Dagur leikskólans

adalthingÁ morgun föstudag er ætlunin að halda upp á dag leikskólans. Flestir leikskólar gera sér á einhvern hátt dagamun. Sýningar, foreldrakaffi, gönguferðir og allt mögulegt annað verður í gangi í tengslum dag leikskólans.

Félög leikskólakennara stóðu fyrir stuttmyndasamkeppni og bárust yfir 50 myndbönd í hana. Á morgun verða úrslitin gerð kunn við hátíðlega athöfn í Bíó Paradísó.

Dagurinn er hugsaður til að vekja athygli á því námi sem á sér stað í leikskólum landsins. 6. febrúar varð fyrir valinu vegna þess að hann hefur sérstaka merkingu fyrir leikskólakennara, þá stofnuðu þær nefnilega sitt fyrsta fag- og stéttarfélag árið 1950.

Það hefur lengst af verið eitt af meginhlutverkum leikskólakennarastéttarinnar að standa vörð um hagsmuni barna. Til að gera það er mikilvægt að sýna fram á það mikla og góða starf sem fer fram í leikskólum landsins.

 Til hamingju með daginn.

 


Líðan og vellíðan - barnið sem borgari

Í drögum að aðalnámskrá leikskóla eru lögð til ýmis nýmæli og hugtök sem við leikskólakennarar höfum hingað til ekki notað í opinberri umræðu. Er þeim þar gert nokkuð hátt undir höfuð. Má segja að sumt sem lagt er til sé mjög í anda þess sem er að gerast alþjóðlega í leikskólaheiminum og ekki bara honum heldur t.d. í tengslum við mannréttindabaráttu.

Þegar Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur hafði hann fljótlega í för með sér að fólk fór að endurskoða hug sinn til barna og bernskunnar. Það fór að bera á umræðu um mikilvægi þess að sjá og viðurkenna að börn eru þátttakendur, þau hafa mótandi áhrif á sitt nánasta umhverfi, heimili og skóla. Í skrifum varð æ algengara að sjá á orðtök eins og félagsfræði bernskunnar, barnið sem borgari, það var farið að ræða um réttindi barna, sjálfstæðan rétt umfram rétt foreldra. Rétt barna til bernsku, til að hafa tækifæri til að móta og hafa áhrif. Að hluta tengist umræðan hugmyndum fólks um lýðræði og lýðræðislegt skólastarf.

Sumt tengist umræðunni um mikilvægi valdeflingar meðal barna, að hafa t.d. tilfinningu fyrir að geta haft einhverja stjórn á aðstæðum og eigin líf. Sú sýn að barnið væri eins og gróðurhúsplanta sem aðeins þyrfti að vökva og veita rétta næringu varð víkjandi. Að börn væru eins og svampar og það væri okkar að stýra því sem þau drægju til sín, slík hugmyndafræði vék fyrir þeirri, að börn séu þátttakendur, þau hefðu og gætu haft áhrif á umhverfi sitt. Þau innu úr reynslu sinni og áreitum á persónubundin hátt, þau séu getumikill og hæfileikarík. Má eiginlega segja að við höfum horfið úr hlutverki hins alvitra, alltumlykjandi til þess að vera meðrannsakandi og þátttakandi með barninu í ævintýri lífsins.

Það má ekki misskilja það sem svo að með þessum umbreytingum og nýju sýn hafi t.d. leikskólakennarar afsalað sér uppeldis og menntunarhlutverki sínu. Eða ábyrgð á uppbyggingu skólastarfs. Hins vegar krefst nýr hugsunarháttur nýrra vinnubragða og nýrrar orðræðu. Vel að merkja innan leikskólafræðanna eins og víða annarstaðar er fólk mjög meðvitað og mikið rætt um vald og gildi orðræðunnar og hversu mjög hún mótar vinnubrögð og skoðanir okkar. En um það má skrifa annað blogg.  

Meðal þeirra hugtaka sem æ oftar sjást í erlendum fræðiritum er well being- og þá í alveg sérstakri merkingu. UNICEF gefur t.d. út skýrslur þar sem fjallað er um viðmið fyrir velferð eða vellíðan (well being) barna. Í þeirri umfjöllun er ekki verið að ræða um líðan barna eins og við höfum e.t.v. skilið það orð í gegn um tíðina. Heldur er verið að innleiða nýtt hugtak vellíðan og á bak við það eru aðrar og meiri skilgreiningar.

