt máttum við helst ekki kaupa nema með sérstöku leyfi, (eins og tölvur) og stærri framkvæmdir auðvitað háðar sérstökum skoðunum.
Enn þetta með miðstýringuna ég man þegar fjármálastjórinn hringdi í mig, erindið var að ég hafði keypt tölvu númer 2 inn í 6 deilda leikskóla. Fjármálastjórinn sagði mér að í nágranaskóla okkar væri ekki til tölva en ég með tvær og nú ætti ég að senda aðra þangað. Það fauk létt í mig og ég svaraði. "Já það er ekkert mál en ég hef heyrt að þau eigi tvö kubbasett og nú vantar okkur slíkt". "Þú meinar það" var svarið og ég heyrði aldrei framar talað um tölvumál hjá mér.
Það eru rúm 13 ár síðan ég hætti sem leikskólastjóri. Ég hélt satt að segja að allir svona kvótar á einstaka liði væru út úr kortinu þangað til að ég hitti leikskólastjóra nýlega sem hafði rekið ákveðna hluti í sínum leikskóla með mikilli hagsýni. Hún fékk hvorki að færa á milli liða eða á milli fjárhagsára. Hvers vegna er ég að rifja þetta upp, jú ég er að velta fyrir mér hvað í starfsumhverfi leikskólastjóra er umsemjanlegt og hvað þætti félagið á að hafa stefnu í og berjast fyrir. Sannarlega er ekki hægt að setja slíkt inn í kjarasamning en það hlýtur samt að vera hægt að koma því fyrir einhverstaðar, t.d. með sameiginlegum yfirlýsingum. Þegar fagfélag leikskólastjóra var stofnað var rætt um að skapa vettvang meðal annars fyrir svona umræður, leikskólastjórar þyrftu að hafa vettvang til samræðu. Ég velti fyrir mér er það enn hluti af framtíðarsýn félagsins.
Í mínum huga er ekki hægt að taka í sundur faglegan metnað, framsýni og rekstrarmál. Það verður forvitnilegt að sjá hvað kemur út úr stefnumótunarfundi félagsins.
Menntun og skóli | Breytt 24.1.2011 kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2011 | 15:57
"Ég get svo sem alltaf farið að vinna í leikskóla"
Leikskólinn hefur verið undir mikilli pressu undafarið ár. Góðæristímar í samfélaginu hafa löngum haft í för með sér kreppu í leikskólum. Leikskólarnir hafa verið illfærir í samkeppni um starfsfólk og margir leikskólar upplifað að vera miðstöð nútíma farandverkafólks. Því miður oft fólks sem hefur engan metnað fyrir hönd leikskólans. Eftir að lengsta krepputíma í íslensku leikskólasamfélagi virtist vera að ljúka sáu margir leikskólastjórar fram á betri tíð, sáu fram á að geta mannað þær stöður sem ekki fengust leikskólakennarar í með metnaðarfullu og flottu fólki. "Hvað er nokkurt mál að fá fólk núna?" er spurt. En hver hefur verið raunin?
Ég var ein þeirra sem fagnaði þeirri hliðverkun kreppunnar að það væri ekki skömm að vera á atvinnuleysisskrá. Að það væri ekki eins og að segja sig til sveitar. Mér fannst það mikilvægt fyrir mannlega reisn. Ég er ein þeirra sem finnst mikilvægt að búa í samfélagi sem heldur utan um þá sem minna mega sín eða eiga erfitt á tímabilum í lífi sínu, að það sé til kerfi sem heldur utan um það fólk. En svo eru það hinir sem sjá samtrygginguna ekki sömu augum og ég, sem kerfi sem tekur við ef áföll verða. Heldur sem kerfi til að nota og þeir eiga rétt á. Að það er kostað af samneyslunni, mér og þér og það sé í raun að stela.
Ég áttaði ég mig heldur ekki á því að þar sem svo litlu munar á því sem fólk sem er á atvinnuleysisiskránni fær bæði í formi launa og hlunninda og þess að vera á vinnumarkaði leikskólans að starfið í leikskólanum er ekki eftirsóknarvert. Það er betra að vera á skránni.
Ég hef líka heyrt í ráðgjafa sem ræðir við fólk í atvinnuleit. Hún segist oft heyra. "Æi ef ég fæ ekkert annað get ég svo sem farið að vinna í leikskóla". Viðhorf sem lýsa leikskólanum sem ruslakistu vona og væntinga. Svona viðhorf stinga okkur í leikskólanum sem trúum á gildi hans, í hjartastað. Við viljum nefnilega fólk sem finnst leikskólinn jafn eftirsóknarverður og flottur vinnustaður og okkur finnst hann alla jafnan vera.