Í forvitnilegri grein (Ben-Arieh 2005) um skilgreiningu á hugtakinu vellíðan sem ég las nýlega er fjallað um vellíðan barna og viðmið. Þar er bent á að þegar verið er að meta vellíðan verði að horfa til lífsleikni barna, möguleika barnsins til að vera borgari, þátttöku barna í ýmsum ákvöðrunum sem þau varða og eigin menningu (barnamenning - félagamenning). Hvaða möguleika veitir skólakerfið börnum t.d. til þess að vera þátttakendur, móta eigin menningu, vera borgari með því sem því fylgir, (samræðu, hlustun virðingu og svo framvegis), hvernig er verið að vinna með lífsleikni? Ef við horfum með þessum gleraugum á vellíðan má sjá að það er ekki bara að verið að tala um almenna líðan út frá tilfinningum. Heldur er hugtakið miklu stærra og víðfeðmara.    

Í drögum að Aðalnámskránni má sjá að notkun hugtaksins vellíðan tengist þeirri skilgreiningu sem hefur verið að riðja sér til rúms erlendis og ekki er átt við hugtakið líðan eins og við skiljum í almennu tali.

Í drögunum er þetta orðað svona:

Mat á vellíðan og námi barna felur í sér að safnað er upplýsingum um það sem börn fást við og hafa áhuga á; hvað þau vita, geta og skilja. Upplýsingarnar eru nýttar til að styðja við nám og velferð barns, við skipulagningu leikskólastarfsins og samvinnu við foreldra. Um er að ræða ferli sem á að vera samþætt daglegu starfi leikskólans og felur í sér skipulagningu, skráningu, mat og ígrundun á námi barna. ... Er þar lögð áhersla á að efla alhliða þroska barna, sjálfstæði, virkni og þátttöku barna, sjálfsvitund, hæfni þeirra til mannlegra samskipta, víðsýni, siðferðiskennd og hæfni þeirra til sköpunar og tjáningar.

Það er ljóst að hugtakið líðan nær eitt og sér ekki til þessara þátta. Með því að innleiða hugtakið vellíðan í aðalnámskrá leikskóla er í leiðinni verið að innleiða nýjan tilvísunarramma. Við leikskólakennarar eigum sennilega eftir að takast á um þetta hugtak eins og mörg önnur.

Við eigum eftir að semja okkar tilvísunarramma, ræða og ígrunda hvaða merkingu þessi ákvæði og hugtakanotkun hefur fyrir starfshætti leikskólans.

Á öðrum stað í drögum að aðalnámskrá leikskóla er rætt um aðkomu barna og þess að haft sé samráð við barnið um upplýsingar sem það varðar og fara á milli skólastiga. Vegna þess hvað við innan leikskólans höfum verið föst í allskyns stöðluðum upplýsingum hafa margir í mín eyru hnussað yfir þessu ákvæði. Sjá ekki hvernig 5 ára barnið á að hafa áliti á t.d. Hljómi.

En ef við horfum nú á mat á vellíðan og merkingu hugtaksins vellíðan eins og það er sett hér fram. Þá sjáum við að þetta getur farið vel saman.

Í leikskólanum Aðalþingi (eins og mörgum öðrum leikskólum) er t.d. lögð stund á barnaheimspeki. Þar eru börn að velta upp ýmsum hugmyndum, fást við að skilgreina hugtök og ræða spurningar. Er ekki raunhæft að ætla að þau börn t.d. gætu rætt spurninguna, hvað vil ég að grunnskólakennarinn viti um mig?.  "Að mér þykir gaman að teikna, ég er rosalega góður vinur, ég er flink að hreyfa mig, ég kann að galdra...." Ef ég ætti að fara með myndir (t.d. ljósmyndir) út starfi leikskólans með mér í grunnskólann, hvað vil ég þá helst sýna og segja frá í starfi leikskólans? Með þessu móti væri barnið að hafa áhrif á þær upplýsingar sem færu um það og slík vinnubrögð eru líka mjög í anda lýðræðis, sem er jú ein meginstoð og markmið leikskólauppeldis. Auðvitað er ljóst að síðan fara líka alla vega aðrar upplýsingar á milli en er ekki sjálfsagt í ljósi hugmynda um sterka og hæfileikaríka barnið að treysta því fyrir hluta verkefnisins.  

 

Skilgreining úr nýlegri OECD skýrslu sem Ísland kemur bara nokkuð vel út, slóð á skýrsluna má finna hér

More recently, Ben-Arieh and Frones (2007a, p. 1) have offered the following definition, also indicators-based: “Child well-being encompasses quality of life in a broad sense. It refers to a child’s economic conditions, peer relations, political rights, and opportunities for development. Most studies focus on certain aspects of children’s well-being, often emphasising social and cultural variations. Thus, any attempts to grasp well-being in its entirety must use indicators on a variety of aspects of well-being.”


Sanngjörn, ákveðin, frek, glaðlynd, stúrin

Lífið heimaÉg var a lesa splunkunýja grein eftir Ann-Marie Markström um foreldrasamtöl í sænskum leikskólum - reyndar kalla þeir samtölin þróunarsamtöl. Marmið þeirra er yfirleitt að greina foreldrum frá þróun og þroska barnanna og segja frá lífi þeirra í leikskólanum. Í greininni er farið yfir sviðið um hvernig þessum samtölum hefur verið háttað, hver hefur stýrt og á hvaða hátt.

Samkvæmt fyrri rannsókn höfundar er algengast að samtalið sé byggt upp af þremur mismunandi þáttum eða lögum. Í Svíþjóð (eins og víða hér) fá foreldrar lista yfir það sem starfsfólk leikskólanna hefur áhuga á að ræða. Þetta er svona undirbúningsblað fyrir samtölin. Það virðist algengt að blaðið sé í formi spurninga sem annaðhvort foreldrar eða foreldrar og börn eiga að svara. Þegar kemur að sjálfu samtalinu, er það gjarnan byggt upp þannig að leikskólakennarinn byrjar á A) að draga upp sína mynd af barninu, þetta getur varað í nokkrar mínútur, B) síðan spyr hún foreldrana út frá blaðinu og C) svo tekur hún aftur yfir og fer yfir sín svör við blaðinu og lokar. Ljóst er að valdið og stjórnun þessara samtala liggur alveg hjá leikskólakennaranum. 

Rannsókn Markstöm beindist að tilraun til að fara aðra leið við þróunarsamtölin, aðferð sem byggist á því að nota styrkleikakort, "Svona er ég, sem undirstöðu samtalanna. Styrkleikakortin eru úr fjöldaframleiddum 54 korta spilastokk þar sem hvert spil inniheldur eitt lýsingarorð.  Dæmi um lýsingarorðin eru, sanngjarn, ákveðinn, hamingjusamur, varkár og næm, samheiti orðanna er líka að finna í kortunum. Kortin virðast vera nokkuð algeng í Svíþjóð og þá notuð til að ræða m.a. um tilfinningar. Leikskólakennararnir sem tóku þátt virtust ekki hafa hugsað aðferðina til enda þegar að samtölunum kom. Þeir byrjuðu á að leggja niður um 20 kort og báðu svo foreldrana að velja þrjú kort sem þeir teldu lýsa sínu barni. Orðin voru síðan notuð sem útgangspunktur samræðnanna. Foreldrum virðist hafa verið gefin ágætur tími til að velja og ræða kortin.

Markström greinir síðan tvö samtöl og skoðar út frá orðræðu um vald og stofnanavæðingu.

Hún kemst að því að kortin geta virkað á foreldra eins og þeir séu að taka próf og að þeim finnist þeir e.t.v. ekki vera að gefa sanngjarna mynd af barninu, jafnvel verulega einfaldaða mynd. Í verkefninu er ljóst að foreldrar voru ekki með tilgang þessara korta og gerðar samtala á hreinu. Jafnframt er ljóst að heilmikill tími fór í aðferðina sjálfa en ekki samræðu um barnið. Má jafnvel líta svo á að þrátt fyrir nýja nálgun sé það áfram stofnunin sem skilgreini orðræðuna bara á annan hátt.   

Frá sjónarhóli leikskólakennarans sá höfundur aftur töluverða kosti, leikskólakennarinn fær e.t.v. betri mynd af barninu og fjölskyldunni eins og hún er heima fyrir. Margir leikskólakennarar vilja forðast að setja merkimiða á börn, í þessu tilfelli er það ekki leikskólakennarinn sem setur merkimiða á barnið, það gera foreldrar. Það er þeirra vald að velja og hafna. Leikskólakennarinn grípur bolta foreldrana og dripplar honum áfram. Væntanlega, (af því að það er heimsmeistaramót í handbolta), væntanlega hefur leikskólakennarinn ákveðið það mark sem hún spilar í átt að. Ég á ekki von á öðru en að áfram þurfi og vilji leikskólakennarar koma tilteknum upplýsingum á framfæri og ræða. En hér er opnað á að stjórn foreldra á umræðunni og áferð samtalanna. 

Að endingu ræðir höfundur um mikilvægi þróunarsamtalanna og hvað þau spila stórt hlutverk í þróun og mótun leikskólastarfs í Svíþjóð.