Leikskólastjórar segja ýmsar sögur af samskiptum sínum við væntanlegt starfsfólk. Það kom mörgum þeirra t.d. á óvart að þegar hringt var í fólk af atvinnuleysisskránni, komu spurningar um hitt og þetta. Fólk sem samkvæmt skránni var að sækja um fullt starf gat t.d. ómögulega unnið fullt starf, þurfti að sinna hinum og þessu (einsog svartri atvinnustarfsemi). Það eru jafnvel dæmi þess að fólk sem finnur sig ekki í starfi biður um uppsagnarbréf til að fara fyrr inn á skrána. Einn leikskólastjóri sagði mér af starfsmanni sem mætti seint og illa og skyldi ekkert í því að ekki væri búið að segja sér upp, var í raun að biðja um það með hegðun sinni. Leikskólastjórinn var aftur í þeirri stöðu að verða að leika eftir leikreglum og samkvæmt þeim er það meira mál en að hnerra að segja upp fólki. Einn leikskólastjóri segist biðja um starfshæfnisvottorð þar sem hennar reynsla er að fólk sé marga daga í mánuði frá vegna veikinda. Henni og öðrum finnst t.d. ekki í lagi að fullfrískt fólk um þrítugt sé að meðaltali frá um 5 daga í mánuði. Það merkir í raun að viðkomandi er 75% starfsmaður og til að mæta 3 svona starfsmönnum þarf eina afleysingarmanneskju, (reikna með að afleysingin sé líka 25% veik). Afleysingarmanneskju sem auðvitað er ekki til staðar. Því verður álagið á þá sem eftir standa enn nú meira. Vegna sterks veikindaréttar á allt þetta starfsfólk rétt á 100% launum og það er erfitt að hreyfa við því. Verst er að kostnaðurinn er ekki aðeins fjárhagslegur heldur líka og ekki síst siðferðislegur. Annar leikskólastjóri segist ekki ráða fólk nema tímabundið, til að lenda ekki í uppsagnarklemmunni. Ástæðuna, hún hefur séð marga starfsmenn halda út reynslutímann en um leið og honum lýkur er eins og skipt um plötu. Annar leikskólastjóri sagði mér að hún hefði sagt upp starfsmanni, hann meldaði sig veikan daginn eftir og mætti með uppáskrifað langtímaveikindavottorð frá lækni. Daginn sem uppsagnarfresturinn rann út var hringt í leikskólann úr öðrum leikskóla til að spyrja um viðkomandi. Leikskólastjórinn sagðist hafa sagt kollega sínum að hún fagnaði því að viðkomandi væri kominn til heilsu.
Það er á þessum tímum og við líkar aðstæður sem sameiningartal hitti leikskólastjóra fyrir. Og það er í þessu ljósi sem fólk verður líka að skoða viðbrögð leikskólasamfélagsins. Leikskólinn hefur verið að róa lífróður og í stað þess að kasta til hans línu er bætt í lestarnar og róðurinn þyngdur.
Ég sé sjálf marga kosti við sameiningar leikskóla, ég sé spennandi tækifæri til að þróa starf og aðferðir. En ég held að það sé hættulegt að gera það á kostnað stjórnunar skólanna eins og staðan er nú.
Í flestum leikskólum er flottur kjarni fólks sem ber upp starfið og sinnir því af einstökum faglegum metnaði. En í allmörgum leikskólum er líka ákveðið hlutfall fólks sem stoppar stutt við. Því miður eru áhrif þessa hóps miklu meiri á leikskólastarfið en æskilegt er.
Svona að lokum langar mig að segja frá að fyrir allnokkrum árum lét Kópavogsbær gera hjá sér könnun á hverjir væru veikir í leikskólanum og komst að því að þeir sem síst eru veikir eru leikskólakennararnir.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.11.2010 | 11:01
Neyðakallinn
Ég er ein þeirra sem er hjálpar- og björgunarsveitum óendalega þakklát. Við höfum sem þjóð getað treyst á óeigningjarnt starf fólksins sem fyllir þessar sveitir. Séð það aftur og aftur leggja sitt perónulega líf til hliðar til að koma öðrum til hjálpar. Nú þurfa þessir aðilar á okkur að halda. Þeir þurfa á því að halda að við kaupum Neyðarkall. Hjálparsveitarfólk er um helgina um allt land að selja rústabjörgunarmanninn. Í útvarspsumræðu um neyðakallinn var þeirri spurningu velt upp hvort að ekki væri eðlilegt að mæla traust fólks á björgunarsveitunum. Þáttastjórnandinn taldi sennilegt að ef það væri gert kæmi í ljós 100% traust.
Í gær kom einn starfsmaður í leikskólanum Aðalþingi í hláparsveitarbúningum sínum til barnanna. Hann fékk margar spurningar og börnin skoðuðu af áhuga útbúnaðinn hans. Talstöð, hjálm, áttarvita og sigbeltið. Slíkar kynningar til barna eru mikilvægar, þær skapa spennu fyrir hlutverkinu og börnin sjá raunverulega útbúinn neyðarkall. Í dag er lítil frétt á heimasíðu leikskólans um þessa heimsókn.
20.2.2010 | 10:41
Staðfugl á Akureyri
Rétt áður en farfuglarnir birtast á vorin, þegar þorrinn kveður og góan tekur við, kynna háskólar landsins námsframboð sitt. Háskólinn á Akureyri verður með sína kynningu í Ráðhúsinu í Reykjavík. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér fjölbreytt námsframboð, vilja kannski taka sig upp og prófa að búa á nýjum stað já eða skoða fjarnámsmöguleika ættu að líta þar við. Við tókum vel á móti öllum.