Mér fannst þessi grein áhugaverð, á Íslandi eins og í Svíþjóð eru leikskólakennarar að hugsa nýjar leiðir til að þróa samstarfið við heimilin og samtölin við foreldra. Eru að hugsa nýjar leiðir til að gefa foreldrum aukið eignarhald og stjórn á því hvernig samstarfið á sér stað. Ég hugsa að margir leikskólakennarar þekki lýsinguna á dæmigerðum foreldrasamtölum hér að ofan. Og þrátt fyrir að hugtakið gagnvirkur eigi að vera lykilhugtak, held ég að reynslan sé að oft er þetta einhliða upplýsingamiðlun. Reyndar fannst mér það breyta miklu fyrir um 15 árum þegar við (í Ásborg þar sem ég var þá leikskólastjóri), settum saman lista yfir það sem við vildum ræða við foreldra og sendum þeim heim nokkrum dögum fyrir samtalið. Auðvitað var það svo að við settum saman listann og ég man ekki til þess að við höfum yfirhöfuð rætt hann við foreldra. Ég held svona alveg án þess að hafa nokkra heimild aðra en eigin tilfinningu að svo sé enn á flestum stöðum. Það eru leikskólakennararnir sem skilgreina samstölin og það sem þar á að fara fram. Oft er stuðst við alla vega þroskalista og próf. Þannig að í raun má velta fyrir sér hugtakinu samtal, samræða, held meira að segja að viðtal næði því ekki. E.t.v. mætti segja miðlun upplýsinga.

Ég veit hinsvegar að víða er verið að leita leiða til að virkja foreldra til samstarfs. En slík virkjun getur varla verið einhliða, foreldrar verða auðvitað líka að axla þá ábyrgð sem á þá eru sett í lögum og reglugerðum að vilja vera í samstarfi og leita eftir því á einhvern hátt. T.d. var hlutverk foreldraráða í leikskólum styrkt sérstaklega með aukin áhrif í huga.  

Ég sé fyrir mér að hægt sé að nota kort sem þessi á einhvern hátt með foreldrum, líka sem leið til að brjóta ís, til þess að opna á umræðu og ná að sjá þá mynd foreldranna. Ég tek hins vegar undir áhyggjur höfundar að aðferðin getur farið út um víðan völl og misst marks. Það gæti hins vegar verið áhugavert að ræða við foreldra eða hóp þeirra um slíka aðferð. 

Foreldrasamtölin, þróun þeirra og framgangur eru áhugavert rannsóknarefni, sem ég vona að einhver sé að skoða.

Markström. A. 2011. To Involve Parents in the Assessment of the Child in Parent-Teacher Conferences: A Case Study. Early Childhood Education Journal, Birt á neti 30. nóvember


Þöggun - viljandi eða ómeðvituð

Fyrir nokkrum árum kom út bókin Félagsfræði menntunar eftir Gest Guðmundsson. Bókin er þarft innlegg í umræðu og til að móta tilvísunarramma um íslensk menntamál. Gestur skoðar kenningar áhrifamikilla hugsuða á síðustu og næstsíðustu öld. Þar er jöfnum höndum m.a. fengist við hugmyndir og skrif sem við innan menntunarfræðanna höfum frekar talið til heimspeki og félagsfræðinga sem hafa mótað hugmyndir okkar um félagsfræðina (eins og Durkheim og Herbert Mead). En til fyrri flokksins má nefna þá John Dewey og Michael Foucault. Að sjálfsögðu geta þeir og aðrir fallið í báða flokka og svo miklu fleiri ef út í það er farið. 

Það er hins vegar tvennt sem ég sakna í bókinni. Annarsvegar velur Gestur að skilgreina íslenska menntakerfið frá grunnskóla upp í háskóla og lætur eins og leikskólastigið sé ekki til. Kannski sérstaklega eftirtektarvert þar sem það er einmitt á þessu skólastigi sem fólk í reynd hefur verið að framkvæma og vinna með ýmsar þær kenningar sem hann heldur á lofti. Dewey hefur t.d. verið áhrifamikill og má sjá hvernig kenningar hans speglast í nútíma leikskólauppeldi, í aðalnámskrá og stefnu og störfum einstakra skóla hérlendis. Hugmyndir hans um lýðræði, menntun og reynslu hafa hríslast inn í leikskólafræðin. Annar hugsuður sem Gestur fjallar um er Michel Foucault en kenningar hans um vald, valdabaráttu og valdaafsal og orðræðu valdsins eru algeng í skrifum innan leikskólans. Í samtíma leikskólafræðum les maður varla þá bók sem ekki notar kenningar hans sem tilvísunarramma á einhvern hátt. Fyrir um tveimur áratugum heyrði ég fyrst minnst á hugmyndir Bourdieu um Habitus þegar ég las rit norrænna leikskólakennara og þar sem þær voru m.a. að skilgreina áhrif bæði sögu leikskólans og eigin bakgrunns á starfið og hvernig það var skilgreint og hvaða venjur voru líklegastar til að viðhaldast og skapast þar.