Kannski ert þú ein/n þeirra sem í framtíðinni breytist í norðlenskan staðfugl eða jafnvel farfugl, svo vitnað sé til sýningar George Hollanders hér um árið.
Háskólar kynna nám sitt í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2010 | 08:27
Dagur nýrra hugmynda og tækifæra
Hver dagur í leikskólanum er dagur nýrra verkefna. Dagur nýrra hugmynda og tækifæra. Fyrir um 60 árum stofnuðu fóstrur stéttarfélag til að berjast fyrir rétti sínum en líka til að berjast fyrir rétti barna. Ímynd stéttarinnar er órjúfanlega tengd réttindum barna og skyldum við þau. Stundum er sagt að ef ekki væru börn væri enginn þörf fyrir leikskóla. Fyrir okkur sem störfum innan leikskólans er þetta sannleikur sem við megum ekki gleyma. Öll þróun í starfi á að miða að því besta fyrir öll börn. Að öll börn eigi hlutdeild í því starfi sem fram fer. Í námsumhverfi sem byggist á lýðræðislegum áherlsum. Réttur okkar leikskólakennara er rétturinn til að vernda námsumhverfi og uppvaxtarskilyrði barna innan leikskólans, rétturinn til að þróa það í takt við nýja þekkingu og viðhorf. Daglega sé ég þau gildi sem fyrstu fóstrurnar tileinkuðu sér höfð að leiðarljósi birtast í metnaðarfullu leikskólastarfi. Þeim ber að þakka frumkvöðlastarf sitt. Seinna tóku aðrir við kyndlinum og saman ætlum við að bera hann inn í framtíðina.
Barnavinafélagið Sumargjöf
Í mínum huga er það merkileg staðreynd að Barnavinafélagið Sumargjöf var stofnuð á Sumardaginn fyrsta, en Sumargjöf rak og átti fyrstu leikskólana. Leikskólinn hefur frá upphafi verið rekinn á forsendum barnsins vegna barnsins. Frá því að fyrstu leikskólarnir opnuðu fyrir um rúmum 80 árum hefur sumt breyst en annað ekki. Leikskólakennari sem gengi inn í leikskólastofu fortíðarinnar kannaðist sjálfsagt við margt. Leikskólanum hefur auðnast að byggja á arfleið sinni og er stoltur af henni. Hún er hluti af gildagrunni flestra leikskólakennara. Samtímis hefur námsumhverfi leikskólans tekið stórstígum breytingum, metnaðarfull verkefni eru unnin daglega í fjölda leikskóla. Verkefni sem snúa að skapandi, gagnrýnu námi og að velferð barna. Enn á ný eru breytingar framunda hjá leikskólunum.
Spennandi tímar - þjóðfundur um menntamál
Nýlega hafa verið sett lög og reglugerðir sem krefjast nýrra vinnubragða, nýrra hugsunar, ný námskrá er í burðarliðnum og háskólarnir hafa endurskoðað kennaranámið. Nú um stundir fagna leikskólakennarar 60 ára afmæli stéttarfélags síns, í viku sem þeir hafa tileinkað leikskólastarfi. Samtímis er hópur áhugfólks um menntamál að skipuleggja Þjóðfund um menntamál, þar sem rætt verður um menntun barna á bæði leik- og grunnskólaaldri.
Sjálf hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að taka örfá spor í sögu stéttarinnar. Framundan eru spennandi tímar, sem ég hlakka til að lifa, hlakka til í að fá að tækifæri til að móta.
15.2.2010 | 22:47
Þar sem virðing, gleði og sköpun ríkir
Um helgina tók ég þátt í Þjóðfundi um menntamál, í dag heimsótti ég sænskan leikskóla. Um helgina komst fólk að þeirri niðurstöðu að virðing, gleði og sköpun ættu að vera þau gildi sem lögð eru til grundvallar skólastarfi. Í dag heimsótti ég leikskóla þar sem þessi gildi eru kjörorð. Ekki bara í orði heldur líka á borði. Það má eiginlega segja að skólinn sé mettaður þessum gildum.
Það var ótrúlegt að skoða 1. árs deildina, efniviður, málning, kubbar allt aðgengilegt börnunum. Engin beisli á barnastólunum, eins árs börnin sitja á lágum breiðum kollum (reyndar gera öll börn það). Smyrja brauðið sitt sjálf og leika í umhverfi sem sumir teldu vera of ögrandi og jafnvel hættulegt fyrir þau. Þarna á eins árs deildinni gekk dagurinn áreynslulaust fyrir sig. Hver deild varð síðan aðeins flóknari, flóknari efniviður, verkefni og kröfur.
Verkefni barnanna fá að standa, kom á byggingasvæði þar sem byggingar standa í nokkra daga og fá að þróast og þróast. Allstaðar ríkti virðing, fyrir barninu og verkum þeirra, en líka möguleikum og getu. Það ríkti gleði, leikgleði og sköpun er kjörorð dagsins.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)