Kenningar þessara manna hafa verið og eru áhrifamiklar í mótun leikskólastarfs að einhverju marki hérlendis og vissulega á alþjóðlega vísu og þess vegna er það slæmt að framhjá leikskólanum skuli gengið í annars jafn frábæru riti og Félagsfræði menntunar er. Þar sem í bókinn er nú verið að fjalla um vald orðræðunnar og hvernig henni er stýrt og áhrif hennar, verð ég að velta fyrir mér hvort hér sé um viljandi þöggun að ræða, að með því að telja leikskólann ekki með til íslenska menntakerfisins sé höfundur að halda fram ákveðnu áliti á leikskólanum og stöðu hans eða hvort að þekking hans á skólakerfinu nær ekki lengra. Hvort sem er, er fjarvera leikskólans í bókinni æpandi.

Ég saknaði þess líka í bókinni að gerð sé grein fyrir kenningum kvenna. Vissulega eru margar þær konur sem vitnað er til í dag, frekar skilgreindar sem heimspekingar, (svona eins og sumir karlarnir sem fjallað var um hér að ofan), en það hefði verið forvitnilegt að sjá umfjöllun Gests um hugmyndir og kenningar kvenna eins og, Mary Wollenstonecraft sem hafði byltingarkenndar hugmyndir um menntun á ofanverðri 18. öld, eða samtímakonunum, Maxine Greene, Nel Noddings eða Madeleine Arnot. Að slíkum viðbótum hefði verið mikill akkur fyrir skólasamfélagið. Alveg eins og það er akkur að fá aðgengilegt efni um Thomas Ziehe sem hefur verið nokkuð fyrir utan radar flestra hérlendis (nema ef vera skyldi fólks í tómstundarfræðunum). 

Að endingu þá skal þess getið að bókin er kennsluefni í leikskólafræði við Háskólann á Akureyri.

Gestur Guðmundsson. 2008. Félagsfræði menntunar: kenningar hugtök og rannsóknir og sögulegt samhengi. Skrudda. Reykjavík.


Róleg íhygli - fjöregg þjóðar

Á Íslandi hefur umræða um aga og agavandmál verið vinsæl hjá hverjum samtíma. Þegar horft er til baka virðist sem sömu álitamálin og jafnvel lausnir komi oft fram aftur og aftur. Börnin eru óhlýðin og fyrtinn og öllu siðferði virðist fara aftur. Hver kynslóð telur að sú sem á eftir kemur sé agalausari og ver upp alin en hún sjálf. Stjórnlaus börn og kannski valdalausir foreldrar virðist vera arfurinn okkar dýri.  

Ég var að taka til á skrifstofunni minni. Fór þá í gegn um nokkuð af pappírum. Hér áður fyrr þá ljósritaði ég oft greinar og bókarkafla sem ég taldi áhugaverða til að nota eða lesa seinna. Megnið af þeim pappír er nú orðið aðgengilegt í stafrænuformi og lítill ávinningur af að geyma. Tekur bara pláss og svo skal viðurkennast að sumt er ekki oft lesið. En stundum þá rekst maður á grein og grein sem maður skilur svo vel að hafa geymt. Eins slíka fann ég einmitt fyrir norðan núna. Það er bókarkafli um Aga úr Mannbótum eftir Steingrím Arason, fyrsta formann Sumargjafar, en það er félagið sem stofnaði fyrstu leikskóla borgarinnar af miklum metnaði og framsýni og  síðar  Fóstruskóla Sumargjafar. Steingrímur var vel menntaður og framsýnn þó hann ætti líka til að vera forpokaður á okkar mælikvarða. Steingrímur fylgdist vel með straumum og stefnum í alþjóðaheiminum og má sjá trú hans á vísindi og vísindastjórnun birtast í skrifum hans. En fyrst og fremst var hann skólamaður með einlægan áhuga á að bæta skólastarf og aðstæður barna.

Kaflinn sem ég fann fjallaði um hugmyndir hans um aga og hvernig hægt væri að ná honum fram með vinnuaðferðum í skólum. Hann tengir t.d. saman umræðuna um; aga og lýðræði, aga og siðfræði og aga og umhverfi. Skilur t.d. ekki tilgangs snauðs umhverfis, líkir því við fangelsi.

Steingrímur var lipur penni og mikið í mun að fræða og koma með góð ráð. Hann var einlægur í trú sinni á mannlegar aðferðir í uppeldi og ræðir um börn sem borgara í skrifum sínum. Í dag tölum við um lýðræðilslegt uppeldi, en Steingrímur ritaði um lýðveldisuppeldi, enda íslenska lýðveldið rétt ný stofnað þegar hann ritar eftirfarandi texta.   

Lýðveldisuppeldi  þarf að stefna að því að ala upp sjálfstæða, hugsandi, þjóðfélagsborgara. Uppeldið þarf að stefna að því þeir eignist þær siðferðishugsjónir sem sameiginlegar hafa verið hinum mestu og beztu andans leiðtogum allra tíma, og venjist ungir á að lifa samkvæmt þeim. Megintakmark alls uppeldis ætti að ver það að hver borgari læri að vera þeim hugsjónum trúr og hlýðinn.

Hann ræðir síðan um yfirboðara eða þjóðir þar sem það teldist til dyggða að óhlýðnast og um hversu slæmt það er þegar í uppeldi er lögð áhersla á temja börnum að hlýða fljótt og skilyrðislaust valdboði annars manns.  Hann bendir á að það hafi leitt til falls heilu þjóðanna, þar sem skaðræðismenn hafa náð yfirhöndinni. Afleiðingin er að fólkið verður auðvelt herfang lýðskrumara og slunginna fjárplógamanna.

Steingrímur bendir á mikilvægi þess að kennarar skýri hversvegna þeir vilji að hlutir séu gerðir og að þeir leitist við að vekja áhuga hjá börnum.  Með því hefur kennarinn fengið barnið til að hlýða en það sem meira er að hans mati. Kennarinn "hefur stofnað til þeirrar venju [hjá barninu] að hugsa sjálfstætt og stjórna sér sjálfur."  (í dag ræðum við um valdeflingu og mikilvægi hennar) Hann ræðir svo um hversu slæmt það er þegar í uppeldinu er beitt ógnunum og hótunum, þegar barnið hefur t.d. áhuga á að vera að gera annað en kennarinn vill og hann þá; "kippir því úr starfi, þar sem það var upptekið af áhuga og dregur það þangað, sem því er nauðugt að fara. ... Með þessu lærist að skoða aflsmun sem hæstarétt í hverju máli."

Dýrasta arf Íslendinga telur Steingrímur vera róleg íhygli. Telur hann að um það fjöregg þurfi að standa vörð. Hann telur  að hlutverk ráðamanna að "tryggja hverju barni umhverfi með áhugavekjandi og fjölbreyttum verkefnum.  ... til að knýja fram sjálfsaga og atorku."

Steingrímur telur að á Íslandi hafi viðgengist harðstjórnaragi gangvart börnum sem leiði til einskins nema ills.

Hann vill skóla þar sem börnin eru ekki þolendur, með því á hann við að þau þurfi að sitja kyrr, þegja og taka á móti því sem að þeim er rétt. Í skóla þar sem agi í anda Steingríms ríkir er vinnugleði og börnin fást við raunveruleg verkefni. Þar sem kennarar gera ekki fyrir börnin það sem þau geta sjálf. Kennarinn er verkstjórinn, sem hefur heildasýn og gefur sér tíma til að vita og skilja hvernig hverju barni líður.

Nú er í vinnslu ný aðalnámskrá fyrir leikskóla. Margt af því sem Steingrímur var að rita fyrir mannsaldri er enn í fullu gildi og má sjá í drögum aðalnámskrár. Þar er nú heill kafli um þátttöku barna og lýðræði í leikskólastarfi, þar er kafli um áhugasvið og samþætt námssvið í leikskólum. Þar er áhersla á að kennarar ígrundi, ástundi rólega íhygli, við erum e.t.v. búin að bæta inn gagnrýnni íhygli. Við ætlum kennara tíma til að skoða og skrá, að sjá og skilja hvert barn. Þetta heitir víst einstaklingsmiðun náms.

Steingrímur var undir mjög sterkum áhrifum frá Dewey og má ljóslega sjá það í fleiri ritum hans. Hjá mér er Stjórnbylting á skólasviðinu sem hann ritar 1919 í miklu uppáhaldi. Línurnar hér að neðan eru hluti af upphafi þeirrar greinar og ætla ég að enda þessa færslu um tiltekt á skrifstofunni á henni.

Í baráttunni við þessa örðugleika verður mörgum kennaranum það á, að kefja það bezta í fari barnsins, sem sé áhugann og lífsþróttinn.  Verður þá skólastarfið oft fremur tamning en uppeldi, og fræðatroðningur með próf eitt að takmarki. Siðgæðið, sem kept er að, er þá oft ekki annað en að sitja kyrr, þegja, spyrja ekki. Er þessu siðgæði náð með utanaðkomandi þvingun, fremur en innri hvöt barnsins. Fellur svo skólastarfið í þröngar skorður vanans, og fær á sig einkenni dauðans fremur en lífsins. Er þá brýn þörf á nýjum lífsstraumum, nýjum takmörkum til að keppa að, nýjum aðferðum við að nálgast þau og fremur öllu öðru góðri samvinnu.

 


Leikur og skapandi starf

Í grein eftir Ólaf Pál Jónsson heimspeking sem birtist í nýjasta hefti tímaritsins Hugur, tekst hann á við spurningu um hvað leikur og skapandi starf eigi sameiginlegt. Hann hefur grein sína á að vísa í algengar tilvísanir um að annað sé forsenda hins en bendir líka á að fáir reyni að svara hver þessi forsenda sé. Í grein sinni vitnar Ólafur Páll í frásögn Málfríðar Sigurðardóttur þar sem hún lýsir leik bernsku sinnar, þegar tölur lifnuðu við í leik og hvernig þær urðu að mönnum, jafnvel prinsessum, en líka nauðsyn þess að eiga leikfélaga til að deila og skapa reynslu með. Málfríður var barn á tímum þegar leikföng voru einfaldari og íburðarminni en þau sem við þekkjum flest. Áður en börnin fengu forskriftir að því hvernig þau eigi að leika með leikföngin (t.d. í formi bíómynda og bóka þeim tengd). Þegar reyndi á ímyndunarafl barna. Ólafur Páll vitnar líka í Wittgegnstein um að t.d. stærðfræðileg merki séu aðeins strik á blaði þar til einhver gefur þeim merkingu. Það eiga strikin sameiginlegt töluboxinu, þau þurfa lífgjafa, einhvern sem skapar merkingu. Ólafur Páll leitar til skrifa Dewey um að leikur barna feli einmitt í sér leit þeirra við að skipuleggja og vinna úr áreitum á þann hátt að af verði menntandi, merkingarbær reynsla. Það að verða fyrir áreitum sé  ekki sjálfkrafa menntandi, en áreiti séu þó forsenda þess að geta menntast, geta öðlast merkingarbæra reynslu. Að skynja hið hversdaglega geti verið skapandi og fagurt. Ólafur Páll gefur dæmi úr hinum ýmsu listgreinum og skoðar hvar leikinn sé að finna, hvar og í hvaða formi samtalið við þann sem upplifir listaverkið á sér stað. Að lokum kemst hann að þeirri niðurstöðu að hvort um sig leikur og skapandi séu forsenda þess að ná nokkrum þroska. Sé forsenda þess að sá heimur sem við búum í sé ekki bara dauðra hluta.

Við lestur greinarinnar verða í hugskoti lesandans sterk tengsl við hugmyndir um leiki, skapandi starf og  gildi leikefnis í leikskólum. Sem dæmi  þá  má segja að í leikskólanum Aðalþingi hefur sú leið verið farin að safna mörgum ólíkum strikum saman, skapa umhverfi þar sem það sé barnanna að gefa strikunum merkingu. Ekki hverju fyrir sig heldur einmitt saman. Ef litið er á þann efnivið - leikföng sem til eru í leikskólanum með þessum augum. Má sjá ótal tækifæri til að breyta tölum og strikum í mann, prinsessur, star war og allt hvað er. Samtímist gefast tækifæri til að ræða um og upplifa fagurfræði þess sem er skapað eða möguleiki er til að skapa.  Það má benda á að margir nútíma leikskólafræðingar líta það sem rétt barna að í leikskólanum sé hugað að fagurfræðilegu umhverfi og upplifunum.

Að lokum er vert að vitna til Guðmundar Finnbogasonar sennilega eins stærsta hugsaðar okkar Íslendinga í menntamálum, en hann fjallaði um mikilvægi skynfæranna og að þess að hugsa í heildum. 

"En vér megum ekki gleyma því að mannsálinn er engin kommóða með mörgum skúffum og sitt í hverri, skynjanir í einni, ímyndanir í annarri, tilfinningar í þriðju o.s.frv., heldur er hún lifandi heild ... viðkvæmur vefur, þar sem allir þræðir titra, sé einn þeirra snortinn."

(Úr Lýðmenntun, en hér vitnað til Ólafs Páls). Þessi orð Guðmundar hafa staðist tímans tönn og eru okkur leikskólafólki ágætt veganesti.  (kd. 17. janúar 2011) 

skapandi efnisveita og akureyri mai 2008 195

 

Þessi bloggfærsla birtist fyrst á vef leikskólans Aðalþings. www.aðalþing.is þann 17. janúar 2011

Heimildi: Ólafur Páll Jónsson. 2010. Leikur list og merking. Hugur. bls. 58-71


Lýðræðisleg samræða stjóra

Í dag naut ég þeirra forréttinda að vera með á Þjóðfundi leikskólastjórnenda, ég var þar starfsmaður fundarins og fékk því að fylgjast með framkvæmd hans og framvinnu. Það er í raun stórkostlegt hvað vinnubrögðin og orkan sem skapast á þjóðfundum kemur fundargestum á óvart. Hvað þeir fá mikið út úr því að vera þar og hvað þeim finnast vinnubrögð og umræður verða markvissar. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að taka þátt í allnokkrum þjóðfundum, félagsamtaka, stéttarfélaga svo ekki sé minnst á Þjóðfundinn 2009. Ég er oft spurð hver var niðurstaða þess fundar, hverju skilaði hann. Í mínum huga skilaði hann sjálfum sér og hann skilaði samfélagi okkar vinnubrögðum sem hafa nýst okkur til lýðræðislegrar samvinnu og samtals. Það er ekki svo lítið.

En hverju skilar fundurinn leikskólastjórnendum utan þess að marka og draga fram gildi félagsins og fyrir hvað það á að standa.  Ég heyrði marga ræða í dag að þetta væru vinnubrögð sem þeir vildu innleiða í sína skóla. Með aðferðinni gæfist þeim tækifæri til að ræða um námskrá og mat þannig að allir ættu eiga hlutdeild, börn, foreldrar og starfsfólk. Einn stjórinn sagðist hafa farið heim eftir undirbúningsfundinn í gær með kollinn svo fullan hugmynda að það hafi næstum truflað hennar daglega líf. Er það ekki merkilegur ávinningur?

Í Drögum að Aðalnámskrá leikskóla er fjallað um lýðræðisleg vinnubrögð. Skjali eins og aðalnámskránni er ætlaða að vera skrefi á undan því sem er, einhverju til að stefna að, því er ætlað að leiða til nýjunga. Þar segir:

Í leikskóla ber að undirbúa börn fyrir virka þátttöku í samfélaginu með því að skapa þeim tækifæri til að upplifa lýðræðisleg vinnubrögð og samskipti í daglegu starfi. Þannig öðlast þau skilning á því hvað lýðræði felur í sér, læra lýðræðisleg gildi og vinnubrögð og þróa með sér borgaravitund. Í leikskóla eiga foreldrar, starfsfólk og börn að vera samstarfsaðilar sem vinna saman og taka sameiginlegar ákvarðanir um leikskólastarfið.

Virða skal innsæi, reynslu, færni og skoðanir barna. Við skipulagningu og innra mat leikskólastarfs skal taka mið af sjónarmiðum þeirra barna sem þar eru. Þarfir og áhugi sem börn láta í ljós á fjölbreyttan hátt eiga að vera sá grunnur sem mótar umhverfi og starfshætti leikskólans.  Leikskóli þarf að vera vettvangur þar sem börn og starfsfólk:

  • Tekur virkan þátt í samræðum um lýðræðisleg málefni.
  • Hlustar hvert á annað og skiptist á skoðunum.
  • Tekur ábyrgð á sjálfum sér og gjörðum sínum.
  • Vinnur saman og aðstoðar hvert annað.
  • Hefur val um verkefni og vinnubrögð.
  • Hefur áhrif á leikskólastarfið.
  • Leitar að mismunandi lausnum

Það má sega að Þjóðfundarformið sé tilvalið til að vinna að ofangreindum markmiðum. Að leikskólar tileinki sér það til að tryggja aðkomu allra sem það varðar að mati og námskrágerð leikskólans er nokkuð.

Undanfarið hefur átt sér stað umræða um hverju börn ráði og hverju ekki. Það er ljóst að í leikskólum á að eiga sér samræða og samráð sem getur verið með ýmsu móti. Nýlega varði Anna Magnea Hreinsdóttir doktorsritgerð við Háskóla Íslands sem einmitt hafði það að viðfangsefni að rannsaka hverju börn réðu í leikskólum. Mikilvægt hugtak í nútímauppeldisfræði er valdefling. Valdefling barna er talin einn lykilinn að velferð og þroska barna. En valdefling felur ekki í sér ráðstjórn, hún felur sér að eiga hlutdeild í og hafa stjórn á eigin lífi og aðstæðum. Að nýta þjóðfundarformið í samræðu með börnum um leikskólastarfið er spennandi tækifæri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband